Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 29. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 27/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. desember 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A að stofnunin hefði á fundi sínum 7. desember 2012 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Tekin hafi verið sú ákvörðun að hafna umsókninni þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nái ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 26. febrúar 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 23. júlí 2012. Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð, dags. 24. júlí 2012, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekki getað sinnt starfi utan heimilis vegna alvarlegra veikinda hjá sonum hennar. Einnig fylgdi greinargerð, dags. 22. júlí 2007, þar sem kærandi gerir grein fyrir því að hún hafi verið frá vinnu síðastliðin ár eða frá haustmánuðum 2006, þar sem alvarleg veikindi barna hennar hafi hindrað það að hún hafi getað sótt vinnu.

 

Í gögnum málsins kemur fram að á tímabilinu 1. október 2006 til 30. september 2007 þáði kærandi greiðslur sjúkradagpeninga frá styrktarsjóði Bandalags háskólamanna vegna eigin veikinda. Á tímabilinu 1. október 2007 til 14. apríl 2008 og frá 1. apríl 2009 til 31. ágúst 2009 var kærandi í fæðingarorlofi.

 

 


 

Vinnumálastofnun tók ákvörðun á fundi 17. ágúst 2012 um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum næði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 21. ágúst 2012.

 

Kærandi óskaði eftir því í bréfi, dags. 26. september 2012, að umsókn hennar yrði flokkuð undir geymdan bótarétt vegna veikinda. Vinnumálastofnun barst vinnuveitendavottorð frá B þar sem fram kom að kærandi hafi síðast verið við störf á tímabilinu 1. ágúst 2005 til 30. september 2006. Þá barst Vinnumálastofnun læknisvottorð, dags. 24. júlí 2012, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekki getað sinnt starfi utan heimilis frá hausti 2006 vegna alvarlegra veikinda hjá sonum hennar en drengirnir séu heilir heilsu í dag. Jafnframt barst Vinnumálastofnun 1. október 2012 staðfesting frá styrktarsjóði Bandalags háskólamanna, dags. 30. ágúst 2012, um að kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga vegna eigin veikinda á tímabilinu 1. október 2006 til 30. september 2007. Enn fremur barst Vinnumálastofnun 4. október 2012 staðfesting á greiðslum til kæranda.

 

Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 2. október 2012, þar sem henni var tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hennar hafi verið frestað. Jafnframt var óskað eftir skriflegum skýringum og gögnum ef hún teldi að niðurstaða stofnunarinnar um að vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar nái ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, væri ekki í samræmi við vinnu hennar á ávinnslutímabilinu. Ekki bárust frekari gögn frá kæranda. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 30. október 2012, að Vinnumálastofnun hefði hafnað umsókn hennar um atvinnuleysisbætur þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum næði ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun barst erindi frá kæranda 27. nóvember 2012 þar sem hún óskaði eftir endurupptöku á máli sínu með vísan til reglna um geymdan bótarétt. Meðfylgjandi var læknisvottorð, dags. 24. júlí 2012. Mál kæranda var tekið upp að nýju hjá Vinnumálastofnun og með bréfi, dags. 16. desember 2012, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 26. febrúar 2013, að Vinnumálastofnun hafi í raun ekki svarað beiðni hennar um geymdan bótarétt. Þá bendir kærandi á að foreldrum sé skylt samkvæmt lögum að sjá um velferð barna sinna og umsjá veikra barna falli þar undir. Kærandi greinir frá því að þjónustufulltrúi Vinnumálastofnunar telji að veikindi barna falli undir geymdan bótarétt og því eigi kærandi geymdan bótarétt þrátt fyrir að hún hafi ekki verið frá vinnu í nokkur ár vegna veikinda barna.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 10. júní 2013, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Það sé markmið atvinnuleysistrygginga að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

 

Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum launamanna en launamenn í skilningi laganna séu þeir sem unnið hafa launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt hafa tryggingagjald vegna starfsins, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um það skilyrði að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að með hugtakinu ávinnslutímabil sé átt við þann tíma sem launamaður þarf að vera virkur á vinnumarkaði til að teljast vera að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt nánar fyrir um ávinnslutímabil og segi þar að launamaður teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum. Af fyrirliggjandi gögnum í málinu megi ráða að kærandi hafi verið síðast við störf 30. september 2006 og þar af leiðandi geti hún ekki talist tryggð skv. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Stofnunin bendir á að til skoðunar komi hvort þau tilvik, sem mælt sé fyrir um í V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sem leiði til þess að atvinnuleysistryggingar geymist ef þátttöku á vinnumarkaði sé hætt tímabundið, nái til kæranda. Bent er á að í 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hverfi af vinnumarkaði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er störfum var sannanlega hætt. Þá bendir stofnunin á 3. og 4. mgr. 23. gr. laganna um útreikning á ávinnslutímabili þegar komi til geymdrar atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að meginreglan sé sú að einstaklingur sem hverfi af vinnumarkaði í allt að 24 mánuði og sækir síðan um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig geti upphaf ávinnslutímabilsins verið að hámarki 36 mánuðir aftur í tímann frá þeim degi er umsókn barst enda hafi umsækjandi ekki verið virkur á vinnumarkaði á síðustu 24 mánuðum. Hafi hann ekki sótt um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim tíma er hann sannanlega hætti þátttöku á vinnumarkaði falli réttur hans til geymdrar atvinnuleysistrygginga niður.

 

Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að kærandi hafi síðast verið í launuðu starfi á innlendum vinnumarkaði 30. september 2006. Kærandi hafi ekki sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta fyrr en með umsókn, dags. 23. júlí 2012, eða u.þ.b. 70 mánuðum eftir að síðasta starfi lauk og falli hún því ekki undir 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hinn tryggði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær. Af orðanna hljóðan leiðir að ákvæðið nær eingöngu til þeirra tilvika þegar hinn tryggði var sjálfur veikur. Því leiði veikindi barna kæranda ekki til þess að ákvæði 26. gr. laganna nái til hennar. Það komi hins vegar til skoðunar hvort veikindi kæranda sjálfs geti fallið undir ákvæðið. Samkvæmt staðfestingu frá styrktarsjóði Bandalags háskólamanna hafi kærandi fengið greidda sjúkradagpeninga fyrir tímabilið 1. október 2006 til 30. september 2007. Þá bendir stofnunin á 2. og 3. mgr. 26. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 23. júlí 2012, og því uppfylli hún ekki skilyrði 3. mgr. 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af framangreindu telur Vinnumálastofnun að kærandi geti ekki talist tryggð samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nái ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnti nefndin kæranda að mál hennar myndi tefjast sökum gríðarlegs mála fjölda hjá nefndinni.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 23. júlí 2012. Samkvæmt vinnuveitandavottorði starfaði kærandi síðast á vinnumarkaði á tímabilinu frá 1. ágúst 2005 til 30. september 2006. Á tímabilinu 1. október 2006 til 30. september 2007 þáði kærandi greiðslur sjúkradagpeninga vegna eigin veikinda. Á tímabilinu 1. apríl 2009 til 31. ágúst 2009 var kærandi í fæðingarorlofi. Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að launamaður telst tryggður ef hann hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laganna. Í 15. gr. laganna er kveðið á um ávinnslutímabil launamanna og er 1. mgr. 15. gr. laganna svohljóðandi:

 

Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.

 


 

Í V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast. Í 1. mgr. 23. gr. laganna segir að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfur af vinnumarkaði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum. Hið sama eigi við þegar sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum tekur ólaunað leyfi frá störfum samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi.

 

Í 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, kemur fram að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á rétti til atvinnuleysisbóta. Þá segir í 24. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi síðast í fæðingarorlofi á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2009 og því geta ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og 24. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar ekki tekið til umsóknar kæranda, dags. 27. júlí 2012.

 

Ákvæði 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem fram kemur að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfi af vinnumarkaði verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær, tekur eingöngu til veikinda atvinnuleitenda sjálfra en ekki veikinda barna þeirra. Í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segir í athugasemdum við 26. gr. að ákvæðið sé efnislega samhljóða 1. mgr. 4. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar en í frumvarpi því er varð að þeim lögum má ráða af athugasemdum með 4. gr. að ákvæðið tengist skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit, þ.e. að atvinnuleitendur séu sjálfir fullfærir til vinnu.

 

Með vísan til framangreinds verður ekki komist hjá því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um greiðslur atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta