Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 3/2009, úrskurður 29. júní 2009

Ár 2009, mánudaginn 29. júní, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 3/2009.

                                                               Vegagerðin

                                                                gegn

                                                                Aðalheiði Auðunsdóttur,

                                                                Hákoni Erni Halldórssyni

                                                                og Ragnari Jóhanni Halldórssyni

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi, dagsettu 6. mars sl., beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin, þess að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi Eyrar og Bjarnastaða í Súðavíkurhreppi.

Eignarnámsþolar eru Aðalheiður Auðunsdóttir, kt. 061141-7319, Hákon Örn Halldórsson, kt. 300945-2879 og Ragnar Jóhann Halldórsson, kt. 020154-5279, þinglýstir eigendur jarðanna Bjarnastaða, landnr. 141563 og Eyrar, landnr. 141567, Súðavíkurhreppi

 

KRÖFUGERÐ

Af hálfu eignarnema er þess nú krafist að metnar verði hæfilegar bætur til eiganda jarðanna Bjarnastaða og Eyrar vegna eignarnáms á 14,07 ha lands í landi Bjarnastaða og 17,98 ha lands í landi Eyrar eða samtals 32.05 ha sem matsbeiðandi hefur tekið undir framkvæmdir við vegagerð í landi jarðanna. Ennfremur er krafist mats á 560 m3 af jarðefni. Loks er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaður hóflegur málskostnaður við hagsmunagæslu miðað við eðli og umfang málsins.

Í matsbeiðni er andlag eignarnáms sagt 14,95 ha úr landi jarðarinnar Bjarnastaða og 22,47 ha úr landi jarðarinnar Eyrar eða samtals 37,42 ha. Eignarnemi kveður að á fyrri stigum málsins hafi láðst að draga frá núverandi vegstæði sem eignarnemi telji til eignarréttar yfir en samkvæmt langvarandi venju og fordæmi dómstóla sé miðað við að eignarnemi eigi sem svari 12 metra breiðu vegsvæði þar sem núverandi vegur liggur. Þá komi fram smávegis frávik í stærð lands sem skilað er.

 

Kröfur eignarnámsþola eru þær að eignarnema, Vegagerðinni, verði gert að greiða matsþolum bætur að fjárhæð  kr. 45.170.080 í tilefni veglagningar um jarðir þeirra.

Jafnframt er þess krafist að eignarnámið taki til landsvæðis sem er 30 metrum frá miðlínu hins nýja vegar með þremur undantekningum:

i.      Milli stöðva 6740 og 6940 frá austari vegarbrún í sjó ca. 0,26 ha. Samkvæmt þessu verður laugarstæði Bjarnastaðalaugar (hnit: 340234, 595955) áfram í eigu matsþola.

ii.     Við Bjarnastaðarétt, stöð 7960 (hnit: 340877, 596813)  verði undanskilin 4 metra breið skák frá réttarveggjum til norðurs, austurs, og suðurs.

iii.    Við naust á eyri norðan Bjarnastaðatúns verði undanskilið svæði er miðast við 10 metra austan við miðlínu vegar og 20 metra kafla til hvorrar handar frá endamiðlínu naustsins.

Þá er þess krafist að eignarnámið taki ekki til þeirra auðlinda sem kunna að finnast undir yfirborði hins eignarnumda. Þá er gerð krafa um að allar sjávarnytjar innan netlaga verði áfram eign matsþola.

Loks er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar skuli fullt verð koma fyrir þegar eignarnám er framkvæmt. Meginreglan sé því sú, að matsbeiðanda sé skylt að bæta matsþola allt það fjárhagslega tjón sem hann verði fyrir. Þannig eigi matsþoli einungis rétt á því að fá bætur fyrir endurgjald eignarnumins verðmætis auk bóta fyrir óhagræði sem eignarnám hafi í för með sér og leiði til fjárhagstjóns. Skuli eignarnámsbætur miðaðar við tjón matsþola, en ekki ávinning matsbeiðanda.

Í íslenskum lögum sé ekki að finna almennar reglur um það, hvernig meta skuli verðmæti eignarnuminna eigna. Af úrlausnum dómstóla og skrifum fræðimanna hafi mótast kenningar þess efnis að þrenns konar sjónarmið geti einkum komið til greina við ákvörðum bóta: Söluverð, notagildi og enduröflunarverð.

Þegar reynt sé að leiða í ljós gangverð/söluverð fasteigna við eignarnám séu nokkur atriði sem öðru fremur beri að hafa í huga. Verðgildi fasteignar sé oft á tíðum bundið við nýtingu þeirra samkvæmt lögum. Opinber skráning á verði fasteigna geti einnig skipt máli við slíkt verðmat. Samkvæmt skrám Fasteignaskrár Íslands sé fasteignarmat jarðarinnar Bjarnastaða 1 og 2 102.000 krónur og jarðarinnar Eyrar 49.000 krónur. Báðar jarðirnar séu skráðar sem eyðijarðir. 

Vísar eignarnemi síðan til 27. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.

Við mat á bótum til landeigenda hafi eignarnemi í máli þessu auk framangreinds horft til viðmiðana sem fram komi í vinnureglum hans, sem gefnar sú út og ætlað sé að samræma vinnubrögð í samningum við landeigendur, sbr. orðsendingu Vegagerðarinnar nr. 2/2009. Tekið skuli fram að á meðan a samningaferlinu stóð hafi orðsending eignarnema nr. 2/2007 verið í gildi en nú hafi hin nýja orðsending tekið gildi og beri að fara eftir henni. Við gerð vinnureglna hafi eignarnemi aflað sér upplýsinga um þá þætti sem notaðir séu til viðmiðunar við mat lands hjá Fasteignamati ríkisins og lagt þær að nokkru leyti til grundvallar við gerð vinnureglnanna. Enn fremur hafi verið miðað við að færa til nútíma þær viðmiðanir sem eignarnemi styðjist við, m.a. þannig að fjölþættari not lands komi til skoðunar við ákvörðun bóta hverju sinni en gert hafi verið samkvæmt eldri orðsendingu um landbætur. T.d. sé sérstaklega tekið fram að horfa eigi til þess við mat á bótum ef land sem um ræðir telst ákjósanlegt til bygginga vegna staðsetningar og landgæða.

Í vinnureglum eignarnema sé byggt á þeirri almennu reglu að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni. Liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnt er að byggja á til ákvörðunar á ætluðu söluverði viðkomandi lands séu gefnar leiðbeiningar við ákvörðun bóta sem taki til mismunandi lands með tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika ofl.

Eignarnemi telur að með vinnureglunum um bætur fyrir land hafi lágmarksviðmiðanir grunnverðs fyrir land verið hækkaðar, svo unnt sé að miða við lágmarksviðmiðum í flestum tilvikum, þegar um er að ræða hefðbundið landbúnaðarland utan þéttbýlis, en þannig hátti einmitt til í þessu máli. Í sumum tilvikum geti bætur samkvæmt vinnureglunum talist í hærra lagi, svo sem á afskekktari svæðum og annars staðar þar sem landnotkun takmarkast af náttúrulegum aðstæðum, t.d. vegna hæðar yfir sjávarmáli eða ágangs vatns eða takmarkaðra nýtingarkosta að öðru leyti. Samkvæmt vinnureglum eignarnema um bætur fyrir land, falli það land sem um ræðir að liðum B og C og hugsanlega D í 2. tölulið vinnureglna. Samkvæmt núgildandi vinnureglum hafi borið að bjóða bætur á bilinu 75.000-175.000 kr./ha fyrir það land sem um ræði, nema því aðeins að söluverð/markaðsverð væri í ljós leitt. Því til viðbótar hafi verið heimilt að bjóða bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap afurðagefandi túns allt að 322.000 kr./ha.

Annað sjónarmið sem komi til greina við ákvörðun á verðmæti hins eignarnumda sé notagildi þess. Þegar eign sé bætt eftir notagildi, sé reynt að finna út hver sé höfuðstóll þess arðs, sem eignin gefur af sér. Þannig sé stefnt að því að bæta eiganda það tekjutap í framtíðinni, sem missir eignarinnar hafi í för með sér. Í flestum tilvikum leiði mat á notagildi eignar til svipaðrar niðurstöðu og mat á söluverði þar sem söluverð grundvallist oft á þeim arði sem eignin gefur eða getur gefið af sér. Viðmiðunarreglur eignarnema um bætur miðist við framangreint.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón hans af eignarnáminu. Um bætur vegna fjárhagslegs tjóns vitnar eignarnemi m.a. til dóms Hæstaréttar í máli Ytri-Löngumýrar, sjá H 1997:52.

Í þessu máli sé um að ræða eignarnám á landi undir veg og meðfram honum sem almennt sé innan gildandi veghelgunarsvæðis skv. 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Vegurinn hafi legið um lönd eignarnámsþola um áratugaskeið og því ekki um breytingu á stöðu jarðarinnar að því leyti. Hins vegar sé veglína færð niður fyrir bæinn að Bjarnastöðum og lengra frá íbúðarhúsi. Áhrif á hagsmuni eignarnámsþola séu því minni en ef verið væri að leggja veg um lönd sem vegur hafi ekki legið áður um. Eignarnemi telur að framkvæmdin breyti engu um framtíðarnotkun landsins utan hinnar eignarnumdu spildu. Jarðirnar séu ætlaðar til landbúnaðar en séu í eyði en eignarnámsþolar notað landið til frístundaiðkunar og vísist um það til þess sem skoðað var í vettvangsgöngu. Öll aðstaða til núverandi notkunar verði óbreytt svo og til búrekstrar ef hefðbundinn landbúnaður yrði tekinn upp að nýju. Ekkert liggi fyrir um annars konar nýtingu jarðanna. Þá verði að benda á að með framkvæmdunum hafi vegurinn um land Bjarnastaða verið færður töluvert frá íbúðarhúsinu en eldri vegur lá fyrir ofan íbúðarhúsið og töluvert nálægt því. Land Bjarnastaða verði því samfelldara frá veginum meðfram sjó og upp úr í stað þess að vera skorið í sundur af veginum fyrir ofan íbúðarhúsið. 

Þriðja sjónarmiðið um ákvörðun bóta byggist á kostnaði eignarnema við að afla sér sambærilegrar eignar í stað þeirrar sem tekin var eignarnámi. Þessum sjónarmiðum við ákvörðun verðs verði almennt ekki beitt nema söluverð eða notagildi verði af einhverjum ástæðum ekki metið. Þau sjónarmið eigi alls ekki við í þessu máli þar sem slíkar aðstæður séu ekki uppi.

Það sé grundvallarregla að bætur skuli miðast við að eignarnámsþoli verði eins settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Bætur miðist við sannað fjárhagslegt verðmæti hinnar eignarnumdu spildu og jarðefnis á matsdegi miðað við staðgreiðslu og miðað við núverandi notkun þeirra. Til frádráttar komi allar hugsanlegar hagsbætur sem eignarnámsþoli hafi af framkvæmdunum, sbr. ákvæði 39. gr. vegalaga. Þá gilda að öðru leyti almennar reglur um framkvæmd eignarnáms og viðurkennd sjónarmið um ákvörðun eignarnámsbóta sem m.a. birtast í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta gegnum tíðina og fordæmum dómstóla.

 

Eignarnemi krefst þess að eignarnámsþola verði ákvarðaðar bætur í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru hér að framan og miðað við framlögð gögn málsins.

1.     Bætur fyrir land.

Eignarnemi hefur kallað eftir upplýsingum um nýlegar jarðasölur á því svæði sem um ræðir eftir að málinu var vísað til matsnefndar. Ekki virðist vera mikið um viðskipti með jarðir á þessu svæði og verð tiltölulega lág. Upplýsingar liggi ekki að öllu leyti fyrir. Eignarnemi hafi einnig kannað auglýsingar jarða sem auglýstar séu til sölu hjá fasteignasölum og lagt þær fram til upplýsingar. Þar komi fram að ásett söluverð jarða virðist vera á bilinu 38.700 kr./ha (Kleifar í Seyðisfirði) til 60.000 kr./ha (Bakki, Ísafjarðarbæ) ef eingöngu sé tekið brúttóverð jarða með jarðarhúsum og hlunnindum. Ef húsakostur og hlunnindi séu dregin frá verði verðmat lands mun lægra. Athugun þessi sé ekki tæmandi en ætti að gefa góða hugmynd um jarðaverð á því svæði sem hér um ræðir.

Um það verðmat löggilts fasteignasala að verðmæti jarðanna beggja sé samtals 120.000.000 krónur bendir eignarnemi á að samkvæmt gagnagrunni Nytjalands sé jörðin Bjarnastaðir talin 340 ha og Eyri 1819 ha eða samtals 2.159 hektarar. Ef framangreint verðmat sé lagt til grundvallar ætti hver hektari lands því að verðleggjast að meðaltali á um 55.600 kr. Eignarnemi hafnar alfarið svo háu heildarverðmati jarðanna og telur það ekki endurspegla markaðsverð jarða á þessu svæði.

Samkvæmt því sem rakið hafi verið sé ljóst að vinnureglur eignarnema, sbr. stafliði B og C um landverð, séu töluvert hærri en markaðsverð sem virðist gilda á þessu svæði. Samkvæmt þessu hafi upphaflegt tilboð eignarnema um 75.000 kr./ha verið í samræmi við þágildandi vinnureglur og raunverulegt landverð á því svæði. Af þeim sökum beri að taka fullt tillit til þessa við ákvörðun bóta fyrir land. Eignarnemi telur því að hámarksverð sé 75.000-125.000 kr. fyrir hvern hektara af landi á þessu svæði. Til viðbótar megi ákveða bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap, allt að 322.000 kr. pr. hektara af túni, ef hv. Matsnefnd telur það eiga við í þessu máli, sbr. lið 3. í vinnureglum.

Í úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 10/2008 frá 30. mars sl. um land Ásgrímsstaða og Móbergs á Fljótsdalshéraði hafi landverð verið ákveðið 200.000 kr./ha hvort sem um beitiland, tún eða skógræktarland væri að ræða. Fasteignaverð á Austurlandi og Vestfjörðum sé ólíkt og sé mun lægra fasteignaverð á Vestfjörðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá, sé fasteignaverð um 72% hærra á Austurlandi en á Vestfjörðum ef miðað sé við árið 2008. Af gögnunum megi og ráða að verð á Vestfjörðum hafi árið 1990 þá þegar verið 15% lægra en á Austurlandi en síðan hafi bilið aukist jafnt og þétt, einkum hin síðari ár. Ef tekið sé mið af úrskurði nefndarinnar í framangreindu máli væri sambærilegt verð á landi á Vestfjörðum um 117.000 kr./ha að hámarki.

Þá telur eignarnemi að lækka beri landverð meðfram veginum milli stöðva 3000 að stöð 7500 um a.m.k. 25% enda liggi það land næst veginum og því verðminna en annað land jarðanna, sbr. úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 10/2008.

Þessi sjónarmið eigi fyllilega við um það svæði þar sem nýr vegur er lagður eftir gamla vegstæðinu.

Að öllu virtu telur eignarnemi að hámarksverð fyrir land á þessu svæði geti verið 75.000 – 125.000 kr., sbr. B og C lið í orðsendingu 2/2009 en að öllum líkindum lægra og að auki niðurfærsla lands næst veginum þar sem hann liggur í eldra vegarstæði um a.m.k. 25%.

Til frádráttar bótum komi 2,7 ha. lands sem er skilað aftur til landeigenda sem ógrónu landi.

Eignarnemi hafnar alfarið kröfu um bætur fyrir meinta verðrýrnun jarðanna en eignarnámsþolar hafa krafist 12.000.000 króna í verðrýrnun og telja að jarðirnar hafi rýrnað um 10% við framkvæmdirnar. Eignarnemi hafnar þessari kröfu alfarið sem órökstuddri og telur ekkert tjón hafa orðið. Þvert á móti bendir eignarnemi á að með bættu vegasambandi og betra aðgengi að jörðunum allt árið um kring ættu jarðirnar öðru fremur að hækka í verði enda hlýtur það að vega nokkuð þungt hjá væntanlegum kaupendum og notendum að aðgengi sé gott. Þá verði að telja að ef jarðirnar verði síðar teknar aftur til landbúnaðarnota skipti það verulegu máli fyrir verðmatið að samgöngur séu greiðar.

Eignarnemi vekur sérstaka athygli á að frá stöð 3000 og að stöð 7500 fylgir vegurinn eldri vegi þannig að þar er ekki um neina breytingu á nýtingu jarðanna að ræða. Eignarnámsþolar geti fráleitt krafist bóta vegna verðrýrnunar fyrir þann hluta landsins. Krafa um 12 milljónir króna fyrir lagningu vegar meðfram sjónum á um 2000 metra kafla sé með öllu fráleit.

Frá stöð 7500 og um land Bjarnastaða hafi vegurinn verið færður fjær bæjarstæðinu og ætti þannig að draga úr áhrifum umferðar á íbúðarhús og nánasta umhverfi þess og vera þannig til hagræðis. Þá fái landeigendur samfellt land frá vegarstæði og inn til fjalla í stað þess að landið hafi áður verið skorið í sundur af veginum í landi Bjarnastaða. Loks bendir eignarnemi á að landeigendur sjálfir hafi óskaði eftir því að vegurinn yrði lagður með sjó í stað þess að liggja ofan bæjarins eins og kemur skýrt fram í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá 1. júlí 2004. Landeigendur geti þá ekki nú komið og krafist sérstakra bóta fyrir þá tilfærslu.

Kröfum um bætur fyrir meinta verðmætarýrnun er því alfarið hafnað.

 

2.     Bætur fyrir jarðefni.

Við mat á bótum fyrir jarðefni telur eignarnemi rétt að farið sé að vinnureglum eignarnema nr. 2/2009. Eignarnemi telur að efnistökusvæði liggi utan markaðssvæða og því sé framboðið verð 10 kr./m3 vel ríflegt en efnið sé flokkað undir 1. tölul. A-liðar í vinnureglum, sem efni í fyllingarefni. Í gagntilboði eignarnámsþola var krafist 15 kr./m3 sem eignarnemi hafnar sem of háu.

Efnistökusvæðið sé ekki markaðssvæði þar sem stöðug eftirspurn eftir jarðefni sé fyrir hendi svo sem áskilið hafi verið svo hærri gjaldflokkar komi til álita skv. vinnureglum eignarnema. Til þess sé efnið of langt frá þéttbýliskjörnum og framkvæmdasvæði í nágrenninu en efnið sé ekki tekið úr námu heldur falli til úr skeringu vegna vegaframkvæmdarinnar. Eignarnemi telur að eignarnámsþolar þurfi að sýna fram á efnissölu eða annað fjárhagslegt tjón af efnisnáminu ef leggja eigi hærri bætur til grundvallar en fram voru boðnar.

Með vísan til framanritaðs er tilboð um greiðslu 10 kr. fyrir hvern rúmmetra fyllingarefnis úr skeringum áréttað og efnismagn 560 m3.

 

3.     Jarðrask, átroðningur og annað.

Samkvæmt vinnureglum eignarnema megi bjóða bætur að álitum vegna jarðrasks og átroðnings sem ný vegarlagning hafi í för með sér fyrir eignarnámsþola. Í þessu máli hátti svo til að þjóðvegurinn er færður niður fyrir íbúðarhús og fjær því en eldri vegur. Ónæði vegna vegarins og annað rask ætti því að vera minna en af eldri vegi. Eignarnámsþolar hafi sjálfir óskað eftir því að vegurinn færi með fjörunni í stað þessa að vera endurbyggður í eldra vegstæði ofan íbúðarhússins. Með því sé betur tryggt aðgengi landeigenda að berjalöndum í hlíðunum fyrir ofan bæinn og umferð liggi lengra frá íbúðarhúsi en áður. Hin nýja veglína sé því mun hagstæðari fyrir landeigendur en sú fyrri. Þá sé ekki hróflað við eldra vegi og átroðningur næst íbúðarhúsi því í algeru lágmarki.

a)    Afnot af Eyrinni.

Eignarnámsþolar hafa gert kröfur um bætur fyrir leigu á landi vegna efnisvinnslu á Eyrinni. Þá hefur verið krafist bóta fyrir skemmdir á trjárækt, skemmdir á heitavatnslaug (Bjarnastaðalaug) og heitavatnssvæði við Laugarnes. Eignarnemi hafnar alfarið þessum kröfum eins og þær eru fram settar.

Í vettvangsgöngu hafi sést vel hvernig Eyrin hafi verið lagfærð á kostnað eignarnema. Eftir sé að sá í svæðið og verði það gert og telur eignarnemi að fjárhagslegt tjón hafi ekki orðið. Fjárhæð leigu sem eignarnámsþolar hafi gert kröfu um sé alfarið hafnað. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi Eyrin verið notuð í alls 14 mánuði. Hámarksleiga gæti að mati eignarnema numið u.þ.b. 5-10% af landverði pr./ha á ári.

Í vettvangsgöngu voru og skoðaðar meintar skemmdir á trjárækt í landi Bjarnastaða sem eignarnámsþolar telja hafi stafað af því að sauðfé komst inn á jörðina þar sem verktaki hafi fjarlægt girðingar. Á vettvangi mátti sjá 8 aspir u.þ.b. 1,0-1,50 metra á hæð sem voru skemmdar. Ekki hafi verið sjáanlegt annað tjón af völdum sauðfjár. Eignarnemi hafnar alfarið þeirri fjárhæð sem fram kemur í bréfi eignarnámsþola. Kaupverð sambærilegra trjáa sé að öllum líkindum ekki hærra en 10 þús. kr.

b)    Fjallskilarétt.

Ekki voru sjáanlegar skemmdir á Fjallskilarétt á Eyrinni en réttin er hlaðin úr ávölum steinum sem hlýtur að valda hruni úr hleðslunni í tímans rás. Eignarnemi telur algerlega ósannað að nokkuð hafi hrunið úr réttinni við framkvæmdirnar og að ekkert fjárhagslegt tjón hafi orðið.

c)     Bjarnastaðalaug.

Eignarnemi hafi áður boðist til að færa laugina til þess horfs sem hún var í áður en framkvæmdir hófust en fyrir liggja myndir frá árinu 2007. Tilboði eignarnema um lagfæringar hafi verið hafnað. Laugin sjálf hafi á þeim tíma verið í vegkantinum og innan veghelgunarsvæðisins. Hleðsla hafi verið gerð í vegkantinum og grafið frá svo heita vatnið næði að renna fram klöppina. Eignarnemi telur að ógerningur hafi verið að hlífa lauginni vegna vegaframkvæmdarinnar en hafi lagt sitt af mörkum til þess að draga úr áhrifunum eins og kostur sé. Að öðru leyti en því að hafa boðist til að hlaða aftur upp steinum eins og var áður en framkvæmdir hófust 2007 telur eignarnemi að ekkert fjárhagslegt tjón hafi orðið við framkvæmdirnar og hafnar með öllum bótakröfum eignarnámsþola sem fram hafa komið. Hafi tjón orðið á lauginni fyrir framkvæmdirnar af einhverjum orsökum, en eignarnemi telur með öllu ósannað að það hafi átt sér stað eða að hann beri ábyrgð á því, verði ekki úr því skorið fyrir hv. Matsnefnd í máli þessu heldur í sjálfstæðu máli.

d)    Heitavatnssvæði við Laugarnes.

Eignarnemi hefur látið tína grjót af svæðinu sem virðist hafa þeyst út yfir nesið vegna sprenginga. Enn er þó eitthvað eftir að hreinsa af minna grjóti.

e)     Aðgengi að berjalöndum.

Eignarnámsþolar hafa krafist bóta fyrir skert aðgengi að berjalöndum sínum. Að beiðni eignarnámsþola hafi verið fleygað í bergið sitt hvorum megin árinnar svo unnt yrði að komast upp frá veginum. Þetta hafi verið gert og sé stígurinn fær en ljóst megi vera að erfitt er að koma í veg fyrir hrun yfir stíginn. Eignarnemi telur að hann hafi gert það sem hægt sé að ætlast til af honum við þessar aðstæður en næsta stig hefði verið að reisa tröppur upp klettavegginn. Eignarnemi vekur þó athygli á að ávallt er varhugavert að leggja bifreiðum í vegkantinum til að fara til berjatínslu upp í hlíðina og vekur athygli á að auðveldast aðgengi fyrir eignarnámsþola sé frá enda gamla vegarins fyrir ofan Bjarnastaði, ca við stöð 7500 en þaðan sé gott aðgengi að hlíðinni og verði að telja líklegast að sú leið verði alla jafna farin.  Eignarnemi telur því að ekkert beint fjárhagslegt tjón hafi orðið þótt aðgengi upp hlíðina sé ekki með sama móti og fyrr en aðrar leiðir séu vel færar.

f)     Takmörkun eignarréttar eignarnema.

Eignarnemi hafnar alfarið að takmarka eignarráð sín á hinu keypta landi þannig að hugsanlegar auðlindir verði undanskildar. Eignarnemi fái land það sem hann kaupir fullu verði með öllum gögnum og gæðum.

g).   Kostnaður ofl.

Eignarnemi hafnar kröfum eignarnámsþola um kostnað við eftirlitsferðir á vettvang. Lögum samkvæmt beri Matsnefnd eignarnámsbóta að ákvarða eignarnámsþolum hóflegan kostnað við sérfræðiaðstoð við rekstur máls þessa en eigin kostnaður við ferðir o.þ.h. falli þar utan við enda hafi eignarnemi ekki óskað eftir því að eignarnámsþolar tækju upp eftirlit með framkvæmdum.

h)    Fjárhæðir.

Eignarnemi hafði áður boðið eignarnámsþolum bætur að álitum fyrir jarðrask og átroðning að fjárhæð 200.000 krónur og telur það eftir atvikum hæfilegt fyrir öll ofangreind atriði, svo framarlega sem Matsnefnd eignarnámsbóta telji þau bótaskyld lögum samkvæmt.

Þá megi loks geta þess að eignarnemi hafi nú þegar kostað til ríflega 4,2 millj. kr. í aukaverk til að koma til móts við ýmsar kröfur um úrbætur.

 

 

 

Sjónarmið eignarnámsþola

 

Að hálfu matsþola er einkum vísað til eftirfarandi sjónarmiða til stuðnings kröfu hans.

Hið eignarnumda land

Landeigendur krefjast þess að bættir verði 60 metrar, þ.e. 30 metrar frá miðlínu hins nýja vegar sem liggur um land jarðanna Bjarnastaða og Eyrar. Samkvæmt 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé veghelgunarsvæði þjóðvega 30 metrar frá miðlínu þjóðvegar. Sé það í samræmi við þær reglur sem matsbeiðandi sjálfur hafi sett sér á þeim tíma sem framkvæmdir stóðu yfir. Vísast þar til orðsendingar matsbeiðanda nr. 2/2007 um að bætur við veglagningu skuli miðast við 30 metra breidd í hvora átt frá miðlínu vega, þegar um helstu stofnvegi er að ræða. Hljóti matsbeiðandi að taka til greina kröfu sem byggi á vegalögum og reglum sem hann hafi sjálfur samið og gefið út. Hin nýi vegur sem liggur um land jarðanna sé gríðarlega mikið mannvirki sem standi hátt upp úr landinu með gríðarlega miklum skeringum. Með hliðsjón af þessu standi engin rök til annars en að matsbeiðandi taki allt veghelgunarsvæðið eignarnámi að slepptum þeim svæðum sem matsþolar hafa sjálfir farið fram á að verði ekki teknir eignarnámi. Eftirtalin svæði hafi eignarnámsþolar gert kröfu um að falli utan eignarnáms.

1.     Milli stöðva 6740 og 6940 frá austari vegarbrún í sjó ca. 0,26  ha. Samkvæmt þessu verði fyrrum stæði Bjarnastaðalaugar (hnit: 340877, 596813) áfram í eigu matsþola. Mikilvægt sé fyrir matsþola að eiga áfram þessa uppsprettu, enda þótt laugin hafi verið eyðilögð, þar sem hún hafi verið einstakt náttúrufyrirbrigði.

2.     Við Bjarnastaðarétt, stöð 7960 (hnit: 340877, 596813)  verði undanskilin 4 metra breið skák frá réttarveggjum til norðurs, austurs, og suðurs. Matsbeiðandi hefur fallist á að umrætt svæði verði undanskilið eignarnámi.

3.     Við naust á eyri norðan Bjarnastaðatúns verði undanskilið svæði er miðast við 10 metra austan við miðlínu vegar og 20 metra kafla til hvorrar handar frá endamiðlínu naustsins. Matsbeiðandi hefur fallist á að umrætt svæði verði undanskilið eignarnámi.

Matsþolar hafa á öllum stigum þessa máls krafist þess að halda eftir þeim auðlindum sem hugsanlega kunna að finnast undir yfirborði vegstæðisins. Þessu hafi matsbeiðandi þráfaldlega hafnað og ekki viljað gefa út yfirlýsingu um að eignarnámið taki ekki til slíkra réttinda. Matsþolar byggja á því að ekki verði með nokkru móti séð hvaða rök standi því í vegi að matsbeiðandi lýsi því yfir að eignarnámið taki ekki til þeirra auðlinda sem kunna að finnast undir yfirborði hins eignarnumda. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé ljóst að matsbeiðandi hafi enga heimild til að taka eignarnámi víðtækari fasteignaréttindi en nauðsynlegt sé vegna vegagerðar og reksturs vegakerfisins. Eignarhald auðlinda undir yfirborði jarðar standi ekki í neinu samhengi við vegagerð og því fráleitt að matsbeiðandi hafni þeirri sjálfsögðu kröfu matsþola að þessar hugsanlegu auðlindir verði áfram í eigu þeirra. Með nútímatækni megi hagnýta slíkar auðlindir án þess að veghelgunarsvæði verði fyrir nokkru raski eða að umferðaröryggi sé stefnt í hættu. Auk þess yrðu matsþolar og síðari landeigendur áfram bundnir af 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 varðandi fjarlægð allra mannvirkja, leiðslna og skurða innan veghelgunarsvæðis.

Þar sem vegstæðið gangi í sjó fram í nokkrum tilvikum gera matsþolar þá kröfu að allar sjávarnytjar innan netlaga jarða verði áfram í þeirra eigu. Um rökstuðning fyrir þessari kröfu vísast til sömu atriða og varðandi þá kröfu að auðlindir undir yfirborði veghelgunarsvæðis skuli áfram verða eigu matsþola þrátt fyrir eignarnámið.

Matsþolar mótmæla því að dregið verði frá hinu eignarnumda landi 12 metra vegstæði sem matsbeiðandi telur tilheyra sér vegna venju og fordæma dómstóla. Í matsbeiðni matsbeiðanda til Matsnefndar eignarnámsbóta var ekki gerð krafa um að 12 metra vegstæði eldri vegar skyldi koma til frádráttar á hinu eignarnumda. Víkur kröfugerð í greinargerð að þessu leyti frá matsbeiðni. Matsþolar vísa til þess að með því að minnka hið eignarnumda svæði, frá því matsbeiðni var sett fram, sé verið að afturkalla eignarnámsákvörðun að hluta. Slík tilvik verði því að uppfylla kröfur 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um afturköllun. Þannig segir í tilvitnaðri lagagrein að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða ákvörðun er ógildanleg. Hvorugt þessar skilyrða er uppfyllt og því er matsþoli bundin við ákvörðun sína að taka 37,42 ha eignarnámi en ekki eins 32,05 ha. eins og nú er krafist. Þar sem að matsþolar krefjast þess að ca. 0,26 ha. svæði í kringum Bjarnastaðalaug verði undanskilið eignarnámi er þeirra krafa byggð á því að eignarnámið taki til 37,16 ha.

Ákvörðun bótafjárhæðar

Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segi að fullt verð skuli koma fyrir eign sem eignarnám sé gert í. Þá segi í 1. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007, sem eignarnámið styðst við, segir að „landeiganda er skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds, enda komi fullar bætur fyrir.“ Við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar sé hefðbundið að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði beri að beita sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola.

Til að leiða í ljós verðmæti jarðanna Bjarnastaða og Eyrar hafi matsþolar leitað til Magnúsar Leópoldssonar fasteignasala. Verðmat hans hafi legið fyrir hinn 8. október 2008. Í mati hans hafi verið tekið tillit til staðsetningar og nýtingarmöguleika jarðanna. Þá hafi einnig verið litið til  framboðs og eftirspurnar viðlíka eigna á markaði. Niðurstaða verðmatsins hafi verið að söluverð jarðanna beggja sé 120.000.000 króna. Séu kröfur matsþola í máli þessu m.a. reistar á umræddu verðmati sem fyrst og fremst staðfesti að jarðirnar séu verðmætar og einstakar náttúruperlur.

Þá liggi fyrir í málinu samningur matsbeiðanda við Reyni Bergsveinsson frá 2007 vegna veglagningar um jörð hans Skálavík innri. Samningurinn varði bætur fyrir land undir veg vegna sömu veglagningar og hér um ræðir þ.e. hinn nýja Djúpveg. Í samningnum og stofnskjali eignarinnar komi fram að matsbeiðandi hafi greitt eiganda Skálavíkur innri 15.000.000 króna fyrir 14,4 ha. úr jörðinni auk malarefnis. Það sé um ein milljón króna á hektara. Í tilviki Skálavíkur innri hafi aðstæður að mörgu leyti verið svipaðar og í þessu máli. Sú jörð hafi verið með lítið undirlendi og hinn nýi vegur klofið hana eftir endilöngu. Hér sé um að ræða það tilvik sem næst komist því að vera sambærilegt við þær aðstæður sem hér séu uppi. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum telji matsþolar varlega áætlað að meta hektaraverð undirlendis Bjarnastaða og Eyrar á 500.000 krónur á ha.

Af hálfu matsþola er byggt á því að hinn nýi vegur um land Bjarnastaða og Eyrar hafi í för með sér almenna verðrýrnun fyrir jarðirnar. Verðmæti Bjarnastaða og Eyrar sé fyrst og fremst fólgið í hinu órofa samhengi fjalla, klettabelta, undirlendis og strandlengju. Undirlendi jarðanna sé mjög lítið þannig að verðmæti landsins milli fjalls og fjöru sé afar mikið. Af þessum ástæðum sé ljóst að hið nýja vegstæði hafi mjög mikil áhrif á heildarverðmæti jarðarinnar. Vegstæðið sé gríðarlega mikið og hátt mannvirki sem kljúfi jarðirnar eftir endilöngu þannig að fjallið og sjórinn myndi ekki lengur þá samfellu sem áður hafi verið. Hér skuli einnig bent á þá staðreynd að innan landamerkja Bjarnastaða og Eyrar er ca. 85% af hinum nýja veg með vegrið sjávarmegin. Við Eyrargil séu svo vegrið til beggja handa. Sumstaðar nái vegurinn alveg niður í fjöru sem hafi mikil áhrif á möguleika til sjávarnytja. Telji landeigendur varlega áætlað að hinn uppbyggði vegur rýri verðmæti jarðanna almennt um 10%. Matsþolar byggja á því vegurinn komi að mestu í veg fyrir fyrirætlanir þeirra að taka hluta jarðanna undir sumarhúsabyggð. Vegna hins litla undirlendis sé allt byggilegt land á jörðunum nú innan áhrifasvæðis vegarins. Það felist m.a. í að hin einstaka kyrrð svæðisins sé nú rofin þar sem að meginsamgönguleið til og frá Vestfjörðum liggi nú um jarðir matsþola. Sérstaklega sé mótmælt þeirri fullyrðingu matsbeiðanda að matsþolar hafi sérstakan ávinning af veglagningunni. Í ljósi þeirra skemmda sem unnar hafi verið á jörðinni sé sú fullyrðing fráleit.

Í máli þessu geri matsþolar sérstaka kröfu um bætur vegna skemmda á náttúru landsins en þau spjöll hafi án efa leitt til þeirrar niðurstöðu að jarðirnar séu verðminni en ella. Fyrst skuli nefna Bjarnastaðalaug sem nú hafi verið eyðilögð. Gerð sé krafa um að laugin verði bætt að fullu og telja matsþolar hæfilegar bætur nema 6.000.000 króna. Einnig er gerð krafa um bætur fyrir skemmdir á ósnortnu landi Laugarness og uppsprettum að upphæð  4.500.000 króna. Þá er krafist sérstakra bóta fyrir skemmdir á fjallskilarétt, trjárækt á Bjarnastöðum, minnkaðs heyfengs og nýmálningu á íbúðarhús 500.000 krónur. Krafa um bætur fyrir tímabundin afnot af innri hluta Eyrar nemur 2.800.000 krónum. Krafan byggi á því að matsbeiðandi hafi nýtt 2 ha. af eyrinni í 14 mánuði og leigan sé 100.000 krónur á mánuði.

Loks er þess krafist að matsbeiðandi greiði allan útlagðan kostnað matsþola vegna framkvæmdanna. Auk lögmannskostnaðar sé þar fyrst og fremst um að ræða aksturskostnað matsþola en vegna þeirra skemmda sem unnar voru á landinu hafi matsþolar séð sig knúna til að fylgjast með framkvæmdum til að koma í veg fyrir enn frekari eignaspjöll. Sumar þessar ferðir hafi beinlínis verið farnar vegna skipulagðra funda á vegum matsbeiðanda á framkvæmdastað. Ekki sé neinum vafa undirorpið að eftirlitsferðir matsþola hafi gert það að verkum að þau umhverfisspjöll sem unnin hafi verið á jörðinni hafi orðið minni vegna þeirrar samvinnu sem hafi farið í gang milli aðila vorið 2008. Alls hafi ferðirnar verið 12 og vegalengdin í hvert sinn 670 km. Miðað sé við aksturstaxta útgefnin af ríkisskattsstjóra kr. 92 kr. per/km.

Fyrirhuguð efnistaka matsbeiðanda á landi matsþola nemi, svo sem fram komi í gögnum málsins, samtals 560 m3. Bjóði matsbeiðandi 10 krónur fyrir hvern rúmmetra. Styðjist hann við einhliða verðskrá sína og gefi sér þær forsendur að Bjarnastaðir og Eyri séu utan markaðssvæða og bætur boðnar í samræmi við það. Matsþoli gerir hins vegar þær kröfur að matsbeiðandi greiði kr. 90 fyrir hvern rúmmetra. Matsþoli mótmælir því að matsbeiðandi komist upp með það að leggja einhliða verðskrá sína til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir malarefni.  Þá telja matsþolar rangt að halda því fram að ekki sé markaður fyrir jarðefni á Vestfjörðum. Það liggi í augum uppi að efnistaka í landi matsþola eigi sér stað á markaðssvæði. Gríðarlegar framkvæmdir fari nú fram vegna vegagerðar á Vestfjörðum. Hafi matsbeiðandi á undanförnum árum því þurft að kaupa jarðefni frá tugum aðila vegna hennar.

Lagarök.

Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Þá vísast, eftir því sem við á, til ákvæða vegalaga nr. 80/2007.

Vísað er til ákvæða laga nr. 11/1973.

 

 

NIÐURSTAÐA

Eignarnámið nær til spildu undir vegstæði og efnistöku vegna þess hluta Djúpvegar sem liggur um land Eyrar og Bjarnastaða. Samkvæmt gögnum málsins er heildarlengd vegarkafla þess sem liggur um land eignarnámsþola 6.750 metrar.

Eignarnámið beinist að 60 metra breiðu svæði í landi Eyrar, þ.e. 30 metrar frá miðlínu vegar til beggja handa og 50 metra breiðu svæði í landi Bjarnastaða, þ.e. 30 metrar frá miðlínu vegar að ofanverðu en 20 metrar að neðanverðu. Í þessari kröfugerð hefur eignarnemi tekið tillit til krafna eignarnámsþola og fallist á að draga vegsvæði úr 30 metra breidd frá miðlínu vegarins niður í 15 metra breidd frá miðlínu á 40 metra löngum kafla við Bjarnastaðarétt milli stöðva 7930 og 7970 og undanskilja þannig umrætt svæði eignarnáminu. Þá fellst eignarnemi á að draga vegsvæði úr 20 metra breidd frá miðlínu vegarins niður í 15 metra breidd frá miðlínu við naust milli stöðva 9330 og 9350. Andlag eignarnámsins samkvæmt kröfugerð eignarnema er því samtals 32,05 ha af landi og hefur þá verið tekið tillit til framangreindra óska eignarnámsþola og þess að 2,70 ha lands gamla vegarins fyrir ofan Bjarnastaði er skilað aftur til landeigenda. Svæði þessi voru skoðuð í vettvangsgöngu.

Af hálfu eignarnámsþola hefur ekki verið sýnt fram á að stærri spilda en hér að framan greinir falli til eignarnema enda verður að fallast á það með eignarnema að sá hluti gamla vegarins sem fellur aftur til eignarnámsþola dragist frá.

Rétt er að taka fram að við mat þetta er ekki litið til hugsanlegs verðmætis auðlinda í jörðu undir vegstæðinu.

Af þessu landi eru 30,95 ha gróið land og telur nefndin bætur vegna þess hæfilega metnar 6.963.750 krónur (30,95 x 225.000). Annað land er 1,1 ha ræktaðs lands og telur nefndin bætur vegna þess hæfilega ákveðnar 357.500 krónur (1,1 x 325.000). Samtals eru bætur vegna þessa þáttar 7.321.250 krónur.

Framkvæmd eignarnema og eignarnámið sjálft hefur umtalsverð áhrif á nýtingu og nýtingarkosti jarðanna og enda þótt vegur hafi áður legið um landið endilangt má fallast á það með eignarnámsþolum að hin nýja vegagerð hafi meiri röskun í för með sér vegna þess að nýi vegurinn er mun meiri framkvæmd og fellur ekki eins vel inn í landið og fyrri vegur gerði. Til dæmis verður mjó landspilda milli vegar og sjávar, einkum í landi Eyrar, illnýtanleg. Telur nefndin bætur til eignarnámsþola hæfilega ákvarðaðar 2.000.000 krónur vegna þessa.

Fram kemur í máli þessu að svonefnd Bjarnastaðalaug eyðilagðist nánast við vegalagninguna svo og að heitavatnssvæði við Lauganes skemmdist. Þá er krafist bóta vegna lítilsháttar skemmda á trjárækt á Bjarnastöðum, tapaðs heyfengs, skemmda á fjallskilarétt og vegna málningar á húsi og annars rasks. Þykja bætur vegna þessa í heild sinni hæfilega ákvarðaðar samtals 2.800.000 krónur. 

Eignarnemi notaði hluta eyrarinnar sem efnisgeymslu í 14 mánuði og þykja bætur vegna þessa liðar hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur enda fram komið að eignarnemi gerir ráðstafanir til þess að koma gróðurfari í samt lag.

Þá telur nefndin að hæfilegar bætur fyrir efni sem ágreiningslaust er að nemi 560 rúmmetrum nemi 22.400 krónum (560 x 40).

Loks verða matsþolum ákvarðaðar bætur vegna aksturs þeirra en fram kemur í málinu að full efni reyndust til þess að góðar gætur væru hafðar á framkvæmdum verktaka og ákvarðast bætur vegna þessa liðar 700.000 krónur.

Samkvæmt öllu framansögðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola í máli þessu samtals 13.143.650 krónur. Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþolum 1.700.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 1.661.640 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Aðalheiði Auðunsdóttur, Hákoni Erni Halldórssyni og Ragnari Jóhanni Halldórssyni 13.143.650 krónur og 1.700.000 krónur í málskostnað.

            Eignarnemi greiði 1.661.640 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                                 

                                                          

 

 

 

             




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta