Mál nr. 9/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. maí 2006
í máli nr. 9/2006:
Iceland Excursion Allrahanda
gegn
Ríkiskaupum f.h. Vegagerðarinnar, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Með bréfi dagsettu 10. febrúar 2006, óskar Iceland Excursion Allrahanda eftir því að kærunefnd útboðsmála endurupptaki mál nefndarinnar nr. 40/2005.
Iceland Excursion Allrahanda verður í ákvörðun þessari kallað kærandi, eins og í máli því, sem óskað er endurupptöku á. Aðrir aðilar eru tilgreindir sem kærðu.
Kærandi óskar eftir því „að kærunefnd útboðsmála taki mál nr. 40/2005 upp aftur til efnislegs úrskurðar“.
Kærðu krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað.
I.
Málavextir hins kærða útboðs eru raktir í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 40/2005. Kærunefnd útoboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að kæra kæranda hefði verið sett fram eftir að kærufrestur laga nr. 94/2001 um opinber innkaup var liðinn. Var kröfum kæranda því vísað frá nefndinni.
Forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðar kærunefndarinnar var svohljóðandi:
„Kærðu gera kröfu um frávísun krafna kæranda frá kærunefnd útboðsmála þar sem kæran hafi borist eftir að fjögurra vikna kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um opinber innkaup leið. Í ákvæðinu kemur fram að kæra skuli borin fram skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi, sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum.
Kærandi sendi inn kæru sína, sem mál þetta er sprottið af, til kærunefndar útboðsmála 22. nóvember 2005 og krafðist þess að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að höfnun kærða á tilboði hans hafi verið ólögmæt. Áður hafði hann sent inn kæru vegna sama útboðs með bréfi 18. október 2005 þar sem farið var fram á stöðvun samningsgerðar þar til endanlega væri leyst úr kærunni. Sú kæra var afturkölluð af hálfu kæranda með bréfi 19. desember 2005. Fyrir liggur að kærandi fékk útboðsskilmála hins kærða útboðs afhenta í ágúst 2005.
Kærandi byggir kröfur sínar í málinu einkum á tvenns konar sjónarmiðum. Annars vegar að ákvæði 1.7 útboðsskilmála eigi sér ekki lagastoð og hins vegar að kærandi uppfylli skilyrði þess ákvæðis skilmálanna væri litið svo á að þeir færu ekki í bága við lög. Kæranda var kunnugt um útboðsskilmála hins kærða útboðs í langsíðasta lagi þegar krafa um stöðvun um stundarsakir var höfð uppi með kæru, dags. 18. október 2005. Þá var kæranda ljóst að kærði byggði á því við höfnun tilboðs að tilboðið færi í bága við ákvæði 1.7 útboðsskilmála þegar kærða Vegagerðin sendi kærða bréf, dags. 24. október 2005, en óumdeilt er að kærandi fékk bréfið þann dag. Á því tímamarki vissi kærandi eða mátti vita um ákvörðun sem hann taldi brjóta gegn rétti sínum. Kærufrestur byrjaði að líða daginn eftir, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra kæranda er dagsett fjórum vikum og einum degi eftir þetta tímamark eða 22. nóvember 2005. Var hún því sett fram eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um opinber innkaup var liðinn. Er því óhjákvæmilegt að fallast á það með kærða að kæran hafi því borist eftir að fjögurra vikna kærufrestur 1. mgr. 78. gr. laga um opinber innkaup leið. Verður því kröfum kæranda vísað frá kærunefnd útboðsmála.“
Kærandi sendi kærunefnd útboðsmála bréf, dags. 10. febrúar sl., þar sem óskað var endurupptöku málsins. Vísað var til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um heimild til endurupptöku málsins. Byggir kærandi ósk sína á því að upplýsingar hans sjálfs um móttöku bréfs frá Vegagerðinni hafi ekki verið réttar. Hið rétta væri að bréf frá Vegagerðinni sem stílað hafi verið á Lögfræðistofu Reykjavíkur [til lögmanns kæranda] hafi verið dagsett 24. október 2005 og það hafi ekki borist lögmanninum fyrr en daginn eftir að bréfið var póstsent. Bréf sem send séu innan Reykjavíkur með Íslandspósti berist ekki samdægurs viðtakanda. Með hliðsjón af þessu sé ljóst að rangt sé að skýringar kærðu hafi borist kæranda 24. október 2005. Bréfið hafi ekki borist fyrr en 25. þess mánaðar.
Kærðu fengu kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri vegna óskar kæranda um endurupptöku málsins og var það gert með bréfi, dags. 27. mars 2006. Kærðu fallast ekki á sjónarmið kæranda og verður af málatilbúnaði þeirra dregin sú ályktun að þeir krefjist þess að ósk kæranda um endurupptöku málsins verði hafnað. Kærðu kveða ýmsar skýringar geti verið á því að kærandi hafi fengið vitneskju um efni tilgreinds bréfs sama dag og það hafi verið dagsett. Í fyrsta lagi kunni að vera að mistök hafi orðið af hálfu kærða og bréfið verið dagsett degi eftir að það hafi verið sent. Í öðru lagi sé ekki útilokað að bréf komist samdægurs til viðtakanda sé það afhent snemma dags til dreifingar. Í þriðja lagi telji kærði það sennilegt að bréfið hafi verið sent með símbréfi samdægurs og það hafi verið ritað, enda áríðandi að efni þess kæmist til kæranda sem fyrst. Loks liggi ekki fyrir staðfesting á að bréfið hafi verið póstsent og ekki útilokað að það hafi verið boðsent til að tryggja að það kæmist örugglega til skila sem fyrst til kæranda.
II.
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. málslið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kemur til skoðunar í ákvörðun þessari hvort að skilyrði þessa ákvæðis sé fullnægt í málinu vegna óskar kæranda um endurupptöku máls kærunefndar útboðsmála nr. 40/2005.
Eins og að framan er rakið komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu í úrskurði frá 22. febrúar sl. að kærandi hefði skilað kæru sinni inn fjórum vikum og einum degi eftir að kærufrestur byrjaði að líða. Fjögurra vikna kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæran barst nefndinni og vísa bæri kröfum kæranda frá. Í málatilbúnaði sínum fyrir kærunefnd útboðsmála í máli nr. 40/2005 upplýsti kærandi sjálfur að hann hefði móttekið bréf kærðu Vegagerðarinnar 24. október 2005. Í ósk um endurupptöku hefur hann haldið því fram að hann hafi, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu, móttekið bréfið 25. október 2005. Endurupptaka máls er undantekning frá endanlegum lyktum þess með úrskurði stjórnvalds, í þessu tilviki kærunefndar útboðsmála. Eins og hér stendur á telur kærunefnd útboðsmála að kærandi verði að færa fram rök eða sönnun fyrir þeirri staðhæfingu að bréf Vegagerðarinnar hafi ekki borist á þeim tíma sem kærandi lýsti áður yfir. Ekki dugir einhliða yfirlýsing kæranda sjálfs að um mistök hafi verið ræða, enda verður ekki talið ósennilegt að bréfið hafi borist sama dag og það var dagsett. Kærandi hefur enga sönnun fært fyrir því að bréfið hafi borist til hans 25. október 2005. Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða kærunefndar útboðsmála að skilyrðum endurupptöku máls nr. 40/2005 sé ekki fullnægt og að hafna beri ósk kæranda um endurupptöku málsins.
Ákvörðunarorð:
Ósk kæranda, Iceland Excursion Allrahanda ehf., um endurupptöku máls kærunefndar útboðsmála nr. 40/2005, er hafnað.
Reykjavík, 2. maí 2006
Páll Sigurðsson
Stanley Pálsson
Sigfús Jónsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 2. maí 2006.