Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 235/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 235/2023

Fimmtudaginn 10. ágúst 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. mars 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 1., mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. maí 2023. Með bréfi, dags. 12. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ósanngjarna. Stofnunin sé að refsa honum með biðtíma eftir atvinnuleysisbótum fyrir að segja upp starfi sínu í stað þess að bíða eftir að verða sagt upp, eins og aðrir á vinnustaðnum hafi gert einum mánuði á eftir honum.

Kærandi hafi látið af störfum eftir ráðleggingu frá sálfræðingi því vinnutíminn hafi verið að setja andlega heilsu hans í hættu. Að vinna næturvaktir dag eftir dag hafi leitt til svefnleysis og þunglyndis hjá kæranda. Að sögn sálfræðingsins hafi kærandi átt að rjúfa þennan vítahring með því að hætta störfum til að vernda vinnufærni sína. Það væri betra að spara geðheilsuna til að enda ekki á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 1. mars 2023. Með erindi, dags. 8. mars 2023, hafi verið óskað frekari upplýsinga um fyrri störf kæranda. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir því að kærandi afhenti stofnuninni staðfestingu á starfstímabili hjá meðal annars B, auk skriflegrar afstöðu kæranda á ástæðum starfsloka hans en á umsókn sinni hafi kærandi tilgreint að hann hafi sjálfur sagt upp starfi sínu. Vinnumálastofnun hafi borist staðfesting frá kæranda á starfstímabili vegna starfa hans hjá B. Starfstímabil kæranda hafi verið tilgreint frá 4. apríl 2022 til 28. febrúar 2023. Að sögn kæranda hafi hann sagt upp störfum sökum versnandi heilsu vegna næturvakta. Vinnumálastofnun hafi ekki borist frekari skýringar frá kæranda.

Með erindi, dags. 23. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til starfsloka hans hjá B hafi réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar verið felldur niður frá og með 1. mars 2023 í þrjá mánuði. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

Lög nr. 54/2006 gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi orðrétt:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.“

Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi fallið þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæðinu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki uppsögn séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Þó sé í athugasemdum sérstaklega fjallað um tvenns konar tilvik sem talin séu heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annars vegar sé það þegar um sé að ræða þau tilvik þegar maki hins tryggða hafi hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar séu það þau tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður hvers máls falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Fyrir liggi að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu hjá B. Ágreiningur snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi teljist gildar í skilningi áðurnefnds ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi talið í fyrri úrskurðum sínum að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitenda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Þær skýringar sem kærandi hafi gefið sem ástæðu fyrir uppsögn sinni lúti einkum að því að hann hafi unnið næturvaktir dag eftir dag sem hafi haft slæm áhrif á heilsu hans. Tilhögun starfsins hafi leitt til svefnleysis og þunglyndis. Fyrir liggi greinargerð sálfræðings kæranda þar sem nánar sé greint frá aðstæðum kæranda. Kærandi hafi aldrei afhent Vinnumálastofnun umrædda greinargerð. Líkt og komi fram í áðurnefndum athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það talið heyra til gildra ástæða fyrir uppsögn í starfi þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hafi sagt starfi sínu lausu af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær. Í slíkum tilvikum sé aftur á móti gert að skilyrði að vinnuveitanda hafi mátt vera kunnugt um slíkar aðstæður áður en launamaður láti af störfum. Af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda verði ekki ráðið að kærandi hafi greint yfirmanni sínum frá versnandi heilsu sinni eða að honum hafi verið kunnugt um þær aðstæður.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi séu ekki gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú niðurstaða leiði af markmiði laga um atvinnuleysistrygginga og þeirra ríku krafna sem gera beri til atvinnuleitenda sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður.

Kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistrygginga þann 3. nóvember 2021. Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna skuli sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57. til 59. gr., eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað á nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr., ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum. Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 1. mars 2023, hafi hann ekki áunnið sér rétt til nýs tímabils, sbr. 29. til 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi komið til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga í tilviki kæranda þegar hann hafi verið beittur biðtíma með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 23. mars 2023, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Kærandi skuli því ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði frá 1. mars 2023 með vísan til starfsloka hans hjá B, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hans fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemd við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta sé sérstaklega fjallað um tvenns konar tilvik sem séu talin heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annars vegar sé um að ræða tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær. Þá sé það gert að skilyrði að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en launamaðurinn lét af störfum.

Meðfylgjandi kæru var vottorð sálfræðings kæranda, dags. 10. maí 2023. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi fyrst leitað til sálfræðings vegna þunglyndis og kvíða árið 2021. Undir lok árs 2022 hafi kærandi aftur haft samband við sálfræðinginn vegna versnandi líðan og svefnerfiðleika. Strax hafi komið í ljós bein tengsl á milli vandamála kæranda og vinnu. Mat sálfræðingsins hafi verið að þar sem svefntruflanir hefðu sterk áhrif á andlega líðan ætti kærandi ekki að vinna næturvaktir. Sálfræðingurinn hafi mælt með því að kærandi myndi reyna að skipta yfir á dagvaktir en finna aðra vinnu ef það gengi ekki. 

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi sagt upp starfi sínu í kjölfar ráðlegginga sálfræðings. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi greint vinnuveitanda frá versnandi andlegri heilsu. Þá liggur ekki fyrir að kærandi hafi reynt að fá aðrar vaktir en næturvaktir áður en hann sagði starfi sínu lausu. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki um að ræða gilda ástæðu fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði þann 3. nóvember 2021 á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, kom til ítrekunaráhrifa samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta