Nr. 582/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 11. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 582/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19100040
Kæra […]
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. október 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir nefndur kærandi), tilkynningu Útlendingastofnunar vegna beiðni kæranda um flýtiafgreiðslu umsóknar.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að dvalarleyfisumsókn hans verði tekin til flýtiafgreiðslu skv. 53. gr. laga um útlendinga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi þann 20. september 2019 eftir flýtimeðferð á umsókn sinni um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 25. september 2019, var beiðni um flýtiafgreiðslu hafnað. Þann 14. október sl. beindi kærandi erindi til kærunefndar útlendingamála þar sem tilkynning Útlendingastofnunar var kærð til nefndarinnar, en erindinu fylgdi greinargerð. Þann 23. október sl. bárust fylgigögn frá kæranda.
III. Tilkynning Útlendingastofnunar
Í tilkynningu sinni vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði 53. gr. laga um útlendinga og 11. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Vísaði stofnunin til þess að umsókn kæranda væri vegna dvalarleyfis á grundvelli vistráðningar og félli hún því hvorki undir 2. mgr. 53. gr. laga um útlendinga né 1. mgr. 11. gr. reglugerðar um útlendinga. Jafnframt væru þær ástæður sem tilgreindar væru í greinargerðar til stofnunarinnar ekki þess eðlis að þær réttlættu beitingu undantekningarreglu 3. mgr. 53. gr. laga um útlendinga og var beiðni um flýtimeðferð því hafnað. Vísaði Útlendingastofnun til þess að ákvörðunin væri ekki kæranleg þar sem hún bindi ekki enda á mál. Kærandi gæti hins vegar kært ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þegar málið hefði verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að kærandi hafi lagt inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar um miðjan september sl. en hann hefði gert vistráðningarsamning við fjölskyldu í […]. Vísar kærandi nánar til aðstæðna fjölskyldunnar og mikilvægi þess að umsókn hans hljóti flýtimeðferð hjá Útlendingastofnun. Þá telur kærandi að stofnunin hafi brotið jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við úrlausn málsins.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 7. gr. laga um útlendinga er heimilt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar og lögreglunnar samkvæmt ákvæðum laganna til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Í 26. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um almenna kæruheimild aðila stjórnsýslumáls. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að ákvörðun, sem ekki bindi enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Af þessu leiðir að ákvarðanir um meðferð máls verða ekki kærðar einar og sér til æðra stjórnvalds en þegar stjórnsýslumál hefur verið til lykta leitt með endanlegum hætti er unnt að kæra slíkar ákvarðanir. Frá þessari meginreglu eru lögfestar tvær undantekningar, annars vegar tafir á afgreiðslu stjórnsýslumáls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, og hins vegar þegar stjórnvald synjar málsaðila um aðgang að gögnum eða takmarka hann að nokkru leyti, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 25. september 2019, synjað um flýtiafgreiðslu vegna dvalarleyfisumsóknar, en Útlendingastofnun hefur skv. gögnum málsins ekki tekið ákvörðun vegna dvalarleyfisumsóknar hans. Kærunefnd fær ekki séð að fyrrgreind tilkynning feli í sér ákvörðun Útlendingastofnunar um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem kæranleg er á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kærunefndar liggur því ekki fyrir ákvörðun í málinu sem kærunefnd er fært að endurskoða, sbr. 7. gr. laga laga um útlendinga og 26. gr. stjórnsýslulaga, enda hefur stjórnsýslumál kæranda ekki verið leitt til lykta hjá Útlendingastofnun.
Að framansögðu virtu verður kæru kæranda því vísað frá kærunefnd.
Úrskurðarorð
Kröfu kæranda er vísað frá.
The appellant’s request is dismissed.
Áslaug Magnúsdóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir