Mál nr. 26/2013.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 29. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 26/2013.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. febrúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 4. febrúar 2013, fjallað um rétt hans til atvinnuleysisbóta. Tekin hafi verið sú ákvörðun að stöðva greiðslur til hans á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði g-liðar ákvæðisins þess efnis að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teldist vera í virkri atvinnuleit, þar sem kærandi hefði hafið rekstur. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september til 31. desember 2012 að fjárhæð 676.138 kr. með 15% álagi sem yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 21. febrúar, mótt. 22. febrúar 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta 9. mars 2012. Áður hafði kærandi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta 4. mars og 10. nóvember 2010.
Í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar við kæranda er skráð 18. júlí 2012 að kærandi væri að setja á fót líkamsræktarstöð og hann ætli að senda inn umsókn um þátttöku í úrræðinu „eigið frumkvöðlastarf“ til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þegar kærandi mætti í viðtal hjá starfsmanni Vinnumálastofnunar 21. september 2012 hafi komið í ljós að umsókn hans um þátttöku í úrræðinu hafði ekki verið skráð í kerfi Vinnumálastofnunar. Þá hafi kæranda verið gert ljóst í viðtali hjá starfsmanni stofnunarinnar 26. nóvember 2012 að umsókn hans um þátttöku í úrræðinu „eigið frumkvöðlastarf“ lægi ekki fyrir.
Kæranda var tilkynnt 13. desember 2012 að samkvæmt upplýsingum frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði kærandi ekki fullklárað umsókn sína og var honum leiðbeint um að klára umsókn sína og senda stofnuninni staðfestingu þess efnis í kjölfarið. Kæranda hafi einnig verið gerð grein fyrir að ekki væri heimilt að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða atvinnurekstri nema samþykkt umsókn hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands lægi fyrir. Kærandi greindi Vinnumálastofnun frá því 14. desember 2012 að lokað hefði verið fyrir umsóknir hjá Nýsköpunarmiðstöðinni til 20. janúar 2013.
Með bréfi, dags. 7. febrúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda um hina kærðu ákvörðun frá 4. sama mánaðar.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, mótt. 22. febrúar 2013, að hann hafi verið í fullri samvinnu við starfsfólk Vinnumálastofnunar. Kærandi kveðst hafa sótt um nýsköpunarstyrk til Impru til að fá að halda atvinnuleysisbótum í tvisvar sinnum þrjá mánuði með vitneskju Vinnumálastofnunar á Austurlandi. Kærandi greinir frá því að hann hafi verið kallaður á fund hjá tilgreindum starfsmanni Vinnumálastofnunar á Akureyri. Á fundinum hafi verið farið yfir málið og starfsmaðurinn hafi ætlað að athuga hvar umsókn kæranda væri stödd í kerfinu þar sem kærandi hafði ekki fengið nein svör. Starfsmaðurinn sem hafði lofað að hafa samband við kæranda á næstu dögum hafi ekki haft samband. Í desember 2012 hafi kærandi verið boðaður í viðtal til annars starfsmanns. Sá starfsmaður hafi greint kæranda frá því að kærandi hefði ekki klárað umsóknina að fullu. Þetta hafi komið kæranda á óvart þar sem hann taldi að hann hefði verið búinn að ganga frá öllu. Kærandi hafi í kjölfarið verið beðinn um að hafa samband við Impru og ganga frá þessu en þegar hann hafi ætlað að gera það hafi honum verið greint frá því að búið væri að loka fyrir umsóknir til 20. janúar 2013. Kærandi kveðst hafa greint Vinnumálastofnun frá því og í kjölfarið hafi honum verið send hin kærða ákvörðun. Einnig hafi hann fengið upplýsingar um að einhver hefði sagt Vinnumálastofnun frá því að hann væri með rekstur.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. maí 2013, kemur fram að málið lúti að því hvort kærandi hafi verið í virki atvinnuleit skv. a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á meðan hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gerð grein fyrir almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Virk atvinnuleit sé eitt af þeim skilyrðum sem atvinnuleitandi þarf að uppfylla til að geta talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skv. a-lið 1. mgr. 13. gr. þeirra. Nánar sé kveðið á um það í a‒h-liðum 1. mgr. 14. gr. hvað teljist virk atvinnuleit. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé fær til flestra almennra starfa. Jafnframt sé kveðið á um það í h-lið 14. gr. laganna að atvinnuleitandi þurfi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða. Með undirritun á staðfestingu á rafrænni umsókn samþykki atvinnuleitendur, þeirra á meðal kærandi, að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem þeim býðst þann tíma sem atvinnuleysi varir.
Vinnumálastofnun bendir á að vinnumarkaðsúrræði séu starfrækt á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, og skv. 12. gr. laganna annist Vinnumálastofnun skipulag þeirra. Á grundvelli 3. mgr. 12. gr. hafi verið sett reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar sé Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins um að hann vinni allt að sex mánuði að þróun eigin viðskiptahugmyndar með það að markmiði að koma hugmyndinni í framkvæmd. Vinnumálastofnun hafi gert samkomulag við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um starfstarfsverkefnið „eigið frumkvöðlastarf“ með það að markmiði að skapa störf fyrir fólk í atvinnuleit með fræðslu og handleiðslu við eigið frumkvöðlastarf. Slíkt vinnumarkaðsúrræði falli undir b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði.
Vinnumálastofnun bendir á að í máli þessu hafi kæranda verið bent á að sækja um þátttöku í úrræðinu „eigið frumkvöðlastarf“ enda sé slíkt úrræði í boði fyrir atvinnuleitendur sem hafi viðskiptahugmyndir sem þeir vilja koma í framkvæmd. Kærandi hafi lýst því yfir við stofnunina að hann hafi sótt um þátttöku í úrræðinu en þegar stofnunin tók hina kærðu ákvörðun hafði kærandi ekki enn skilað inn umsókn um úrræðið með fullnægjandi hætti. Til að atvinnuleitandi teljist í virkri atvinnuleit þurfi hann meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða, sbr. h-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun upplýsir að það liggi fyrir að vegna mistaka stofnunarinnar hafi kæranda ekki verið gefinn kostur á að skila inn skýringum á rekstri sínum samhliða töku atvinnuleysisbóta án þess að vera með samþykkta umsókn um þátttöku í úrræðinu „eigið frumkvöðlastarf“ hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands áður en hin kærða ákvörðun frá 4. febrúar 2013 hafi verið tekin. Vinnumálastofnun greinir frá því að með þessu hafi stofnunin brotið andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, í máli kæranda en það sé jafnframt mat stofnunarinnar að það hafi ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu sé litið til skýringa er kærandi færi fram í rökstuðningi í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar. Það er jafnframt mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda sem komi fram í kæru hans til nefndarinnar séu ekki þess eðlis að þær geti haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. Vinnumálastofnun vekur athygli á að það sé alfarið á ábyrgð atvinnuleitenda að sjá til þess að umsóknir um þátttöku í úrræðinu „eigið frumkvöðlastarf“ skili sér með fullnægjandi hætti til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki gert reka að því að klára umsókn sína fyrr en 14. desember 2012 þrátt fyrir að honum hafi verið fyrst kunnugt um það í september sama ár að umsókn hans hafi ekki skilað sér. Þá bendir Vinnumálastofnun á að á heimasíðu stofnunarinnar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar á því hvernig umsóknarferlið fer fram. Kæranda hafi mátt vera ljóst að töluverð vinna liggi af hálfu atvinnuleitanda í umsókn og þátttöku í úrræðinu „eigið frumkvöðlastarf“.
Vinnumálastofnun greinir frá því að sökum þess að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 12. september til 31. desember 2012 sé honum gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Þessu til stuðnings bendir Vinnumálastofnun á úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010 og 21/2011.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.
2.
Niðurstaða
Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi Vinnumálastofnunar 4. febrúar 2013. Kæranda var ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðunin var tekin og var því brotið á andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem fram kemur að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
Vinnumálastofnun bar einnig að rannsaka hvort kærandi teldist í virkri atvinnuleit og gefa kæranda kost á að tjá sig um það álitaefni hvort hann, þrátt fyrir rekstur líkamsræktarstöðvarinnar, teldist í virkri atvinnuleit og var því einnig brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, í máli hans. Úr þessum annmörkum á málsmeðferð Vinnumálastofnunar er ekki hægt að bæta fyrir úrskurðarnefndinni og verður því hið lægra setta stjórnvald að taka málið til meðferðar á ný. Hin kærða ákvörðun verður því ómerkt og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun í máli a er ómerkt og er málinu vísað til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar Vinnumálastofnunar.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson