Hoppa yfir valmynd

Nr. 303/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 303/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040027

 

Beiðni [...] um endurupptöku

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 442/2022, dags. 3. nóvember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. september 2022, um að taka ekki umsókn [...]fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 4. nóvember 2022. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku 13. desember 2022. Með úrskurði kærunefndar nr. 84/2023, dags. 9. febrúar 2023 var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað. Kærandi lagði fram endurupptöku að nýju 5. apríl 2023. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra 17. apríl 2023. Þá bárust upplýsingar frá Vinnumálastofnun 27. apríl 2023. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 4. maí 2023, voru kæranda kynntar framangreindar upplýsingar og veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd bárust andmæli kæranda 8. maí 2023.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur fram að hann krefjist þess að kærunefnd útlendingamála taki mál hans upp að nýju í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafi liðið síðan hún barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Sé litið til stjórnsýsluframkvæmdar hafi afgreiðsla umsóknar í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi. Þar sem þessir 12 mánuðir séu nú liðnir og kærandi sé enn á Íslandi telur hann að stjórnvöldum sé nú skylt samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar. Kærandi telur að hann hafi ekki á nokkurn hátt stuðlað að þeirri töf sem hafi orðið á meðferð máls hans.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b-, c- og d-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Með 10. gr. laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga, voru breytingar gerðar á orðalagi 2. mgr. 36. gr. laganna. Í hinu nýja ákvæði er m.a. kveðið nánar á um við hvaða tímamark skuli miða þegar 12 mánaða fresturinn er annars vegar auk þess sem kveðið er á um til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvað teljist tafir á málsmeðferð hins vegar. Í lokamálslið 2. mgr. 23. gr. breytingalaganna kemur fram að ákvæði 10. gr. gildi ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna. Umrædd lög tóku gildi 5. apríl 2023 og ljóst að umsókn kæranda barst fyrir gildistöku þeirra. Fer því um mál kæranda samkvæmt þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í samræmi við fyrri framkvæmd nefndarinnar og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við úrlausn beiðni kæranda um endurupptöku

Í þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kom fram að ef svo stæði á sem greindi í 1. mgr. skyldi þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefði slík sérstök tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæltu annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hefðu liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar væru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skyldi taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiddi að umrætt 12 mánaða tímabil hæfist þegar umsækjandi legði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Í úrskurðum kærunefndar hefur verið lagt til grundvallar að tímabilinu hafi lokið þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda var framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi færi úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hafði verið tekin.

Kærunefnd hefur túlkað þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 2. apríl 2022 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 2. apríl 2023. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs.

Hinn 17. apríl 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svör Útlendingastofnunar og stoðdeildar bárust kærunefnd þann sama dag. Í svari Útlendingastofnunar kom fram að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild hafi kærandi komið sé undan framkvæmd og verið skráður horfinn 11. mars 2023. Útlendingastofnun telji því að kærandi hafi tafið mál sitt.

Í svari stoðdeildar kemur fram að 1. mars 2023 hafi verið hringt uppgefið símanúmer kæranda og lesið inn á símsvara að kærandi skyldi hafa samband við stoðdeild. Þá hafi stoðdeild þann sama dag hringt í vin kæranda. Rætt hafi verið við vin kæranda á ensku. Vinur kæranda hafi greint frá því að vera í sambandi við hann og þá oftast í gegnum samskiptamiðilinn facebook þar sem kærandi væri ekki með síma. Þá hafi vinur kæranda greint frá því að sambýliskona sín væri hjá sér og rétt henni símann. Sú kona hafi talað lýtalausa íslensku og rætt við stoðdeild. Kvað hún sambýlismann sinn ætla að hitta kæranda síðar um daginn. Hafi stoðdeild beðið hana að koma skilaboðum til kæranda að hann þyrfti að hitta stoðdeild og að notast yrði við túlk þegar rætt yrði við hann. Hafi hún verið spurð hvort sambýlismaður sinn gæti sent skilaboð á lögreglumann þegar hann væri með kæranda og hafi hún talið það mögulegt. Hinn 2. mars 2022 hafi stoðdeild sent skilaboð í síma vinar kæranda þess efnis að kærandi skyldi mæta á fund hjá stoðdeild í Bæjarhrauni 18, klukkan 13:00. Hinn 6. mars 2023 hafi stoðdeild farið að lögheimili vinar kæranda en nafn hans eða sambýliskonu hans hafi ekki verið skráð í anddyri stigagangsins. Hinn 11. mars 2023 hafi stoðdeild farið á skráðan dvalarstað vinar kæranda en kærandi hafi einnig verið með það heimilisfang skráð sem dvalarstað. Nafn vinar kæranda hafi ekki verið skráð á íbúalista eða á póstkössum en gögn lögreglu hafi staðsett hann í ákveðinni íbúð á þessu heimilisfangi. Stoðdeild hafi farið að íbúðardyrunum og bankað en enginn komið til dyra. Mátti sjá inn um glugga íbúðarinnar að bæði þvottahús og svefnherbergi væru tóm sem hafi bent til þess að enginn íbúi hafi verið búsettur þar.

Í framhaldi óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um það hvort kærandi hefði verið skráður horfinn og hvers vegna. Í svari frá Vinnumálastofnun sem barst kærunefnd 27. apríl 2023 kom fram að kærandi hafi ekki svarað í síma þegar reynt hafi verið að hringja í hann. Kærandi hafi þó notað greiðslukort sitt frá Vinnumálastofnun og hann væri ekki skráður horfinn núna.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 4. maí 2023, voru kæranda send þau gögn sem bárust frá stoðdeild, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun og honum veittur frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í tölvubréfi kæranda, dags. 8. maí 2023, kemur fram að hann geri alvarlegar athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að hann hafi tafið mál sitt. Þá gagnrýnir kærandi vinnubrögð Útlendingastofnunar þegar hann var skráður horfinn 17. apríl 2023 eða fimm dögum eftir að Útlendingastofnun barst tilkynning um að beiðni um endurupptöku hafi verið lögð fram. Kærandi telur þetta ekki dæmi um góða og gegnsæja stjórnsýsluhætti en gera verði ráð fyrir að hafi lögregla og Útlendingastofnun talið hann horfinn fyrir þennan tíma hafi þeim borið að skrá hann horfinn strax. Kærandi vísar til þess að þjónustuveitandi hans kannist ekki við að hann sé skráður horfinn og hafi veitt honum þjónustu allan þann tíma sem hann hafi dvalið hér á landi líkt og svar Vinnumálastofnunar beri með sér. Kærandi telur framkvæmd lögreglu vera ómarkvissa í þá tíu daga í byrjun mars sem hún hafi sinnt máli hans. Kærandi vísar til þess að lögreglan hafi fengið beiðni um framkvæmd 5. nóvember 2022 en ekki hafi verið haft samband við Vinnumálastofnun eða raunverulegan talsmann hans. Þá virðist lögregla ekki hafa hringt í skráð íslenskt símanúmer hans. Kærandi, vinur hans eða sambýliskona vinar kæranda hafi ekki verið upplýst um afleiðingar þess myndi hann ekki vera í sambandi við lögreglu. Kærandi telur því afar ósanngjarnt að telja að hann hafi tafið mál sitt í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að stjórnvöld verði að bera ábyrgð á því að framkvæmdin hafi ekki tekist.

Af framangreindum upplýsingum frá stoðdeild má ráða að tafir hafi orðið á framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli kæranda. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið í búsetuúrræði sínu þegar stoðdeild kom þar fyrir og ekki svarað í það eina skipti sem stoðdeild reyndi að hringja í uppgefið símanúmer þá liggur fyrir að stoðdeild aðhafðist ekki í málinu fyrr en í mars. Verður að telja að slík framkvæmd sé ómarkviss og miðað við gögn málsins er ekki hægt að fullyrða að kærandi hafi tafið mál sitt.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 2. apríl 2022, er það mat kærunefndar að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku máls síns, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli framkvæmdar kærunefndar við beitingu þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant‘s request to re-examine the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta