Hoppa yfir valmynd

Nr. 177/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 177/2019

Miðvikudaginn 14. ágúst 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. maí 2019, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2019 um synjun á umsókn kæranda um heimilisuppbót.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 18. febrúar 2019. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 19. febrúar 2019, var umsókn kæranda um heimilisuppbót synjað á þeim forsendum að hún væri gift.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. maí 2019. Með bréfi, dags. 15. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. maí 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2019. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að synjun Tryggingastofnunar á umsókn hennar um heimilisuppbót verði endurskoðuð.

Í kæru er vísað til 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri og þá segir að kærandi njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli með öðrum. Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. X, hafi kærandi óskað endurskoðunar á synjun á heimilisuppbót frá árinu X og þar sé aðstæðum hennar lýst mjög vel. Kærandi hafi búið [...] án eiginmanns síns í X ár, en hann sé sjúklingur og hafi alltaf búið í C. Þá hafi hún í öll þessi ár [...]. Í kjölfar heilsubrests árið X hafi kærandi misst vinnuna og þegið atvinnuleysisbætur í X ár en svo hafi tekið við örorka árið X.

Eiginmaður kæranda hafi í langan tíma legið fársjúkur á sjúkrahúsi í C. Hjúskaparstaða kæranda sé samkvæmt Þjóðskrá skráð „hjón ekki í samvistum“ sem sé í raun rétt þar sem eiginmaður hennar geti ekki skrifað undir skilnað. Að þessu sögðu sé bent á að samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 sé heimilt að greiða heimilisuppbót ef maki elli- eða örorkulífeyrisþega sé vistaður til frambúðar á stofnun. Ljóst sé að kærandi uppfylli að öðru leyti skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt umræddri reglugerð og ætti því að fá greidda heimilisuppbót. Þess sé óskað að raunverulegar aðstæður kæranda séu skoðaðar sérstaklega en ekki eingöngu samkvæmt skráningu. Tilgangur heimilisuppbótar sé að bæta aðstæður þeirra einstaklinga sem séu einir og þurfi á henni að halda.

Með vísan til gagna málsins sé útlit fyrir að synjun Tryggingastofnunar um heimilisuppbót sé andstæð jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, en mikilvægt sé að stjórnvöld gæti samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Um skýra mismunun sé að ræða í tilfelli kæranda þar sem hún búi sannarlega ein og hafi gert í yfir X ár. En þar sem hún sé enn gift þá sé henni synjað um heimilisuppbót, þrátt fyrir að hún njóti á engan hátt hagræðis af sambýli við mann sinn og hafi aldrei gert sökum aðstæðna þeirra.

Mikilvægt sé að hvert mál sé skoðað sérstaklega og sé þetta mál eitt þeirra. Að lokum er bent á að hægt sé að leggja fram gögn framansögðu til staðfestingar ef óskað sé eftir því.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar frá 19. febrúar 2019 um synjun á heimilisuppbót til kæranda.

Málavextir séu þeir að kærandi sé örorkulífeyrisþegi sem hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar með umsókn þann 18. febrúar 2019. Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem hún hafi ekki uppfyllt það skilyrði laga og reglugerðar um félagslega aðstoð að vera einhleyp. Nánar tiltekið hafi umsókninni verið synjað þar sem samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sé skráð hjúskaparstaða kæranda „Hjón ekki í samvistum“ og þar af leiðandi sé kærandi ekki einhleyp sem sé eitt af skilyrðum þess að eiga rétt á heimilisuppbót.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla. Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem kærandi sé ekki einhleyp. Í málinu liggi fyrir að kærandi sé gift en ekki í samvistum við maka sinn. Þegar svo háttar til sem hér segi, þ.e. að um giftan einstakling sé að ræða, þá séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerð og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til giftra einstaklinga. Því til stuðnings sé vísað í úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í mál nr. 469/2017.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót vegna hjúskaparstöðu hennar.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Með stoð í 5. mgr. 9. gr, sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð og 70. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, var sett reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Svohljóðandi er 8. gr. reglugerðarinnar:

„Nú dvelst maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili og er þá heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu bóta samkvæmt reglugerð þessari.“

Ljóst er að til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði lagaákvæðisins að vera uppfyllt, nema framangreint undantekningarákvæði 8. gr. reglugerðarinnar eigi við. Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um heimilisuppbót með þeim rökum að kærandi er í hjúskap.

Kveðið er skýrt á um það í 8. gr. laga um félagslega aðstoð að umsækjandi þurfi meðal annars að uppfylla það skilyrði að vera einhleypur. Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er sú að um sé að ræða einstakling sem hvorki sé í sambúð né hjónabandi. Óumdeilt er að kærandi er í hjúskap. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi sé ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Kemur þá til skoðunar hvort að kærandi uppfylli framangreint undanþáguákvæði 8. gr. reglugerðarinnar. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að Tryggingastofnun ríkisins hafi tekið til skoðunar hvort framangreint ákvæði eigi við í tilviki kæranda. Í kæru kemur fram að eiginmaður kæranda liggi fársjúkur á sjúkrahúsi í C og hafi gert það í langan tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gefa þessar upplýsingar í kæru tilefni til að rannsaka hvort maki kæranda dveljist til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili eða sambærilegri stofnun, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Úrskurðarnefndin telur því rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til rannsóknar á framangreindu.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2019 um að synja kæranda um heimilisuppbót felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2019 um að synja A, um heimilisuppbót, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta