Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 526/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 526/2020

Fimmtudaginn 6. maí 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 19. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 25. ágúst 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. september 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að meðferð og endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. október 2020. Með bréfi, dags. 21. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. nóvember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 17. desember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. desember 2020. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 29. desember 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. janúar 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 9. febrúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. febrúar 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 22. mars 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 8. apríl 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hennar um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorku þann 1. september 2020. B geðlæknir og C sálfræðingur séu jafn undrandi og kærandi yfir úrskurði Tryggingastofnunar og kannist ekki við slíkan úrskurð frá stofnuninni áður.

Þær forsendur, sem séu notaðar í bréfi Tryggingstofnunar til stuðnings ákvörðuninni, séu óskiljanlegar. Jafnframt sjáist í úrskurðinum að málið hafi verið tekið fyrir og metið eftir stöðluðum formúlum en ekki með einstaklingssjónarmið að leiðarljósi.

Kærandi hafi lokið 36 mánuðum í endurhæfingu og endurhæfingarlífeyri. Hún sé X ára gömul, óvinnufær og sé að kljást við langa baráttu við andleg veikindi, áfallastreituröskun og stoðkerfisverki. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði en jafnframt sé heimilt að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Kærandi hafi verið í endurhæfingu og hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun síðastliðna 36 mánuði en þrátt fyrir það sé hún enn óvinnufær og berjist við sín veikindi á hverjum einasta degi.

Kærandi hafi sótt um örorku þar sem það sé næsta rökrétta skrefið þegar endurhæfingu sé lokið og ekki bóli á árangri. Rök Tryggingastofnunar fyrir synjun umsóknarinnar virðist vera þau að endurhæfing sé ekki fullreynd vegna þess að kærandi sé enn að bíða eftir lyfja- og sálfræðimeðferð hjá Hvítabandinu. Þessi rök séu ófullnægjandi og óásættanleg. Hvernig sé hægt að ætla að vegna einnar meðferðar, sem kærandi sé á biðlista eftir og sé búin að bíða eftir í meira en ár, valdi því að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir 36 mánuði í endurhæfingu, langan tíma hjá VIRK, geðlæknum, sálfræðingum og þar fram eftir götunum. Þetta fái mann til að hugsa hvort einstaklingur sem sæki um örorku en sæki sér enn þjónustu hjá sálfræðingi eða geðlækni geti ekki fengið örorku vegna þess að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Kærandi skilji ekki hvert fólk eigi að snúa sér í þessari stöðu, engin kerfi virðast geta gefið nein svör, kærandi sé föst á milli skips og bryggju í kerfinu. Tryggingastofnun hafi neitað henni um örorku og hún geti ekki fengið áfram greiddan endurhæfingarlífeyri. Kærandi eigi ekki rétt hjá atvinnuleysissjóði, sjúkratryggingum eða stéttarfélagi. Kærandi eigi ekki einu sinni rétt á fjárhagslegri aðstoð hjá sveitarfélaginu vegna þess að hún sé í einum áfanga í námi við Háskóla Íslands, námi sem hún hafi barist í bökkum við að halda sér í og það eina sem kalla megi virkni í hennar lífi. Vilji stofnunin frekari endurhæfingu þætti kæranda gott að fá ráð hvernig hún geti stundað endurhæfingu tekjulaus. Það hljóti að stangast á við hvort annað þar sem endurhæfing sé ógerleg fyrir tekjulausan einstakling sem eigi ekki réttindi neins staðar. Þessi niðurstaða sem kæranda hafi þótt skorta rökstuðning fyrir, hafi því ekki einungis verið íþyngjandi andlega heldur einnig fjárhagslega og því sé þessi ákvörðun kærð.

Í athugasemdum kæranda, dags. 17. desember 2020, er vísað til læknabréfs B geðlæknis, dags. 29. september 2020, þar sem ítrekað sé hversu mikilvægt sé að umsókn kæranda verði samþykkt. Í læknabréfinu komi fram að kærandi sé með öllu óvinnufær, með alvarleg þunglyndiseinkenni, alvarlegan kvíða, félagsfælni og stoðkerfisvanda.

Auk þess komi fram í læknisvottorði, sem hafi fylgt með umsókn um örorkulífeyri, að mikið bakslag hafi orðið með þeim afleiðingum að kærandi hafi fallið niður í mikið þunglyndi, vanlíðan og félagslega einangrun. Jafnframt komi fram að kærandi sofi mikið, eigi erfitt með að vakna, matarlyst sé minnkuð og að hún eigi erfitt með að taka ákvarðanir. Mikil þreyta og áhugaleysi þjaki hana og að hún sé með afar lítið sjálfsmat. Ofan á þetta sé kærandi einnig með lífsleiðahugsanir sem teljist vera merki um mikla vanlíðan.

Líta beri til þess að Tryggingastofnun sé ekki stætt á því að taka sérstaklega fram að þrátt fyrir að endurhæfingu hjá VIRK sé lokið segi það ekkert til um að endurhæfing sé fullreynd. Geðlæknir kæranda hafi lagt sitt sérhæfða og faglega mat á færni og heilsufar kæranda. Kærandi hafi verið í 36 mánuði í endurhæfingu og hafi reynt af fremsta megni að ná bata og meiri færni. Eins og komi fram í gögnum málsins hafi kærandi á þessum 36 mánuðum náð bata að einhverju leyti sem hafi gert henni kleift að stunda háskólanám að hluta en að alls óvíst sé hvort og þá hvenær hún muni ná tilætluðum bata að nýju. Þrátt fyrir fyrirhugaða meðferð á geðdeild Landspítalans á Hvítabandi sé ekki hægt að segja til um það að svo stöddu hvort færni verði meiri eftir að þeirri meðferð ljúki.

Tryggingastofnun hafi vísað sérstaklega í orð geðlæknis kæranda í vottorði, dags. 25. ágúst 2020, um að mögulega geti hún verið í hlutastarfi í framtíðinni. Þetta eigi við um fjölda einstaklinga, hvort sem þeir þiggi endurhæfingarlífeyrisgreiðslur eða þeir sem séu með örorkumat. Því sé með öllu óskiljanlegt að stofnunin hafi notast við þau rök að eflaust, kannski eða mögulega geti kærandi verið í hlutastarfi í framtíðinni. Margir einstaklingar sem hafi fengið eða séu með örorkumat séu á vinnumarkaði en það segi alls ekki til um í hvaða stöðu þeir séu. Í þessu sambandi beri að nefna að margir fái samþykkt örorkumat tímabundið. Það sé því með öllu óskiljanlegt að þegar Tryggingastofnun hafi valið á milli þess að samþykkja tímabundið örorkumat eða endurhæfingarlífeyri hafi stofnunin valið að taka jafn íþyngjandi ákvörðun og að synja um örorkumat með þeim rökum að endurhæfing sé ekki fullreynd. Í tilfelli kæranda sé endurhæfing sannarlega fullreynd að sinni. Það þurfi ekki annað en að líta til þess hversu mikil andleg og líkamleg veikindi hennar séu og með það í huga að hún hafi stundað endurhæfingu í 36 mánuði og sinnt henni eins vel og mögulegt hafi verið. Þessu til stuðnings, eins og tekið hafi verið fram í fyrirliggjandi læknabréfi, sé afar dapurt að kærandi sé látin bera hallann af því að allur réttur til bæði endurhæfingarlífeyris sem og örorkulífeyris sé tekinn af henni á einu bretti vegna óskilvirkni heilbrigðiskerfisins.

Einnig sé bent á að sérhæfða matið á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar, virðist hafa verið framkvæmt af læknum Tryggingastofnunar byggt á fyrirliggjandi gögnum. Það sé mat kæranda að skortur sé á gagnsæi í ferli þessa sérhæfða mats. Þegar leitað hafi verið svara hjá Tryggingastofnun við því hvað þetta sérhæfða mat væri hafi enginn virst í raun geta sagt til hvað það væri og hvað fælist í því. Það megi því ætla að það sé þörf á að auka gagnsæi, skilgreina og gera betur grein fyrir hvað þetta sérhæfða mat sé og hvað felist í raun og veru í því. Læknir á vegum Tryggingastofnunar hafi komist að niðurstöðu sem eigi að vera byggð á fyrirliggjandi gögnum og þetta geri hann án þess að ræða við eða heyra í kæranda eða lækni hennar. Það megi ætla að það þætti eðlilegra þegar sérhæft mat sé gert að meira notendasamráð og gagnsæi væri í fyrirrúmi. Kærandi hafi hringt í Tryggingastofnun og hafi óskað eftir frekari upplýsingum og rökum vegna niðurstöðu stofnunarinnar og þessa sérhæfða mats en hafi þá verið bent á að láta geðlækni sinn hringja fyrir sína hönd.

Réttast væri að gefa kæranda það svigrúm sem hún þurfi og láta hana ekki bera hallann af einhverju sem hún hafi enga stjórn á, líkt og hversu miklar brotalamir séu og hafi verið þegar komi að endurhæfingarúrræðum á vegum velferðar- og heilbrigðiskerfisins. Einnig beri að líta til þess að þrátt fyrir stefnu og markmið Tryggingastofnunar um að fækka ungu fólki á örorku sé varhugavert að einblína á aldur einstaklinga sem sæki um örorkumat. Aldur einstaklings sem sæki um örorkumat segi á engan hátt til um hvaða ástæður liggi að baki umsókninni. Í tilfelli kæranda hafi hún verið í endurhæfingu í 36 mánuði en bakslög og eðli veikindanna hafi gert það að verkum að endurhæfing sé óraunhæf.

Ákvörðun Tryggingastofnunar skorti lagastoð. Kærandi hafi tæmt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun lögum samkvæmt en samt sem áður hafi umsókn hennar um örorkumat verið synjað. Um verulega íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Í lögum og lögskýringargögnum sé hvergi að finna upplýsingar um í hvaða farveg mál eigi að fara, hafi einstaklingur tæmt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun. Það sé því grafalvarlegt mál að einstaklingar sem hafi tæmt rétt sinn hjá Tryggingastofnun eftir 36 mánuði eigi engan rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris, hvorki frá Tryggingastofnun né öðrum aðilum, hvort sem þeir aðilar heyri undir stjórnvöld eða sveitarfélög. Það sé auðséð að einstaklingar geti ekki sinnt endurhæfingu ef tekjurnar séu engar.

Einnig sé því mótmælt sem komi fram í greinargerð Tryggingastofnunar að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu. Þessi tvö atriði séu nátengd. Grundvöllur þess að geta sinnt og stundað endurhæfingu sé að einstaklingar séu með einhvers konar framfærslu. Lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð girði fyrir að einstaklingar hafi þann valkost að stunda endurhæfingu lengur en í 36 mánuði og fái greiddan endurhæfingarlífeyri samhliða því. Einnig sé rétt að benda á að kærandi eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð frá X. Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá X sé kveðið á um að námsstyrki sé einungis heimilt að veita í ákveðnum tilvikum og þurfi viðkomandi að vera 24 ára eða yngri til að hljóta fjárhagsaðstoð, sem kærandi falli ekki undir. Kærandi hafi því þurft á meðan þessu ferli standi að safna skuldabréfum hjá X.

Tryggingastofnun hafi vísað í úrskurði sem fordæmi fyrir ákvörðunartöku sinni en samkvæmt þeim úrskurðum höfðu kærendur ekki tæmt rétt sinn og lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri og því hafi þeir ekki fordæmisgildi í þessu máli varðandi það atriði. Einnig megi benda á að allir sjáanlegir úrskurðir frá árinu 2020 á vefsíðu úrskurðarnefndar velferðarmála um synjun á örorku falli undir það sama og ritað hafi verið hér að framan. Þar höfðu kærendur ekki tæmt rétt sinn og lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri og því megi ætla að útskurðirnir hafi ekki fordæmisgildi í máli kæranda.

Ætli Tryggingastofnun að hnekkja faglegu og sérhæfðu læknisfræðilegu mati geðlæknis og meðferðaraðila kæranda með því að lýsa því yfir að endurhæfing sé ekki fullreynd en segja í sömu andrá að hún eigi ekki rétt á frekari endurhæfingarlífeyrisgreiðslum, sé ljóst að ákvörðunin fari algjörlega á skjön við allt sem meðalhófsregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gangi út á. Jafnframt hafi stofnunin ekki gætt að málefnalegum sjónarmiðum við ákvarðanatökuna. Um sé að ræða matskennda ákvörðun og því sé Tryggingastofnun bundin af reglunni um skyldubundið mat stjórnvalda og öllum þeim málsmeðferðarreglum sem tengist henni. Auk þess beri að hafa í huga að þeim mun tilfinnanlegri sem sú skerðing sé sem leiði af ákvörðun stjórnvalds þeim mun strangari kröfur verði að gera til sönnunar á nauðsyn skerðingarinnar. Sú skerðing sem hafi fylgt ákvörðun Tryggingastofnunar hafi með engu móti verið nauðsynleg, stofnunin hafi farið mun strangar í sakirnar en nauðsyn hafi borið til. Ákvörðunin sem slík sé ekki til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt sem sé að tryggja að einstaklingar eigi kost og möguleika á að ná bata á ný á læknisfræðilegum forsendum, hvort sem sá bati felist í að bæta og efla starfshæfni og/eða almenna færni.

Tryggingastofnun hafi engu skeytt um að mikið bakslag hafi átt sér stað og hversu alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða kæranda séu að meðtöldum öllum öðrum veikindum, andlegum og líkamlegum sem hún eigi við að stríða. Auk þess virðist sem Tryggingastofnun hafi ekki litið til læknabréfs B, dags. 29. september 2020. Það sé því hægt að slá því föstu að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsóknar um örorkumat og því beri stofnuninni að endurskoða ákvörðun sína. Tryggingastofnun hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að niðurstöðu sinni og því sé málsmeðferð Tryggingastofnunar ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. janúar 2021, kemur fram að í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segi að í eðli sínu séu flest möt tímasett en að það sé ekki eitthvað sem skilgreint sé sem tímabundið örorkumat. Þessu sé mótmælt þar sem stofnunin hafi áður sagt að meginreglan sé sú að örorka sé metin tímabundið sem sé með öðrum orðum það sama og tímabundið örorkumat eins og fram komi í svari stofnunarinnar við fyrirspurn kæranda. 

Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar séu kýrskýr, kærandi þurfi lengri meðferð innan heilbrigðiskerfisins áður en tímabært verði að reyna hugsanlega starfshæfni á ný. Í því samhengi beri sérstaklega að líta til þess að kærandi hafi nú þegar reynt starfsendurhæfingu í 36 mánuði og þar með tæmt rétt sinn til frekari greiðslna endurhæfingarlífeyris. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 478/2020 hafi niðurstaðan verið sú að sérstaklega skyldi líta til þess að kærandi í því máli hafði þegar reynt 36 mánuði í starfsendurhæfingu og þyrfti lengri tíma í meðferð.   

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segi að ekki sé fullreynt með meðferð innan heilbrigðiskerfisins þar sem ástand kæranda gæti breyst við frekari meðferð. Bent skuli á að einstaklingar, sem fái samþykkt tímabundið örorkumat eða séu með tímasett örorkumat, haldi flestir, ef ekki allir, áfram að þiggja meðferð, bæði innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins. Tryggingastofnun ætti að vera það ljóst að ástand þeirra, sem fái samþykkt tímabundið örorkumat, geti einnig breyst við frekari meðferð líkt og ástand einstaklinga sem séu í endurhæfingu geti breyst við frekari meðferð. Þetta séu ekki haldbær rök fyrir jafn íþyngjandi ákvörðun eins og reyni á máli þessu. 

Kærandi hafi lokið 36 mánuðum í endurhæfingu sem hún hafi sinnt vel. Í ljósi þess að mikið bakslag hafi orðið hjá kæranda sé ámælisvert að Tryggingastofnun hafi litið algjörlega fram hjá því, þrátt fyrir að gögn sýni fram á raunverulegt ástand hennar. Jafnframt skjóti það skökku við að stofnunin hafi ekki boðað kæranda í læknisskoðun, sérstaklega í ljósi þess að hún hafði tæmt rétt sinn til greiðslu endurhæfingarlífeyris og mikið bakslag og versnun hafi  átt sér stað. Með því að boða kæranda ekki í læknisskoðun reyni á 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem um matskennda stjórnvaldsákvörðun sé að ræða. Tryggingastofnun hafi ekki byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og hafi ekki aflað allra nauðsynlegra upplýsinga, líkt og að boða kæranda í læknisskoðun. 

Einnig sé ítrekað að engir úrskurðir sem Tryggingastofnun hafi nefnt máli sínu stuðnings séu fordæmisgefandi fyrir mál hennar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 1. september 2020.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. eða örorkustyrk samkvæmt 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laganna þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. 

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. er skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.“

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi, sem sé ung að árum, þ.e. X ára, hafi sótt um örorkulífeyri þann 25. ágúst 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. september 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkumat samkvæmt 18. og 19. gr. laga um almannatryggingar þar sem stofnunin hafi ekki enn talið endurhæfingu fullreynda í tilviki hennar, þrátt fyrir að 36 mánaða rétti til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð væri lokið.

Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyrisgreiðslum vegna læknisfræðilegs vanda frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2020 og hafi því lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri. Á þeim tíma hafi kærandi stundað endurhæfingu sína stöðugt og hlotið nokkurn bata. Kærandi hafi notið liðsinnis geðlæknis og sálfræðings ásamt aðstoð heimilislækna vegna stoðkerfisverkja. Þá hafi ýmsar stofnanir og samtök komið að endurhæfingunni eins og Hugarafl og VIRK starfsendurhæfingarsjóður og frekari endurhæfing sé í undirbúningi.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem hafi legið fyrir hverju sinni. Við matið í þessu máli hafi legið fyrir umsókn, dags. 25. ágúst 2020, og læknisvottorð B, geðlæknis, dags. 25. ágúst 2020, ásamt svörum við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 25. ágúst 2020. Þá hafi einnig verið til staðar eldri gögn vegna fyrri mata á endurhæfingarlífeyri hjá kæranda. 

Í læknisvottorði geðlæknis, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á örorkumati þann 25. ágúst 2020, komi fram upplýsingar um andlegan vanda, þ.e. kvíða (F41,9), þunglyndi (Mixed anxiety and depressive order, F33,2) ásamt ADHD, áfallastreitu (Stress disorder, post traumatic, F43,1) og óöryggi sem lýsi sér í félagsfælni (F40,1). Þá séu líkamleg einkenni fólgin í mjóbaksverkjum (M54,4) og vöðvaverkjum (M79,1). Geðlæknirinn telji að kærandi hafi ekki, þrátt fyrir geðlæknis- og sálfræðimeðferð og þjónustu Hugarafls, hlotið nægjanlegan bata eftir VIRK sem hafi útskrifað hana. Hins vegar komi fram í vottorðinu að frekari meðferð sé fyrirhuguð, svo sem á hópmeðferðardeild Geðdeildar Landspítalans á Hvítabandi og að fyrirhugað sé einnig að kærandi haldi áfram í meðferð og eftirliti hjá lækninum. Jafnframt telji geðlæknirinn að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist með tímanum og að mögulega gæti kærandi verið í einhverju hlutastarfi á vinnumarkaði að lokinni meðferð á Hvítabandinu. Auk þessa hafi kærandi verið í skóla að nema X við Háskóla Íslands.

Í ljósi ofangreindra forsendna hafi læknum Tryggingastofnunar sýnst að meðferð kæranda í formi endurhæfingar hafi ekki verið fullreynd og þar af leiðandi væri ekki tímabært að meta örorku, þrátt fyrir að 36 mánuðum hafi verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Þrátt fyrir að sérhæft mat meðferðaraðila og þjónustulokaskýrsla frá VIRK hafi legið fyrir í málinu, eigi það ekki að vera til marks um hvenær endurhæfing teljist fullreynd í tilviki kæranda. Málinu til aukins stuðnings sé bent á að VIRK endurhæfing sé ekki eina meðferðarúrræðið sem sé í boði. Auk þess sem VIRK hafi talið á sínum tíma að í ljósi þeirra aðstæðna sem kærandi hafi verið komin í á þeim tíma, þ.e. háskólanám, að þjónusta í formi endurhæfingar á þeirra vegum væri ekki lengur nauðsynleg. Af starfsgetumati VIRK megi einnig ráða að kærandi hafði tekið verulegum framförum í endurhæfingunni. Kærandi hafi svo lent í geðdeyfðarlotu samkvæmt nýjasta læknisvottorðinu og öðrum gögnum málsins og hafi þá komið þá bakslag í endurhæfinguna sem enn sé verið að vinna með.

Samkvæmt framangreindu telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkumat að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda hennar. Þar sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandinn sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu í boði.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni. Að einhverju marki virðist það nú þegar hafa verið gert samkvæmt orðum kæranda í kæru og læknisvottorði og sé nú beðið eftir meðferð á geðdeild Landspítalans á Hvítabandi. Stofnunin vilji árétta að jafnvel þó að VIRK hafi á sínum tíma útskrifað kæranda í nám, telji VIRK önnur úrræði en þeirra henta kæranda betur, að svo komnu máli.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja henni um örorkumat að svo stöddu og sjá hver frekari framvinda verði í málum kæranda áður en til örorkumats komi, hafi verið rétt.

Nokkur fordæmi séu fyrir því í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem tekið sé undir að Tryggingastofnun hafi heimild samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð til að fara fram á það við umsækjendur um örorkubætur að þeir gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Sjá meðal annars í þessu samhengi úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 57/2018, 234/2018, 299/2018, 338/2018, 235/2019, 260/2019, 350/2019, 375/2019, 380/2019, 383/2019 og 24/2020 ásamt fleiri sambærilegum úrskurðum frá árinu 2020.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri og eigi því ekki rétt á frekari greiðslum endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun þar sem sá réttur sé tæmdur. Í því sambandi sé tekið fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Það sjónarmið hafi einnig verið staðfest í mýmörgum úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála eins og til dæmis úrskurðum í málum nr. 20/2013, 33/2016, 352/2017 og 261/2018.

Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. desember 2020, kemur fram að stofnunin telji ekki ástæðu til stórvægilegra efnislegra athugasemda vegna athugasemda kæranda þar sem fjallað hafi verið um öll gögnin áður og staðreyndir málsins séu í samræmi við önnur samtímagögn í málinu.

Bent sé á að það sé ávallt mat lækna Tryggingastofnunar hvort umsækjendur um örorkulífeyri séu sendir í skoðun vegna hugsanlegs örorkulífeyris hjá stofnuninni samkvæmt 18. og 19. gr. laga um almannatryggingar. Þau möt séu svo gerð og tímasett með tilliti til læknisfræðilegs vanda hverju sinni. Í þeim tilfellum þar sem nokkuð ljóst þyki að læknisfræðilegt ástand umsóknaraðila muni ekki breytast í framtíðinni sé matið haft varanlegt og þá sé það ekki tímasett til styttri tíma. Í eðli sínu séu flest mötin tímasett en það sé ekki eitthvað sem skilgreint sé sem tímabundið örorkumat eins og kærandi haldi fram. Að öðru leyti skuli á það bent að nýju að mat lækna Tryggingastofnunar sé byggt á þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggi fyrir hverju sinni og í tilviki kæranda hafi það verið mat læknanna, þrátt fyrir gögn málsins, að ekki væri fullreynt með meðferð innan heilbrigðiskerfisins þar sem ástand hennar gæti breyst við frekari meðferð eins og gögnin bendi til og þá sé ekki tímabært að meta örorku hennar. Þá skuli líka ítrekað að þegar réttinum, sem ákveðinn hafi verið 36 mánuðir af Alþingi samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, ljúki sé það ekki sjálfkrafa ákveðið að sá aðili eigi að fara beint í örorkumat þegar gögnin beri með sér að aðilinn sé ekki búinn að fullreyna öll þau endurhæfingarúrræði sem honum standi til boða.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. febrúar 2021, segir að það sé ávallt mat lækna Tryggingastofnunar hvort umsækjendur um örorkulífeyrir séu sendir í skoðun vegna hugsanlegs örorkulífeyris samkvæmt 18. og 19. gr. laga um almannatryggingar. Þau möt séu svo gerð og tímasett með tilliti til til læknisfræðilegs vanda hverju sinni. Í þeim tilfellum þar sem nokkuð ljóst þyki að læknisfræðilegt ástand umsóknaraðilans muni ekki breytast í framtíðinni, sé matið haft varanlegt jafnvel án skoðunar hjá matslækni og þá sé það ekki tímasett til styttri tíma eins og bent hafi verið á áður.

Í eðli sínu séu flest möt tímasett eins og sé alveg í samræmi við þann tölvupóst stofnunarinnar sem kærandi hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. Það sé ekki eitthvað sem skilgreint sé sem tímabundið örorkumat eins og kærandi haldi fram heldur sé miðað við læknisfræðilegt ástand, ungan aldur og fleira sem vissulega geti breyst í tímans rás. Ein meginástæða þess að mötin séu höfð tímasett sé til þess að hægt sé að endurskoða þau síðar en samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga almannatryggingar má stofnunin endurskoða rétt til bóta og samræma þær þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum bótaþegans.

Tryggingastofnun meti í hvert og eitt sinn tímalengd örorkumata og því til staðfestingar sé bent á mál úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 239/2019 sem fjalli um tímalengd örorkumats. Einnig skuli ítrekað að samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun meta örorku þeirra sem sæki um örorkubætur og í því felist einnig að meta tímalengd örorkumatsins á grundvelli þeirra gagna sem liggi fyrir hverju sinni. Í málinu hafi það einnig verið staðfest að málefnalegt mat réði för hjá stofnuninni við mötin hverju sinni.

Varðandi það sjónarmið, sem komi fram í síðari athugasemdum kæranda í tengslum við mál úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 478/2020, skuli tekið fram að engin tvö mál séu nákvæmlega eins. Í því máli hafi verið fleiri og víðtækari læknisfræðileg vandamál þess valdandi að sá umsækjandi hafi að lokum verið sendur í örorkumat. Tekið sé fram að stofnuninni sé ekki heimilt á grundvelli trúnaðarskyldna sinna og ákvæða persónuverndarlaga nr. 90/2018 að ræða frekar mál annarra skjólstæðinga sem hugsanlega kunni að leiða til ólíkrar útkomu í keimlíkum málum hjá stofnuninni. Þó skuli tekið fram að málsatvik þess máls hafi ekki verið sambærileg þessu máli að öðru leyti en því að rétti til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð hafi einnig verið lokið.

Það sé ítrekað að allar umsóknir um örorkumat hjá Tryggingastofnun séu metnar af læknum stofnunarinnar á faglegan hátt á grundvelli allra þeirra gagna sem aflað hafi verið á heildstæðan hátt í samræmi við 37. gr. laga um almannatryggingar. Læknar stofnunarinnar séu ráðnir á grundvelli faglegrar þekkingar sinnar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar og hafa mjög breiðan grunn fagþekkingar sem samanstandi af þverskurði sérmenntunar í læknisfræði. Í því felist að læknar stofnunarinnar leggi mat á öll þau gögn sem liggi fyrir í hverju og einu máli og eftir slíkt mat hafi þeir talið gögnin skýr og því væri ekki þörf á skoðun vegna mats á örorku hjá kæranda þessa máls eins áður hafi verið rakið.

Tryggingastofnun geti á engan hátt fallist á að þau fordæmi sem stofnunin hafi nefnt á fyrri stigum hafi ekki fordæmisgildi í málinu þar sem samkvæmt orðum kæranda í kærunni og meðhöndlandi fagaðilum í öðrum gögnum málsins við 36 mánaða mark endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni, sé ástæðuna fyrir umsókn kæranda um örorku aðallega að rekja til framfærslusjónarmiða. Ítrekað sé að óvinnufærni ein og sér eigi ekki endilega að leiða til örorkumats hjá stofnuninni þegar gögn málsins beri með sér að endurhæfingu sé ekki lokið.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að kærandi hafi fullnýtt endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Í læknisvottorði B, dags. 25. ágúst 2020, kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:

„Recurrent depressive disorder, current episode severe without psychotic symptom

Félagsfælni

Kvíði

Disturbance of activity and attention

Mjóbaksverkir (lumbago)

Vöðvaverkir“

Um sjúkrasögu kæranda segir:

„Mikil áfallasaga í bernsku og vanlíðan, reiði og erfiðleikar tengd því. Einnig margra ára saga um verki frá barnæsku. Miklir bakverkir í mjóbaki og upp eftir öllum hrygg. Mikil vöðvabólga. Hún er einnig greind með ADHD.

Hefur verið í alls 22 mánuði í endurhæfingu og nú búið að útskrifa hana frá VIRK. Hún er í HÍ í námi í X, og var komin í fullt nám á síðustu önn.

en eftir það féll hún niður í  mikið þunglyndi, vanlíðan og félagslega einangrun.

Hún skorar nú með mjög alvarleg þunglyndis og kvíðaeinkenni, mjög sveiflukennda líðan. Hún er óvinnufær vegna þessara einkenna og hefur lokið 36 mánuðum i endurhæfingu. Endurhæfing telst því fullreynd og því er sótt um örorkubætur.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„undirrituð hef hitt A reglulega til eftirlits og meðferðar vegna geðsjúkdóms.

Hún er greind með ADHD, þunglyndi og kvíða. Hún er með mikla áfallasögu og glímir einnig við áfallastreitu tengda því. Hún bíður þess að komast í DAM (Dialectical Atferlismeðferð) á hópmeðferðardeild Geðdeildar Landspítalans á Hvítabandi . Hún er á biðlista þar. Hún mun halda áfram í meðferð og eftirliti hjá undirritaðri.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir:

„Lýsir mikilli vanlíðan og óöryggi. Á erfitt með að taka lyf vegna þess hve hún er kvíðin og óttast mikið að missa stjórn. Er að byrja að fikra sig áfram með þunglyndis- og adhd lyf. Skorar 42 stig á Becks þunglyndiskvarða sem samsvarar alvarlegu þunglyndi og skorar 39 stig á Becks kvíðakvarða sem samsvarar alvarlegum kvíða. Hún er einnig með félagskvíða, sem veldur því að hún forðast margmenni, á erfitt með að fara á staði þar sem hún þekkir ekki alla. Á erfitt með að hitta vinkonur sínar í hópi. Verður yfirþyrmandi í slíkum aðstæðum. Sefur mikið, allt að 12 til 13 klst á sólarhring. Á erfitt með að vakna og dreymir martraðir á hverri nóttu. Matarlyst er minnkuð. Mikil þreyta, áhugaleysi og á erfitt með að taka ákvarðanir. Mjög lélegt sjálfsmat. Hefur lífsleiðahugsanir en ekki virk sjálfsvígplön. Ekki aktiv sjálfsvígshætta, en frekar tilfinning um að vilja hverfa.“

Samkvæmt vottorðinu hefur kærandi verið óvinnufær og fram kemur að óvíst sé hvort færni aukist með tímanum. Þá segir einnig í vottorðinu:

„Mögulega gæti hún verið í einhverju hlutastarfi á vinnumarkaði þegar hún hefur lokið meðferð á Hvítabandinu og fengið meiri áfallamiðaða sálfræðimeðferð.“

Einnig liggur fyrir læknabréf B, dags. 29. september 2020, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar segir:

„Undirrituð hefur sótt um örorkubætur fyrir A á þeim forsendum að hún er búin með 36 mánuði í endurhæfingu. Henni var synjað um örorkubætur frá TR á þeim forsendum að hún sé á biðlista eftir meðferð á hópmeðferðardeild geðdeildar Landspítalans á Hvítabandinu við Skólavörðustíg.

Hún er með öllu óvinnufær, með alvarleg þunglyndiseinkenni kvíða, félagsfælni og stoðkerfisverki.

Undirrituð telur allsendis óviðunandi að hún fái ekki lífeyri vegna óskilvirkni heilbrigðiskerfi landsins og því styður undirrituð kæru hennar til Úrskurðarnefndar Velferðarmála.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda greinir kærandi frá áfallasögu, alvarlegum einkennum kvíða og þunglyndis, athyglisbresti og ofvirkni, félagsfælni, síþreytu, stoðkerfisverkjum, auk krónískra ristilkrampa. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja. Einnig er greint frá erfiðleikum í tengslum við þvaglát og heyrn. Kærandi svaraði spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi og kveðst eiga langa sögu um kvíða, þunglyndi, áföll, félagsfælni sem hamli henni í daglegu lífi og valdi mikilli vanvirkni. Hún hafi barist við að vilja ekki vera til og ástandið hafi oft reynst yfirþyrmandi.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 20. maí 2019, segir:

„Útskrift í háskólanám, X BA hjá HÍ. Hóf hálft nám haust X og hefur nú verið í fullu námi í X vorönn 2019, námsárangur góður. Ætlar að halda áfram námi næsta haust 2019. Mun áfram fá stuðning frá sálfræðing og geðlækni, ætlar auk þess að skoða þjónustu Hugarafls.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem meðferð og endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Vísar þar Tryggingastofnun til þess að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ljóst að meðferð, lyfja- og sálfræðimeðferð (Hvítaband) er ekki fullreynd. 

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af geðrænum og líkamlegum toga og hefur hún verið í umtalsverðri endurhæfingu vegna þeirra í 36 mánuði en ekki er heimilt samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð að greiða endurhæfingarlífeyri í lengri tíma. Samkvæmt læknisvottorði B, dags. 25. ágúst 2020, telur hún kæranda vera óvinnufæra og að óvíst sé hvort færni geti aukist. Fram kemur í vottorðinu að kærandi skorar 42 stig á Becks þunglyndiskvarða sem samsvarar alvarlegu þunglyndi og skorar 39 stig á Becks kvíðakvarða sem samsvarar alvarlegum kvíða. Einnig er greint frá því að kærandi bíði þess að komast í DAM (Dialectical Atferlismeðferð) á hópmeðferðardeild geðdeildar Landspítalans á Hvítabandi.

Af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um heilsufar kæranda, fær úrskurðarnefnd ráðið að meiri líkur en minni séu á að kærandi þurfi langan tíma í læknismeðferð áður en tímabært verði að reyna hugsanlega starfsendurhæfingu á ný. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að kærandi hefur nú þegar reynt starfsendurhæfingu í 36 mánuði.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að frekari starfsendurhæfing sé ekki raunhæf að sinni eins og ástandi kæranda er háttað. Úrskurðarnefndin telur því rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. september 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta