Hoppa yfir valmynd

Nr. 328/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 328/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070006

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 10. apríl 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera án ríkisfangs (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Noregs. Þann 23. apríl 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa og var henni hafnað af kærunefnd þann 17. maí 2018. Þann 3. júlí 2018 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kæranda.

Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af hálfu kæranda er jafnframt óskað eftir frestun réttaráhrifa með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku byggir hann á því að úrskurður kærunefndar í máli hans, íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann, hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í því sambandi vísar kærandi til þriggja frétta á vefsíðu norsks fjölmiðils sem hann kveður að sýni fram á afdrifarík mistök norskra stjórnvalda í sams konar máli og kæranda, er varði sviptingu ríkisborgararéttar og brottvísun frá Noregi. Líkt og fréttirnar beri með sér hafi norsk stjórnvöld þurft að sækja fyrrum norskan ríkisborgara, af sómölskum uppruna, til Sómalíu í kjölfar þess að þau hafi komist ranglega að þeirri niðurstöðu að hann væri frá Tansaníu og hefði gefið upp rangar upplýsingar um uppruna sinn við komuna til landsins, mörgum árum áður. Í kjölfar flutnings til Tansaníu hafi hann sætt fangelsisvist, þar sem hann hafi mátt þola ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Þá hafi sómölsk stjórnvöld, sem hafi talið aðilann ríkisborgara sinn, þurft að bjarga honum frá Tansaníu áður en norsk stjórnvöld hafi flutt hann aftur til Noregs. Í framangreindu máli sé m.a. uppi grunur um að norsk stjórnvöld hafi haldið upplýsingum frá norskum dómstólum eða jafnvel veitt þeim rangar upplýsingar. Málið veki því upp spurningar um réttaröryggi kæranda í Noregi, enda séu töluverð líkindi með framangreindu máli og máli kæranda.

Kærandi telji að hvorki sé hægt að treysta því að hann geti óskað eftir endurupptöku á máli sínu, sem nú sé rekið fyrir dómstólum í Noregi, né að norsk stjórnvöld virði alþjóðlegar skuldbindingar sínar og grundvallarmannréttindi og sendi kæranda ekki til ríkis þar sem hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Að mati kæranda sé rökstuðningur kærunefndar í máli hans, í úrskurði nr. 175/2018 frá 10. apríl sl., of almennur hvað þetta varðar. Þá vekur kærandi athygli á stöðu sinni í Noregi, en fyrir liggi að hann hafi verið sviptur norskum ríkisborgararétti og sé með öllu réttindalaus þar í landi. Yrði hann m.a. að gera sér að góðu búsetu fjarri Osló þar sem hann hafi áður starfað og verið búsettur. Að mati kæranda sé þetta réttindaleysi, en hann sé í raun ríkisfangslaus, og möguleg búseta fjarri vinum og vandamönnum ómannúðleg og vanvirðandi meðferð.

Þá vísar kærandi, kröfu sinni til stuðnings, til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 276/2018, varðandi mat á sérstökum ástæðum skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Vísar kærandi í því sambandi til sjónarmiða er varða mismunun í viðtökuríki og stöðu kæranda þar í samanburði við stöðu almennings.

Í ljósi framangreinds óskar kærandi þess að kærunefndin endurupptaki mál hans, felli úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og geri stofnuninni að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða banns við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Til stuðnings beiðni sinni vísar kærandi einkum til nýrra upplýsinga um mál fyrrum norsks ríkisborgara af sómölskum uppruna sem hafi, að sögn, verið beittur órétti af yfirvöldum í Noregi. Kærandi telji að framganga norskra yfirvalda gagnvart umræddum manni bendi til þess að ekki sé unnt að treysta meðferð norskra stjórnvalda á máli kæranda.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 10. apríl sl., þ. á m. myndskeið og fréttir á vefmiðlum sem kærandi vísar til í beiðni sinni. Að mati kærunefndar verður ekki talið að almenn tilvísun til máls annars einstaklings geti verði grundvöllur endurupptöku máls kæranda. Þá verður áréttað, líkt og fram kemur í beiðni kæranda og úrskurði kærunefndar frá 10. apríl sl., að kærandi er enn með mál sitt til meðferðar fyrir norskum dómstólum og nýtur við það réttaraðstoðar. Hvað ætlað réttindaleysi kæranda í Noregi varðar, þ. á m. aðgang að húsnæði og framfærslu, ítrekar kærunefnd tilvísun í úrskurði sínum frá 10. apríl sl. til upplýsinga þar um frá norskum stjórnvöldum, dags. 7. mars 2018.

Í beiðni sinni um endurupptöku vísar kærandi jafnframt til myndskeiðs á vefveitunni YouTube sem, að sögn kæranda, sýni fram á umræður um mál hans á sómalska þinginu. Þá vísar kærandi til myndskeiðs á vefsíðu norsks fjölmiðils þar sem sómalskur sendiherra staðfestir sómalskt ríkisfang hans. Við meðferð kærumáls kæranda lagði hann fram gögn sem hann kveður stafa frá sómölskum embættismanni um framangreint efni. Að mati kærunefndar fela framangreind myndskeið því ekki í sér nýjar upplýsingar er varða mál hans. Málsástæður sem kærandi byggir á í endurupptökubeiðni sinni, þ. á m. ætlað réttindaleysi og ótryggt réttaröryggi í Noregi, svo og ótti kæranda við endursendingu til Sómalíu, lágu þegar fyrir við ákvörðunartöku í máli kæranda. Þá tók reglugerð nr. 276/2018, sem kærandi vísar til í beiðni um endurupptöku, gildi þann 6. mars sl., fyrir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar í máli kæranda. Hefur því jafnframt verið tekin afstaða til sjónarmiða sem þar koma fram um mat á sérstökum ástæðum, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Er því hvorki um að ræða upplýsingar sem lágu ekki fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í málinu né atvik sem hafa breyst verulega frá því úrskurðurinn var kveðinn upp.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að úrskurður nefndarinnar frá 10. apríl sl. hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

Með úrskurði nr. 227/2018 frá 17. maí 2018 hefur kærunefnd þegar tekið afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar, nr. 175/2018 frá 10. apríl 2018, en þá beiðni lagði kærandi fram með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga vekur kærunefnd athygli á því að ákvæðið fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna stjórnsýslukæru. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli hans á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Erna Kristín Blöndal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta