Matsmál nr. 2/2009, úrskurður 28. júlí 2009
Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 2/2009.
Vegagerðin
gegn
eigendum Auðshaugs, Vesturbyggð.
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
Með bréfi, dagsettu 3. mars sl., beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin, þess að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi Auðshaugs (139779), Vesturbyggð.
Eignarnámsþolar eru Bjarni Svanur Kristjánsson, kt. 101058-6039 og Valgerður Ingvadóttir, kt. 160863-4479, en þau eru þinglýstir eigendur ofangreindrar jarðar.
KRÖFUGERÐ
Þess er krafist að metnar verði hæfilegar bætur til eiganda jarðarinnar Auðshaugs vegna eignarnáms á 19,18 ha lands í landi Auðshaugs sem matsbeiðandi hefur tekið undir framkvæmdir við vegagerð. Enn fremur er krafist mats á 21.500 m3 af jarðefni. Loks er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaður hóflegur málskostnaður við hagsmunagæslu miðað við eðli og umfang málsins.
Kröfugerðin víkur frá matsbeiðni að því leyti að á fyrri stigum málsins var gert ráð fyrir nýrri og breyttri veglínu og þá fyrirhugað að taka eignarnámi 17,13 ha lands undir veginn. Undir rekstri málsins náðist sátt milli aðila um nýja veglínu sem fylgir eldri veglínu að mestu leyti, sbr. uppdrætti á mskj. 29 og 30. Andlag eignarnáms er því ríflega 2 ha stærra en í upphaflegri matsbeiðni. Þá er gert ráð fyrir verulega minni efnistöku en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi.
Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda í samræmi við málskostnaðaryfirlit sem lagt verður fram við munnlegan flutning málsins fyrir hinni virðulegu nefnd eða eftir atvikum áður en málið verður tekið til úrskurðar.
Kröfur eignarnámsþola eru þær að eignarnema, Vegagerðinni, verði gert að greiða matsþolum bætur að fjárhæð 31.955.000 krónur í tilefni veglagningar um jörð þeirra.
Gerð krafa um málskostnað að skaðlausu.
MÁLAVEXTIR.
Eignarnemi kveður sér hafa verið falið í samræmi við vegáætlun samgönguáætlunar 2007-2010 að ný- og endurleggja Vestfjarðaveg (60). Undirbúningur verksins eigi sér langan aðdraganda en það hafi loks verið boðið út nú á árinu 2009. Í upphaflegum áætlunum eignarnema hefði verið gert ráð fyrir að vegurinn yrði fluttur í nýtt vegstæði að hluta til eða á um 2,4 km kafla frá st. 24.600 að st. 27.000. Markmiðið með tilfærslunni hafi verið að lækka veginn og auka umferðaröryggi í samræmi við nútíma hönnunarstaðla. Eignarnámsþolar hafi lýst sig andsnúna færslu vegarins auk þess sem þeir hefðu haft aðrar athugasemdir við framkvæmdina. Í matsbeiðni var farið fram á umráðatöku hins eignarnumda landssvæðis enda hagsmunir miklir að geta hafið framkvæmdir sem fyrst.
Vettvangsganga fór fram 18. apríl síðastliðinn að viðstöddum nefndarmönnum, lögmönnum aðila, fulltrúum eignarnema og eignarnámsþola. Á vettvangi voru m.a. ræddar hugmyndir landeigenda um að veglína yrði óbreytt eða yrði a.m.k. ekki breytt eins mikið á hinum 2,4 km. kafla eins og eignarnemi hafði áætlað.
Málið var flutt um umráðatöku hinn 29. apríl 2009 en sjónarmið landeigenda voru m.a. þau að ekki hefði verið farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum vegna framkvæmdarinnar þar sem jörðin væri á náttúruminjaskrá, sbr. lög 44/1999, auk annarra athugasemda um efnisleg skilyrði laganna. Eignarnemi telur að framkvæmdin hafi á öllum stigum málsins farið að lögum auk þess sem jörðin Auðshaugur sé ekki á náttúruminjaskrá. Áður en til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta kom varð að tilhlutan nefndarinnar samkomulag með aðilum um að eignarnemi myndi kanna hvort unnt væri að koma til móts við sjónarmið eignarnámsþola gegn því að landeigendur létu af andstöðu sinni við framkvæmdina. Hinn 22. maí voru kynntir nýir uppdrættir þar sem vegurinn var að mestu í hinu fyrra vegstæði og horfið var frá framangreindri tilfærslu. Lögmaður landeigenda lýsti því svo yfir 25. maí að landeigendur væru sáttir við þær tillögur sem fram hefðu komið og að umráðataka hins eignarnumda væri heimiluð.
Við breytingu á hönnun mannvirkisins stækkaði hið eignarnumda land um 2,05 ha og er alls 19,18 ha eins og fram kemur í kröfugerð. Vegsvæðið sem um ræðir er 6850 metrar að lengd og 40 metra breitt og er heildarflatarmál þess því 27,40 ha. (6850 x 40) Eignarnemi telur til eignarréttar yfir sem nemur 12 metra breiðu vegsvæði eða 8,22 ha. (6850 x 12) Mismunurinn er andlag eignarnámsins eða alls 19,18 ha lands.
Með breytingu á hönnun mannvirkisins eins og að framan hefur verið rakið breytast forsendur útreikninga nokkuð en helstu breytingar eru þær að ekki verður farið inn á ræktað land og efnistaka verður minni en fyrirhuguð var.
Um legu hins eignarnumda svæðis vísar eignarnemi til framlagðra nýrrar grunnmyndar vegsvæðis og grunnmyndar skeringar- og vegfláa utan vegsvæðis.
SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA
1. Afmörkun réttinda
A. Vegsvæði
Líkt og greini í málsskjölum beri að meta bætur fyrir eignarnumið land undir veg alls 40 metra breitt að frádregnum 12 metrum sem tilheyri eignarnema samkvæmt eftirfarandi flokkun:
Tegund bóta Eining Magn
Beitiland ha 12,94
Ræktanlegt land ha 1,26
Kjarr ha 4,98
SAMTALS 19,18
Eignarnemi gerir þannig kröfu um að eignarnámsþola verði ákvarðaðar bætur fyrir andlag eignarnámsins sem sé 19,18 ha úr landi jarðarinnar Auðshaugs en eins og fram komi í málavaxtalýsingu sé heildarstærð vegsvæðisins 27,40 ha lands að meðtöldum þeim 8,22 ha sem tilheyri eignarnema nú þegar. Við þinglýsingu réttinda eignarnema sé þannig gert ráð fyrir að 27,40 ha lands verði skipt út úr jörðinni.
Eignarnemi tekur sérstaklega fram að honum beri ekki að taka eignarnámi og greiða bætur fyrir breiðari spildu undir mannvirkið en hann hafi metið nauðsynlega, þ.e. 40 metra breidd, þrátt fyrir að svokallað veghelgunarsvæði sé breiðara. Vísar hann til 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 um veghelgunarsvæði.
Löggjafinn hafi metið það svo að nauðsynlegt sé að reisa takmarkanir við því hvaða mannvirki og tilfæringar komið er fyrir næst vegum landsins og verði að telja það fyrst og fremst með öryggishagsmuni vegfarenda í huga. Þar sé um almenna takmörkun eignarráða fasteignareigenda að ræða. Slíkar takmarkanir á eignarráðum sé víðar að finna í lögum og vísist m.a. til skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997 um það og tilheyrandi stjórnvaldsfyrirmæla. Landeigendum séu því þegar settar almennar takmarkanir eignarráða í skipulagslögum og séu þessar kvaðir nú þegar á jörð eignarnámsþola. Þá megi einnig vísa til laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en í 2. gr. komi fram að landeigandi fari með öll eignarráð innan þeirra marka sem lögin setji á hverjum tíma.
Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé óheimilt að reisa byggingar, mannvirki o.fl. nær stofnvegum en 30 metrum nema með leyfi veghaldara. Landeigandi fari hins vegar áfram með eignarráð veghelgunarsvæðis nema því hafi áður verið afsalað veghaldara. Þannig geti landeigandi haft almenn not af landi sínu umfram það sem lögin banni. Eignarnemi telur engin rök standa til þess að eignarnámsþolar eigi lögvarða kröfu á að land þeirra, umfram það sem nauðsynlegt sé, verði tekið eignarnámi, nema svo standi á sem segir í 12. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.
B. Efnistaka
Eftir breytingar á veghönnun verði efnisnám utan vegsvæðis sem beri að bæta verulega minna en áætlað var. Eignarnemi hyggist nú taka efni í neðra burðarlag úr námunni ofan við veg í stöð 22.900 eins og upphaflega hafi verið áætlað en magntölur hafi breyst. Áætluð efnistaka sé nú 20.000 m3. Þá hyggist eignarnemi taka efni í efra burðarlag úr klapparskeringu utan vegsvæðis í stöð 24.000. Áætluð efnisþörf geri ráð fyrir 1.409 m3 en eignarnemi fer fram á að heimiluð verði efnistaka sem nemi 1500 m3 af efni í neðra burðarlag.
Eignarnemi flokkar hið eignarnumda jarðefni nú sem hér segir:
Tegund bóta Eining Magn
Fyllingarefni m3 20.000
Burðarlagsefni m3 1.500
(neðra burðarlag)
SAMTALS m3 21.500
Magntölur séu gefnar með eðlilegum fyrirvörum. Eignarnemi muni mæla efnismagn sem tekið er í landi eignarnámsþola og greiða fyrir tekið efni samkvæmt mælingu.
C. Jarðrask og átroðningur.
Eignarnemi telur að eignarnámsþolar verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna jarðrasks á framkvæmdatímanum enda fari framkvæmdir fram innan þess svæðis sem keypt sé. Þá muni eignarnemi annast um frágang efnistökusvæða samkvæmt þeim venjum sem um það gildi.
2. Fjárhæð eignarnámsbóta.
A. Almennt um mat á fjárhæð bóta
Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar skuli fullt verð koma fyrir þegar eignarnám er framkvæmt. Meginreglan sé því sú, að matsbeiðanda sé skylt að bæta matsþola allt það fjárhagslega tjón sem hann verði fyrir. Þannig eigi matsþoli einungis rétt á því að fá bætur fyrir endurgjald eignarnumins verðmætis auk bóta fyrir óhagræði sem eignarnám hafi í för með sér og leiði til fjárhagstjóns. Skuli eignarnámsbætur miðaðar við tjón matsþola, en ekki ávinning matsbeiðanda.
Í íslenskum lögum er ekki að finna almennar reglur um það, hvernig meta skuli verðmæti eignarnuminna eigna. Af úrlausnum dómstóla og skrifum fræðimanna hafa mótast kenningar þess efnis að þrenns konar sjónarmið geti einkum komið til greina við ákvörðum bóta: Söluverð, notagildi og enduröflunarverð.
Þegar reynt sé að leiða í ljós gangverð/söluverð fasteigna við eignarnám séu nokkur atriði sem öðru fremur ber að hafa í huga. Verðgildi fasteignar sé oft á tíðum bundið við nýtingu þeirra samkvæmt lögum. Opinber skráning á verði fasteigna geti einnig skipt máli við slíkt verðmat. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands sé fasteignarmat jarðarinnar Auðshaugur 487.000 krónur og 21 ha af ræktuðu landi sé metinn á 943.000 krónur.
Í 27. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna sé kveðið á um hvernig fasteignamatsverð skuli fundið en skráð fasteignamatsverð sé eitt af þeim atriðum sem beri að horfa til við mat á verðgildi fasteignar.
Við mat á bótum til landeigenda hafi eignarnemi í máli þessu auk framangreinds horft til viðmiðana sem fram komi í vinnureglum hans, sem gefnar séu út og ætlað sé að samræma vinnubrögð í samningum við landeigendur, sbr. orðsendingu Vegagerðarinnar nr. 2/2009. Tekið skuli fram að á meðan samningaferlinu stóð hafi orðsending eignarnema nr. 2/2007 verið í gildi en nú hafi ný orðsending tekið gildi og beri að fara eftir henni. Við gerð vinnureglna hafi eignarnemi aflað sér upplýsinga um þá þætti sem notaðir séu til viðmiðunar við mat lands hjá Fasteignamati ríkisins og lagt þær að nokkru leyti til grundvallar við gerð vinnureglnanna. Enn fremur hafi verið miðað við að færa til nútíma þær viðmiðanir sem eignarnemi styðjist við, m.a. þannig að fjölþættari not lands komi til skoðunar við ákvörðun bóta hverju sinni en gert hafi verið samkvæmt eldri orðsendingu um landbætur. T.d. sé sérstaklega tekið fram að horfa eigi til þess við mat á bótum ef land sem um ræðir telst ákjósanlegt til bygginga vegna staðsetningar og landgæða.
Í vinnureglum eignarnema sé byggt á þeirri almennu reglu að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni. Liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnt sé að byggja á til ákvörðunar á ætluðu söluverði viðkomandi lands séu gefnar leiðbeiningar við ákvörðun bóta sem taka til mismunandi lands með tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika o.fl.
Eignarnemi telji að með vinnureglunum um bætur fyrir land hafi lágmarksviðmiðanir grunnverðs fyrir land verið hækkaðar, svo unnt sé að miða við lágmarksviðmiðum í flestum tilvikum, þegar um sé að ræða hefðbundið landbúnaðarland utan þéttbýlis, en þannig háttar einmitt til í þessu máli. Í sumum tilvikum geti bætur samkvæmt vinnureglunum talist í hærra lagi, svo sem á afskekktari svæðum og annars staðar þar sem landnotkun takmarkist af náttúrulegum aðstæðum, t.d. vegna hæðar yfir sjávarmáli eða ágangs vatns eða takmarkaðra nýtingarkosta að öðru leyti. Samkvæmt vinnureglum eignarnema um bætur fyrir land, falli það land sem um ræði að liðum B og C og hugsanlega D í 2. tölulið vinnureglna. Samkvæmt núgildandi vinnureglum hafi borið að bjóða bætur á bilinu 75.000-175.000 kr./ha fyrir það land sem um ræði, nema því aðeins að söluverð/markaðsverð væri í ljós leitt. Því til viðbótar hafi verið heimilt að bjóða bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap afurðagefandi túns allt að 322.000 kr./ha.
Annað sjónarmið sem komi til greina við ákvörðun á verðmæti hins eignarnumda sé notagildi þess. Þegar eign sé bætt eftir notagildi, sé reynt að finna út hver sé höfuðstóll þess arðs, sem eignin gefur af sér. Þannig sé stefnt að því að bæta eiganda það tekjutap í framtíðinni, sem missir eignarinnar hafi í för með sér. Í flestum tilvikum leiði mat á notagildi eignar til svipaðrar niðurstöðu og mat á söluverði þar sem söluverð grundvallist oft á þeim arði sem eignin gefur eða getur gefið af sér. Viðmiðunarreglur eignarnema um bætur miðist við framangreint.
Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón hans af eignarnáminu. Um bætur vegna fjárhagslegs tjóns vitnar eignarnemi m.a. til dóms Hæstaréttar í máli Ytri-Löngumýrar, sjá H 1997:52.
Í þessu máli sé um að ræða eignarnám á landi undir veg og meðfram honum sem almennt sé innan gildandi veghelgunarsvæðis skv. 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Vegurinn hafi legið um lönd eignarnámsþola um áratugaskeið og því ekki um breytingu á stöðu jarðarinnar að því leyti.
Í þessu máli er um að ræða eignarnám á landi undir veg og meðfram honum sem almennt sé innan gildandi veghelgunarsvæðis skv. 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Vegurinn hafi legið um land eignarnámsþola um áratugaskeið og því ekki um breytingu á stöðu jarðarinnar að því leyti. Áhrif á hagsmuni eignarnámsþola séu því minni en ef verið væri að leggja veg um land sem vegur hafi ekki legið áður um. Eignarnemi telur að framkvæmdin breyti engu um framtíðarnotkun landsins utan hinnar eignarnumdu spildu en horfið hafi verið frá áformum um að færa veginn neðar í landið og leggja hann að hluta til á nýju svæði eins og fram hafi komið. Öll aðstaða til núverandi notkunar jarðarinnar verði óbreytt og ekkert liggur fyrir um annars konar nýtingu jarðanna en nú er.
Þriðja sjónarmiðið um ákvörðun bóta byggist á kostnaði eignarnema við að afla sér sambærilegrar eignar í stað þeirrar sem tekin var eignarnámi. Þessum sjónarmiðum við ákvörðun verðs verður almennt ekki beitt nema söluverð eða notagildi verði af einhverjum ástæðum ekki metið. Þau sjónarmið eiga alls ekki við í þessu máli þar sem slíkar aðstæður eru ekki uppi.
Eignarnemi leggur áherslu á þá grundvallarreglu að bætur skulu miðast við að eignarnámsþoli verði eins settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Bætur miðist við sannað fjárhagslegt verðmæti hinnar eignarnumdu spildu og jarðefnis á matsdegi miðað við staðgreiðslu og miðað við núverandi notkun þeirra. Til frádráttar komi allar hugsanlegar hagsbætur sem eignarnámsþoli hafi af framkvæmdunum, sbr. ákvæði 39. gr. vegalaga. Þá gilda að öðru leyti almennar reglur um framkvæmd eignarnáms og viðurkennd sjónarmið um ákvörðun eignarnámsbóta sem m.a. birtast í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta gegnum tíðina og fordæmum dómstóla.
B. Ákvörðun bótafjárhæðar.
Eignarnemi krefst þess að eignarnámsþola verði ákvarðaðar bætur í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru hér að framan og miðað við framlögð gögn málsins.
a. Bætur fyrir land.
Eignarnemi hefur kallað eftir upplýsingum um nýlegar jarðasölur á því svæði sem um ræði eftir að málinu var vísað til matsnefndar. Ekki virðist vera mikið um viðskipti með jarðir á þessu svæði og verð tiltölulega lágt en vísbendingar megi fá úr framlögðum gögnum. Þá sé ákveðinn vandi við ákvörðun verðs fyrir land að landeigendur láti ekki þinglýsa kaupsamningum um jarðir sínar heldur sé eingöngu látið nægja að þinglýsa afsölum. Þá virðist nokkuð um að uppgefið kaupverð sé nálægt fasteignamatsverði. Eignarnemi kunni ekki skýringar á þessu en af gögnum frá Fasteignaskrá Íslands sé þó alveg ljóst að fasteignaverð á Vestfjörðum sé umtalsvert lægra en á öðrum stöðum á landinu. Fram hjá þeim staðreyndum verði ekki litið við mat á bótum fyrir land.
Eignarnemi hafi einnig kannað auglýsingar jarða sem auglýstar séu til sölu hjá fasteignasölum og lagt þær fram til upplýsingar. Þar komi fram að ásett söluverð jarða virðist vera á bilinu 38.700 kr./ha (Kleifar í Seyðisfirði) til 60.000 kr./ha (Bakki, Ísafjarðarbæ) ef eingöngu sé tekið brúttóverð jarða með jarðarhúsum og hlunnindum. Ef húsakostur og hlunnindi séu dregin frá verði verðmat lands mun lægra. Athugun þessi sé ekki tæmandi en ætti að gefa góða hugmynd um jarðaverð á því svæði sem hér um ræðir.
Samkvæmt því sem rakið hafi verið sé ljóst að vinnureglur eignarnema, sbr. stafliði B, C og D um landverð, séu töluvert hærri en markaðsverð sem virðist gilda á þessu svæði. Samkvæmt þessu hafi upphaflegt tilboð eignarnema um 75.000 kr./ha í samræmi við þágildandi vinnureglur verið í samræmi við raunverulegt landverð á því svæði. Af þeim sökum beri að taka fullt tillit til þessa við ákvörðun bóta fyrir land. Eignarnemi telur því að hámarksverð sé 75.000-175.000 kr. fyrir hvern hektara af landi á þessu svæði. Eignarnemi telur að ekki þurfi að bæta ræktunarkostnað og afurðartap en ef Matsnefnd teldi einhvern hluta flokkast sem ræktað land megi ákveða bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap, allt að 322.000 kr. pr. hektara af túni, sbr. lið 3. í vinnureglum. Þá vísar eignarnemi vil fordæma í úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta.
Í úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 1/2006 frá 24. maí 2006 um land Helluvaðs I og II hafi landverð fyrir almennt land undir veg verið ákveðið 125.000 kr./ha
Í úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 10/2008 frá 30. mars sl. um land Ásgrímsstaða og Móbergs á Fljótsdalshéraði hafi landverð verið ákveðið 200.000 kr./ha hvort sem um beitiland, tún eða skógræktarland væri að ræða. Fasteignaverð á Austurlandi og Vestfjörðum sé ólíkt og er mun lægra fasteignaverð á Vestfjörðum.
Í úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu 3/2009 er varðað hafi eignarnám á landi undir Djúpveg hafi verið úrskurðað að gróið land jarðanna Bjarnastaðir og Eyri í Ísafirði skyldi bætt með 225.000 kr./ha. Eignarnemi telur að í þessu máli horfi öðru vísi við enda landið ekki eins mikið gróið næst veginum, sbr. framlagðar myndir og þess að vegurinn sé lagður í fyrra vegstæði. Í fyrrnefnda málinu hafi vegurinn verið lagður eftir nýrri veglínu og þá farið yfir nýtt land meðfram strandlengjunni og fjöru. Telur eignarnemi að sömu forsendur gildi ekki í því máli sem hér um ræðir. Öðru fremur eigi við sjónarmið Matsnefndarinnar í máli 10/2008 þar sem um var að ræða endurbætur á eldra vegi og fylgt veglínu en landverð hafi verið metið á 200.000 kr./ha og auk þess lækkað um 25% það sem næst hafi verið veginum. Þá vísar eignarnemi einnig til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 14/2006 (Brekka) frá 28. nóvember 2007 en þar hafi gróið land almennt verið metið á 200.000 kr./ha.
Þá bendir eignarnemi á að við mat á landverði skuli haft í huga að fasteignaverð á Vestfjörðum er töluvert lægra en á Austurlandi skv. gögnum Fasteignaskrár Íslands eða um 72% hærra á Austurlandi en á Vestfjörðum ef miðað sé við árið 2008. Af gögnunum megi og ráða að verð á Vestfjörðum hafi árið 1990 þá þegar verið 15% lægra en á Austurlandi en síðan hafi bilið aukist jafnt og þétt, einkum hin síðari ár. Ef tekið sé mið af úrskurði nefndarinnar í máli 10/2008 væri sambærilegt verð á landi á Vestfjörðum um 117.000 kr./ha að hámarki.
Þá telur eignarnemi að lækka beri landverð meðfram veginum á öllu svæðinu um a.m.k. 25% enda liggi það land næst veginum og því verðminna en annað land jarðanna, sbr. úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 10/2008.
Þessi sjónarmið eigi fyllilega við um það svæði þar sem nýr vegur er lagður eftir gamla vegstæðinu. Eignarnemi fái ekki séð að annað gildi í þessu máli. Þá telur eignarnemi engar forsendur til að ákvarða bætur fyrir skiptingu lands eða fyrir annað óhagræði af vegarlagningunni enda liggi vegurinn í sama vegstæði og hafi að öðru leyti ekki áhrif á nýtingu lands eða landkosta eftir því sem best verði séð. Hér vísar eignarnemi til rökstuðnings Matsnefndar í mái 1/2006 (Helluvað) og telur að sömu sjónarmið eigi við.
Að öllu virtu telur eignarnemi að hámarksverð fyrir land á þessu svæði geti verið 75.000 – 175.000 kr., sbr. B, C og D-liði í orðsendingu 2/2009 en að öllum líkindum lægra og að auki niðurfærsla lands næst veginum þar sem hann liggur í eldra vegarstæði um a.m.k. 25%.
b. Bætur fyrir jarðefni.
Við mat á bótum fyrir jarðefni telur eignarnemi rétt að farið sé að vinnureglum eignarnema nr. 2/2009. Eignarnemi telur að efnistökusvæði liggi utan markaðssvæða og því sé 10 kr./m3 fyrir 20.000 rúmmetra af fyllingarefni hæfilegt en efnið er flokkað undir 1. tölul. A-liðar í vinnureglum. Þá telur eignarnemi að 30. kr./m3 fyrir 1500 rúmmetra af efni í efra burðarlag skv. 2. tölul. A-liðar vinnureglna sé hæfilegt en gæði efnisins eru ekki slík að það sé nothæft í slitlag. Í gagntilboði eignarnámsþola á mskj. 11 var krafist 50 kr./m3 sem eignarnemi hafnar sem of háu.
Efnistökusvæðið sé ekki markaðssvæði þar sem stöðug eftirspurn sé eftir jarðefni svo sem áskilið hafi verið svo hærri gjaldflokkar komi til álita skv. vinnureglum eignarnema. Til þess sé efnið of langt frá þéttbýliskjörnum og framkvæmdasvæði í nágrenninu. Ekki verði annað séð en að eignarnemi hafi verið eini kaupandi þessa efnis hingað til og svo verði áfram. Eignarnemi telur að eignarnámsþolar þurfi að sýna fram á efnissölu eða annað fjárhagslegt tjón af efnisnáminu ef leggja eigi hærri bætur til grundvallar en fram hafi verið boðnar og hér sé reifað.
Helstu lagarök sem eignarnemi byggir mál sitt á eru, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, einkum 72. gr., lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, með síðari breytingum, skipulags og byggingarlög, nr. 73/1997, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, lög nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, einkum 27.-28. gr., vegalög nr. 80/2007, einkum VII. kafli laganna.
SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA
Af hálfu matsþola er einkum vísað til eftirfarandi sjónarmiða til stuðnings kröfu þeirra.
Hið eignarnumda land
Matsþolar krefjast þess að bætt verði 60 metrar breitt veghelgunarsvæði, þ.e. 30 metrar frá miðlínu hins nýja vegar sem liggur um land Auðshaugs. Samkvæmt 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé veghelgunarsvæði þjóðvega 30 metrar frá miðlínu þjóðvegar. Sé það í samræmi við þær reglur sem matsbeiðandi sjálfur hefði sett sér á þeim tíma sem samningaviðræður hafi staðið yfir við matsþola. Vísast þar til orðsendingar matsbeiðanda nr. 2/2007 um að bætur við veglagningu skuli miðast við 30 metra breidd í hvora átt frá miðlínu vega, þegar um helstu stofnvegi er að ræða. Hljóti matsbeiðandi að taka til greina kröfu sem byggir á vegalögum og reglum sem hann hafi sjálfur samið og gefið út. Hin nýi vegur sem liggi um land jarðanna sé gríðarlega mikið mannvirki sem standi hátt upp úr landinu með gríðarlega miklum skeringum.
Þá byggja matsþolar á því að með tilliti til jafnræðisreglu beri matsbeiðanda að taka 60 metra veghelgunarsvæði eignarnámi. Ekki verði annað séð en að matsbeiðandi hafi í öðrum sambærilegum tilvikum á Vestfjörðum tekið allt 60 metra veghelgunarsvæðið eignarnámi. Sem dæmi megi nefna veglagningu um jörðina Skálavík innri í Djúpi en þar hafi hinn nýi vegur legið bæði um sléttlenda eyju og á eldri vegi upp í fjallhlíð, landmegin. Hafi matsbeiðandi gert kröfu um að eignarnámið tæki alls staðar til 60 metra veghelgunarsvæðis og hafi það svo orðið niðurstaðan í frjálsum samningi aðila. Þá megi einnig nefna eignarnám í landi jarðanna Bjarnastaða og Eyrar í Ísafjarðardjúpi. Þar hafi matsbeiðandi gert kröfu um að eignarnámið tæki til 60 metra veghelgunarsvæðis að slepptum stuttum kafla þar sem veghelgunarsvæðið hafi náð í sjó fram. Matsbeiðandi hafi í engu sýnt fram á að aðstæður í landi Auðshaugs séu með öðrum hætti og réttlæti að eignarnámið taki einungis til 40 metra beltis en ekki 60 metra.
Matsþolar mótmæla því að dregið verði frá hinu eignarnumda landi 12 metra vegstæði sem matsbeiðandi telur tilheyra sér vegna venju og fordæma dómstóla. Matsþolar séu þinglýstir eigendur að umræddu landi og hafi ekki á neinum tímapunkti afsalað landinu með nokkrum hætti. Með hliðsjón af framangreindu geri matsþolar þá kröfu að eignarnámið taki til 41,1 ha. lands. (6.850 m x 60 m).
Ákvörðun bótafjárhæðar
Í 1.mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segi að fullt verð skuli koma fyrir eign sem eignarnám er gert í. Þá segi í 1. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007, sem eignarnámið styðst við, að „landeiganda er skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds, enda komi fullar bætur fyrir“. Við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar sé hefðbundið að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði beri að beita sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola.
Af hálfu matsþola er þess í fyrsta lagi krafist að fjárhæð eignarnámsbóta í þessu máli miðist við að hektaraverð sé 500.000 krónur en því til viðbótar komi síðan bætur fyrir almenna verðrýrnun jarðarinnar. Ljóst sé að jörð eins og Auðshaugur sé afar verðmæt vegna þeirrar gríðarlegu náttúrufegurðar sem er á þessum slóðum. Ljóst sé að mikil ásókn hafi verið í slíkar jarðir á Vestfjörðum á undanförnum árum. Matsþolar byggja á því að ekkert sé því til fyrirstöðu að koma upp einstakri sumarhúsabyggð á landinu á sama hátt og t.d. í Flókalundi. Á jörðinni sé að finna 18 stiga heitar uppsprettur og mælingar sýni að ef borað væri eftir heitu vatni fyndist þar mun heitara vatn. Þá sé á jörðinni einnig mikið af köldu vatni.
Til stuðnings kröfu sinni um að greiddar verði kr. 500.000 fyrir hvern hektara lands vísa matsþolar m.a. til samnings matsbeiðanda frá 2007 við eigenda Skálavíkur innri við Mjóafjörð vegna veglagningar um þá jörð. Samningurinn varði bætur fyrir land undir veg vegna hins nýja Djúpvegar. Í samningnum og stofnskjali eignarinnar komi fram að matsbeiðandi greiddi eiganda Skálavíkur innri 15 milljónir króna fyrir 14,4 ha. úr jörðinni auk malarefnis. Það sé um ein milljón króna á hektara. Í tilviki Skálavíkur innri hafi aðstæður að mörgu leyti verið svipaðar og í þessu máli. Sú jörð hafi verið með lítið undirlendi og hinn nýi vegur klofið hana eftir endilöngu. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum telja matsþolar varlega áætlað að meta hektaraverð undirlendis Auðshaugs á 500.000 krónur pr. ha. Þar til viðbótar komi svo bætur fyrir almenna verðrýrnun jarðarinnar.
Matsþolar byggja á því að við mat á fjárhæð eignarnámsbóta verði ekki hjá því komist að líta til þess hversu gríðarlega mikið af malarefni, innan hins eignarnumda lands, nýtist matsbeiðanda að fullu við veglagninguna. Í tölvupósti Vegagerðarinnar frá 21. apríl sl. hafi verið upplýst að heildarmagn þess malarefnis sem fengið sé úr námum og skeringum innan lands Auðshaugs nemi samtals 236.100 m3. Í matsbeiðni hafi hins vegar verið gert ráð fyrir að eignarnámið tæki til 69.000 m3. Eftir breytingar á veghönnun sé svo gert ráð fyrir að eignarnámið taki til 21.500 m3. Ljóst sé af þessu að langstærstur hluti þess malarefnis sem notaður sé við veglagninguna fáist úr skeringum sem liggi innan hins eignarnumda svæðis. Enginn vafi sé á því að matsbeiðandi hafi af því gríðarlegt hagræði að hægt sé að vinna malarefni úr skeringum og þurfi ekki að flytja þau um langan veg. Standi öll sanngirnisrök til þess að matsþolar fái hlutdeild í því fjárhagslega hagræði sem af þessu hljótist. Sé sú niðurstaða í samræmi við úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta en af þeim megi ráða að þessi aðstaða leiði til þess að hærri bætur séu ákvarðaðar fyrir hið eignarnumda land, sjá t.a.m. úrskurði MNE í málum 12/2006 og 7/2008. Þessi niðurstaða matsnefndarinnar sé eðlileg enda beri nefndinni að meta landið með tilliti til þeirra auðlinda sem séu á hinu eignarnumda landi. Séu malarefni jafngild öðrum auðlindum að þessu leyti. Ef gert sé ráð fyrir að matsbeiðandi geti nýtt 200.000 m3 af malarefnum innan hins eignarnumda lands og þau verðleggist á 50 kr. pr m3 sé verðmæti malarefnisins á eignarnumda landinu ein og sér 10 milljónir.
Í öðru lagi gera matsþolar þá kröfu að matsbeiðandi greiði þeim 10 milljónir króna vegna þess að hinn nýi upphækkaði vegur hefur í för með sér almenna verðrýrnun á jörðinni. Vísa matsþolar til þess að verðmæti Auðshaugs sé fyrst og fremst fólgið í hinu órofa samhengi fjalla, klettabelta, undirlendis og strandlengju. Undirlendi jarðarinnar sé mjög lítið þannig að verðmæti landsins milli fjalls og fjöru sé afar mikið. Af þessum ástæðum sé ljóst að hið nýja vegstæði hafi mjög mikil áhrif á heildarverðmæti jarðarinnar. Vegstæðið muni verða gríðarlega mikið og hátt mannvirki sem kljúfi jörðina eftir endilöngu þannig að fjallið og sjórinn myndi ekki lengur þá samfellu sem áður hafi verið. Sé ekki hægt að bera saman hinn eldri veg og þann nýja að þessu leyti. Í íslenskum rétti sé viðurkennt að eignarnámsþoli eigi ekki aðeins rétt á bótum fyrir hina eignarnumdu eign heldur sé eignarnema skylt að bæta allt það fjárhagslega tjón sem sé að rekja til eignarnámsins. Hér undir falli t.d. verðfall á eign sem eignarnámsþoli haldi eftir þegar hluti eignar sé tekin eignarnámi. Í dómi Hæstaréttar frá 17. mars 2005 í máli nr. 394/2004 (Þjórsártún) hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að landeigandi ætti rétt á bótum fyrir land í allt 250 metra fjarlægt frá miðlínu vegar. Þetta sýni að uppbygging nýs vegar geti haft áhrif á verðmæti lands langt út fyrir skilgreint veghelgunarsvæði. Í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta hafi í nokkrum tilvikum verið fallist á greiða bætur fyrir almenna verðrýrnun á jörðum í tilefni veglagningar sbr. t.d. úrskurður MNE í máli 3/2009. Þá liggi einnig fyrir að matsbeiðandi hafi að eigin frumkvæði boðið bætur að álitum fyrir almenna verðrýrnun sbr. úrskurð MNE í máli 2/2008.
Í þriðja lagi gera matsþolar þá kröfu að matsbeiðandi greiði bætur fyrir eignarnumin malarefni að fjárhæð 1.105.000 krónur. Fyrirhuguð efnistaka matsbeiðanda, utan hins eignarnumda svæðis, nemi svo sem fram komi í gögnum málsins samtals 21.500 m3. Þar af séu fyllingarefni 20.000 m3 og burðarlagsefni 1.500 m3. Bjóði matsbeiðandi 10 krónur fyrir hvern rúmmetra af fyllingaefni en 30 krónur fyrir hvern rúmmetra burðarlagsefnis. Styðjist matsbeiðandi við einhliða verðskrá sína og gefi sér þær forsendur að Auðshaugur sé utan markaðssvæða og bætur boðnar í samræmi við það. Matsþolar geri hins vegar þær kröfur að matsbeiðandi greiði 50 krónur fyrir hvern rúmmetra fyllingarefnis en 70 krónur fyrir hvern rúmmetra burðarlagsefnis. Matsþolar mótmæla því að matsbeiðandi komist upp með það að leggja einhliða verðskrá sína til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir malarefni. Þá telja matsþolar rangt að halda því fram að ekki sé markaður fyrir jarðefni á Vestfjörðum. Það liggi í augum uppi að efnistaka í landi matsþola eigi sér stað á markaðssvæði. Gríðarlegar vegaframkvæmdir fari nú fram vegna vegagerðar á Vestfjörðum. Hafi matsbeiðandi á undanförnum árum því þurft að kaupa jarðefni frá tugum aðila vegna hennar. Ástand vega í fjórðungnum sé þannig að ekkert lát muni verða á vegagerð þar á næstu árum. Sé því ljóst að hvergi annars staðar á landinu verði eftirspurn eftir malarefni meiri en einmitt á Vestfjörðum.
Í fjórða lagi gera matsþolar kröfu um að matsbeiðandi greiði þeim bætur að fjárhæð 300.000 kr. fyrir rask og tímabundna notkun á landi vegna efnistöku utan hins eignarnumda. Ljóst að jafn umfangsmikil vegalagning og nú stendur yfir hefur óhjákvæmilega í för með sér talsvert rask á framkvæmdatíma. Er krafa þessi sett fram af því tilefni.
Endanlegar kröfur matsþola um fjárhæð bóta eru því eftirfarandi:
i) Eignarnumið land.
Land undir vegstæði
41.1 ha @ 500.000 kr./ha 20.550.000 kr.
ii) Almenn verðrýrnun jarðarinnar:
10.000.000 kr.
iii) Efnistaka.
Fyllingarefni 20.000 m3 x 50 kr. per. m3 Burðarlagsefni 1.500 m3 x 70 kr. per. m3
Samtals: 1.105.000 kr.
iv) Tímabundið rask og notkun lands
utan hins eignarnumda. 300.000 kr.
SAMTALS: 31.955.000 kr.
Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Þá vísast, eftir því sem við á, til ákvæða vegalaga nr. 80/2007.
Vísað er til ákvæða laga nr. 11/1973.
NIÐURSTAÐA
Eignarnámið nær til spildu undir vegstæði og efnistöku vegna þess hluta Vestfjarðavegar sem liggur um land Auðshaugs. Samkvæmt gögnum málsins er heildarlengd vegarkafla þess sem liggur um land eignarnámsþola 6.850 metrar.
Eignarnámið beinist að 40 metra breiðu svæði í landi Auðshaugs, þ.e. 20 metra frá miðlínu vegar til hvorrar handar á 6,850 kílómetra löngum kafla í landi Auðshaugs þ.e. 27.40 ha. Við matið verður að líta til þess að eignarnemi á fyrir veg á hinu nýja vegstæði.
Af hálfu eignarnámsþola hefur ekki verið sýnt fram á að stærri spilda en krafa eignarnema beinist að þ.e.a.s. 19.18 ha falli til eignarnema enda verður að fallast á það með eignarnema að vegna þess að gamli vegurinn er allur í vegstæðinu ber að draga hann frá og þykir mega fallast á það með eignarnema að um sé að ræða 12 metra breitt vegstæði (8.22 ha.).
Land þetta er að hluta til kjarri vaxið en að mestu leyti beitarland og ekki er ræktarland á vegsvæðinu. Telur nefndin hæfilega metnar bætur vegna þess vera 4.315.500 krónur (19,18 x 225.000).
Við framkvæmd eignarnema hækkar vegurinn í landinu víðast hvar frá því sem nú er og sker það í sundur með meira áberandi hætti en áður og enda þótt vegurinn sé á sama stað verður meiri aðgreining á milli fjörusvæðisins og fjallssvæðisins. Telur nefndin að eignarnámsþolum beri sérstakar bætur vegna þessa sem teljast hæfilega ákvarðaðar 1 milljón króna.
Um kröfur vegna jarðefnis er það að segja að nefndin telur bætur vegna fyllingarefnis hæfilega metnar 400.000 krónur (20.000 x 20) og fyrir burðarlagsefni 90.000 krónur (1.500 x 60) eða samtals 490.000 krónur.
Loks telur nefndin hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna tímabundins rasks á framkvæmdatíma nema 300.000 krónum.
Samkvæmt öllu framansögðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola í máli þessu samtals 6.105.500 krónur.
Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþolum 920.864 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 1.661.640 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ
Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Bjarna Svani Kristjánssyni og Valgerði Ingvadóttur 6.105.500 krónur og 920.864 krónur í málskostnað.
Eignarnemi greiði 1.661.640 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.