Hoppa yfir valmynd

Nr. 231/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 231/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040085

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. apríl 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. apríl 2019, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins var fyrst vart við kæranda hér á landi þegar hann var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli þann 8. nóvember 2018. Þann 8. janúar 2019 tilkynnti Útlendingastofnun kæranda um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til Íslands vegna ólögmætrar dvalar hér á landi. Útlendingastofnun bárust gögn um kærandi hefði í kjölfar tilkynningarinnar Greinargerð kæranda barst Útlendingastofnun þann 13. febrúar 2019. Útlendingastofnun bárust upplýsingar um að kærandi hefði yfirgefið Schengen-svæðið þann 20. febrúar sl. og sendi umboðsmanni hans tilkynningu, dags. 22. febrúar sl., þar sem fram kom að hætt hefði verið brottvísun hans en að málið yrði tekið upp að nýju ef hann kæmi til landsins án þess að hafa til þess heimild. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom kærandi aftur til landsins þann 24. mars sl. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. apríl 2019, var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til Íslands í tvö ár. Kæranda var birt ákvörðunin þann sama dag. Kærandi kærði ákvörðunina þann 10 apríl sl. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Þann 24. apríl sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd þann 29. apríl sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að stofnunin hafi birt kæranda tilkynningu þann 8. janúar 2019 þar sem fram kom að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefði kærandi verið stöðvaður á Keflavíkurflugvelli þann 8. nóvember 2018. Við skoðun lögreglu á vegabréfi hans hefði vaknað upp grunur um að stimplar í vegabréfinu væru falsaðir. Hafi vegabréf kæranda því verið fært til skilríkjasérfræðings hjá lögreglunni til frekari skoðunar. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarskýrslu flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum væri vegabréf kæranda ófalsað en í vegabréfinu væri að finna falsaða stimpla. Af þessum sökum taldi Útlendingastofnun rétt að miða við síðustu ófölsuðu innstimplun inn á Schengen-svæðið, sem hefði verið um Þýskaland þann 12. júlí 2018, við mat sitt á lögmæti dvalar kæranda hér á landi. Hafi stofnunin veitt kæranda frest til að leggja fram skriflega greinargerð eða sýna fram á að hann hefði yfirgefið Schengen-svæðið. Jafnframt hefði kæranda verið veittur frestur til að yfirgefa íslands innan veitts frests.

Í ákvörðuninni kemur fram að í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar sl., hafi hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni verið andmælt. Kæmi fram að kærandi hafi komið til landsins þann 8. desember 2018 og hefði þá verið í geðhvörfum. Þá hefði kærandi verið vistaður ágeðdeild landspítalans frá [...]. Hefði kærandi síðan flogið til Spánar þann [...] til að sækja þar áfengis- og vímuefnameðferð. Hafi Útlendingastofnun hætt við brottvísun kæranda þar sem hann hefði yfirgefið Schengen-svæðið þann 20. febrúar sl. en áskilið í tilkynningu til umboðsmanns kæranda, dags. 22. febrúar sl., að málið yrði tekið upp að nýju ef kærandi kæmi aftur til landsins án þess að hafa til þess heimild. Vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefði kærandi komið aftur til landsins þann 24. mars sl. Þann 28. mars sl. hefði stofnuninni svo borist tölvupóstur frá systur kæranda þar sem fram kæmi m.a. að hann hafi verið greindur með geðhvarfasýki og þyrfti nauðsynlega á læknisaðstoð að halda. Hefði kærandi komið aftur hingað til lands til að fylgja eftir þeirri lyfjameðferð sem hann hefði fengið á Landspítalanum. Hefði systir kæranda farið fram á það við stofnunina að kæranda yrði leyft að snúa til [...] sjálfviljugur og að hann fengi ekki brottvísun eða endurkomubann. Yrði honum brottvísað og gert að sæta endurkomubanni óttaðist fjölskylda hans að hann myndi taka eigið líf og að hann geti ekki sótt sér nauðsynlega aðstoð í Evrópu.

Vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi væri ekki með dvalarleyfi hér á landi og fyrir lægi að hann hefði dvalið lengur en 90 daga á Schengen svæðinu á 180 daga tímabili, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins væri kærandi með geðhvarfasýki og vegna veikinda sinna hefði hann verið lagður inn á Landspítalann þann [...] og verið útskrifaður þaðan [...]. Væri ekkert í gögnum málsins sem benti til þess að kærandi hefði þurft að leita á sjúkrahús vegna veikinda sinna frá því að hann hefði komið til landsins 24. mars sl. eða að hann þyrfti að dvelja áfram hér á landi vegna sjúkdóms síns. Hefði að mati Útlendingastofnunar ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hann glími við andleg veikindi og vísar til meðfylgjandi gagna málsins því til stuðnings. Hafi hann komið til landsins án heimildar til dvalar en hann sé ekki fær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Hann hafi komið til Íslands til að fá læknismeðferð og til að borga sjúkrahúsreikninga. Óskar kærandi eftir því að endurkomubannið hans verði fellt úr gildi, með vísan til andlegra veikinda, þar sem hann þurfi á læknismeðferð að halda í Evrópu. Þá óskar kærandi eftir því að hann fái tímabundna heimild til dvalar hér á landi á meðan hann sé í læknismeðferð.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu ekki heimilt að dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Í 1. mgr. 50. gr. laganna er kveðið á um að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum er heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Í 8. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er nánar fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Þar segir í 1. mgr. 8. gr. að útlendingur, sem þurfi vegabréfsáritun til landgöngu, megi ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknist frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknist dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Kærandi er ríkisborgari [...] og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi. Samkvæmt skýrslu flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum framvísaði kærandi gildu vegabréfi við komu til landsins en í vegabréfinu voru aftur á móti falsaðir stimplar. Af skýrslunni verður ráðið að slá megi því föstu að kærandi hafi komið inn á Schengen-svæðið þann 12. júlí 2018, er hann kom til Þýskalands, en að upplýsingar í vegabréfi hans um síðari ferðir til og frá svæðinu séu falsaðar. Verður því í máli þessu byggt á því að kærandi hafi verið búinn að dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum var heimilt skv. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga og 8. gr. reglugerðar um útlendinga þegar Útlendingastofnun tilkynnti kæranda um fyrirhugaða brottvísun þann 8. janúar sl.

Samkvæmt gögnum málsins yfirgaf kærandi Schengen-svæðið þann 20. febrúar 2019 og var umboðsmanni hans þá tilkynnt af Útlendingastofnun, líkt og fyrr greinir, að hætt hefði verið við brottvísun hans en að málið yrði tekið upp að nýju ef kærandi kæmi aftur til landsins án þess að hafa til þess heimild. Þegar kærandi kom til landsins þann 24. mars sl., hafði kærandi verið á Schengen svæðinu nær samfellt undanfarna 180 daga ef undan er skilið tímabilið frá 20. febrúar til 24. mars sl. Hafði samanlögð dvöl kæranda á Schengen-svæðinu því varað lengur en 90 daga á 180 daga tímabili, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga og 8. gr. reglugerðar um útlendinga. Hafði kærandi því hvorki heimild til landgöngu né áframhaldandi dvalar hér á landi. Samkvæmt þessu er skilyrðum a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga fullnægt til að honum yrði vísað úr landi.

Kemur þá til skoðunar hvort önnur ákvæði laga standa í vegi fyrir brottvísun kæranda.

Í 42. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ekki sé heimilt samkvæmt lögunum að senda útlending til svæðis þar sem hann er í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að engan megi beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sambærilegt ákvæði er í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að ákvörðun ríkis um að flytja veikan einstakling frá ríkinu geti falið í sér brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Slíkt eigi þó eingöngu við þegar um er að ræða sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru afar rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. úrlausn dómstólsins í máli Tatar gegn Sviss (mál nr. 65692/12) frá 14. apríl 2015. Samkvæmt þeirri úrlausn á veikur einstaklingur ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess eins að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu sem aðildarríkið veitir. Dómstóllinn hefur sagt að þjáningar sem eru afleiðingar veikinda, sem koma til af náttúrlegum orsökum, geta fallið undir 3. gr. mannréttindasáttmálans ef veikindin verða þungbærari við tiltekna meðferð, svo sem við frávísun eða brottvísun. Í framkvæmd hefur dómstóllinn einkum talið ákvæðið eiga við í tilvikum einstaklinga sem eru í yfirvofandi hættu að láta lífið. Þó hefur dómstóllinn jafnframt litið svo á að þrátt fyrir að einstaklingur sé ekki í slíkri hættu kunni 3. gr. sáttmálans að eiga við ef hann, vegna skorts á viðeigandi meðferð í viðtökuríki, er í raunverulegri hættu á að verða fyrir alvarlegri, hraðri og óafturkræfri hnignun á heilsufari sem leiðir til afar mikilla þjáningar eða verulegrar skerðingar á lífslíkum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Paposhvili gegn Belgíu (mál nr. 41738/10) frá 13. desember 2016.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi greindur með geðhvarfasýki og verið í virkri maníulotu og geðhvörfum á meðan á dvöl hans hér hefur staðið. Kærandi hefur jafnframt notið heilbrigðisþjónustu hér og fengið meðferð við andlegum veikindum sínum. Gögn málsins benda jafnframt til þess að kærandi hafi nýverið sótt áfengis- og vímuefnameðferð á Spáni.

[...]. Í nýlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um [...] og skýrslu Evrópuráðsins um [...] kemur m.a. fram að samkvæmt [...] heilbrigðislögum eiga íbúar landsins rétt á almennri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum skuli heilbrigðisyfirvöld m.a. kynna og tryggja jafnan rétt allra að heilbrigðisþjónustu. Undir þá þjónustu sem íbúar eigi rétt á falli m.a. geðheilbrigðisþjónusta. Þá séu stjórnvöld í [...] meðvituð um vanda sem til staðar sé í heilbrigðiskerfi landsins og hafi, m.a. með stuðningi Evrópusambandsins, unnið að því síðustu misseri að bæta úr og tryggja betra aðgengi að grundvallarheilbrigðisþjónustu. Af gögnunum má hvorki ráða að í heimaríki kæranda sé skortur á viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu né að rof á meðferð geti leitt til slíkrar hnignunar á heilsufari kæranda að litið verði svo á að sérstök mannúðarsjónarmið séu fyrir hendi í máli kæranda, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því hvorki talið að framangreind ákvæði né 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir brottvísun kæranda.

Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.

Að mati kærunefndar leiða framangreind veikindi kæranda ekki til þess að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum. Að mati nefndarinnar gat kærandi ekki vænst þess að geta sótt sér læknisaðstoð hér á landi án heimildar til dvalar og jafnframt mátti hann vita að brottvísunarmál hans myndi hefjast á nýju ef hann kæmi aftur til landsins án heimildar til dvalar. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi engin tengsl við landið og þá hefur hann aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Er það því mat kærunefndar með hliðsjón af framangreindu að gögn málsins leiði ekki til þess að brottvísun gagnvart kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum, með hliðsjón af tengslum við landið.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til 1-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvelur hann ólöglega í landinu. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár. Þá er ljóst að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi, m.a. á ákvæðum laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga má samkvæmt umsókn fella úr gildi endurkomubann hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

Í greinargerð beinir kærandi því m.a. til kærunefndar að honum verði veitt heimild til dvalar hér á landi á meðan hann nýtur læknismeðferðar. Líkt og fyrr greinir hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann. Þá verður ekki séð að kærandi hafi lagt inn slíka umsókn hjá Útlendingastofnun. Er því ekki tilefni til að fjalla nánar um þessa beiðni kæranda.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                        Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta