Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 529/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 529/2020

Miðvikudaginn 27. janúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 21. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. september 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 9. september 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. september 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni sem barst með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. október 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. október 2020. Með bréfi, dags. 22. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Þann 5. nóvember 2020 barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2020. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd 10. nóvember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2020, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. nóvember 2020. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd 17. nóvember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að farið sé fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærðar séu ákvarðanir Tryggingastofnunar vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri, dags. 2. júní og 15. september 2020, sem hafi verið byggðar á því að kærandi hafi ekki fullreynt meðferðarúrræði.

Kærandi hafi tekið þátt í mörgum meðferðarúrræðum sem henni hafi verið vísað í eins og komi fram í vottorðum, þar með talið VIRK sem sé grundvöllur neitunar Tryggingastofnunar um örorkubætur.

Það komi skýrt fram í læknisvottorði B og bréfi C, hjúkrunarfræðings á geðdeild Landspítalans, að meðferðarúrræði séu fullreynd og henti ekki vegna aðstæðna kæranda, þ.e. eðli sjúkdóma hennar (ódæmigerð einhverfa) og þar sem hún sé […] orðin móðir. Kærandi hafi verið greind með ódæmigerða einhverfu, þunglyndi, félagsfælni, ofvirkni og athyglisbrest. Afleiðingarnar séu yfirþyngd og í kjölfar þess áreynsluastmi.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 11. nóvember 2020, komi fram að Tryggingastofnun hafi í greinargerð sinni sagt að í ljósi ungs aldurs kæranda sé eðlilegt að reyna endurhæfingu til þrautar. Andlegir sjúkdómar spyrji ekki um aldur og það sé ekki til nein lækning við andlegum sjúkdómum kæranda. Aldur skipti ekki máli og læknar kæranda taki undir það.

Það sé mat Tryggingastofnunar að félagslegar aðstæður komi ekki í veg fyrir að meðferð /endurhæfing komi til greina síðar og að ekki sé tímabært að meta örorku. Þessu sé mótmælt þar sem læknar kæranda telji meðferðarúrræði vera fullreynd, sbr. læknisvottorð B, dags. 30. apríl 2020.

Að mati Tryggingastofnunar sé ekki útséð um að með aðstoð fagaðila megi finna viðeigandi úrræði, að teknu tilliti til heilsufars og ungs aldurs kæranda, sem geti stuðlað að starfshæfni hennar, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Þessari fullyrðingu sé mótmælt. Það sé staðfest í vottorði B, dags. 30. apríl 2020, að endurhæfing kæranda sé fullreynd

Tryggingastofnun vísi til þess að á grundvelli 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi vísi enn og aftur í læknisvottorð þar sem fram hafi komið að meðferðarúrræði séu talin fullreynd. Kærandi hafi tekið þátt í eftirfarandi meðferðarúrræðum án árangurs; ÞOK, HAM PEERS, VIRK og hún hafi einnig sótt þjónustu vegna geðrænna veikinda hjá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Geðheilsuteymi LSH.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lög á lækna og aðra fagaðila hverju sinni. Þessu sé mótmælt þar sem meðferðar- og endurhæfingarúrræði hafi verið fullreynd eins og komi fram í gögnum málsins.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 17. nóvember 2020, komi fram að í greinargerð Tryggingastofnunar segi að samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar sé það skilyrði gert fyrir greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi sé metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Læknisfræðileg gögn í þessu máli gefi ekki til kynna að kærandi uppfylli þetta skilyrði laganna. Þessu sé andmælt, B læknir hafi staðfest að kærandi sé óvinnufær.

Sjúkdómsgreining þessi sé byggð á grundvelli mats heilsugæslunnar, Geðheilsuteymis LSH, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og þeim árangurslausu úrræðum sem kærandi hafi tekið þátt í. Ódæmigerð einhverfa sé viðurkenndur sjúkdómur sem falli undir andlega fötlun samkvæmt Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 9. september 2020. Með bréfi, dags. 15. september 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað. Kæranda hafi hins vegar verið bent á reglur er varði endurhæfingarlífeyri og hún hvött til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu. Rökstuðningur fyrir synjun Tryggingastofnunar hafi verið veittur með bréfi, dags. 1. október 2020. 

Vakin sé athygli á því að í bréfi, dags. 9. september 2020, hafi fyrir mistök ítrekað verið vísað í sömu gögnin. Það skýrist að hluta til af því að sömu gögn hafi verið lögð fram með umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 2. mars 2020, þar með talið læknisvottorð, dags. 21. febrúar 2020. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. júní 2020, með sömu rökum.

Samkvæmt gögnum þessa máls, þar með talið læknisvottorði, dags. 21. febrúar 2020, sé um X ára gamla konu að ræða sem hafi frá unga aldri glímt við geðræn vandamál. Hún hafi verið greind með ADHD og ódæmigerða einhverfu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins um X ára aldur. Kærandi hafi verið á lyfjameðferð vegna ADHD en gert hlé á því sökum þungunar.

Um geðsögu kæranda síðustu ár segi í framangreindu læknisvottorði að hún hafi verið í þjónustu hjá ÞOK teymi Landspítala á tímabilinu X 2019 til X 2020. Í viðtölum í ÞOK hafi hún greint frá kvíða, depurð, tilfinningasveiflum og svefnerfiðleikum. Kærandi hafi sinnt meðferð og sótt ýmis námskeið og náð góðum árangri. Við lok meðferðar hafi verið gert frekara mat á geðrænum einkennum og hafi hún verið skimuð fyrir geðrænum einkennum með geðgreiningarviðtalinu M.I.N.I. Samkvæmt svörum hennar, bæði í viðtali, á sjálfsmatsákvörðun og í geðgreiningarviðtali, hafi hún upplifað alvarlegar geðlægðarlotur í gegnum tíðina og hafi greint frá því að upplifa kvíða, meðal annars í ákveðnum aðstæðum sem tengist fjölskyldu hennar. Einkenni hennar hafi hins vegar ekki uppfyllt greiningarskilmerki fyrir sértæka kvíðaröskun. Kærandi hafi einnig lýst lágu sjálfsmati og erfiðleikum í samskiptum.

Nánar um heilsuvanda og færniskerðingu segi meðal annars í læknisvottorði að ljóst sé að ofangreindir þættir hamli gengi kæranda á almennum vinnumarkaði. Hún hafi aldrei haldið vinnu meira en X mánuði í senn. Hún mæti þá illa og sofi mikið. Kærandi brenni allar brýr að baki sér og gangi mjög illa í mannlegum samskiptum. Henni hafi verið vísað í VIRK en hún hafi ekki mætt þar og hafi umsókn verið vísað frá. Kærandi hafi farið í gegnum heilmikið greiningar- og meðferðarferli og virðist nokkuð langt frá því að geta höndlað almennan vinnumarkað.

Varðandi félagslegar aðstæður kæranda segir að hún búi í félagslegri íbúð og sé þunguð […].

Í umfjöllun um læknisskoðun kæranda, sem hafi farið fram 21. febrúar 2020, sé vikið að ungum aldri hennar, hún sé snyrtileg, yfir kjörþyngdarmörkum og hafi mætt í viðtalið með föður sínum. Viðmót sé greindarlegt og hún hafi „adekvat jafnvel eilítið kumpánlegur og glettinn kontakt.“ Hún virðist hafa gott sjálfsinnsæi og ræðir hinar og þessar geðraskanir af nokkurri kunnáttu, hafi lesið sér víða til. Nú sem áður sé hún meyr og klökk er hún lýsi sínum takmörkunum og áhyggjum. Að mati læknis sé kærandi óvinnufær að hluta síðan 31. mars 2015.

Upplýsingar um geðrænan vanda kæranda, sem komi fram í framangreindu læknisvottorði, séu studdar öðrum gögnum, þar með talið bréfi Landsspítala, dags. 19. maí 2020, til A heimilislæknis. Í læknabréfi, dags. 11. ágúst 2020, komi fram að kærandi sé með áreynsluastma.

Í spurningalista vegna færniskerðingar, sem hafi fylgt með umsókn um örorkulífeyri, dags. 9. september 2020, komi meðal annars fram að því er varði líkamlega þætti að kærandi sé með verki í hnjám og stanslausan verk í mjóbaki vegna yfirþyngdar og áreynsluastma.

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar, dags. 1. október 2020, hafi verið vísað til framangreindra upplýsinga um þroskafrávik og geðrænan vanda, auk erfiðra félagslegra aðstæðna og barnsburðar í X 2020. Þá segi að í ljósi ungs aldurs sé eðlilegt að reyna endurhæfingu til þrautar. Að mati Tryggingastofnunar skjóti félagslegar aðstæður ekki loku fyrir það að meðferð/endurhæfing komi til greina síðar og að ekki sé tímabært að meta örorku.

Að mati Tryggingastofnunar sé ekki útséð um að finna megi með aðstoð fagaðila viðeigandi úrræði, að teknu tilliti til heilsufars og ungs aldurs kæranda, sem stuðlað geti að starfshæfni hennar, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Á grundvelli 7. gr. þeirra laga sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum, sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar, í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. nóvember 2020, komi fram að vegna framkominna athugasemda hafi stofnunin farið yfir gögn máls á nýjan leik, þar með talið læknisvottorð B, dags. 21. febrúar 2020.

Tryggingastofnun minni á að samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar sé það skilyrði gert fyrir greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi sé metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Læknisfræðileg gögn í þessu máli gefi ekki til kynna að kærandi uppfylli þetta skilyrði laganna. Tryggingastofnun hafi því hvatt kæranda til að láta reyna á önnur úrræði innan hins félagslega kerfis, þar með talið endurhæfingu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. september 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í málinu liggur fyrir bréf C, sérfræðings í hjúkrun, dags. 19. maí 2020, til B læknis. Í bréfinu eru tilgreindar sjúkdómsgreiningarnar ódæmigerð einhverfa og truflun á virkni og athygli. Þá segir í bréfinu:

„A var vísað í þunglyndis- og kvíðateymi göngudeildar geðþjónustu febrúar 2019.

A sagði sinn helsta vanda vera félagskvíða, tilfinningasveiflur, svefnerfiðleika og þunglyndiseinkenni. Á þessum tíma var hún ekki með fast húsnæði, […]. A var um tíma á BUGL og hefur verið greind með ódæmigerða einhverfu af Greiningarstöð Ríkisins. Er einnig með ADHD greiningu.

A fór í HAM hópmeðferð […] frá X til X 2019. […] Í framhaldi af HAM hópmeðferðinni sótti hún PEERS námskeið í félagsfærni […] frá X – X 2019.

A mætti á þessi námskeið og tók þátt.

Um sumarið leystust húsnæðismálin og er hún komin með húsnæði á vegum félagsþjónustu.

Staðan núna: A á von á barni í […], hún verður einstæð móðir og með frekar lítið stuðningsnet. Sótt var um þjónustu geðheilsuteymis austur, þeirri beiðni var vísað frá á grundvelli þess að hún væri með ódæmigerða einhverfu. Sótt hefur verið um þjónustu FMB teymis. A tjáir vilja um að fá stuðning við að takast á við meðgönguna og foreldrahlutverkið. Mitt mat er að ofangreint sé brýnasta verkefnið í dag. Ég tel ekki raunhæft að skj.st fari út vinnumarkað á næstu árum. Hún hefur mjög stopula vinnusögu og ekki eru forsendur núna til að gerð sé endurhæfingaráætlun. Það að þurfa að sækja styrk frá Félagsþjónustu hefur verið streituvaldandi og ýtt undir óöryggi. Ég tel að örorkulífeyrir geti tryggt betri aðstæður fyrir skj.st. og hennar barn.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 21. febrúar 2020, vegna fyrri umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Í vottorðinu eru eftirfarandi sjúkdómsgreiningar tilgreindar:

„[Obesity (BMI˃=30)

Truflun á virkni og athygli

Ódæmigerð einhverfa]“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„A var í þjónustu BUGL á unglingsárum. […] Greind með ADHD og greind með ódæmigerða einhverfu hjá Greiningarstöð Ríkisins um X ára aldur. Er með ADHD greiningu og verið á slíkri lyfjameðferð en ekki sem stendur sökum þungunar.

Geðsaga:

-A hefur hljotið þjónustu hjá ÞOK teymi Landspítala á tímabilinu X 2019 til X 2020. Í viðtölum í ÞOK þá greindi A frá kvíða, depurð, tilfinningasveiflum og svefnerfiðleikum. Í ÞOK hefur hún farið í X vikna […] HAM hópmeðferð og PEERS námskeið. Hún hefur sinnt meðferð og námskeiði vel, mætt vel, sinnt verkefnum og heimavinnu og náð góðum árangri. Við lok […] HAM hópmeðferðar óskaði A eftir frekara mati á geðrænum einkennum og undirr skimaði fyrir geðrænum einkennum með geðgreiningarviðtalinu M.I.N.I.

Samkvæmt svörum A bæði í viðtali, á sjálfsmatskvörðum og í geðgreiningarviðtali þá hafði hún upplifað alvarlegar geðlægðarlotur í gegnum tíðina og greindi frá því að upplifa kvíða […] en einkenni hennar uppfylltu ekki greiningarskilmerki fyrir sértæka kvíðaröskun. Hún lýsti einnig lágu sjálfsmati og erfiðleikum í samskiptum.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„Sbr ofangreint. Ljóst að þessir þættir hamla gengi hennar á almennum vinnumarkaði. Aldrei haldið vinnu meira en X mánuði í senn, […]. Brennir allar brýr að baki sér og gengur mjög illa í mannlegum samskiptum. Hef vísað henni til VIRK en mætti þar ekki og umsókn vísað frá. Var lengi vel nánast á götunni […] en nú komin með félagslega íbúð og er þunguð […]. Farið gegnum heilmikið greiningar- og meðferðarferli og virðist nokk langt frá því að geta höndlað almennan vinnumarkað. Það sem er jákvætt er að hún hefur ekki undanfarin X-X ár notað neina vímugjafa.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„X ára kona, snyrtileg, yfir kjörþyngdarmörkum, […]. Greindarlegt viðmót og adekvat jafnvel eilítið kumpánlegur og glettinn kontakt. Virðist hafa gott sjálfsinnsæi og ræðir hinar og þessar geðraskanir af nokkurri kunnáttu, lesið sig víða til. Nú sem áður meyr og klökk er lýsir sínum takmörkunum og áhyggjum.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær að hluta frá 31. mars 2015 og að búast megi við að færni aukist með tímanum.

Einnig liggja fyrir læknabréf B, dags. 30. apríl og 11. ágúst 2020, til Félagsþjónustunnar í X.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja og áreynsluastma. Hvað varðar andlega færni merkir kærandi við að hún glími við andleg vandamál og tilgreinir þar ódæmigerða einhverfu, félagsfælni, þunglyndi, kvíða og ADHD.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing sé ekki fullreynd. Í bréfinu er kærandi hvött til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði eru.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum og líkamlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 21. febrúar 2020, kemur fram að kærandi sé óvinnufær að hluta og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í bréfi C hjúkrunarfræðings, dags. 19. maí 2020, kemur fram það mat C að meðgangan og foreldrahlutverkið sé brýnasta verkefnið fyrir kæranda í dag og að örorkulífeyrir geti tryggt betri aðstæður fyrir hana og hennar barn. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi tekið þátt í ýmsum meðferðarúrræðum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. september 2020 um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta