Mál nr. 28/2015
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 9. desember 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna úrskurðar barnaverndarnefndarinnar 24. september 2015 um að öðrum en fósturforeldrum drengsins, C, sé óheimilt að fara með drenginn úr landi meðan á vistunartíma hans stendur, nr. 28/2015.
Kveðinn var upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
Með bréfi 22. október 2015 skaut D hrl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 24. september 2015, varðandi ákvörðun sem gildir um tímabundna vistun barnsins C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði var ákveðið að öðrum en fósturforeldrum drengsins sé óheimilt að fara með drenginn úr landi á meðan á vistunartíma hans stendur eða til 27. maí 2016. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:
„Barnaverndarnefnd B ákveður á grundvelli d-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga að öðrum en þeim E og F sé óheimilt að fara með barnið C, úr landi á meðan á vistunartíma hans stendur eða til 27. maí 2016.
Ákvörðun þessi skal sæta endurskoðunar að sex mánuðum liðnum skv. ákvæði 2. mgr. 26. gr. sömu laga.“
Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Af hálfu barnaverndarnefndar B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
I. Málavextir
Kærandi flutti til Íslands frá G með drenginn árið X. Hún á einnig tvö yngri börn með eiginmanni sínum, H, en börnin eru X og X.
Mál C hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd B frá árinu X. Í gögnum málsins kemur fram að lögregla var kölluð út vegna heimilisofbeldis á heimili kæranda seint á því ári. Af því tilefni tilkynnti lögregla barnaverndarnefnd B um aðstæður barna kæranda. Fleiri tilkynningar bárust barnaverndarnefndinni frá lögreglu vegna aðstæðna barnanna á árunum X og X.
Drengurinn er vistaður hjá fósturforeldrum, E og F. Eiginmaður kæranda er samþykkur vistun en kærandi bar úrskurð barnaverndarnefndar B frá 11. júní 2015 um vistun utan heimilis undir Héraðsdóm J. Fallist var á vistun drengsins með úrskurði Héraðsdóms J þann X, sem kærður var til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar þann X barnaverndarnefndinni heimilt að vista drenginn utan heimilis í tíu mánuði frá X að telja, þ.e. frá þeim degi er barnaverndarnefndin kvað upp úrskurð um tímabundna vistun drengsins utan heimilis. Kærandi hefur umgengni við drenginn annan hvern miðvikudag í tvo tíma í senn undir eftirliti.
II. Afstaða kæranda
Í kæru er því haldið fram að málsatvik þau sem lögð séu til grundvallar í hinum kærða úrskurði væru röng og ósönnuð. Sönnunargögnin á bak við fullyrðingarnar virtust nær eingöngu byggjast á staðhæfingum um fullyrðingar ótiltekinna starfsmanna Barnaverndar B. Ljóst sé að slíkt nægi ekki sem grundvöllur íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Til að mynda séu ekki lögð fram nein gögn um meint SMS-skilaboð kæranda sem barnaverndarnefnd B vísi til í tillögum sínum. Þá séu engin gögn sem staðfesti að kærandi hafi orðið missaga um vegabréf drengsins. Jafnvel þótt sannað væri að kærandi hafi virt úrskurði barnaverndarnefndar B að vettugi og neitað að afhenda vegabréf þá liggi ekki einu sinni fyrir að kærandi hafi undir höndum vegabréf drengsins. Allt að einu hafi þessi atriði enga þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segi um ákvæði c-liðar 1. mgr. 26. gr. (nú d-liðar): „Í c-lið kemur fram að barnaverndarnefnd getur ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi. [...] Gert er ráð fyrir að unnt sé að beita þessu eftir að barnaverndarmál er hafið ef barnaverndarnefnd telur að barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Með tilliti til þessa er unnt að beita ákvæðinu meðan á könnun máls stendur, meðan unnið er að gerð áætlunar skv. 23. gr. eða eftir atvikum eftir að ákvarðanir hafa verið teknar um beitingu úrræða. Rétt er að taka fram að fjallað er um fyrirhugaðan flutning barns úr landi í 39. gr. barnalaga nr. 20/1992. Samkvæmt ákvæðinu getur dómstóll eða dómsmálaráðuneyti mælt svo fyrir að ósk annars foreldris að eigi megi fara með barn úr landi meðan forsjármáli hefur eigi verið ráðið til lykta. Er hér almennt um annars konar mál að ræða en gert er ráð fyrir í c-lið 26. gr. frumvarpsins þar sem leggja þarf sérstakt mat á það hvort barni sé hætta búin.“
Af hálfu kæranda er því haldið fram að barnaverndarnefnd B hafi ekki með neinum hætti sýnt fram á að hinn kærði úrskurður hafi verið nauðsynlegur eða að barnið sé í sérstakri hættu án hins kærða úrskurðar. Virðist slíkt mat varla hafa farið fram.
Að mati kæranda hafi hvorki kærandi og enn síður einhver ótiltekinn aðili frá G heimild til þess að nema barnið af landi brott, hvort sem viðkomandi væri með vegabréf drengsins eða ekki. Barnaverndaryfirvöld gætu auðveldlega gert þar til bærum yfirvöldum viðvart ef þau hefðu grun um að tilraun yrði gerð í þá veru á grundvelli núgildandi dóms Hæstaréttar Íslands sem staðfest hafi vistun utan heimilis á grundvelli 28. gr. bvl. Í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum segi um 28. gr. að eðlilegt væri að gera ráð fyrir úrskurði dómara við þær aðstæður sem greinin lýsi enda fæli ákvörðunin í sér að foreldrar séu sviptir rétti til að ráða persónulegum högum barna sinna um lengri tíma.
Að mati kæranda leiði af ofangreindu að ákvæði d-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl. sé ætlað að beita þegar ekki hafi verið ákveðin svo íþyngjandi úrræði eins og vistun utan heimilis á grundvelli 28. gr. laganna.
Þá vilji kærandi árétta, líkt og fram hafi komið á fundi barnaverndarnefndar B um málið, að hún hafi aldrei sagt að hún myndi láta barnið fara úr landi með ólögmætum hætti og hafi einungis ljáð máls á því að hún vilji að drengurinn fái að heimsækja fjölskyldu sína í G, líkt og önnur börn geri sem séu af erlendum uppruna. Allt slíkt hafi verið háð þeirri forsendu að slíkt yrði með leyfi þar til bærra yfirvalda.
Með vísan til ofangreinds hafi ekki verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að taka hina kærðu ákvörðun með hagsmuni barnsins í huga og beri því að fella úrskurðinn úr gildi.
III. Afstaða barnaverndarnefndar B
Í greinargerð barnaverndarnefndar B 29. október 2015 kemur fram að barnarverndarnefndin mótmæli því að hinn kærði úrskurður sé íþyngjandi fyrir kæranda. Drengurinn sé vistaður utan heimilis samkvæmt dómi Hæstaréttar til X. Bann við því að fara með barnið úr landi gildi aðeins á meðan þeirri vistun standi. Á meðan á vistun standi hafi kærandi ekki umsjá drengsins og sé í raun óheimilt að fara með hann úr landi. Hins vegar hafi barnaverndarnefnd B reynslu af því að foreldrar í sömu stöðu og kærandi hafi sent börn sín frá Íslandi til dvalar hjá ættingjum erlendis. Samkvæmt þeim leiðbeiningum sem barnaverndarnefndin hafi fengið frá landamæravörslu og Barnaverndarstofu verði að liggja fyrir úrskurður um „farbann“ svo að tryggt sé að börn sem vistist utan heimilis séu ekki flutt úr landi. Samþykki foreldris eða annars konar samkomulag sé t.a.m. ekki nægjanlegt.
Hér sé því ekki um íþyngjandi ákvörðun að ræða fyrir kæranda heldur varúðarráðstöfun sem barnaverndarnefnd B telji nauðsynlega. Kærandi hafi ítrekað verið staðin að því að gefa ekki réttar upplýsingar og að virða ekki ákvarðanir barnaverndarnefndarinnar, t.d. um umgengni við drenginn.
Barnaverndarnefnd B vísi til þess að öll lagaskilyrði fyrir hinum kærða úrskurði séu uppfyllt. Drengurinn sé vistaður utan heimilis því önnur úrræði hafi ekki borið árangur. Kærandi neiti að skrifa undir meðferðaráætlun eða vera til samstarfs um t.d. að afhenda vegabréf drengsins. Til að tryggja hagsmuni drengsins hafi því verið óhjákvæmilegt að grípa til úrræða án samþykkis kæranda. Öll umgengni við drenginn sé undir eftirliti þar sem kæranda sé ekki treyst til þess að vera einni með honum. Skaði drengsins á að vera fluttur af landi brott í ókunnar aðstæður yrði óbætanlegur. Barnaverndarnefndin telur að raunveruleg hætta sé á því að kærandi reyni að senda drenginn til ættingja í G en eðli málsins samkvæmt upplýsi hún barnaverndarnefndina ekki um slíkar fyrirætlanir. Hún hafi hins vegar nefnt það margoft við félagsráðgjafa hjá Barnavernd B að hún muni senda drenginn til G eða að drengurinn verði sóttur af G kynföður hans. Hún neiti jafnframt að afhenda vegabréf hans og segist ýmist ekki vita hvar vegabréf hans sé eða ásaki stjúpföður um að halda því. Á fundi barnaverndarnefndar B 24. september 2015 hafi hún sagt að vegabréf drengsins væri í G. Ef kærandi myndi fallast á að afhenda barnaverndarnefnd B vegabréf drengsins hefði nefndin ekki ástæðu til að óttast að barnið yrði flutt úr landi og gæti í kjölfarið fellt úrskurð sinn úr gildi. Þangað til sé það krafa barnaverndarnefndarB í máli þessu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar þá ákvörðun Barnaverndarnefndar B, sem tekin var með úrskurði nefndarinnar 24. september 2015, að öðrum en fósturforeldrum C, sonar kæranda, sé óheimilt að fara með drenginn úr landi á meðan vistunartíma hans stendur, sbr. d-lið 1. mgr. 26. gr. bvl., sbr. 14. gr. laga nr. 80/2011. Samkvæmt lagaákvæðinu getur barnaverndarnefnd ákveðið með úrskurði gegn vilja foreldra að ekki megi fara með barn úr landi hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. bvl. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum hafi barnaverndarnefnd komist að því að þau væru ófullnægjandi. Um 26. gr. segir í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til barnaverndarlaga að barnaverndarnefnd geti ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi. Þá segir þar að gert sé ráð fyrir því að unnt sé að beita þessu eftir að barnaverndarmál er hafið ef barnaverndarnefnd telur að barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Með tilllit til þessa sé unnt að beita ákvæðinu meðan á könnun máls standi, meðan unnið er að gerð áætlunar samkvæmt 23. gr. eða eftir atvikum eftir að ákvarðanir hafi verið teknar um beitingu úrræða. Með d-lið 1. mgr. 26. gr. bvl., sem niðurstaða í hinum kærða úrskurði er reist á, getur barnaverndarnefnd ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi að uppfylltum þeim skilyrðum að önnur úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. barnaverndarlaga, sem eru úrræði sem unnt er að beita með samþykki foreldra, hafa ekki skilað árangri eða eru ófullnægjandi.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að taka hina kærðu ákvörðun um að ekki mætti fara með barnið úr landi. Vísað er enn fremur til þess sem fram kemur í framangreindu frumvarpi til barnaverndarlaga um að barnaverndarnefnd geti ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi en því úrræði sé unnt að beita eftir að barnaverndarmál sé hafið ef barnaverndarnefnd telji að barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Kærandi vísar til þess að barnaverndarnefndin hafi ekki sýnt fram á að barnið sé í sérstakri hættu án hins kærða úrskurðar.
Við mat á því hvort barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti en að barnaverndarnefndin ákveði að ekki megi fara með barnið úr landi telur kærunefndin að líta verði til þeirrar stöðu sem barnið er í. Atvik málsins hafa þýðingu við úrlausn á því á þann hátt sem hér greinir.
Barnið flutti til Íslands frá G með móður sinni þegar það var X ára en faðir barnsins er enn í G samkvæmt því sem ráða má af gögnum málsins. Kærandi var í hjónabandi með íslenskum manni og eignaðist með honum tvö börn eftir að hún kom til landsins en samkvæmt því sem fram hefur komið hafa þau leitað skilnaðar.
Kærandi hefur ekki átt gott samstarf við barnaverndarnefnd B og er barnið nú í tímabundnu fóstri. Með dómi Hæstaréttar X var staðfestur úrskurður Héraðsdóms J frá X um að barnaverndarnefnd B væri heimilt að vista drenginn utan heimilis í tíu mánuði frá 11. júní 2015 að telja. Dómurinn er byggður á því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, til að vista barnið utan heimilis væru fyrir hendi með vísan til þess sem fram komi í úrskurði héraðsdóms um hæfi kæranda, samskipti hennar við barnið og um líðan þess. Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að barnaverndaryfirvöld hafi haft áhyggjur af stöðu drengsins inn á heimili kæranda vegna frásagna hans um ítrekað ofbeldi af hendi kæranda. Drengurinn hafi verið staðfastur í frásögn sinni. Dómurinn taldi frásögnina trúverðuga enda hafi hún fengið stoð í framburði stjúpföður drengsins.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi er mjög ósátt við þau úrræði sem gripið var til þegar drengurinn var vistaður tímabundið utan heimilis eins og að framan er lýst. Hún var einnig ósátt við takmarkaða umgengni sem hún fékk við drenginn og að hún skyldi vera undir eftirliti. Í úrskurði kærunefndarinnar 2. september 2015, sem er meðal gagna málsins og varðar umgengni kæranda við dregninn, kemur fram að kærandi eigi í miklum erfiðleikum með samskipti við drenginn og þá aðila sem hafi á vegum barnaverndarnefndarinnar reynt að aðstoða hana við að bæta úr því. Öryggi barnsins þótti samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðinum ekki nægilega tryggt á heimili kæranda. Við ákvörðun á umgengni kæranda við drenginn og framkvæmd umgengninnar þótti af hálfu kærunefndarinnar nauðsynlegt að hafa hliðsjón af því hve mikilvægt var að tryggja drengnum umönnun og stöðugleika svo og meðferð við þeim áföllum sem hann hafði orðið fyrir á lífsleiðinni. Nauðsynlegt þótti að umgengni kæranda við drenginn færi fram undir eftirliti til að tryggja öryggi hans og til að markmiðum með hinni tímabundnu vistun yrði náð.
Með vísan til alls þessa ber að hafna þeirri röksemd kæranda að ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að taka hina kærðu ákvörðun. Af atvikum málsins, eins og þau liggja fyrir í gögnum þess og hér að framan er rakið, þykir ljóst að hagsmunir drengsins eru ótvírætt þeir að honum verði tryggt öryggi og stöðugleiki í þeim aðstæðum sem hann býr nú við. Þá verður að hafna þeirri röksemd kæranda að hér skipti máli að hún eða einhver ótiltekinn aðili frá G hafi ekki heimild til að fara með barnið úr landi enda ráði hún ekki persónulegum högum barnsins á meðan það er samkvæmt dómi Hæstaréttar í tímabundinni vistun utan heimilis. Kærunefndin telur að hér verði að líta til þess að heimildir stjórnvalda til að hamla einstaklingum för úr landi verði að vera ótvíræðar. Með d-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, sbr. 14. gr. laga nr. 80/2011, hefur barnaverndarnefnd verið veitt heimild til að banna að farið verði með barn úr landi að uppfylltum þeim skilyrðum sem að framan greinir. Kærunefndin telur að ráða megi af framangreindu að barnið geti verið í hættu og að hagsmunir þess verði ekki tryggðir með öðrum hætti en þeim að barnaverndarnefndin ákveði að ekki megi fara með barnið úr landi. Að þessu virtu verður ekki fallist á það sjónarmið kæranda að hugleiðingar um það hvort kærandi, eða aðrir aðilar en fósturforeldrar, geti án hins kærða úrskurðar farið með barnið úr landi skipti máli við úrlausn á þessu.
Þar sem fyrir liggur að uppfyllt eru skilyrði d-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, sbr. 14. gr. laga nr. 80/2011, um að ekki megi aðrir en fósturforeldrar drengsins fara með hann úr landi, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð með þeirri breytingu að vistunartími drengsins stendur samkvæmt dómi Hæstaréttar X í tíu mánuði frá X að telja. Staðfest er sú ákvörðun að endurskoða ber að sex mánuðum liðnum frá X að telja framangreint bann samkvæmt 2. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga.
Úrskurðarorð
Úrskurður barnaverndarnefndar B frá 24. september 2015 þess efnis að öðrum en fósturforeldrum drengsins sé óheimilt að fara með drenginn C, úr landi á meðan á vistunartíma hans stendur eða til X, er staðfestur en endurskoða ber ákvörðunina að sex mánuðum liðnum frá X að telja.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Guðfinna Eydal
Jón R. Kristinsson