Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 491/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 491/2020

Fimmtudaginn 28. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2020, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með hléum á tímabilinu september 2016 til ágúst 2020. Í september 2020 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði á því tímabili ekki verið með gilt dvalarleyfi á Íslandi. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2020, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar þar sem hann hefði ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 3.272.019 kr., að meðtöldu 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. október 2020. Með bréfi, dags. 8. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. nóvember 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að útskýring Vinnumálastofnunar á endurgreiðslukröfunni sé ekki nægilega skýr. Kærandi hafi verið giftur íslenskri konu og því hafi hann ekki þurft atvinnuleyfi. Kærandi hafi verið með mál til meðferðar hjá Útlendingastofnun sem hafi ekki haft neitt með Vinnumálastofnun að gera á þeim tíma.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í september 2020 hafi stofnuninni borist upplýsingar um að kærandi hefði ekki heimild til dvalar eða atvinnu hér á landi. Þá hafi legið fyrir að kærandi hefði hlotið dóm þann 31. mars 2020, meðal annars fyrir að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi hjá Þjóðskrá Íslands í þeim tilgangi að fá ríkisfangi sínu breytt úr B í C. Kærandi hafi þannig verið ranglega skráður sem C ríkisborgari í opinberum skrám frá árinu 2016 til um mitt ár 2020 þegar dómur hafi fallið í máli hans. Á grundvelli hins ranga ríkisfangs hafi kæranda verið greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. september 2016. Áður hafi kærandi fengið útgefið dvalarleyfi sem maki íslensks ríkisborgara frá 10. apríl 2015 til 11. mars 2016.

Mál kæranda snúi að því hvort hann hafi uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar um að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segi meðal annars um 13. gr. laganna:

„Áfram verður gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Þar er um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafa leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafa verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum.“

Samkvæmt framangreindu séu það íslenskir ríkisborgarar og útlendingar sem hafi heimild til að ráða sig til vinnu án takmarkana hérlendis sem geti átt rétt til atvinnuleysisbóta á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Þeir sem séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi geti einnig talist tryggðir samkvæmt lögunum. Það fari því eftir þeim lögum og reglum sem gildi hverju sinni um atvinnuréttindi útlendinga hvort útlendingur teljist hafa heimild til að ráða sig án takmarkana hér á landi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í lögum nr. 97/2002 og reglugerð nr. 339/2005 um atvinnuréttindi útlendinga sé fjallað um atvinnuréttindi útlendinga. Í 22. gr. laga nr. 97/2002 séu taldir upp þeir aðilar sem séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Þeir séu ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, útlendingar sem hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst ríkisborgararétt sinn, erlendir makar íslenskra ríkisborgara og börn þeirra, útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja, útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða hafa fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi. Á þeim tíma sem kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta hafi hann hvorki verið undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt 22. gr. laganna né fengið útgefið óbundið atvinnuleyfi á grundvelli 17. gr. laganna. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysibætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. september 2016 hafi hann með ólögmætum hætti fengið skráningu sem C ríkisborgari í Þjóðskrá Íslands. Á grundvelli þeirrar skráningar hafi stofnunin samþykkt umsóknir hans um atvinnuleysisbætur frá 1. september 2016, 26. júlí 2017 og 15. júlí 2020, enda hafi stofnunin talið hann uppfylla skilyrði a-liðar 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og þar með d-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga þann tíma sem hann hafi þegið greiðslur.

Þar sem kærandi hafi ranglega fengið greiddar atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra hafi Vinnumálastofnun tekið þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum sem hann hafi fengið á tímabilinu 1. september 2016 til maí 2017, júlí 2017 til febrúar 2018 og júlí til ágúst 2020. Sú ákvörðun grundvallist á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í málinu liggi fyrir að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda megi rekja til þess ólögmæta athæfis hans að knýja fram ranga skráningu á ríkisfangi sínu gagnvart annarri ríkisstofnun. Það sé mat Vinnumálastofnunar að stofnuninni sé skylt að endurheimta þær ofgreiddu bætur með 15% álagi með vísan til orðalags 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Með vísan til alls ofangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að honum beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 3.272.019 kr.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann hafi ekki haft heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr.

Í lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 22. gr. laganna eru ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í september 2016 var hann skráður með C ríkisfang og fékk á þeim grundvelli umsókn sína samþykkta. Í september 2020 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hafi hlotið dóm þann 31. mars 2020, meðal annars fyrir að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi hjá Þjóðskrá Íslands í þeim tilgangi að fá ríkisfangi sínu breytt úr B í C. Það liggur því fyrir að kærandi var ranglega skráður sem C ríkisborgari í opinberum skrám frá árinu 2016 og þar til dómur féll í máli hans. Kærandi var því með réttu ekki undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi á því tímabili sem hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana var því ekki uppfyllt í máli kæranda.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi bar sjálfur ábyrgð á að skráning ríkisfangs hans var ekki rétt í opinberum skrám er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2020, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta