Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 26 Ofgreiddar bætur - endurkrafa

Miðvikudaginn 14. mars 2007

  26/2007

  

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga barst þann 24. janúar 2007 kæra B, f.h. eiginkonu hans, A, vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins varðandi endurreikning og uppgjör bótagreiðslna til kæranda árið 2005 og innheimtu ofgreiddra bóta ársins 2005, sbr. bréf Tryggingastofnunar frá 15. janúar 2007.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 15. janúar 2007, vegna innheimtu ofgreiddra bóta ársins 2005, er vísað til endurreiknings á réttindum til tekjutengdra bóta 2005, sem bar með sér að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð kr. 171.766.  Í bréfinu kemur jafnframt fram að einnig sé um að ræða eftirstöðvar eldri skuldar sem geri það að verkum að heildarskuld kæranda við Tryggingastofnun nemi kr. 377.563.  Þá verður af bréfinu ráðið að vegna hinna ofgreiddu bóta verði kærandi fyrir frádrætti af greiðslum frá Tryggingastofnun frá og með 1. febrúar 2007 en ekki kemur fram hver verði mánaðarleg fjárhæð frádráttarins.  Kærandi sendi í framhaldinu erindi til úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem litið hefur verið á sem kæru, auk þess sem samhliða var sent bréf af hennar hálfu til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. janúar 2007, þar sem athugasemdir voru gerðar við bréf Tryggingastofnunar frá 15. janúar 2007.  Tryggingastofnun sendi kæranda bréf, dags. 26. janúar 2007, þar sem þess var farið á leit að ofgreiddar bætur að framangreindri fjárhæð yrðu endurgreiddar stofnuninni, án þess að um frádrátt frá bótum yrði að ræða.

 

Í bréfi því sem sent var Tryggingastofnun af hálfu kæranda, dags. 23. janúar 2007, og fylgdi kæru hennar segir m.a.:

Í annari málsgrein ofangreinds bréfs stendur: "Heimilt er að draga allt að 20% af hverri heildarmánaðargreiðslu bóta (sic.), að grunnlífeyri undanskildum, þó ekki lægri fjárhæð en 3.000 kr. Með hliðsjón af því verður frádráttur af greiðslum þínum       kr. á mánuði frá og með 1. febrúar nk. þar til ofgreiðslan er að fullu endurgreidd"

   Í fyrsta lagi vil ég taka fram að greiðslur þær sem eiginkona mín, A, hefur fengið frá Tryggingarstofnuninni er einmitt grunnlífeyrir (þó skertur mjög, síðast einungis kr 8.612,-), sem samkvæmt bréfi ykkar ætti ekki að falla undir undir fyrkrætlaðan frádrátt. Sem sagt, hún hefur engar "bætur" fengið, heldur áunninn ellilífeyri (grunnlífeyri), og get ég ekki annað séð en að skerðing á honum sé því ekki lögum samkvæmt. Í annan stað er ekki getið í ofangreindri málsgrein hversu hár ætlaður frádráttur eigi að verða svo að merking málsgreinarinnar er með öllu óskiljanleg. Ég vil taka fram að kona mín er 77 ára öryrki í mjög slæmu líkamlegu ástandi (samanfallin mjóhryggur og slitgigt á háu stigi). Hún lítur á ellilífeyrinn sem áunnin réttindi sem hún hefur greitt fyrir með sköttum á langri starfsævi og að þetta sé því vasafé sem hún á fullan rétt á, enda ekki afsalað sér persónulegu sjálfstæði.

   Síðan viljum við fá að vita hvers konar hótun felst í síðustu málsgrein bréfsins ("Vinsamlegast gerðu skil og semdu um endurgreiðslu fyrir 15. febrúar n.k. svo ekki verð þörf á frekari innheimtuaðgerðum"). Hvers konar innheimtuaðgerðir er verið að tala um? Ekki vænti ég þess að Tryggingasrstofnu ríkisins hafi handrukkara á sínum snærum sem hún hafi í hyggju að senda okkur til höfuðs? Við viljum geta þess að við höfum aldrei sótt um, eða fengið, lán hjá Tryggingarstofnun ríkisins. Ekki vitum við heldur til þess að Tryggingarstofnunin hafi fengið hlutverk skattheimtu, og þó svo væri, er hér ekki um skatta að ræða, enda höfum við ávallt greitt þá möglunarlaust, þótt háir séu. Er furða þótt gamalt og lasburða fólk hafi fengið það á tilfinninguna að Tryggingarstofnunin sé beinlínis farið að ofsækja það.

 

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 25. janúar 2007, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 30. janúar 2007.  Þar segir m.a.:

Tryggingastofnun hefur borist kæra B f.h. konu sinnar, A. Svo virðist sem kært sé bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 15. janúar s.l. Í bréfi sem fylgdi með kærunni, dags. 23. janúar s.l., eru gerðar athugasemdir við fyrrgreint bréf Tryggingastofnunar til kæranda.

Í uppgjöri ársins 2005 myndaðist krafa á hendur kæranda, A, vegna ofgreiddra bóta á því ári. Á árinu 2005 fékk kærandi greiddar samtals 263.916 kr. í ellilífeyrisgreiðslur. Við samtímaútreikning bótanna lá fyrir tekjuáætlum sem gerði ráð fyrir lífeyrissjóðsgreiðslum kæranda, samtals 17.598 kr. á mánuði, auk sameiginlegra fjármagnstekna þeirra hjóna, samtals 149.482 kr. á mánuði.

Við endurreikning bóta ársins 2005 reyndust hins vegar sameiginlegar fjármagnstekjur þeirra hjóna nema samtals 815.875 kr. á mánaðargrundvelli, þ.e. samtals 9.790.500 kr. á árinu 2005. Þá námu lifeyrissjóðsgreiðslur kæranda samtals 202.752 kr. árið 2005. Leiddi þetta til þess að krafa myndaðist á hendur kæranda í uppgjöri bóta ársins 2005, sbr. hjálögð yfirlit með bréfi þessu.

Hins vegar urðu þau leiðu mistök hjá Tryggingastofnun að kæranda var sent fyrrgreint bréf Tryggingastofnunar, dags. 15. janúar s.l., sem átti ekki við um hennar mál. Þykir rétt að biðjast velvirðingar á því fyrir hönd stofnunarinnar. Þau mistök voru hins vegar leiðrétt með hjálögðu bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 26. janúar s.l. Eins og þar kemur fram er nemur heildarskuld kæranda við Tryggingastofnun samtals 377.563 kr., en þær kröfur mynduðust í uppgjöri bóta áranna 2004 og 2005. Þar sem bótagreiðslur til kæranda á þessu ári eru aðeins vegna grunnlifeyris er Tryggingastofnun ekki heimilt að draga umrædda kröfufjárhæð af mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum til hennar, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 939/2003, með síðari breytingum. Tryggingastofnun er hins vegar skylt að innheimta ofgreiddar bætur, eins og mælt er fyrir um í ákvæðum 50. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum og hefur því verið skorað á kæranda að endurgreiða hinar ofgreiddu bætur eða semja um að dreifa endurgreiðslu skuldarinnar á lengri tíma.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 1. febrúar 2007 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.

 

Þann 6. mars 2007 barst úrskurðarnefnd almannatrygginga bréf kæranda, dags. 2. mars 2007, ásamt afriti af bréfi til Tryggingastofnunar, dags. sama dag og bréfi fjármálaeftirlitsins, dags. 23. febrúar 2007.  Í bréfinu til úrskurðarnefndarinnar segir m.a.:

Þar sem Tryggingarstofnunin virðist hafa tekið lífeyrissjóðstekjur maka inn í útreikninga á þeim skerðingum sem kona mín, A, hefur orðið fyrir, vil ég fara fram á að Úrskurðarnefndin fari ofan í saumana á þessu máli og gaumgæfi vandlega þá aðferðarfræði sem Tryggingarstofnunin leggur til grundvallar. Skýrsla frá Tryggingarstofnuninni getur ekki nægt í þessu tilfelli.

   Það má geta þess að Tryggingarstofnunin hefur neytt okkur, með hótun um aðför að lögum, til að samþykkja endurgreiðslur til Tryggingarstofnunarinnar, kr. 10.488.- á mánuði næstu þrjú árin á "ofgreiddum" ellilífeyri til A á árunum 2004 og 2005, og þó fóru þær greiðslur aldrei yfir kr. 22.000 á mánuði. Er stoð í lögum fyrir slíkum kröfum fleiri ár aftur í tímann?

 

 

Bréf þetta var sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar.

 

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar endurkröfu ofgreiddra bóta ársins 2005.

 

Í bréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 23. janúar 2007, er því haldið fram að þær greiðslur sem kærandi fái frá Tryggingastofnun séu grunnlífeyrir sem óheimilt sé að skerða með frádrætti vegna ofgreiðslu frá Tryggingastofnun.  Þá er því haldið fram að lífeyrir sá sem kærandi fái greiddan frá Trygingastofnun sé ekki bætur heldur áunninn ellilífeyrir.  Enn fremur er í bréfinu spurst fyrir um innheimtuaðgerðir Tryggingastofnunar.  Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 6. mars 2007, segir að svo virðist sem Tryggingastofnun hafi tekið lífeyrissjóðstekjur maka inn í útreikning á þeim skerðingum sem kærandi hafi orðið fyrir.  Þá er og spurt um lagaheimild fyrir endurkröfum Tryggingastofnunar aftur í tímann.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir endurreikningi lífeyrisgreiðslna til kæranda árið 2005.  Tryggingastofnun fellst á að stofnuninni sé ekki heimilt að draga kröfufjárhæð sína vegna ofgreiddra lífeyrisgreiðslna af mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum til kæranda.  Hins vegar telur Tryggingastofnun sér vera skylt að innheimta ofgreiddar bætur á grundvelli 50. gr. almannatryggingalaga.

 

Kærandi heldur því fram að ellilífeyrir sé ekki bætur heldur áunninn réttindi.  Varðandi það skal tekið fram að ellilífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar  nr. 117/1993 er bætur.  Þannig er ellilífeyrir í II. kafla laganna talinn upp sem einn flokkur bóta sem lífeyristryggingar taka til og í 1. mgr. 43. gr. laganna eru bætur samkvæmt lögunum skilgreindar sem bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt.

 

Í 2. mgr. 11. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um að ellilífeyri skuli skerða fari tekjur bótaþega yfir tilgreind mörk.  Fari tekjur umfram hin tilgreindu mörk skal skerða ellilífeyrinn um 30% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður.  Í 2. mgr. 10. gr. laganna er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning og er vísað til ákvæða laga um tekjuskatt í því sambandi.  Þá er í 3. mgr. 10. gr. laganna takmarkað hvaða skattskyldar tekjur teljist til tekna þegar um ellilífeyri er að ræða.  Af ákvæðum þessum leiðir að tekjur sem skerða greiðslur ellilífeyris til einstaklings eru allar skattskyldar tekjur hans nema bætur almannatrygginga, félagsleg aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, húsaleigubætur og tekjur úr lífeyrissjóðum.  Tekjur úr lífeyrissjóðum skerða því ekki ellilífeyri kæranda.

 

Fjármagnstekjur eru hins vegar tekjur sem skerða ellilífeyri.  Fjármagnstekjur eru þó ekki metnar að fullu við ákvörðun tekjugrundvallar við útreikning á ellilífeyri því samkvæmt 2. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga skulu fjármagnstekjur í þessu sambandi metnar að 50 hundraðshlutum.  Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 mynda fjármagnstekjur sameiginlegan skattstofn hjá hjónum og því er helmingur af fjármagnstekjum hjóna lagður til grundvallar sem fjármagnstekjur hvors hjóna um sig.  Af þeim helmingi eru síðan 50 hundraðshlutar fjármagnsteknanna sem ákvarða tekjugrundvöll þann sem útreikningur ellilífeyris byggir á.

 

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum, er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis ef við á, svo fremi að samþykki umsækjanda um bætur liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.

 

Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.

 

Í 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga kemur fram að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til.  Einnig að Tryggingastofnun eigi endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

 

Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna ársins 2005 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti ársins 2005 hjá Tryggingastofnun í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga.  Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir endurreikning lífeyrisgreiðslna til kæranda á árinu 2005 var munur á þeirri tekjuáætlun sem lögð var til grundvallar við samtímaútreikninga á greiðslu bóta til hennar á árinu 2005 og þeim tekjum kæranda og maka hennar sem taldar voru fram á skattframtali þeirra 2006 vegna tekjuársins 2005.  Þannig varð umtalsverð hækkun á fjármagnstekjum þeirra hjónanna, því við samtímaútreikning var áætlað að fjármagnstekjur þeirra á árinu 2005 næmu kr. 1.793.792 en samkvæmt skattframtali námu fjármagnstekjur þeirra kr. 9.790.506.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar.  Byggðist endurreikningurinn á framtöldum tekjum kæranda og fjármagnstekjum hennar og maka hennar og voru það eingöngu fjármagnstekjurnar sem komu til skerðingar á greiðslu ellilífeyris til kæranda.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið réttilega framkvæmdur á grundvelli reiknireglna framangreindra lagaákvæða.

 

Við endurreikninginn voru kr. 70.176 reiknaðar sem lífeyrisgreiðslur til kæranda vegna ársins 2005.  Áður höfðu henni verið greiddar vegna 2005 kr. 263.916.  Var því um ofgreiðslu að ræða að fjárhæð kr. 193.740.  Hinni ofgreiddu fjárhæð kom síðan til lækkunar endurgreidd áður afdregin staðgreiðsla kr. 21.974 og hefur Tryggingastofnun því krafið kæranda um endurgreiðslu á kr. 171.766. 

 

Tryggingastofnun hefur fallist á að ekki megi draga hinar ofgreiddu lífeyrisgreiðslur til kæranda frá mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum stofnunarinnar til hennar.  Á grundvelli framangreinds ákvæðis 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga er Tryggingastofnun hins vegar heimilt að endurkrefja kæranda um hina ofgreiddu fjárhæð eftir almennum reglum.

 

Að lokum skal áréttað að í máli þessu er til úrlausnar endurkrafa Tryggingastofnunar vegna ofgreiddra bóta árins 2005.  Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. a. almannatryggingalaga skal kæra til úrskurðarnefndarinnar borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.  Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins vegna ársins 2004 verður því ekki borinn undir úrskurðarnefndina nú.

 

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta skuli ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um innheimtu ofgreiddra bóta ársins 2005, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 26. janúar 2007.

 

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins á ofgreiddum bótum A, er staðfest.

 

 F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta