Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 47/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 47/2013.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 22. febrúar 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A að hún greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin nam 143.516 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 21.527 kr. eða samtals 165.043 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. maí 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. september 2009 samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Kærandi var skráð í 65% starfshlutfall hjá B á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2009. Á tímabilinu 1. desember 2009 til 26. febrúar 2010 var kærandi skráð í 40% starfshlutfall hjá B.

Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra sem fram fór í júní 2010 kom í ljós að kærandi hafði í marsmánuði 2010 tekjur frá C ehf. að fjárhæð 205.200 kr. Í kjölfarið var kæranda sent bréf, dags. 3. júní 2010, þar sem óskað var eftir upplýsingum um ótilkynntar tekjur. Vinnumálastofnun barst tekjuáætlun kæranda vegna marsmánaðar og skýringarbréf 11. júní 2010.

Á fundi Vinnumálastofnunar 9. júlí 2010 var sú ákvörðun tekin að kæranda skyldi gert að sæta viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þar sem hún upplýsti ekki stofnunina um tekjur sínar hjá C ehf. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 12. júlí 2010. Í bréfinu var kæranda jafnframt leiðbeint um rétt sinn til þess að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því að bréfið bærist henni. Kærufresturinn rann út 12. september 2010 án þess að kærandi nýtti sé kæruheimildina. 

 

Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra sem fór fram í júlí 2010 kom í ljós að kærandi var með tekjur í aprílmánuði frá C ehf. að fjárhæð 224.136 kr. Með bréfi, dags. 6. júlí 2010, var þess óskað að kærandi skilaði inn upplýsingum til stofnunarinnar um ótilkynntar tekjur hennar frá C ehf. Kærandi skilaði engum upplýsingum og á fundi stofnunarinnar 31. júlí 2010 var umsókn hennar synjað.

Með innheimtubréfi til kæranda frá Vinnumálastofnun, dags. 22. febrúar 2013, var kæranda tilkynnt að skuld hennar vegna tímabilsins 1. mars til 31. maí 2010 væri 143.516 kr. án 15% álags sem næmi 21.527 kr., eða samtals að fjárhæð 165.043 kr.  Í bréfinu kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá stofnuninni hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir fyrrgreint tímabil en á þeim tíma hafi hún ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi fengið skráninguna ofgreitt vegna tekna árið 2010. Farið var fram á að skuldin yrði greidd innan 90 daga og bent á að skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ef bréfinu yrði ekki svarað innan 14 daga yrði skuldin send til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Kæranda var jafnframt bent á að skuld hennar væri aðfararhæf skv. 6. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tekið var fram í bréfinu að kæranda væri heimilt að kæra ákvörðunina um innheimtu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir innan þriggja mánaða.  Kærandi hefur nú kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru dags. 21. maí 2013.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að henni finnist það undarleg vinnubrögð af hálfu Vinnumálastofnunar að senda henni innheimtukröfu á skuld þremur árum eftir töku atvinnuleysisbóta en hún hafi hvorki vitað af umræddri skuld né áður verið krafin um greiðslu hennar. Greinir kærandi frá því að ef hún hefði skuldað þessa fjárhæð hefði fyrir löngu verið búið að innheimta hana og hún skuldi ekki þessa fjárhæð.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. júlí 2013, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2010. Stofnunin vísar til ákvæðis 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um frádrátt atvinnuleysisbóta vegna tekna.

Þá bendir stofnunin á að fyrir liggi að kærandi hafi fengið launagreiðslur frá C ehf. í mars og apríl 2010 á sama tíma og hún hafi þegið greiðslu atvinnuleysisbóta. Ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og hún hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á þessum tíma sem námu 143.516 kr. eða 165.043 kr. með 15% álagi.

Í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta þeirra sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi fái ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða ofgreidda fjárhæð.

Máli sínu til stuðnings bendir stofnunin á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010 og 21/2011.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júlí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 18. júlí 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna mikils málafjölda hjá nefndinni.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að innheimtukröfu Vinnumálastofnunar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta til kæranda vegna tímabilsins 1. mars til 31. maí 2010 að fjárhæð 143.516 kr. án 15% álags sem næmi 21.527 kr., eða samtals að fjárhæð 165.043 kr.  Samkvæmt Vinnumálastofnun á skuld kæranda rætur sínar að rekja til þess að hún tilkynnti ekki um tekjur á tímabilinu vegna starfa sinna hjá C ehf. á fyrrgreindu tímabili.

Af gögnum málsins, þ.m.t. samskiptaskrá kæranda við Vinnumálastofnun, verður hvorki séð að mál kæranda vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta hafi verið til meðferðar hjá stofnuninni né að kæranda hafi verið tilkynnt um að slíkt mál hafi verið þar til meðferðar. Brýtur sú málsmeðferð Vinnumálastofnunar í bága við 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi fékk fyrst vitneskju um kröfu Vinnumálstofnunar með innheimtubréfi, dags. 22. febrúar 2013, en af því leiðir að andmælaréttur hennar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, var ekki virtur með fullnægjandi hætti. Þá var kæranda eingöngu gert að sæta biðtíma í tvo mánuði skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistrygginga samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2010 en ekki er í þeirri ákvörðun fjallað um ofgreiddar atvinnuleysisbætur.  Þessir annmarkar eru þess eðlis að úrskurðarnefndin getur ekki lokið málinu með efnislegri niðurstöðu. Hin kærða ákvörðun verður því ómerkt og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir nýju.

 


 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun í máli A, frá 22. febrúar 2013 er ómerkt og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir að nýju.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta