Mál nr. 31/2015
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 30. desember 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna ákvörðunar um að synja kröfu kæranda um að aflétta nafnleynd vegna tilkynninga varðandi kæranda og óviðunandi aðstæður barna hennar, C og D, nr. 31/2015.
Kveðinn var upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
Með bréfi 28. október 2015 skaut E hdl., fyrir hönd A, ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 5. október 2015, þar sem hafnað var að aflétta nafnleynd í tilefni af tilkynningum sem bárust barnaverndarnefndinni varðandi kæranda og óviðunandi aðstæður barna hennar, C, og D, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var kröfu kæranda um að aflétt yrði nafnleynd vegna tilkynninga sem bárust barnaverndarnefnd B hafnað. Í hinni kærðu ákvörðun kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:
„Barnaverndarnefnd B býr ekki yfir neinum upplýsingum eða gögnum sem gefa til kynna að tilkynnendur….hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningum við nefndina. Þar sem engar sérstakar ástæður aðrar mæla með því er það ákvörðun barnaverndarnefndar B, með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, að aflétta ekki nafnleynd í þessu tilviki.“
Kærandi krefst þess, eftir því sem ráðið verður af kæru, að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi þar sem um rangan áburð og ósannindi sé að ræða sem valdið hafi kæranda og fjölskyldu hennar mikilli vanlíðan og óþægindum. Starfsmenn Barnaverndar B hafi undir höndum rangar upplýsingar og sé mikilvægt fyrir alla aðila málsins að upplýsa hver standi að baki tilkynningunum.
Af hálfu barnaverndarnefndar B er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
I. Málavextir
Mál kæranda og dætra hennar kom fyrst til kasta barnaverndarnefndar B 5. október 2011 þegar tilkynning barst frá föður stúlknanna um að tíð „fíkniefnapartý“ væru á heimili kæranda og færu systurnar því mikið í pössun hjá öðrum. Á heimilinu bjó einnig kærasti kæranda, F.
Aftur var tilkynnt til barnaverndarnefndar B 27. apríl 2012. Tilkynnt var undir nafnleynd og vildi tilkynnandi koma því á framfæri að dætur kæranda kæmu oft að læstum dyrum heima hjá sér og þyrftu að bíða fyrir utan eftir því að kærandi vaknaði eða að hún kæmi heim. Þá kom fram að mikið væri um samkvæmishald á heimilinu og ónæði af þeim sökum þar sem samkvæmin stæðu stundum heila helgi.
Þriðja tilkynning um aðstæður systranna barst barnaverndarnefnd B 28. maí 2013. Tilkynnandi kvaðst hafa séð tæki og tól til fíkniefnaneyslu á heimili kæranda og einnig hafi hann séð hana undir áhrifum að degi til í miðri viku. Í kjölfarið óskuðu starfsmenn barnaverndarnefndar B eftir því að kærandi undirgengist fíkniefnappróf en hún neitaði því. Samkvæmt því, sem kemur fram í hinum kærða úrskurði, kom í ljós við könnun málsins að kærandi virtist eiga erfitt með að vakna á morgnana og sinna dætrum sínum og einnig að aðstoða þær við námið og að systurnar hefðu verið hjá móðurforeldrum sínum meira og minna í tvö til þrjú ár. Umsagnir skóla gáfu m.a. til kynna að heimanámi væri ekki sinnt sem skyldi, oft vantaði bækur og gögn og erfitt væri að ná í kæranda.
Í ágústlok 2013 bárust barnaverndarnefnd B tvær tilkynningar um „skuggalegan félagsskap“ sem kærandi væri í, mikið samkvæmislíf á heimili hennar og almenna vanrækslu á dætrunum þegar þær væru hjá henni og að hún væri annars hugar og utangátta þegar rætt væri við hana.
Úrskurður var kveðinn upp í máli systranna 26. nóvember 2013 um að þær skyldu vistaðar utan heimilis kæranda í tvo mánuði á meðan gengið yrði úr skugga um hvort grunur um fíkniefnaneyslu kæranda væri á rökum reistur og á meðan niðurstaða lægi ekki fyrir í máli sambýlismanns kæranda hjá Ríkissaksóknara sem varðaði ásakanir sem bornar voru á hann um kynferðisbrot gegn barni. Tveimur mánuðum eftir að úrskurður var kveðinn upp náðist samkomulag um vinnslu málsins milli kæranda og barnaverndarnefndar B og fóru systurnar aftur á heimili kæranda. Var þá gerð meðferðaráætlun til þriggja mánaða þar sem m.a. var kveðið á um óboðað eftirlit á heimili fjölskyldunnar, tilsjón og að móðir gengist undir fíkniefnapróf þegar þess yrði óskað. Að þessum tíma loknum þótti ástæða til að fylgjast með heimilinu áfram og var fyrirhugað að gera meðferðaráætlun til sex mánaða til viðbótar og meta aðstæður að því loknu, en kærandi neitaði að samþykkja þá áætlun. Einungis náðist samkomulag um að systurnar yrðu áfram í listmeðferð og var gerð meðferðaráætlun þar um til fjögurra mánaða.
Tilkynning barst til barnaverndarnefndar B í janúar 2015 þar sem fram kom að A væri sofandi til klukkan 16-17 á daginn og á meðan væru systurnar úti með skólatöskurnar á bakinu, D væri vannærð og systurnar gengju báðar sjálfala. Samkvæmt upplýsingum frá skóla systranna í febrúar 2015 voru þær oft tilkynntar veikar og hafði dregið úr heimanámsskilum frá því fyrr um veturinn. Fram kom að starfsfólk hefði áhyggjur af aðbúnaði systranna.
Önnur tilkynning barst barnaverndarnefnd B 19. júní 2015 frá starfsmanni heimaþjónustu B sem kom á heimili kæranda að morgni til. Sagði tilkynnandi að aðstæður á heimilinu hefðu verið mjög slæmar, dýr laus í íbúðinni og skítur eftir þau á gólfinu. Sambýlismaður kæranda hefði verið í annarlegu ástandi. Fram kom að kannabislykt hefði verið í loftinu og hefði lyktin aukist þegar sambýlisfólkið hefði farið afsíðis inn í svefnherbergi og lokað að sér.
Starfsmenn barnaverndarnefndar B fóru á heimilið um hádegisbilið sama dag. Lögregla var kölluð á staðinn. Samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins hafi sterk kannabislykt verið í svefnherbergi kæranda og sambýlismanns hennar og daufari lykt hafi verið annars staðar í íbúðinni. Á heimilinu fundust reyktar „jónur“ og dós með kannabisefnum sem sambýlismaður kæranda kvaðst eiga. Óskað var eftir því að þau færu í fíkniefnapróf á Heilsugæslunni G en þau neituðu því bæði.
Í viðtali við starfsmenn barnaverndarnefndar B 2. júlí 2015 sagði kærandi að hún og sambýlismaður hennar byggju ekki lengur saman en væru góðir vinir og „bólfélagar“. Við þetta tækifæri neitaði kærandi að undirrita meðferðaráætlun þar sem tiltekið var að óboðað eftirlit skyldi vera með heimilinu, tilsjón og eiturefnaprufur. Á meðferðarfundi Barnaverndar B 3. júlí 2015 var samþykkt að leggja málið fyrir barnaverndarnefnd B með tillögum um að kærandi undirgengist blóðprufur við upphaf og lok meðferðaráætlunar, þvagprufur þegar þess væri óskað ásamt óboðuðu eftirliti og aukinni heimaþjónustu. Stafsmaður barnaverndarnefndarinnar ræddi við kæranda 18. ágúst 2015 en fram kemur að hún hefði sagt að hún ætlaði sér ekki að undirrita meðferðaráætlun.
Tilkynning undir nafnleynd barst barnaverndarnefnd B 20. ágúst 2015 þar sem kom fram að sambýlismaður kæranda hefði hótað fólki í hverfinu líkamsmeiðingum og að allir væru hræddir við hann. Grunaði tilkynnanda sterklega að þau sambýlisfólkið væru í neyslu fíkniefna.
Með tölvupósti til barnaverndarnefndarinnar 3. september 2015 krafðist kærandi þess að nafnleynd yrði aflétt af tilkynningum í máli kæranda og dætra hennar.
Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 15. september 2015. Kærandi mætti á fundinn ásamt lögmanni sínum. Lögmaðurinn ítrekaði kröfu kæranda um að nafnleynd yrði aflétt. Því var hafnað á fundinum en lögmanninum tilkynnt að skrifleg ákvörðun yrði tekin um það.
Með úrskurði 29. september 2015 ákvað barnaverndarnefnd B að óboðað eftirlit skyldi haft með heimili kæranda í sex mánuði. Kærandi skaut úrskurðinum til kærunefndar barnaverndarmála og er málið þar enn til meðferðar en úrskurður væntanlegur síðar á sama fundi kærunefndarinnar.
Með tölvupósti 5. október 2015 var kæranda tilkynnt um ákvörðun barnaverndarnefndar þess efnis að aflétta ekki nafnleynd þar sem engar upplýsingar eða gögn gæfu til kynna að tilkynnendur í máli kæranda hefðu vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningum við nefndina. Engar sérstakar ástæður aðrar mæltu heldur ekki með því að nafnleynd yrði aflétt.
II. Afstaða kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi telji tilkynningar um slæman aðbúnað og vanrækslu barnanna eigi ekki við nein rök að styðjast. Um sé að ræða rangar ásakanir og ósannindi, sem valdið hafi kæranda og fjölskyldu hennar mikilli vanlíðan og óþægindum. Starfsmenn Barnaverndar B hafi undir höndum rangar upplýsingar og sé mikilvægt fyrir alla aðila málsins að upplýsa hver standi þar að baki.
III. Afstaða barnaverndarnefndar B
Í greinargerð barnaverndarnefndar B 17. nóvember 2015 kemur fram að kærandi eigi tvær dætur sem búi hjá henni en hún hafi forsjá þeirra ásamt föður þeirra sem búsettur sé erlendis. Á heimili kæranda hafi til skamms tíma einnig búið sambýlismaður/kærasti kæranda. Frá því í október 2011 hafi borist til barnaverndarnefndarinnar þrettán tilkynningar vegna aðbúðnaðar dætra kæranda á heimili hennar og hafi átta þeirra verið gefnar undir nafnleynd. Tilkynningarnar varði grun um ýmiss konar vanrækslu, systurnar séu lokaðar úti og komist ekki inn til sín, kærandi og sambýlismaður hennar sofi fram eftir morgnum og þær mæti því seint og illa í skóla, heimanámi sé ekki sinnt, sóðaskapur sé á heimilinu og grunur um vímuefnaneyslu kæranda og sambýlismannsins. Niðurstaða barnaverndarnefndar B eftir könnun á aðstæðum hafi í öllum tilvikum verið sú að ástæða væri til afskipta og hafi ýmsum stuðningsúrræðum verið beitt og gerðar meðferðaráætlanir í málunum. Meðal annars hafi verið kveðið á um tilsjón á heimili kæranda, óboðað eftirlit, heimaþjónustu, sálfræðimeðferð fyrir kæranda, listmeðferð fyrir systurnar, fíkniefnaprufur og fleira. Þá hafi dætur kæranda verið vistaðar tímabundið utan heimlis. Nýlega hafi barnaverndarnefndin kveðið upp úrskurð um óboðað eftirlit með heimilinu þar sem grunur væri um vímuefnaneyslu kæranda og sambýlismanns hennar.
Lögmaður kæranda hafi sent barnaverndarnefnd B tölvupóst 3. september 2015 þar sem þess hafi verið krafist að aflétt yrði nafnleynd af þeim tilkynningum sem borist hafi í málinu í gegnum árin. Lögmaðurinn hafi ítrekað kröfu sína á fundi barnaverndarnefndarinnar 15. september 2015. Á þeim fundi hafi komið fram að nefndin myndi ekki fallast á að aflétta nafnleynd og hafi kröfunni verið svarað fyrir hönd nefndarinnar með bréfi lögmanns hennar í samræmi við 22. gr. reglna um könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar B sem samþykktar hafi verið af barnaverndarnefndinni 10. júní 2014. Í 22. gr. segir að lögfræðingur barnaverndarnefndar skuli afgreiða beiðni aðila um aðgang að gögnum og beiðni um að nafnleynd sé aflétt af tilkynnanda barnaverndarmáls. Ákvörðun um að aflétta nafnleynd skuli borin undir barnaverndarnefnd.
Barnaverndarnefndin vísar til þess að öllum sé skylt samkvæmt 1. mgr. 16. gr. bvl. að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. geti tilkynnandi óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni og skuli það virt, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þá segi í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 að ef barnaverndarnefnd hafi rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni.
Kærandi haldi því fram að málið byggist á röngum upplýsingum, tilkynningar eigi ekki við nein rök að styðjast og að um rangan áburð og ósannindi sé ræða sem hafi valdið henni og fjölskyldu hennar mikilli vanlíðan og óþægindum. Mikilvægt sé því fyrir alla aðila máls að upplýst verði hver standi þar að baki.
Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur jafnframt fram að í átta tilvikum af þrettán hafi tilkynnendur óskað nafnleyndar og hafi tilkynningar frá þeim verið mjög á sama veg og tilkynningar frá hinum sem ekki hafi óskað nafnleyndar. Tilkynnendur kunni að hafa ýmsar ástæður fyrir því að óska nafnleyndar, svo sem að þeir óttist viðbrögð kæranda og sambýlismanns hennar, og mikilvægt sé að slík sjónarmið séu virt svo að barnaverndarnefnd berist allar upplýsingar um hagi barna sem nauðsynlegar séu til að árangur náist í barnaverndarstarfi. Barnaverndarstarfsmenn hafi talið ástæðu til aðgerða eftir að efni tilkynninganna hafði verið kannað og sé mál barna kæranda enn í vinnslu hjá barnaverndarnefnd B. Sumarið 2015 hafi lögregla farið inn á heimili kæranda þar sem greinileg merki hafi verið um kannabisneyslu auk þess sem umsagnir frá skóla systranna hafi verið á þá leið að ástæða hafi þótt til að hafa áhyggjur af aðbúnaði þeirra. Þannig geti barnaverndarnefnd B ekki fallist á að neitt hafi komið fram sem bendi til að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi upplýsingum. Barnaverndarnefndin telji ekki neinar sérstakar ástæður mæla gegn því að virða nafnleynd tilkynnenda.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun barnaverndarnefndar B þess efnis að hafna kröfu kæranda um að barnaverndarnefndin aflétti nafnleynd í tilefni af tilkynningum sem hefðu borist nefndinni í gegnum árin varðandi kæranda og aðbúnað dætra hennar.
Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. barnaverndarlaga. Reglurnar tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða. Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Þar segir enn fremur að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.
Með vísan til þess sem fram hefur komið í málinu og hér að framan er rakið varðandi aðstæður og aðbúnað barnanna verður ekki fallist á þær staðhæfingar kæranda að umræddar tilkynningar hafi verið tilhæfulausar, að þær eigi ekki við nein rök að styðjast eða að þar sé um rangar ásakanir eða ósannindi að ræða. Verður nafnleynd þar af leiðandi ekki aflétt með vísan til þess að komið hafi verið á framfæri villandi eða röngum tilkynningum til barnaverndarnefndarinnar. Þá liggur heldur ekki fyrir í málinu að aðrar sérstakar ástæður séu fyrir því að aflétta beri nafnleyndinni. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 5. október 2015 um að synja kröfu kæranda, A, um að aflétta nafnleynd af tilkynningum varðandi kæranda og aðbúnað barna hennar, er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Guðfinna Eydal
Jón R. Kristinsson