Mál nr. 499/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 499/2023
Mánudaginn 22. janúar 2024
A
gegn
barnaverndarþjónustu B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. 12. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 18. september 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, C.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn, C er X ára gamall sonur kæranda. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar kæranda, dags. 10. ágúst 2023. Efni tilkynningar var meint vanræksla og ofbeldi föður gagnvart barni.
Ákveðið var að hefja könnun máls 14. ágúst 2023. Í kjölfar könnunar var mál drengsins tekið fyrir hjá starfsmönnum barnaverndarþjónustu B 18. september 2023 og var niðurstaðan sú að ekki væri þörf á frekari úrræðum á grundvelli barnaverndarlaga en foreldrum væri bent á að sækja námskeið Samvinna eftir skilnað (SES). Hin kærða ákvörðun um lokun málsins er dags. 18. september 2023.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. október 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu B barst nefndinni með bréfi, dags. 25. október 2023. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 19. nóvember 2023. Athugasemdir kæranda voru sendar barnaverndarþjónustu B til kynningar með bréfi 24. nóvember 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að málið verði opnað að nýju og það kannað með fullnægjandi hætti af þar til bærum sérfræðingum sem hafi meiri getu til að takast á við málið.
Kærandi hafi þann 10. ágúst 2023 tilkynnt barnsföður til barnaverndarþjónustu B vegna vanrækslu og andlegs ofbeldis gagnvart X ára syni þeirra. Kærandi hafði samband við barnaverndarþjónustuna í von um hjálp til handa barnsföður sínum svo hann fengi viðeigandi ráðgjöf og fræðslu til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu svo sonur þeirra gæti búið við öryggi, stöðugleika, rútínu og traust þegar hann umgengst föður sinn. Kærandi kveðst reyndar hafa átt að vera búin að tilkynna föður mikið fyrr því nú líti út fyrir að lögheimilisfjölskyldan sé svo góður leppur á vanhæfi barnsföður að það sé vel falið. Í það minnsta svo vel falið að starfsmenn barnaverndarþjónustu B hafi ekki séð ástæðu til annars en að loka málinu án aðgerða þrátt fyrir að greinagerð sýni að faðir hafi gengist við flestu sem tilkynningin náði til.
Það sé mat kæranda að könnun hafi ekki verið gerð með fullnægjandi hætti m.t.t. tilkynningar um andlegt og tilfinningalegt ofbeldi og alvarlegra afleiðinga þess. Kærandi telji að ekki hafi verið aflað nægra upplýsinga um andlegt ásigkomulag sonar þeirra og þá sérstaklega með tilliti til langvarandi andlegs ofbeldis af hálfu föður sem barnaverndinni hafi verið tilkynnt um bæði í sérstakri tilkynningu og svo nánar í viðtali í könnunarferlinu. Ekki hafi verið leitað til sérfræðinga vegna annarra atriða sem könnuð hafi verið t.a.m. […] föður sem hljóta að teljast ófullnægjandi en íbúðin sé ósamþykkt þar sem hún uppfyllir ekki byggingareglugerð m.a. vegna ófullnægjandi […]. Auk þess innihaldi greinargerð barnaverndarþjónustu töluvert af rangfærslum sem nauðsynlegt sé að leiðrétta.
Málið hafi ekki verið afgreitt með þeim hætti að öryggi drengsins, framkoma föður og aðbúnaður drengsins hjá föður sínum hafi batnað og því sjái hún engan annan farveg en að kæra afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndar velferðarmála. Til viðbótar hafi kærandi leitað til sýslumanns eftir aðstoð og bíði eftir að málið verði tekið upp þar.
Kærandi telur að könnun málsins hafi ekki verið unnin með fullnægjandi hætti eins og málsgögn sýni. Barnaverndarþjónustan hafi ekki aðhafðst nóg til að leggja mat á andlegt ásigkomulag, hegðun og líðan sonar kæranda auk þess sem ekki hafi verið leitað til sérfræðings í […] á heimili föður hafi verið ábótavant. Þá sé það mat kæranda að ekki hafi verið hlustað né mark tekið á upplýsingum sem kærandi veitti bæði í tilkynningu sinni til barnaverndar, í símtölum svo og í viðtali þann 22. ágúst 2023.
Eins og greinargerð barnaverndar sýni hafi upplýsinga um andlegt og líkamlegt ásigkomulag og líðan sonar kæranda verið aflað í einu viðtali, sem fram fór þann 16. ágúst 2023. Viðtalið hafi staðið í rúman hálftíma og lauk þegar syni kæranda fóru að finnast spurningarnar óþægilegar og bað um að fara. Ekki hafi verið gerð tilraun til að ræða við hann aftur né til frekari upplýsingaöflunar um líðan hans og ásigkomulag. Oft sé erfitt að greina andlegt eða tilfinningalegt ofbeldi og afleiðingar þess, jafnvel af færustu sérfæðingum, og sé það mat kæranda að ekki hafi verið aðhafst nóg af hálfu barnaverndarnefndarinnar til að leggja mat á andlegt ásigkomulag, hegðun og líðan sonar hennar. Eins og gögn um tölvupóstsamskipti kæranda við starfsmann hjá barnverndarþjónustu B, dags. 17. ágúst 2023, sýni hafði kærandi áhyggjur af því að ábyrgðarmaður málsins hafi sýnt hlutdrægni með föður og bað kærandi sérstaklega um að hlutlaus aðili héldi utan um málið svo könnunin yrði gerð á sanngjarnan og hlutlausan hátt. Málið hafi hins vegar ekki verið sett í hendur annars ábyrgðaraðila. Það sé mat kæranda að málið hafi ekki fengið hlutlausa meðferð heldur sé niðurstaða þess lituð af persónulegu áliti ábyrgðaraðila og hlutdrægni með föður. Þrátt fyrir ítarlegar upplýsingar frá kæranda um […] Í greinargerð barnaverndar komi meira að segja fram að starfsmenn barnaverndar hafi þurft að ræða við föður um að halda báðum börnum sínum fyrir utan deilur foreldra. Það að blanda börnum sínum inn í deilur, hvort sem þær séu á milli foreldra eða annarra geti vart verið skýrara merki um andlegt ofbeldi gagnvart börnunum.
Kærandi telur að töluverðar rangfærslur séu í greinargerð barnaverndarþjónustu sem nauðysnlegt sé að leiðrétta. Þar sé því m.a. haldið fram að barnið sýni bæði blóðforeldrum sínum og stjúpforeldrum væntumþykju og því semji vel við systkini sín, bæði stjúp-, hálf-, og alsyskin. Hið rétt sé að barninu semji ekkert sérstaklega vel við systkini sín og kærandi þekki ekki til þess að forsendur séu fyrir því að halda því fram að barnið eigi stjúpsystkin. Faðir búi einn og fari umgengni við son fram á því heimili sem hann býr einn á. Faðir eigi kærustu, til tæplega X ára, sem á börn en þau teljast varla til stjúpsystkina. Þá sé kæranda ekki kunnugt um að kærasta föður hafi uppeldishlutverk gagnvart syni hennar né að hún sé aðili þessa máls.
Þá komi fram í greinargerðinni að skv. upplýsingum frá umsjónakennara sé félagsleg staða barnsins góð og að barninu semji vel við önnur börn. Umsjónakennari virðist hafa gleymt að minnast á að síðasta vetur hafi kærandi þurft að leita til hennar eftir aðstoð vegna […].
Í greinargerð barnaverndar komi fram að faðir hafi réttlætt að sonur þeirra horfði á bannaðar myndir hjá sér. Hann hefði horft á eina […] mynd sem hafi verið bönnuð börnum yngri en 16 ára. Hið rétta sé að faðir hafi ítrekað horft á bannaðar myndir og efni sem ekki sé viðeigandi fyrir börn með syni sínum, a.m.k. síðan hann var X ára gamall. Kærandi hafi ítrekað átt samskipti við föður vegna þessa og beðið um að bót verði á. Kærandi eigi margar blaðsíður af samskiptum við föður þessu og öðru til sönnunar. Þá komi einnig fram að barnið sé meira en minna í símanum hjá föður og að hann sjái ekki muninn á því að barnið sé í símanum sem sé nettengdur og því að hann horfi á sjónvarpið.
Í greinargerðinni sé stutt samantekt úr stuttu viðtali við barnið og kæranda frá 16. ágúst 2023. Kæranda telur að samantektin endurspegli illa þau samskipti sem hafi átt sér stað í viðtalinu. Þar komi fram að barnið sé að […]. Faðir hafi lofað slíku í lok hverrar helgar sem barnið sé hjá honum en hafi svo ávallt ekki staðið við það loforð þegar barnið komi til hans næst.
Þá komi fram að barnið segist vera myrkfælið því að það horfi svo mikið á Youtube og hafi horft á […] með móður sinni. Í fyrrgreindu viðtali kom skýrt fram að hjá móður séu barninu sett mörk með skjátíma og fylgst sé með því þegar það fær leyfi til að horfa á Youtube. Einnig komi fram að kærandi og sonur hennar hefðu horft á einn þátt af […] saman, þar sem kærandi útskýrði efni þáttarins m.t.t. raunveruleika og tæknibrellna, til að svala forvitni og miklum áhuga sonar á efninu. Áhugi sonar kæranda á þessum hræðilegu þáttum hafi horfið eftir þetta eina áhorf. Ekki hafi ábyrgðaraðila málsins þótt ástæða til að hafa þessar upplýsingar með í greinargerðinni en þótt viðeigandi að láta það standa að barnið horfði á […] með mömmu sinni.
Þá sé eftirfarandi haft eftir drengnum, ,,Hjá mömmu fer það oft í sund áður en yngri bróðir sinn fæddist”. Hið rétta sé að barnið fari mjög oft í sund hjá mömmu sinni, að jafnaði þrisvar sinnum í viku, og hafi þeim sundferðum fjölgað ef eitthvað sé eftir að yngri bróðir bættist í hópinn.
Í greinargerð barnaverndar sé stutt samantekt úr viðtali sem tekið var við kæranda og stjúpföður. Í viðtalinu hafi starfsmenn barnaverndarþjónustu fengið mikilvægar upplýsingar um framkomu og hegðun föður […]. Einnig hafi starfsmenn barnaverndarþjónustu fengið upplýsingar um slæman aðbúnað á heimili föður m.a. að […]. Ekkert af þessum upplýsingum hefur þó verið tekið nógu alvarlega til að þær rötuðu í greinargerð barnaverndarþjónustu. Þá hafi starfsmenn barnaverndarþjónustu einnig verið upplýstir um áralanga hegðun föður gangvart kæranda sem hafi í meðvirkni sinni reynt að halda öllu góðu í þeirri von um að það hafi verið það besta fyrir börnin.
Þá komi fram að í viðtalinu hafi móðir komið með ábendingu um að faðir hafi farið með barnið á […]. Hið rétta sé að kærandi benti barnavernd á það ábyrgðarleysi föður að hafa farið með barnið […] í tilkynningu sinni til barnaverndarinnar 10. ágúst 2023.
Vikið sé að því í greinargerðinni að í fyrri vitjun til föður hafi komið fram að það vantaði ýmsar […].
Í athugasemdum kæranda við greinargerð barnaverndarþjónustu B kemur fram að í greinargerð ábyrgðaraðila barnaverndarmálsins segi að faðir hafi fengið ráðleggingar varðandi uppeldisskyldur sínar, sem hann hafi tekið vel við og að hann hafi bætt […] eftir að starfsmenn barnaverndar höfðu gert við þær athugasemdir. Það hafi því verið niðurstaða barnaverndarþjónustunnar að ekki væri þörf á hennar aðkomu en foreldrum ráðlagt að sækja námsleið um samvinnu eftir skilnað. Þá sé það mat barnaverndarþjónustunnar að könnun máls hafi verið gerð með fullnægjandi hætti þar sem farið hafi verið í alla þætti tilkynningar kæranda og þeim fylgt eftir. Enginn rökstuðningur fylgir frá ábyrgðaraðila málsins eða barnaverndarþjónustunni með þessum fullyrðingum.
Í greinargerðinni sé ábendingum kæranda um að ekki hafi verið aflað nægra upplýsinga um andlegt ásigkomulag barns með tilliti til langvarandi andlegs ofbeldis af hálfu föður ekki svarað. En upplýsinga um andlegt og líkamlegt ásigkomulag og líðan sonar kæranda hafi verið aflað í einu viðtali, sem fram fór þann 16. ágúst 2023. Viðtalið hafi staðið í rúman hálftíma og lauk þegar syni kæranda fóru að finnast spurningarnar óþægilegar og bað um að fara. Ekki hafi verið gerð tilraun til að ræða við hann aftur né til frekari upplýsingaöflunar um líðan hans og ásigkomulag.
Ekki sé að finna í greinargerðinni viðbrögð við ásökunum kæranda um hlutdrægni ábyrgðaraðila barnaverndarmálsins með föður. En kærandi hafði áhyggjur af að ábyrgðaraðili málsins sýndi hlutdrægni með föður og bað kærandi sérstaklega um að hlutlaus aðili héldi utan um málið svo könnunin yrði gerð á sanngjarnan og hlutlausan hátt. Málið hafi ekki verið sett í hendur annars ábyrgðaraðila. Það sé mat kæranda að málið hafi ekki fengið hlutlausa meðferð heldur sé niðurstaða þess lituð af persónulegu áliti ábyrgðaraðila og hlutdrægni með föður.
Í greinargerðinni komi fram að það sé ekki hlutverk barnaverndarþjónustu að sinna […]. Það hljóti hins vegar að vera hlutverk og skylda barnaverndarþjónustunnar að tryggja öryggi barna. Þegar starfsmenn barnaverndarþjónustunnar hafa séð ástæðu til að gera athugasemdir við […] barns þá hljóti það að vera hlutverk hennar að fylgja því almennilega eftir að bætt sé úr þeim. Er það mat kæranda að starfsmenn barnaverndar hafi ekki þá hæfni sem þarf til að geta metið hvort […] eftir að faðir bætti úr ágöllunum. Þá sérstaklega í ljósi þess að í greinargerð barnaverndar í máli barns dags. 15. september 2023 komi fram að starfsmenn barnaverndar, sem fóru tvisvar á heimili föður til að kanna þar aðstæður, […].
Kærandi og barnsfaðir hennar hafi slitið samvistum á árinu X, fyrir X árum síðan. Séu skrifleg samskipti kæranda og föður barns skoðuð sé auðvelt að greina að mál þetta sé ekki sprottið upp af samskiptavanda foreldra í kjölfar skilnaðar. Samskipti séu venjulega með ágætasta móti þegar faðir barnsins sé í jafnvægi og hafi kærandi lagt sig fram við að halda öllu góðu. Kærandi hafi í nokkur skipti reynt að leiðbeina föður og beðið hann að breyta hegðun sinni gagnvart börnum þeirra og lagt til utanaðkomandi ráðgjöf án árangurs. Kærandi leitaði til barnaverndarþjónustunnar með þá von í brjósti að árangur næðist þar sem faðir gæti þar fengið viðeigandi ráðgjöf og fræðslu til að styrkja sig í uppeldishlutverkinu.
Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við samskiptaskráningu málsins sem hún telur að sé stórlega ábótavant. Fyrir utan að ná illa utan um efni og umræður í þeim viðtölum sem kærandi sat og getið sé í samskiptaskráningunni þá vanti í hana a.m.k. eina vitjun til föður og eitt viðtal við föður og kærustu hans. Auk þess vanti skráningu samskipta sem fóru fram í síma og tölvupóstum. Í samskiptaskráninguna vanti m.a. eftirfarandi símtöl:
-Símtal D (D) og kæranda, dags. 17. ágúst 2023 þar sem D sagðist ekki veita ráðgjöf í svona forsjármálum. D spurði kæranda, sem hafi verið grátandi í símann eftir líflátshótanir frá barnsföður fyrr um morguninn, hvað hún væri eiginlega hrædd um að kæmi fyrir son hennar ef hann færi til föður síns. Kærandi spurði D hvort barnavernd ætlaði ekki að afla upplýsinga um föður frá einhverjum öðrum en kærustu hans, vinum eða ættingjum, en hafi fengið þau svör að það væri ekki hægt.
-Símtal E (E) og kæranda dags. 18. ágúst 2023 þar sem RSR benti á að ekki væri um forsjármál að ræða og þar sem enginn samningur væri fyrir hendi um umgengni gæti faðir ekki hótað að láta lögreglu sækja barnið fyrir sig. Fram kom að E teldi eðlilegt að stöðva umgengni á meðan mál væri til könnunar. E hélt hins vegar að barn færi til föður á fimmtudegi en hann var þegar farinn til föður eftir samtal D og kæranda daginn áður.
-Símtal D og F F), eiginmanns kæranda, dags. 29. ágúst 2023 þar sem D tjáði F að engin ástæða væri til annars en að umgengi við föður héldi áfram og fram kom að hún hefði á sinni könnu svo mörg mikið erfiðari mál en þetta.
-Símtal E og kæranda dags. 30. ágúst 2023 þar sem ákveðið var að eðlilegt væri að umgengni við föður félli niður á meðan könnun væri í gangi.
-Símtal E og F dags. 11.október 2023 þar sem fram kom að barnavernd líti svo á að starfsmenn barnaverndar séu búnir að leiðbeina föður og telji sínu hlutverki í málinu lokið. F hafi upplýst E um hegðun og skilaboð sem gefi til kynna að faðir ætli ekki að fara eftir leiðbeiningum barnaverndar. E spyr F hvort þau treysti föður fyrir barninu og ráðleggur í kjölfarið að umgengi verði ekki komið á nema að gerður sé um það skriflegur samningur. Þá sagðist E skilja hvers vegna kærandi stæði í þessu máli og hvatti til að sótt yrði um fulla forsjá hjá sýslumanni. Kærandi veitir úrskurðarnefnd velferðarmála fulla heimild til að óska eftir og hlusta á hljóðupptökur af símtölum séu þær fyrir hendi hjá barnaverndinni. Þá vanti í samskiptaskráninguna fjölmarga tölvupósta sem finna má í málsgögnum frá kæranda, undirskjöl stofnuð 10. október 2023 í málaskrá kærumáls.
Kærandi gerir athugasemd við eyðublaðið „Könnun máls sbr. 21., 22. og 43. gr. barnaverndarlaga (bvl) nr. 80/2002“ sem hún undirritaði þann 16. ágúst 2023. Upplýsingum um systur barns og símanúmeri hennar hafi verið bætt inn á eyðublaðið eftir undirritun kæranda og án hennar vitundar. Þá gerir kærandi einnig athugasemd við að ekki hafi verið minnst á skipun talsmanns við undirritun eyðublaðsins og kærandi upplýstur um þýðingu talsmanns fyrir barn eða ástæðu þess að ekki hafi verið talin þörf á talsmanni í þessu tilfelli.
Upplifun kæranda af barnaverndarþjónustunni sé sú að algert getuleysi virðist vera fyrir hendi þegar komi að málum sem þessu. Vinnubrögð ábyrgðaraðila málsins séu bæði ófagleg og óvönduð auk þess sem skortur virðist vera á skýru verklagi og ferlum við vinnslu málsins. Kærandi hafi leitað til barnaverndarþjónustu B eftir hjálp. Í stað þess að uppfylla hlutverk sitt um að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu, sem sannarlega sé ástæða til í máli þessu, hafi það verið niðurstaða barnaverndarþjónustunnar að loka málinu án frekari úrræða og kenna um samskiptavanda foreldra eftir skilnað. Málið hafi ekki verið afgreitt með þeim hætti að öryggi, framkoma föður og aðbúnaður barns hjá föður hafi batnað og hafi barnaverndarþjónustunni ítrekað verið tilkynnt um það eftir lokun málsins. Málið sé nú orðið að forræðisdeilu, og komið á borð lögreglu þangað sem kærandi hafi þurft að tilkynna hótanir og háttalag barnsföður og til sýslumanns sem fenginn hafi verið til að úrskurða um forsjá og umgengni.
III. Sjónarmið barnaverndarþjónustu B
Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar kemur fram að kærandi og sambýlismaður hennar hafi þann 10. ágúst 2023 tilkynnt föður til þjónustunnar vegna vanrækslu og tilfinningalegs ofbeldis gagnvart syni þeirra. Könnun hófst í málinu og hafi verið rætt við foreldra, barn og aflað upplýsinga frá skóla. Faðir hafi fengið ráðleggingar varðandi uppeldisskyldur sínar og gerð hafi verið athugasemd við […]. Faðir hafi tekið vel ráðleggingum barnaverndarþjónustu varðandi þau atriði sem fram komu í tilkynningu. Einnig hafi hann […] á heimili sínu. Það hafi því verið niðurstaða barnaverndarþjónustu að aðkomu hennar væri ekki þörf en mælt með SES námskeiði, Samvinna eftir skilnað fyrir foreldra.
Það sé mat barnaverndarþjónustu B að könnun máls hafi verið gerð með fullnægjandi hætti þar sem farið var í alla þætti tilkynninga kæranda og þeim fylgt eftir.
Vegna fullyrðinga kærandaum rangfærslur í greinargerð barnaverndarþjónustu sé bent á að í niðurstöðum könnunar komi fram að barninu semji vel við systkini sín, bæði stjúp-, hálf og alsystkin. Það sé rétt hjá kæranda að barnið eigi ekki stjúpsystkini samkvæmt skilgreiningu á stjúpsystkinum. Faðir og kærasta hans séu í fjarbúð. Kærasta föður eigi börn sem barnið sé í góðum samskiptum við samkvæmt föður og kærustu hans. Í niðurstöðum könnunar sé talað um stjúpsystkini til að reyna að einfalda þá mynd sem dregin sé af tengslum barns við systkini sín og börn maka foreldris.
Þá komi fram í niðurstöðum könnunar að samkvæmt upplýsingum frá skóla sé félagsleg staða barnsins góð og að barninu semji vel við önnur börn. Kærandi bendir á að umsjónarkennari hafi gleymt að minnast á að síðasta vetur þurfti kærandi að leita til hennar eftir aðstoð vegna hegðunar barnsins og samnemanda gagnvart því. Að sögn kæranda hafi þá verið sett af stað eftirlit með líðan barns sem félagsráðgjafi skólans fylgdist með um tíma. Barnaverndarþjónustan telur að þær upplýsingar sem skóli lætur í té af hverju sinni, lýsi stöðu og líðan barns á þeim tíma sem upplýsinga sé aflað og gengið sé út frá þeim.
Í niðurstöðum könnunar komi fram að faðir hafi réttlætt að barnið horfi á bannaðar myndir. Einnig komi fram í sama kafla í niðurstöðum könnunar að starfsmenn barnaverndarþjónustu hafi ráðlagt og leiðbeint föður um að vera ekki að sýna barninu sjónvarpsefni eða annað myndefni sem hæfi ekki aldri barnsins. Þá hafi verið brýnt fyrir föður að setja barninu mörk varðandi skjátíma og hafa eftirlit með netnotkun.
Kærandi gerir athugasemd við frásögn í niðurstöðum könnunar og segir barnið […] eins og fram komi í greinargerðinni. Ef staðreyndin sé sú að barnið […] þá hafa starfsmenn barnaverndarþjónustu þarna að öllum líkindum misskilið barnið.
Það sé rétt hjá kæranda að barnaverndarþjónustan hafi greint frá því í greinargerð um niðurstöður könnunar að kærandi hafi horft á […] með barninu. Það sé mat barnaverndarþjónustunnar að slíkt sjónvarpsefni sé ekki aldurssvarandi fyrir barnið þrátt fyrir að útskýrt sé fyrir því hvað sé að gerast eins og kærandi lýsir. Þá gerir kærandi athugasemd við að tíðni sundferða sem barnið fer með kæranda. Varðandi það sem kemur fram í greinargerð um […] og fjölda sundferða sé haft eftir barni.
Kærandi lýsi óánægju sinni með að barnaverndarstarfsmenn hafi ekki tekið nægilega alvarlega upplýsingar sem tilkynnt hafi verið um. Upplýsingarnar fólu í sér lýsingar á framkomu föður, að hann sýndi […] sem verkfæri til að fá sínu framgengt og sinnti ekki foreldrahlutverki heldur líti á börn sín sem félaga. Þá hafi […]. Starfsmenn barnaverndarþjónustu spurðu föður um þessa meintu ógnandi hegðun en hann sagði þessar ásakanir ekki vera á rökum reistar. Það sé ekki hlutverk barnaverndarþjónustu að hlutast til með meðlag milli foreldra. Farið hafi verið í tvígang á heimili föður til að kanna […]. […] hafi verið í lagi, íbúðin snyrtileg og […] að mati starfsmanna barnaverndarþjónustu.
Þá komi fram að kærandi hafi bent starfsmönnum barnaverndarþjónustu á ábyrgðarleysi föður að hafa farið með barnið […]. Það sé rétt að það hefði átt að koma fram að barnið hafi verið […]. Starfsmenn barnaverndar brýndu fyrir föður að gera slíkt ekki.
Hvað varði aðfinnslur kæranda varðandi […] þó sé bent á að það sé ekki hlutverk barnaverndarþjónustu að sinna […]. Hins vegar hafði faðir bætt úr þeim ágöllum sem bent hafði verið á.
IV. Niðurstaða
Drengurinn, C er X ára gamall sonur kæranda. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar kæranda, dags. 10. ágúst 2023. Efni tilkynningar var meint vanræksla og ofbeldi föður gagnvart barni. Með hinni kærðu ákvörðun var ákveðið að loka barnaverndarmálinu.
Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir þjónustunnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að þjónustan skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarþjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarþjónustunnar, skyldu til að láta barnaverndarþjónustum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort barnaverndarþjónusta B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum barnsins og því bæri að loka málinu með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.
Samkvæmt gögnum málsins hófst mál drengsins í kjölfar tilkynningar kæranda dags. 10. ágúst 2023. Málinu var lokað með hinni kærðu ákvörðun í kjölfar könnunar málsins. Í greinargerð um niðurstöðu könnunar málsins, dags. 15. september 2023 kemur fram að greinargerðin byggi á greinargerð frá skóla barns dags. 17. ágúst 2023, viðtali við barn þann 16. ágúst 2023, heimsóknum starfsmanna barnaverndarþjónustu 23. ágúst 2023 og 6. september 2023 á heimili föður, viðtölum við föður og kærustu hans 15. og 31. ágúst 2023 og viðtali við móður 16. ágúst 2023 og móður og stjúpföður 22. ágúst 2023. Að mati starfsmanna barnaverndarþjónustu sýndi niðurstaða könnunar að ekki væri stuðningsþörf og lagt til að málinu yrði lokað. Þó væri lagt til að foreldra leituðu sé aðstoðar vegna samskiptavanda þeirra sem bitnar á barninu.
Í 1. mgr. 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.
Þá segir í 7. mgr. 4. gr. að barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir mat barnaverndarþjónustunnar að aðstæður drengsins eru ekki þess eðlis að þörf sé á frekari aðkomu barnaverndarþjónustu að máli drengsins. Báðir foreldrar hafa verið metnir hæfir til að sinna foreldrahlutverki sínu og aðbúnaður drengsins góður þó samskiptavandi foreldra hafi neikvæð áhrif á barnið. Úrskurðarnefndin telur að með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og þeim athugunum sem framkvæmdar voru við könnun máls að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati barnaverndarþjónustunnar að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl.
Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun barnaverndarþjónustu B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun barnaverndarþjónustu Seltjarnesbæjar, dags. 16. september 2023, um að loka máli vegna, C, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson