Mál nr. 12/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. maí 2021
í máli nr. 12/2021:
Atendi ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Exton ehf.
Lykilorð
Afturköllun ákvörðunar um val tilboðs. Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar aflétt.
Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna útboðs á uppfestibúnaði fyrir lýsingu og viðburðarbúnað,, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ákvörðunin var reist á því að varnaraðili hefði fallið frá ákvörðun um val á tilboði lægstbjóðanda sem var tilefni kæru. Lá því fyrir að varnaraðili hygðist taka nýja ákvörðun um val tilboðs sem bjóðendum gæfist eftir atvikum færi á að bera undir kærunefnd útboðsmála.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 13. apríl 2021 kærir Atendi ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 15063 auðkennt „Uppfestibúnaður fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila 8. apríl 2021 um að ganga að tilboði Exton ehf. í hinu kærða útboði. Þess er jafnframt krafist að hið kærða útboð verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem komst á með kæru, verði aflétt. Exton ehf. krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu varnaraðila um að stöðvun hins kærða útboðs verði aflétt.
Í janúar 2021 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í uppfestibúnað fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll. Í grein 0.1 í útboðsgögnum kom fram að varnaraðili myndi setja búnaðinn upp en bjóðandi sjá um prófanir og gangsetningu. Þá kom fram að um almennt útboð væri að ræða sem auglýst væri á EES-svæðinu. Í grein 0.8 kom fram að samið yrði við þann aðila sem ætti hagkvæmasta gilda tilboðið á grundvelli lægsta verðs. Í grein 0.1.8 voru gerðar ákveðnar kröfur til fjárhagslegrar stöðu bjóðenda. Kom meðal annars fram að bjóðandi skyldi vera með jákvætt eigið fé og skyldi hann skila með tilboði sínu síðastgerðum ársreikningi, eigi eldri en tveggja ára. Ársreikningurinn skyldi vera endurskoðaður og áritaður af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara um rekstrarhæfi bjóðanda. Þá kom fram að ef bjóðendur fullnægðu ekki kröfum útboðsgagna um hæfi vegna fjárhagsstöðu yrði tilboðum þeirra hafnað. Í grein 2.1.3 í tæknilýsingu útboðsgagna voru gerðar tilteknar kröfur til mótordrifs fyrir svonefnt truss kerfi. Kom meðal annars fram að bjóðandi skyldi útvega mótordrifnar keðjur til hæðarstjórnunar á truss kerfi. Skyldu mótorarnir búnir mjúkræsingu og stoppi til að minnka álag á loftafestingar. Þá skyldu mótordrifin búin samkeyrslubúnaði sem samstilli hæð trussa, jafni álag í keyrslu og sjái til þess að hvert truss sé híft lárétt hverju sinni.
Tilboð voru opnuð 26. febrúar 2021. Samkvæmt skýrslu opnunarfundar bárust tilboð frá sex fyrirtækjum. Tilboð Metatron ehf. var lægst að fjárhæð og tilboð Exton ehf. næstlægst. Tilboð kæranda var næsthæst að fjárhæð. Með tölvubréfi 8. apríl 2021 var bjóðendum tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði Exton ehf. í útboðinu, en fyrirtækið hefði átt lægsta gilda tilboðið í útboðinu.
Á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs varnaraðila 6. maí 2021 var samþykkt erindi umhverfis- og skipulagssviðs um að falla frá fyrri ákvörðun um val á tilboði lægstbjóðanda í hinu kærða útboði. Fundargerð þar sem þetta kemur fram er meðal gagna málsins.
Kærandi byggir að meginstefnu á því að tilboð Exton ehf. fullnægi ekki kröfum útboðsgagna. Útboðsgögn hafi gert þá kröfu til fjárhagsstöðu bjóðenda að eigið fé þeirra væri jákvætt og að þeir skiluðu ársreikningi án fyrirvara um rekstrarhæfi. Í ársreikningi Exton ehf. sé að finna fyrirvara endurskoðanda um rekstrarhæfi félagsins. Þá sé sá búnaður sem Exton ehf. hafi boðið ekki með mjúkræsingu og stýring ekki búin samkeyrslukerfi, auk þess sem samkeyrslubúnaður geti ekki híft lárétt, eins og kröfur útboðsgagna kveði á um. Því hafi varnaraðila verið óheimilt að taka tilboði Exton ehf. í útboðinu.
Varnaraðili byggir á því að við nánari athugun hafi komið í ljós að tilboði Exton ehf. hafi ekki fullnægt kröfum útboðsins og sé það ógilt. Því hafi fyrri ákvörðun um val á tilboði Exton ehf. verið felld niður og hyggist varnaraðili meta tilboð að nýju. Við þessar aðstæður sé heimilt að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar enda séu ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
Exton ehf. byggir að meginstefnu á því að í kæru komi ekki fram haldbær efnis- og lagarök fyrir því að felld verði úr gildi ákvörðun vararaðila að ganga til samninga við fyrirtækið. Þá hafi verið nauðsynlegt að taka upp fyrirvara um rekstrarhæfi fyrirtækisins í ársreikning vegna áhrifa Covid=19 á rekstur þess. Unnið sé að aðgerðum til að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins, meðal annars með aukningu hlutafjár gerist þess þörf. Þá beri að vísa kæranda frá þátttöku í opinberum innkaupum þar sem fyrirtækið fullnægi ekki ákvæðum laga um skráningu raunverulegra eigenda, sbr. einkum lög nr. 140/2018 og nr. 82/2019. Er byggt á því að raunverulegir eigendur hlutafjár kæranda séu aðrir en skráður eigandi þess. Leitist raunverulegir eigendur meðal annars við að koma sér hjá samningsbundinni skyldu gagnvart Exton ehf. um að stofna ekki til samkeppnisrekstrar við félagið og nýta sér ekki atvinnuleyndarmál sem þeir hafi fengið vitneskju um í fyrri störfum sínum fyrir félagið. Af þessu leiði að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að því að fá hrundið samningsgerð varnaraðila við Exton ehf.
Niðurstaða
Kæra í máli þessu var móttekin og kynnt varnaraðila 13. apríl 2021. Kæran beinist að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Exton ehf. sem var kynnt 8. apríl 2021 og barst því á biðtíma samkvæmt 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Kæran hafði því í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup. Í ákvörðun þessari er því til úrlausnar krafa varnaraðila um að stöðvun útboðsins verði aflétt.
Í 1. mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup kemur fram að ef ákvörðun um val tilboðs er kærð innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laganna sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur endanlega leyst úr kærunni. Samkvæmt 2. mgr. getur kærunefnd, hvort heldur er að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð, en við slíka ákvörðun gilda ákvæði 110. gr. eftir því sem við á. Í því felst að einungis á að viðhalda stöðvun hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Tilgangur þessara ákvæða er fyrst og fremst að koma í veg fyrir gerð samnings þegar ákvörðun kaupanda um val tilboðs er ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili hefur fallið frá ákvörðun um val á tilboði Exton ehf. í útboðinu og hyggst í kjölfarið taka nýja ákvörðun um val tilboðs sem bjóðendum gefst eftir atvikum færi á að bera undir kærunefnd útboðsmála. Við þessar aðstæður eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að viðhalda stöðvun hins kærða útboðs og verður stöðvun útboðsins því aflétt eins og nánar greinir í ákvörðunarorðum.
Ákvörðunarorð:
Stöðvun útboðs varnaraðila, Reykjavíkurborgar, nr. 15063 auðkennt „Uppfestibúnaður fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll“ er aflétt.
Reykjavík, 11. maí 2021
Ásgerður Ragnarsdóttir (sign)
Eiríkur Jónsson (sign)
Auður Finnbogadóttir (sign)