Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 240/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 240/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030011

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. mars 2017 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Noregs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 17. desember 2016. Leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 22. desember 2016, skilaði engum niðurstöðum. Þann 3. janúar 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Noregi, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kærandi hafði fengið útgefið tímabundið dvalarleyfi í Noregi. Þann 5. janúar 2017 barst svar frá norskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 13. febrúar 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Noregs. Kærandi kærði ákvörðunina þann 8. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 15. mars 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Noregs. Lagt var til grundvallar að Noregur virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Noregs ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Noregs, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá því að hann vilji ekki fara aftur til Noregs. Kærandi telji að samþykki norskra yfirvalda fyrir endurviðtöku sé byggt á misskilningi og eigi við um annan einstakling. Enn fremur kjósi kærandi að fá að snúa aftur til [...].

Kærandi tekur fram í greinargerð sinni að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd en ekki skyldu. Meginregla laganna sé sú að taka skuli allar umsóknir til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við en í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur í lögum þröngt.

Kærandi byggir á því að þó það komi til greina að fella mál hans undir c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þá sé ótækt að beita heimildinni í hans tilviki. Íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 sem breyttu þágildandi lögum um útlendinga. Með hinum nýju lögum sé leiddur í ljós vilji löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í þágildandi lögum um útlendinga.

Með vísan til sérstæðra og einstakra málavaxta í máli kæranda, þ.e. að kærandi óski aðstoðar við að snúa til heimaríkis síns, telji kærandi að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar hér á landi. Leggi kærandi til að honum verði í kjölfar efnismeðferðar boðið að draga umsókn sína til baka gegn því að íslensk stjórnvöld aðstoði kæranda við að komast aftur til heimaríkis síns, [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Íslensk stjórnvöld beindu beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Noregi þann 3. janúar 2017. Norsk yfirvöld samþykktu viðtöku kæranda, þ.e. [...], þann 5. janúar 2017 á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 16. janúar 2017 kom fram að hann teldi að Noregur hefði mögulega samþykkt rangan aðila. Útlendingastofnun sendi þann 16. janúar 2017 fingraför og mynd af kæranda til norskra yfirvalda sem staðfestu með tölvubréfi sama dag að mynd sem stofnunin sendi norskum stjórnvöldum væri í fullkomnu samræmi við þann einstakling sem þau höfðu samþykkt að taka við þann 5. janúar 2017. Að mati kærunefndar benda gögn málsins því eindregið til þess að kærandi sé raunverulega sá einstaklingur sem norsk yfirvöld hafa samþykkt að taka við og verður það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Fyrir liggur í máli þessu að norsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Noregs er byggt á því að kærandi hafi fengið útgefið tímabundið dvalarleyfi þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Noregi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Norway 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017);

· Freedom in the World 2016 – Norway (Freedom House, 12. ágúst 2016);

· Amnesty Interantional Report 2016-2017 – Norway (Amnesty International, 22. febrúar 2017);

· Information for asylum seekers in Norway (Norwegian Organisation for Asylum Seekers, 2011);

· Information Note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (European Council on Refugees and Exiles, október 2015);

· Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees: For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: NORWAY (UNHCR, september 2013);

· UNHCR Observations on the proposed amendments to the Norwegian Immigration Act and Regulation: Høring – Endringer i utlendingslovgivningen (Innstramninger II) (UNHCR, 12. febrúar 2016);

· UNHCR proposals to address current and future arrivals of asylum-seekers, refugees and migrants by sea to Europe (UNHCR, mars 2015);

· Guidelines on international protection: "Internal Flight or Relocation Alternative" within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (23. júlí 2003) og

· Why go back? Assisted return from Norway (Institute for social research, ágúst 2015);

· Upplýsingar af vefsíðum landinfo (www.landinfo.no), norsku útlendingastofnunarinnar (www.udi.no), norsku kærunefndar útlendingamála (www.une.no), norskra dómstóla (www.domstol.no), norskra stjórnvalda (www.regjeringen.no), norska heilbrigðisráðuneytisins (www.legemiddelverket.no), um heilbrigðiskerfið í Noregi (www.helsenorge.no), norskra hjálparsamtaka fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd (www.noas.no og www.seif.no) og norskra laganema (www.jussbuss.no, www.jusshjelpa.no og www.jussformidlingen.no).

Útlendingastofnun Noregs (n. Utlendingsdirektoratet) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd þar í landi. Neikvæða ákvörðun útlendingastofnunar er þá hægt að kæra til sérstakrar kærunefndar útlendingamála (n. Utlendingsnemnda). Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd í Noregi synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða kærunefnd á hann möguleika á því að bera málið undir dómstóla eða leggja fram beiðni um endurupptöku á máli sínu hjá kærunefndinni. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða ef verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði endurupptöku verið uppfyllt. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd borið mál sitt undir norska dómstóla sé endurupptökubeiðni þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Noregi geta fengið ákveðinn fjölda klukkustunda í lögfræðiþjónustu ef umsókn þeirra um vernd hefur verið synjað af útlendingastofnun Noregs. Umsækjendur eiga því rétt á lögfræðiaðstoð á öllum stigum málsins hjá kærunefnd Noregs og hafa þeir nokkurt val um hvaða lögfræðingur sinni þeirra máli. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd leitað til mannúðarsamtaka og laganema sem veita lögfræðiþjónustu.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Noregi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Noregs brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Noregi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi, sem er einstæður karlmaður, hefur greint frá því að hann sé við góða andlega og líkamlega heilsu. Ekkert í gögnum málsins bendir því til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. febrúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 17. desember 2016.

Kærandi gerir kröfu um að fá aðstoð við að snúa aftur til heimaríkis í stað Noregs. Samkvæmt 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram vegabréf né önnur gögn sem staðfesti auðkenni hans. Þar sem kærandi hafi ekki sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti sé ekki hægt að verða við beiðni hans um aðstoð við flutning til [...]. Kærunefnd gerir ekki athugasemd við þessa niðurstöðu Útlendingastofnunar.

Þá bendir kærunefnd á að í framangreindum gögnum um aðstæður í Noregi kemur fram að bæði umsækjendur um alþjóðlega vernd í Noregi sem og einstaklingar með dvalarleyfi geti fengið aðstoð við að flytja aftur til heimaríkis. Á heimasíðu útlendingastofnunar Noregs má finna ítarlegar upplýsingar um í hverju aðstoðin felst, leiðbeiningar um umsóknarferlið og sérstakar upplýsingar um aðstoð við flutning aftur til [...]. Aðstoðin felst í því að Útlendingastofnun Noregs bókar og greiðir fyrir flugmiða viðkomandi og veitir honum fjárstyrk til að hefja nýtt líf í heimaríki. Einnig fær viðkomandi aðstoð við að finna vinnu, starfsþjálfun, stuðning við að hefja sinn eigin rekstur eða menntun.

Í máli þessu hafa norsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Noregs með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta