Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 579/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 579/2021

Þriðjudaginn 22. febrúar 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 2. nóvember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 8. október 2021 vegna umgengni hennar við D, E, F og G. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkunar D, E, F og G eru á aldrinum X-X ára gamlar. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Með dómsátt 4. október 2021 samþykkti kærandi vistun dætra sinna utan heimilis í fjóra mánuði frá 12. september 2021 að telja samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 8. október 2021. Fyrir fundinn lá afstaða starfsmanna Barnaverndar B sem lögðu til að engin umgengni yrði á milli kæranda og dætra hennar fram til 28. desember 2021. Kærandi féllst ekki á tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að engin umgengni fari fram milli móður, A og dætra hennar, D, E, F og G fram til 28. desember 2021.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 17. desember 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2022, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að umgengni barnanna við kæranda verði ákveðin í samræmi við kröfu hennar fyrir nefndinni, þ.e. annaðhvort að umgengni við þrjár yngstu stúlkurnar verði tvisvar í mánuði í tvo tíma í senn og að elsta stúlkan verði ekki á sama tíma og hinar í umgengi þannig að umgengni við hana eina verði einnig tvisvar í mánuði tvo tíma í senn eða að umgengni verði við eina stúlku í einu.

Í kæru segir að málið hafi verið tekið fyrir vegna tillögu starfsmanna barnaverndar um að stöðva umgengni  kæranda við dætur hennar fjórar í kjölfar þess að síðasta umgengni, sem átti sér stað þann 1. september 2021, hafi gengið illa. Málið hófst hjá Barnavernd sumarið 2020 þegar tilkynning barst um að faðir væri að beita stúlkurnar fjórar ofbeldi en þau séu nú skilin lögskilnaði og hann fluttur af heimilinu. Stúlkurnar hafi verið vistaðar utan heimilis í einn mánuð til 20. september 2020 með samþykki kæranda á meðan málið var rannsakað. Foreldrar stúlknanna hafi ekki samþykkt frekari vistun utan heimilis og úrskurðaði [Barnaverndarnefnd] B að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í tvo mánuði frá 28. september 2020 og var þess krafist fyrir dómi að stúkurnar yrðu vistaðar í 12 mánuði utan heimilis. Héraðsdómur B úrskurðaði að stúlkurnar skyldu vistaðar utan heimilis í níu mánuði frá 28. september 2020. Málinu hafi verið skotið til Landsréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms B. Í apríl 2021 hafi þrjár elstu stúlkurnar farið að tala um að móðir hafi einnig beitt þær líkamlegu ofbeldi en í skýrslutökum og viðtölum við stúlkurnar fram að því og allt frá upphafi málsins hafi stúlkurnar aldrei greint frá því að móðir þeirra hafi beitt þær ofbeldi. Áður en vistunartíminn rann út þann 28. júní 2021, lögðu starfsmenn Barnaverndar B til að foreldrar yrðu sviptir forsjá yfir öllum dætrunum. Hafði kærandi uppi hörð mótmæli þar sem tillaga starfsmannanna gengi allt of langt, ekki hafi verið búið að reyna vægari úrræði og engar forsendur hafi verið fyrir slíkum aðgerðum. Tekið hafi verið undir þau mótmæli kæranda og ekki fallist á tillögu starfsmanna barnaverndar og úrskurðaði Barnaverndarnefnd B þann 12. júlí 2021 að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í tvo mánuði frá 12. júlí 2021 og þess krafist fyrir dómi að þær skyldu vistaðar utan heimilis í sex mánuði til viðbótar. Skaut kærandi þessum úrskurði til Héraðsdóms B þann 9. ágúst 2021 en þann 4. október 2021 hafi verið gerð dómsátt um að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í fjóra mánuði frá 12. september og rann vistunartími þeirra því út þann 12. janúar 2021.

Upphaflega hafi málið eingöngu snúist um ofbeldi föður gegn dætrunum og móðurinni. Í upphafi máls greindu stúlkurnar aldrei frá ofbeldi móður og tóku það sérstaklega fram að móðir þeirra hafi ekki beitt þær ofbeldi, sbr. dagnótur barnaverndar. Þvert á móti greindu stúlkurnar frá því að móðir þeirra hafi oft reynt að vernda þær en þá hafi faðirinn beitt móðurina ofbeldi. Í viðtali við starfsmann barnaverndar þann 27. júlí 2020 greindi elsta stúlkan frá því að móðir hennar hafi aldrei beitt þær systur ofbeldi en að hún yrði stundum pirruð þegar þær óhlýðnuðust.

Eftir að stúlkurnar fóru í fóstur hafa þær breyst mikið, sérstaklega elsta stúlkan og næstelsta stúlkan, og smám saman hafa þær snúist gegn móður sinni. Telur kærandi að verið sé að hafa áhrif á þær. Tvær elstu stúlkurnar hafi nú lýst því yfir að þær vilji ekki hitta móður sína, næstyngstu stúlkunni virðist vera alveg sama en yngsta stúlkan hafi ekkert tjáð sig um það, enda sé hún einungis X ára gömul.

Ótti og áhyggjur stúlknanna lúta að því að ef/þegar þær fara aftur til móður þýði það að þær séu að fara til móður og föður. Staðreyndin sé sú að foreldrar stúlknanna séu skilin, faðir sé fluttur af heimilinu og hafi kærandi fest kaup á einbýlishúsi í H með herbergi fyrir allar stúlkurnar. Faðir sé ekki inni í myndinni. Telur kærandi að andúð stúlknanna gagnvart móður og ósannindi þeirra um að hún hafi beitt þær ofbeldi sé vegna þess að alið sé á því að foreldrarnir séu ennþá saman og að þær fari aftur til móður þýði það að faðir verði á heimilinu. Elsta stúlkan hafi sýnt kæranda vanvirðingu í umgengni sem hefur leitt til þess að umgengni hefur oft farið út um þúfur.

Í þeirri einu umgengni sem elsta stúlkan var ekki viðstödd gekk umgengnin vel og því lagði kærandi til að umgengni fyrirkomulaginu yrði breytt en þess í stað tóku starfsmenn þá ákvörðun að fella umgengni alfarið niður og hefur kærandi ekki hitt dætur sínar síðan 1. september 2021.

Ákvörðun barnaverndarstarfsmanna um að stöðva umgengni sé byggð á því að síðasta umgengni, þann 1. september 2021 hafi gengið illa, án þess að útskýra það nákvæmlega.

Eftirfarandi séu athugasemdir kæranda við úrskurð Barnaverndarnefndar B:

Í úrskurði barnaverndarnefndar sé enga umfjöllun að finna um rök kæranda fyrir kröfu um breytingu á umgengni heldur látið við það sitja að nefna þau án þess að þeim sé í nokkru svarað.

Ekkert sé fjallað um þá staðreynd að stúlkurnar séu búnar að vera lengi í vistun utan heimilis með mjög takmarkaða umgengni við móður sína sem hafi auk þess ávallt verið undir eftirliti. Það að stúlkurnar sjái að eftirlit sé með umgengni gefi þeim ef til vill ástæðu til að ætla að ekki sé í lagi með kæranda.

Ekkert sé fjallað um að stúlkurnar hafi sýnt versnandi hegðun eftir að þær fóru í umgengni og séu farnar að nota ljót orð um móður sína. Sérsaklega hafi hegðun og líðan elstu dótturinnar versnað en hún sé mjög stjórnsöm og hafi áhrif á yngri systur sínar.

Ekkert sé fjallað um ástæður og afleiðingar þess að eftir allan þennan tíma hafi tengsl stúlknanna við móður veikst og að þau tengsl þoli ekki eðlilega umgengni þeirra við móður sína.

Hvergi í úrskurðinum sé vikið að túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sem ítarlega séu reifuð í dómaframkvæmd MDE.

Þá sé heldur ekkert fjallað um á hvaða forsendum ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að fella niður umgengni barnanna, sé byggð. Barnaverndarnefnd B hafi skautað fram hjá þeirri umfjöllun og hafi hvorki tekið á né rökstutt hvernig niðurfelling á umgengni geti staðist skýrar reglur Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, enda stenst þessi ákvörðun ekki og sé þar af leiðandi lögleysa.

Enn fremur hafi barnaverndarnefndin litið fram hjá ábendingum kæranda um að börnin hafi ekki raunhæfar forsendur til að taka afstöðu til umgengni. Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sé nauðsynlegt að skoða á hverju vilji barnsins byggist og verði meðal annars að kanna vilja barnsins við hlutlausar aðstæður, sbr. dóm MDE í máli Ignaccolo-Zenide gegn Rúmeníu.

Þá þyki athyglisvert að enda þótt börnin hafi í upphafi lýst vilja sínum til að umgangast móður sína sé ekkert fjallað um hvers vegna sá vilji hafi breyst. Þá sé vilji kæranda virtur að vettugi.

Barnaverndarnefnd hafi algerlega litið fram hjá þeirri staðreynd að elsta stúlkan stjórni hinum stúlkunum og setji umgengni í uppnám og þess vegna hafi kærandi talið best að breyta fyrirkomulagi umgengni. Hafði hún orð á því að fyrra bragði að breyta þyrfti fyrirkomulaginu en ekkert hafi verið aðhafst í því fyrr en með úrskurðinum frá 8. október 2021 þar sem umgengni var alfarið felld niður.

Tilgangurinn með rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sé sá að afla nægilegra upplýsinga til þess að hægt sé að taka sem besta ákvörðun í máli. Sú regla þjónar ekki tilgangi sínum ef stjórnvöld vísa aðeins til raka aðila fyrir kröfum sínum, án þess skoða þau af alvöru og án þess að taka nokkra afstöðu til þeirra. Ekki verði séð að barnaverndarnefndin hafi skoðað rök kæranda í málinu, kynnt sér löggjöfina, dómaframkvæmdina eða þau meginsjónarmið sem liggja að baki rétti barna og foreldra til að halda tengslum og umgangast reglulega, hafi þau verið aðskilin.

Ljóst sé að samkvæmt alþjóðalögum eiga börn í fóstri sama rétt til umgengni við foreldra sína og svokölluð “skilnaðarbörn”. Oftar en ekki dvelja börn fráskilinna foreldra hjá forsjárlausu foreldri aðra hvora helgi, auk þess að njóta aukinnar umgengni um hátíðar og í sumarfríi.

Meginregluna um tengsla- og umgengnisrétt barna, sem hafa verið skilin frá foreldrum sínum, sé að finna í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans sem hljóðar svo:

Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Þá hafi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gefið það út að “það sem barni sé fyrir bestu” hafi sömu merkingu hvort heldur börn hafa verið skilin frá foreldrum sínum vegna sambúðarslita eða fyrir milligöngu ríkisins.[1] Þá gilda allar reglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um öll börn, án aðgreiningar, og 9. gr. sáttmálans gildir jöfnum höndum um börn í fóstri sem og önnur börn, óháð þeim ástæðum sem liggja að baki aðskilnaðinum á milli foreldris og barns, enda væri það ótækt að mismuna börnum eftir aðstæðum þeirra eða foreldra. 

Lögin séu skýr. Það séu einfaldlega mannréttindi barna kæranda að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við móður sína með reglubundnum hætti. Spurningin sé ekki hvort þau eigi að njóta þess réttar heldur hvernig skuli standa að því að koma á löglegu ástandi. Í úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar sé ekki minnst einu orði á 9. gr. Barnasáttmálans sem á við um börn í fóstri og ekki sé minnst einu orði á hvernig ákvörðunin um að fella niður umgengi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans.

Í fyrsta lagi standist það ekki túlkun samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. “Persónuleg tengsl, beint samband með reglubundnum hætti”. Á því sé byggt að engin umgengni við dæturnar fjórar geti ekki talist uppfylla skilyrði ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan.

Í öðru lagi fjallar barnaverndarnefnd ekkert um að markmið 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að með umgengni sé verið að viðhalda tengslum og styrkja þau og að börn “þekki uppruna sinn”. Þetta fari gegn yfirlýstu markmiði ákvæðis 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, auk 8. gr. MSE, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sem sé einmitt það að barn viðhaldi persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt. Slíkum persónulegum tengslum og beinu sambandi verði ekki viðhaldið nema samskipti séu regluleg, sbr. orðalagið ,,með reglubundnum hætti”.

Þessu til stuðnings megi til dæmis nefna álit umboðsmanns barna, dags. 25. mars 2014, þar sem fram komi hvaða reglur Barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrár gilda um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt og að sömu reglur gildi um öll börn sem hafi verið aðskilin frá foreldri, sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Í áliti umboðsmanns barna sé vísað til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, 71. gr. stjórnarskrár, auk 8. gr. MSE en túlkun á þeim sé eftirfarandi:

,,Af fyrrnefndum ákvæðum er ljóst að umgengni barns við foreldri verður að vera regluleg, þannig að barn nái annaðhvort að viðhalda þeim tengslum sem til staðar eru eða tengsl nái að myndast. Ennfremur þarf að sjálfsögðu að tryggja öllum börnum sama rétt, án mismununar, sbr. m.a. 2. gr. Barnasáttmálans og 65. gr. Stjórnarskrárinnar… óheimilt er að mismuna börnum eftir stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra….”

Túlkun umboðsmanns barna sé í samræmi við túlkun MDE og barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á ákvæðum Barnasáttmálans. Ákvörðum Barnaverndarnefndar B eigi sér hins vegar enga stoð í lögskýringargögnum né orðanna hljóðan ákvæðisins. Það þurfi ávallt að meta hvað teljist vera barni fyrir bestu hverju sinni, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 4. gr. bvl., 8. gr. MSE, auk 71. gr. stjórnarskrár.

Ákvæði 74. gr. bvl. og athugasemdir í greinargerð, sem skýrir ákvæðið, sé í fullu samræmi við framangreindar skýringar umboðsmanns barna. Það sé hins vegar túlkun barnaverndaryfirvalda á ákvæði 74. gr. sem gangi í berhögg við umrædd ákvæði Barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrár. Bent sé á að í athugasemdum með 74. gr. bvl. segi að ákvæðið byggi á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland hafi fullgilt. Þar segir enn fremur að ,,ef neita á um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins”. Ekkert slíkt sé fyrir hendi í því máli sem nú sætir kæru. Kærandi sé reglusöm, hafi aldrei reykt eða drukkið, sé útivinnandi og fjárhagslega sjálfstæð. Hún hafi sýnt það í verki að hún taki dætur sínar fram yfir föður þeirra með því að skilja við hann og vísa honum burt af heimilinu en það sé hann sem börnin óttist en ekki móður. Umgengni hafi oftast gengið vel en því sé ekki að neita að árekstrar hafi verið á milli kæranda og elstu stúlkunnar sem hafi smitað umgengni og samskipti við hinar þrjár. Ekki sé að sjá að Barnaverndarnefnd B hafi skoðað mál hvers barns fyrir sig heldur séu allar stúlkurnar samsamaðar með afstöðu tveggja elstu stúlknanna þannig að hinar verða af lögbundnum rétti sínum til umgengni við móður. Í stað þess að viðhalda umgengni þannig að stúlkurnar öðlist trú á því að móðir þeirra sé í raun skilin við föður og að ekkert sé að óttast fari þær alfarið til móður eftir að vistunartíma lýkur, sé alið á þessum ótta með því að fella umgengni niður.

Sérhvert barn eigi rétt á umgengni við foreldri sitt og það séu ekki lögmæt sjónarmið að stöðva alla umgengni við dætur kæranda eingöngu vegna þess að elsta stúlkan segist nú ekki vilja umgangast móður sína. Næstyngsta stúlkan sé ekki mótfallin umgengni við móður sína og yngsta stúlkan hafi aldrei tjáð sig um hvort hún vilji umgengi við móður sína. Því sé ekki hægt að byggja á því að vegna þess að umgengni við elstu stúlkuna hafi verið erfið að það eigi að koma niður á hinum dætrunum. Það hefði átt að hlusta á rök kæranda og reyna að aðra umgengnisaðferð áður en gengið var svo langt að stöðva alla umgengni við allar stúlkurnar.

Í dómaframkvæmd MDE koma miklu fleiri sjónarmið til skoðunar og allt önnur þegar lagt sé mat á hvað teljist vera barni fyrir bestu hverju sinni. Meginheimild um þetta sé að finna í General Comment no. 14 frá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna en þessi lögskýringargögn leggi MDE til grundvallar þegar dæmt er í málum sem varða rétt barna á grundvelli 8. gr. MSE.

Bent sé á að ekkert raunverulegt mat á því hvað telst vera börnunum fyrir bestu þegar kemur að umgengnisrétti þeirra, hafi farið fram hér. Virðist vera byggt á því að tvær elstu dæturnar séu nú andvígar því að hitta móður sína, án þess að rannsaka af hverju afstaða þeirra hefur breyst frá upphafi. Byggir þessi ákvörðun Barnaverndarnefndar B ekki á neinum lagarökum heldur fer hún þvert á móti gegn lögum, mannréttindum og stjórnarskrá. Þá ganga yfirlýst markmið barnaverndarnefndar með því að fella umgengni niður enn fremur gegn markmiðum þess mannréttindasáttmála sem um umgengni gilda.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hinn kærða úrskurð frá 8. október 2021 um að engin umgengni kæranda fari fram við dætur hennar allt til 28. desember 2021.

Afskipti barnaverndarnefndarinnar af málefnum dætra kæranda hófust þann 25. júní 2020 þegar tilkynning barst frá H varðandi grun um líkamlegt ofbeldi föður gagnvart næstelstu dótturinni. Í tilkynningunni kom fram að stúlkan hafi, í viðtali við þjálfara sinn greint frá því að þegar hún kæmi heim myndi pabbi hennar ábyggilega berja hana. Þegar hún hafi verið spurð nánar út í þetta hafi hún tjáð þjálfaranum að pabbi sinn væri ofbeldisfullur og að hann beitti öll börnin líkamlegu ofbeldi og systurnar hefðu allar fengið marbletti, bæði í andliti og á öðrum stöðum líkamans.

Í kjölfar framangreindrar tilkynningar ræddu starfsmenn barnaverndar við stúlkurnar í nokkur skipti, utan þeirrar yngstu, og greindu þær frá miklu andlegu og grófu líkamlegu ofbeldi af hálfu föður. Af þessum sökum hafi þann 19. ágúst 2020 verið tekin sú ákvörðun að leggja fram kæru til lögreglu á hendur föður þar sem óskað hafi verið eftir lögreglurannsókn á meintu líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn stúlkunum. Atvik málsins séu reifuð í greinargerð frá starfsmönnum barnaverndar, dags. 19. ágúst 2020.

Þann 20. ágúst 2020 fóru starfsmenn barnaverndar með stúlkurnar í skoðun á I í því skyni að kanna líkamlegt ástand þeirra. Við skoðun á I sáust engir áverkar á yngri systrunum þremur en elsta stúlkan hafi verið með marblett á framhandlegg sem læknir taldi um viku gamlan. Stúlkan tjáði lækninum að hugsanlegt væri að þessir áverkar hafi komið þegar faðir hennar var að berja hana og sýndi hún lækninum hvernig hún bæri handleggina fyrir höfuð sér til að verjast höggum frá föður. Um nánari atvik er lúta að skoðun á I vísast til greinargerðar starfsmanna kærða, dags. 24. ágúst 2020.

Þennan sama dag samþykkti kærandi vistun dætra sinna utan heimilis til 20. september 2020. Stúlkurnar fóru í tímabundna vistun til fjölskyldu sem býr í H. Eftir að stúlkurnar komu inn á heimilið hafi vistforeldrar tekið eftir því að yngsta stúlkan hafi kvartað yfir óþægindum í tönnum. Í framhaldinu fóru vistforeldrar með stúlkuna til tannlæknis og kom þá í ljós að tannhirða barnsins var lítil sem engin.

Af hálfu barnaverndar hafi í framhaldinu verið óskað eftir upplýsingum frá skóla þriggja elstu stúlknanna. Umsagnir frá Í, dags. 14. september 2020, hafi borist barnavernd og voru þær allar á þann veg að áhyggjur hafi komið fram um að stúlkurnar væru ekki að fá gott utanumhald og fengju ekki þann stuðning á heimili sem þær ættu að fá.

Eldri stúlkurnar þrjár fóru í skýrslutöku í Barnahúsi þann 3. september 2020 og greindu þær allar frá miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu föður. Í skýrslu elstu stúlkunnar komi meðal annars fram að faðir noti belti til að lemja þær systur og stundum inniskó og að hann beitt yngstu stúlkuna einnig ofbeldi. Aðspurð um hve oft þetta gerðist svaraði stúlkan því þannig að þetta væri næstum alltaf og að ofbeldið gagnvart henni sjálfri hafi byrjað þegar hún var 3-4 ára. Framburður næstelstu systurinnar í Barnahúsi var á sama veg, þ.e. að faðir beitti allar systurnar ofbeldi. Síðast þegar þetta hafi gerst hafi faðir lamið hana fast í andlitið með inniskó en hann noti líka stundum belti. Þetta þurfi allar systurnar að þola nema sú yngsta, en faðir noti ekki belti þegar hann beiti hana ofbeldi heldur aðeins inniskó. Næstyngsta systirin greindi frá með svipuðum hætti í Barnahúsi, þ.e. að faðir beiti þrjár elstu systurnar ofbeldi en kannaðist hins vegar ekki við að hann hafi gert slíkt gagnvart þeirri yngstu.

Þennan sama dag, eða 3. september 2021, hittu stúlkurnar kæranda undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Sú umgengni gekk ekki vel þar sem kærandi var mjög ásakandi í garð stúlknanna, reyndi að koma að samviskubiti hjá þeim og gekk hart á stúlkurnar um það hver þeirra hefði sagt frá því sem hefði gerst á heimilinu. Umgengni við kæranda átti sér aftur stað þann 17. september 2021 og gekk sú umgengni ekki vel og kærandi hafði frammi neikvæðar athugasemdir í garð stúlknanna.

Þann 20. september 2021 rann vistunartími út og þar sem foreldrar hafi ekki verið reiðubúnir að samþykkja áframhaldandi vistun hafi neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga verið beitt.

Þann 21. september 2020 ræddi talsmaður við þrjár elstu stúlkurnar á heimili vistforeldra þeirra. Í greinargerð talsmannsins komi fram að stúlkurnar hafi allar sagt að þær vildu fara aftur á heimili foreldra sinna. Að sögn talsmanns höfðu stúlkurnar litla þolinmæði til að tala við talsmann og vildu ekki tjá sig mikið um sína hagi.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 28. september 2020, var tekin sú ákvörðun að vista börnin utan heimilis foreldra í tvo mánuði samkvæmt b.-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. Í úrskurðarorði komi fram að barnaverndarnefnd muni óska eftir framlengingu á vistun í tólf mánuði samkvæmt 1. mgr. 28. gr. bvl.

Þann 16. október 2020 lagði barnaverndarnefnd fram kröfu til Héraðsdóms B um vistun stúlknanna utan heimilis í 12 mánuði frá 28. september 2020 á grundvelli 28. gr. bvl.

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi tók dómari viðtal við eldri stúlkurnar þrjár. Viðstaddur þessi viðtöl, sem fram fóru þann 4. desember 2020, var J sálfræðingur. Í viðtali við D kom afdráttarlaust fram að faðir legði hendur á allar systurnar og kærandi líka. Sama kom fram hjá F sem bætti því við að hún vildi ekki fara til föður síns aftur þar sem hann meiddi hana. Enn fremur greindi D frá því að kærandi skrökvaði að þeim, að E og F væru hræddar við kæranda og að hún hafi bannað E að segja frá nokkru er varðaði fjölskylduna. Þá kvaðst hún hafa þurft að bera ein ábyrgð á systrum sínum og hafi nánast þurft að ganga þeim í móðurstað. Hún hafi til að mynda þurft að taka til skólanesti fyrir systur sínar á morgnana og þurft að bera ábyrgð á að sækja yngstu systur sína á leikskóla. Þessi frásögn stúlkunnar sé staðfest af starfsmanni leikskóla og skóla eldri stúlknanna.

Við aðalmeðferð málsins gaf kærandi skýrslu og kvað rétt að faðir beitti dæturnar ofbeldi og hún hafi orðið vitni að ofbeldinu. Kærandi kannaðist hins vegar ekki við að faðir notaði sylgju af belti sínu þegar hann lemdi dætur sínar en kannaðist við að hann hafi notað belti og inniskó. Kærandi taldi að þetta væru eðlilegar uppeldisaðferðir í K. Kærandi kvaðst hafa reynt að stöðva barsmíðarnar en faðirinn væri mjög stjórnsamur. Kærandi neitaði því að hún sjálf beitti dætur sínar ofbeldi. Kærandi greindi einnig frá því að hún hafi hótað dætrum sínum því að flytja erlendis og skilja þær eftir, en sagði að þetta hafi verið sagt í gríni. Faðir neitaði fyrir dómi að hann hefði beitt dætur sínar ofbeldi. Þá fullyrti faðir að D væri að ljúga upp á sig sakir og neitaði því að E og F hafi borið á hann sömu sakir.

Með úrskurði Héraðsdóms B 29. desember 2020 hafi verið ákveðið að stúlkurnar fjórar skyldu vistaðar utan heimilis í níu mánuði frá 28. september 2020 að telja. Með úrskurði Landsréttar 12. febrúar 2021 í máli nr. 13/2021 var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Frá því að áðurnefndur úrskurður, dags. 28. september 2020, var kveðinn upp hafi átt sér stað markviss vinna varðandi framhald málsins. Þannig hafi verið sótt um meðferð fyrir þrjár elstu stúlkurnar í Barnahúsi til að vinna úr þeim áföllum sem þær hafi orðið fyrir. Þá hafi verið gerðar meðferðaráætlanir vegna allra stúlknanna, dags. 8. janúar 2021. Markmið meðferðaráætlananna séu þau að vernda systurnar fyrir ofbeldi og vinna með kæranda og styrkja hana í að fá kjark til að yfirgefa föður þar sem hún óttist hann ekki síður en börnin. Markmiði meðferðaráætlana teljist náð þegar kærandi sé orðin nógu sterk til að geta búið börnum sínum öruggar og uppbyggilegar heimilisaðstæður þar sem faðir býr ekki, auk þess sem kærandi sýni fram á að hún axli ábyrgð á stúlkunum og veiti þeim viðeigandi uppeldi. Þá hafi verið undirritaðir samningar um umgengni vegna allra stúlknanna, dags. 1. febrúar 2021.

Nokkrar tilkynningar hafi borist barnavernd á árinu 2021 og tengjast sumar þeirra áhyggjum af líðan elstu stúlkunnar, D. Einnig hafi borist tilkynningar þar sem fram kemur að faðir hafi haft í hótunum við stúlkurnar, einkum D. Þannig hótaði faðir því meðal annars að drepa stúlkuna ef hún breytti ekki frásögn sinni og sagði að hún myndi aldrei eiga glaðan dag eftir 29. júní 2021.

Í apríl 2021 hafi stúlkurnar greint frá því að kærandi hafi einnig beitt þær líkamlegu ofbeldi. Stúlkurnar greindu frá því að kærandi rifi í hár þeirra, lemdi þær með herðatré, skóm og skafti af moppu, auk þess sem hún talaði niðrandi til þeirra. Einnig kom fram grunur um að faðir eða báðir foreldrarnir hafi beitt stúlkurnar kynferðislegu ofbeldi.

Kærandi mætti á fund starfsmanns barnaverndar þann 4. apríl 2021 og samþykkti á þeim fundi að undirgangast forsjárhæfnismat, auk þess sem hún óskaði eftir uppeldislegri ráðgjöf. L sálfræðingur hafi verið fenginn til að framkvæma forsjárhæfnismat á kæranda í apríl 2021. Í forsjárhæfnismati L, dags. 26. maí 2021, koma meðal annars fram áhyggjur af því að kærandi afneiti afleiðingum ofbeldis föður á stúlkurnar og sjálfa sig. Þá telur sálfræðingurinn að kærandi hafi lítið innsæi í tilfinningalegar þarfir dætra sinna og að geðtengsl séu veik. Niðurstaða hans sé sú að eins og staðan sé í dag sé kærandi ekki hæf til að fara með forsjá dætra sinna og að hún geti ekki tryggt öryggi þeirra og velferð.

Þann 10. maí 2021 hafi verið tekin skýrsla af elstu stúlkunni fyrir dómi en af miðjusystrunum tveimur þann 19. maí 2021. Í viðtölum, sem tekin voru í Barnahúsi, greina þær frá alvarlegu ofbeldi sem þær urðu fyrir af hendi foreldra sinna. Elsta stúlkan, D, greindi til að mynda frá því að faðir noti það sem hendi er næst við ofbeldið og að móðir noti stundum herðatré og dragi þrjár elstu systurnar á hárinu eftir gólfinu. Einnig hafi komið fram að kærandi beiti allar systurnar ofbeldi af einhverju tagi og hafi meðal annars notað moppu og herðatré þegar hún gekk í skrokk á D. Þá taldi stúlkan að kærandi væri ennþá í sambandi við föður og upplýsti að sá síðarnefndi væri reglulega að senda henni hótanir. Næstelsta stúlkan, E, greindi einnig frá ofbeldi foreldra í sinn garð og í garð systranna fjögurra. Í framburði hennar kemur fram að kærandi noti hendi, inniskó eða herðatré við ofbeldið sem sé algengt. Þá togi kærandi í hárið á henni og báðir foreldrar hafi rassskellt hana með belti eða inniskóm. Faðir noti hins vegar hendi, herðatré eða belti við ofbeldið. Næstyngsta stúlkan, F, greindi sömuleiðis frá ofbeldi af hálfu foreldra sinna. Kærandi noti stundum herðatré við ofbeldið og faðir einnig en hann noti stundum inniskó eða belti, auk þess sem hann hræki stundum á dætur sínar.

Þann 14. júní 2021 hafi verið tekin lögregluskýrsla af föður, meðal annars vegna gruns um kynferðisbrot. Sem fyrr neitaði faðir öllum sakargiftum og sagði dætur sínar og kæranda ljúga. Þennan sama dag hafi verið tekin lögregluskýrsla af kæranda. Í skýrslutökunni greindi kærandi meðal annars frá því að faðir væri að skemmta sér við að pína hana og dæturnar. Faðir hafi lamið stúlkurnar en þegar hún hafi reynt að stoppa hann hafi faðir ýtt henni og skyrpt framan í hana. Við ofbeldið hafi hann notað allt sem var fyrir framan hann, til dæmis belti, inniskó og herðatré. Þá hafi hann beitt hana sjálfa ofbeldi en ekki hafi verið regla á því hversu oft það gerðist, en það væri oft og hann beitti stundum priki en oftar plastslöngu úr þvottavél. Í skýrslutökunni viðurkenndi kærandi að hafa slegið dætur sínar í handleggi eða rass með flötum lófa, nema þá yngstu, en kvað dætur sínar ljúga um annars konar ofbeldi. Kærandi hafnaði einnig öllum ásökunum um kynferðislegt ofbeldi.

Málið hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar þann 28. júní 2021. Á þeim fundi hafi verið ákveðið að fresta ákvarðanatöku í málinu til 12. júlí 2021 þar sem nefndarmenn töldu þörf á að skoða nýleg gögn sem vörðuðu málið. Óskað hafi verið eftir samþykki foreldra fyrir áframhaldandi vistun til 12. júlí 2021 og fékkst slíkt samþykki frá báðum foreldrum en þar sem faðir dró samþykki sitt til baka reyndist nauðsynlegt að neyðarvista börnin til 12. júlí 2021 á grundvelli 31. gr. bvl.

Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndar B þann 12. júlí 2021. Á þeim fundi hafi verið kveðinn upp úrskurður þar sem ákveðið var að stúlkurnar skyldu vistaðar utan heimilis í tvo mánuði frá og með 12. júlí 2021. Enn fremur var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í sex mánuði, sbr. 28. gr. bvl.

Þann 8. september 2021 hafi Lögreglustjórinn á M gefið út ákæru á hendur kæranda þar sem henni hafi verið gefin að sök stórfelld brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot gegn dætrum sínum á tímabilinu maí 2018 til 19. ágúst 2020, sbr. bréf embættisins, dags. 9. desember 2021.

Þann 4. október 2021 gerðu málsaðilar dómsátt í málinu. Í dómsáttinni fólst að kærandi samþykkti vistun dætra sinna utan heimilis í fjóra mánuði frá 12. september 2021 að telja samkvæmt 28. gr. bvl. 

Þann 8. október 2021 kvað barnaverndarnefnd upp hinn kærða úrskurð. Niðurstaða úrskurðarins hafi verið sú að engin umgengni færi fram á milli kæranda og dætra hennar allt til 28. desember 2021.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 6. desember 2021, hafi verið ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá yfir dætrum sínum.

Af hálfu barnaverndarnefndar sé þess krafist að hinn kærði úrskurður frá 8. október 2021 um enga umgengni kæranda við dætur sínar allt til 28. desember 2021, verði staðfestur. Byggt sé að því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og að ákvörðunin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Dætur kæranda hafi greint frá mjög alvarlegu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu kæranda sem staðið hefur yfir um árabil og hafa þessar ásakanir leitt til útgáfu ákæru líkt og áður hafi verið rakið. Eldri stúlkurnar þrjár hafi enn fremur allar lýst miklum ótta við að koma aftur á fyrra heimili sitt og hafa D og E lýst því að þær óttist um líf sitt verði þær þvingaðar til að fara aftur heim. Þá hafi þær lýst því að þær treysti því ekki að kærandi sé skilin við föður og telja þvert á móti að kærandi sé að þykjast vera skilin að skiptum við föður til að fá stúlkurnar aftur heim.

Þessu til viðbótar hafi mikil vanræksla verið á heimilinu og grunnþörfum barnanna ekki sinnt eins og skyldi. Þannig hafi verið mikill óþrifnaður á heimilinu og matur oft af skornum skammti. Þá hafi grunnatriðum varðandi umhirðu barnanna ekki verið sinnt, eins og til dæmis tannhirðu þeirra, líkt og áður hafi verið rakið. Þetta hafi bitnað harkalega á stúlkunum sem hafi búið við aðstæður sem ekki séu boðlegar fyrir börn. Þetta sé staðfest í áðurnefndu forsjárhæfnismati L sálfræðings þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að kærandi sé ekki hæf til að fara með forsjá dætra sinna og að hún geti ekki tryggt öryggi þeirra og velferð.

Líkt og málavaxtalýsingin hér að framan ber með sér sé líkamlegri og andlegri heilsu stúlknanna beinlínis hætta búin, fari þær aftur á fyrra heimili. Eins og áður hafi verið rakið hófust afskipti af börnunum á árinu 2020 og hafa þær verið vistaðar utan heimilis síðan í ágúst mánuði það ár. Fyrir liggja umsagnir fósturforeldra stúlknanna. Í umsögn fósturforeldra F, sem móttekin hafi verið af barnaverndarnefnd 30. september 2021, kemur meðal annars fram að F láti engar sýnilegar tilfinningar í ljós fyrir umgengni við kæranda. Hún virðist hvorki spennt né ánægð, en komi stundum þung til baka og vilji mikið af knúsum og faðmlagi. Hún tali aldrei af fyrra bragði um umgengni og komi aldrei brosandi til baka. Þá kemur fram að barnið hafi sagt að kærandi hafi lamið sig með skúringaskafti á meðan hún bjó undir sama þaki og hún. Í umsögn fósturforeldra E komi fram að þeim finnist heimsóknir til kæranda ekki til góðs. Barnið sé vægast sagt stressað fyrir umgengni og vilji ekki ræða hvernig hafi gengið heldur læsi sig inn í herbergi. Í umsögn fósturmóður D og G komi meðal annars fram að sú síðarnefnda sýni annars konar hegðun eftir heimsóknir til kæranda, meðal annars í leikskólanum. D sé mjög kvíðin og stressuð fyrir heimsóknir til kæranda og það sé aðalástæða þess að hún sé farin að passa upp á yngri systur sína. Eftir heimsóknir sé D í miklu ójafnvægi.

Líkt og rakið sé í hinum kærða úrskurði hafi einhver umgengni verið á milli kæranda og dætra hennar frá því að þær fóru í vistun. Heilt yfir hafi umgengni ekki gengið vel og þá sér í lagi umgengnin 1. september 2021. Af þessum sökum og ekki síður vegna afstöðu stúlknanna til umgengni við kæranda hafi verið ákveðið á fundinum 8. október 2021 að engin umgengni yrði á milli kæranda og dætra hennar. Hafi þá einnig verið horft til þess að líklegt væri að dómur í sakamálinu, sem Lögreglustjórinn á M hefur höfðað gegn foreldrum, lægi fyrir. Að mati barnaverndarnefndarinnar hafi ekki verið talið réttlætanlegt að umgengni færi fram frá útgáfu ákæru og á meðan beðið væri dóms í málinu þar sem sakargiftir væru mjög alvarlegar. 

Líkt og rakið hafi verið mun barnaverndarnefndin höfða mál fyrir Héraðsdómi B þar sem þess verður krafist að kærandi verði svipt forsjá dætra sinna. Markmið varanlegs fósturs sé að börnin aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunum sínum. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð verulega. Slík sjónarmið hafi verið höfð til hliðsjónar við ákvörðun barnaverndarnefndarinnar en það sem réði úrslitum um að engin umgengni yrði um takmarkaðan tíma séu ásakanir um hið alvarlega ofbeldi kæranda gagnvart stúlkunum, auk afstöðu stúlknanna sjálfra til umgengni sem ítrekað hefur komið fram, nú síðast í viðtölum þeirra við talsmann.

Með hliðsjón af öllu framanröktu hafi það verið mat Barnaverndarnefndar Br að umgengni eins og málum nú sé háttað væri bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum stúlknanna og auk þess ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þeirra í fóstur, sbr.  2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Þá hafi enn fremur verið litið til fyrirmæla 4. mgr. sama ákvæðis þar sem mælt sé fyrir um að ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum geti nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Barnaverndarnefnd B telur að hin sérstöku atvik sem fyrir hendi séu í þessu máli réttlæti að engin umgengni fari fram allt til 28. desember næstkomandi.

Barnaverndarnefnd B telur að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 og að beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem börnunum væri fyrir bestu, sbr. 4. gr. laga nr. 80/2002. Barnaverndarnefnin byggir á því að það þjóni hagsmunum stúlknanna best að engin umgengni verði við kæranda tímabundið líkt og ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi vísast til forsendna hins kærða úrskurðar sem tekið er undir að öllu leyti með kæru.

IV. Afstaða barna

Stúlkunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þær á tímabilinu frá 29. og til 1. desember 2021.

Í skýrslu talsmanns vegna stúlkunnar D kemur fram að talsmaður rætt hafi við hana á fósturheimili. Fram kemur í skýrslunni að stúlkan vilji vera í samskiptum við móður sína en bara í stuttan tíma, ekki gista yfir nótt. Stúlkan vilji að umgengni fari fram undir eftirliti barnaverndar og að stúlkurnar séu allar fjórar saman í umgengni. Þá vilji hún ekki hitta manninn sem sé oft með móður.

Í skýrslu talsmanns vegna stúlkunnar E kemur fram að rætt hafi verið við hana í skóla hennar. Í skýrslu talsmanns kemur fram að stúlkan vilji ekki eiga umgengni við foreldra og vilji engin samskipti.

Í skýrslu talsmanns vegna stúlkunnar F kemur fram að rætt hafi verið við hana á fósturheimili. Við eftirgrennslan talsmanns um afstöðu stúlkunnar til umgengni hafi komið fram að hún vildi umgengni við móður en í stutta stund og aldrei ein. Hún lýsti því að hún væri hrædd um að faðir kæmi þá og hún þyrfti að flýja hann. Stúlkan kvaðst engin samskipti vilja við föður.

Í skýrslu talsmanns vegna stúlkunnar G kemur fram að talsmaður hafi rætt við stúlkuna á fósturheimili. Erfitt hafi reynst að kanna afstöðu barnsins til umgengni við kæranda en í samtali við stúlkuna um X ára afmælið hennar tók hún fram að hún vildi að móðir kæmi í afmælið en ekki faðir.

V. Afstaða fósturforeldra

Barnaverndarnefnd B aflaði afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við börnin.

Í umsögn fósturforeldra D kemur fram að stúlkan sé mjög stressuð og kvíðin fyrir umgengi við móður. Helsta ástæðan fyrir því að stúlkan vildi fara í umgengni var til þess að passa systur sína, G. Eftir umgengni líði stúlkunni illa og sé stressuð. Hún sé reið og haldi sig meiri inni í herbergi og telji sig ekki skipta máli. Hana vanti þá viðurkenningu og umhyggju fósturforeldra.

Í umsögn fósturforeldra E kemur fram að stúlkan sé stressuð fyrir umgengni og í kjölfar umgengni fari hún inn í herbergi og vilji lítið ræða málin. Fósturforeldrar telji umgengni ekki vera til góðs fyrir stúlkuna.

Í umsögn fósturforeldra F kemur fram að stúlkan hafi ekki sýnilegar tilfinningar fyrir umgengni við móður sína. Hún sé hvorki spennt né ánægð en komi stundum þung til baka og vilji þá mikla umhyggju. Fósturforeldrar kveða stúlkuna ekki vilja tjá sig mikið um umgengni við móður sína.

Í umsögn fósturforeldra G kemur fram að hegðun stúlkunnar eftir umgengni við móður sína sé erfið. Stúlkan vilji til dæmis ekki sofa í rúminu sínu og sé vælin. Hún tali ekki um móður sína nema hún vilji nammi og biðji fósturforeldra að keyra sig til móður sinnar til að ná í nammi. Þá sýni stúlkan öðruvísi hegðun í leikskóla eftir umgengni.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul, stúlkan E er X ára gömul, stúlkan F er X ára gömul og stúlkan G er X ára gömul.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 6. desember 2021, var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá yfir dætrum sínum.

Í hinum kærða úrskurði, dags. 8. október 2021, kemur fram að Barnaverndarnefnd B hafi talið með hliðsjón af gögnum málsins, þar á meðal viðhorfi elstu stúlknanna og afstöðu þeirra sem hafa haft með mál þeirra að gera, að það væri bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum barnanna að hafa umgengni við foreldra sína að svo stöddu.

Kærandi, sem er kynmóðir barnanna, krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að umgengni barnanna við kæranda verði annaðhvort þannig að umgengni við þrjár yngstu stúlkurnar verði tvisvar í mánuði í tvo tíma í senn og að elsta stúlkan verði ekki í umgengni á sama tíma og hinar en þó þannig að umgengni við hana eina verði einnig tvisvar í mánuði tvo tíma í senn, ella verði umgengni við hverja stúlku í einu.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag þess og þörfum getur barnaverndarnefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Við úrlausn þessa máls verður því að meta hvort umgengni kæranda við dætur sínar sé bersýnilega andstæð hagsmunum þeirra og þörfum, sbr. 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Í málinu liggur fyrir að eldri stúlkurnar hafa lýst alvarlegu ofbeldi í garð allra systranna af hálfu föður og einnig að móðir hafi beitt þær ofbeldi og er mál þeirra til meðferðar hjá þar til bærum yfirvöldum. Fram kemur í forsjárhæfismati að kærandi virðist ekki hafa innsæi í líðan dætra sinna og hafi metið það svo að ofbeldi, sem þær hafa lýst, hafi ekki haft mikil áhrif á þær eða tilfinningar þeirra.

Þá liggur fyrir í gögnum málsins að umgengni kæranda við dætur sínar áður en hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar B kveðinn upp, hafi ekki gengið vel og virðist sem kærandi hafi meðal annars reynt að hafa áhrif á framburð þeirra um ofbeldi af hálfu foreldra sinna og haft neikvæðar athugasemdir í þeirra garð. Þá gefa fyrirliggjandi gögn einnig til kynna að stúlkunum hafi liðið illa í kjölfar umgengni við kæranda. Þrátt fyrir aldursmun og mismunandi afstöðu þeirra til umgengni við kæranda telur úrskurðarnefndin að ekki sé tilefni til að gera greinarmun á þörfum þeirra fyrir umgengni á því tímabili sem hinn kærði úrskurður nær til. 

Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála að fella beri umgengni kæranda við dætur sínar alfarið niður að svo komnu máli með vísan til 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl., enda fari það bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum stúlknanna að hafa umgengni við kæranda á því tímabili sem hér um ræðir.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 8. október 2021 varðandi umgengni D, E, F og G við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 



[1] Sjá Handbók UNICEF um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, bls. 36. https://www.unicef.org/lac/media/22071/file/Implementation%20Handbook%20for%20the%20CRC.pdf


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta