Hoppa yfir valmynd

Nr. 54/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 54/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU20090025 og KNU20090026+

Kæra [...],

[...]og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. september 2020 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir M), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 25. ágúst 2020, um að synja kærendum og börnum þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir A), [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir B) og [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir C), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þess er aðallega krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og kærendum og börnum þeirra verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er þess krafist til þrautaþrautavara að kærendum og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 26. ágúst 2019. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 16. og 25. júní 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 25. ágúst 2020, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 15. september 2020. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 7. október 2020 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust frá kærendum dagana 8. og 9. október 2020, 17. nóvember 2020, 5. janúar 2021 og 10. febrúar 2021. Í greinargerð sinni óskuðu kærendur eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagna kærenda og skýrslna um heimaríki þeirra taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna föðurbróður K, trúarskoðana sinna og slæms almenns ástands þar í landi.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og var þeim synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki væri tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum í málum foreldra þeirra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Börnum kærenda var vísað frá landinu.Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda til kærunefndar er vísað til viðtala K og M hjá Útlendingastofnun. Þar hafi M greint frá því að vera uppalinn í Edo fylki í Nígeríu og hafi síðar flutt til Kaduna fylkis þar sem hann hafi búið áður en hann flúði heimaríki sitt. Hann kvaðst tilheyra Igbo ættbálknum og sé kristinn. K hafi greint frá því að vera uppalin í [...] í Kaduna fylki í Nígeríu og þar hafi hún búið áður en hún hafi flúið heimaríki. Hún kvaðst tilheyra Hausa ættbálknum sem sé múslimskur þjóðfélagshópur. Hún hafi fæðst sem múslimi en látið skíra sig til kristni árið 2009 og sé kristin í dag. Greindi hún frá því að faðir hennar hafi verið tekinn af lífi eftir að hann hafi tekið upp kristna trú, en hann hafi áður verið múslimi. Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi flúið heimaríki sitt þar sem þau hafi gift sig í óþökk fjölskyldu K sem hafi ekki viljað að hún giftist kristnum manni. Af þeim sökum hafi M sætt alvarlegu ofbeldi af hálfu fjölskyldu K, nánar tiltekið af hálfu frænda hennar sem sé höfuð fjölskyldunnar eftir andlát föður hennar. Frændi hennar ásamt nokkrum mönnum hafi komið á heimili M og beitt hann ofbeldi, veitt honum áverka með hníf og lamið hann með barefli. M hafi í kjölfarið flúið til frænda síns í borginni Yola. Kærandi hafi misst heyrn á báðum eyrum vegna sprengingar á markaði í borginni og frændi hans látið lífið. Í kjölfarið hafi hann flúið heimaríki sitt en á leið sinni til Evrópu hafi hann verið handsamaður í Líbíu þar sem hann hafi sætt pyndingum í nokkra mánuði. M hafi jafnframt greint frá því að kristnir einstaklingar séu ofsóttir í heimaríki þeirra. Kærendur óttist fjölskyldu K í heimaríki og óttist að verða tekin af lífi verði þeim gert að snúa til baka. Báðir foreldrar M séu látnir og hann hafi því engan stuðning frá fjölskyldu þar í landi. K greindi frá því að móðir hennar væri í hættu í heimaríki þar sem hún sé kristin og hafi samþykkt hjónaband þeirra. Hún sé í felum hjá nágrönnum. Þá hafi K greint frá því að hún óttist almennar aðstæður í heimaríki. Mikið sé um glæpi, hryðjuverk og mannrán í landinu og séu félagslegar aðstæður þar mjög slæmar. Hún hafi ekki haft aðgang að hreinu drykkjarvatni, vatni til að þvo sér eða rafmagni auk þess sem hún hafi ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu. Kærendur eigi þrjú börn, þar af tvo drengi sem báðir séu mjög virkir og eigi m.a. við hegðunarvandamál að stríða. Eldri drengurinn eigi við talörðugleika að stríða og sé byrjaður í talþjálfun hér á landi.

Kærendur byggja í fyrsta lagi á því að þau séu flóttamenn samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til þess að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna trúarskoðana sinna, þar sem þau séu kristin og þar sem þau hafi gengið í hjónaband í óþökk frænda K. Til vara byggja kærendur á því að þau teljist vera flóttamenn með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi því rétt á viðbótarvernd með vísan til þess að þau eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis, bæði með vísan til þeirrar hættu sem þau séu í af hálfu fjölskyldu K og með vísan til almennra aðstæðna í heimaríki þeirra. Þá skuli sérstaklega taka mið af viðkvæmum aðstæðum K sem konu. Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til heilsufars M, sem sé heyrnarlaus, með vísan til barnanna sem eigi við vandamál að stríða og erfiðra félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar. Sérstakt tillit skuli tekið til aðstæðna barnanna og haft sé að leiðarljósi það sem þeim sé fyrir bestu.

Kærendur gera nokkrar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi gera kærendur alvarlegar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barnanna og telja að ekki hafi verið lagt einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra eða það sem þeim sé fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvarðanatöku stofnunarinnar. Þess sé sérstaklega krafist fyrir hönd barnanna að tekið verði tillit til þeirrar verndar sem þau eigi rétt á samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu skuldbundin að virða samkvæmt þjóðarétti. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barnanna séu ekki rökstuddar með vísan til aðstæðna barnanna og um aðstæður þeirra sé í raun ekkert fjallað í ákvörðununum. Án einstaklingsbundins mats og umfjöllunar um aðstæður hvers barns séu framangreindir samningar og lagaákvæði að engu höfð og innantómt að vísa til þeirra án nánari rökstuðnings. Stofnuninni hafi borið að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður barnanna, óháð aðstæðum foreldranna, og meta hvað þeim sé fyrir bestu en ekki hvort þeim sé stefnt í hættu við að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Jákvætt sé að Nígería hafi fullgilt samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og stofnskrá Afríkusambandsins um velferð og réttindi barnsins. Skuli þó hafa í huga að þegar mat sé lagt á hættu á ofsóknum dugi ekki að benda á breytingar í lögum eða vilja stjórnvalda til úrbóta heldur verði að sýna fram á raunverulega breytingu sem geri það að verkum að fórnarlömb njóti verndar í raun. Í þessu samhengi vísa kærendur til alþjóðlegra skýrslna í greinargerð sinni þar sem fram komi að innleiðing laga um réttindi barnsins hafi ekki gengið sem skyldi í Nígeríu og stjórnvöld og stofnanir séu almennt ekki meðvituð um skyldu sína samkvæmt lögunum. Líkt og fram hafi komið eigi A og B við hegðunarvandamál að stríða og séu mjög virkir. A eigi auk þess við fleiri vandamál að stríða, svo sem vandamál tengd matmálstímum og klósettferðum og þá eigi hann við mikla talörðugleika að stríða. Hann sé [...] en geti illa myndað setningar og tali einungis í stökum orðum. Í greinargerð frá leikskóla B segi m.a. að leikskólinn hafi áhyggjur af honum og telji hann þurfa mjög markvissa þjálfun og ramma í nánast öllum þáttum. Með góðum stuðningi sé hægt að vinna með hans vanda. Sé ekki gripið inn í snemma og unnið með hans hegðun gæti það haft mikil áhrif á hann í framtíðinni.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi einungis legið fyrir bréf frá leikskóla A. Því hafi verið synjað hjá Útlendingastofnun að heildstætt faglegt mat yrði framkvæmt á stöðu drengjanna þar sem lagt væri mat á heilsu þeirra, þroska, færni og stöðu. Kærendur telja Útlendingastofnun ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni líkt og þeim hafi borið að gera hvað A og B varðar. Stofnuninni hefði borið að óska eftir heildstæðu mati á stöðu þeirra og t.a.m. kanna hvort þeir fengju einhverja aðstoð hér á landi við vanda sínum eða væru í einhverskonar meðferð. Líkt og fram hafi komið sé A í talþjálfun og fram komi í greinargerð frá skóla hans að mikilvægt sé að hann fái alla þá aðstoð sem hægt sé að fá og greiningu á því hvar vandinn liggi. Þá þurfi talmeinafræðingur og iðjuþjálfi að koma að hans málum. Í greinargerð frá leikskóla B komi m.a. fram að hann þurfi góðan ramma og markvissa þjálfun. Mikilvægt sé að unnið sé með hans vanda fljótt.

Kærendur gera athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að í Nígeríu séu möguleikar fyrir hendi til að meðhöndla nánast alla hugsanlega kvilla sem fyrirfinnist í mannslíkamanum og að A og B geti fengið aðstoð við vanda sínum þar. Mikilvægt sé að börnin búi við öryggi og festu og að A og B verði tryggð sú aðstoð sem þeir þurfi á að halda. Þá sé mikilvægt að þeir fái góða ummönnun og aðhlynningu. Þeir hafi ekki fengið aðstoð varðandi þroska þeirra eða þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þarfnist annars staðar en á Íslandi. Öryggi, velferð og þroski yrði stefnt í hættu yrði þeim snúið til heimaríkis. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar hafi ekki verið lagt einstaklingsbundið mat á hagsmuni barnanna þriggja, velferð þeirra og öryggi og hvað þeim sé fyrir bestu. Til hliðsjónar vísa kærendur til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU16070035 þar sem skortur á einstaklingsbundnu mati á hagsmunum barns í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi leitt til þess að stofnuninni hafi verið gert að taka málið til meðferðar á ný. Vegna hagsmuna kærenda af því að fá skjóta úrlausn í máli sínu sé þó ekki farið fram á það heldur sé þess krafist að kærunefnd bæti úr þessum alvarlega ágalla, felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og veiti kærendum dvalarleyfi í samræmi við kröfugerð.

Í öðru lagi mótmæla kærendur trúverðugleikamati Útlendingastofnunar í máli M að því leyti sem trúverðugleiki hans sé dreginn í efa. Stofnunin dragi trúverðugleika hans í efa með vísan til tveggja atriða. Fyrra atriðið hafi lotið að því að kærandi hafi ýmist talað um að hann hafi farið til bróður síns eða frænda í Yola. Það sé þekkt að einstaklingar frá Nígeríu og víðar noti orðið bróðir í víðtækri merkingu og vísi til einstaklinga sem ekki séu skyldir þeim blóðböndum sem bróður. M hafi greint frá því að hann og Nígeríumenn almennt, vísi til skyldmenna og vina sem bræðra. Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um trúverðugleikamat í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd sé sérstaklega vikið að þessu atriði og tekið fram að taka verði tillit til mismunandi menningar og hefða. Stofnuninni hefði verið í lófa lagið að bera framangreint undir M og kalla eftir skýringum en hafi þess í stað kosið að túlka framangreint M í óhag og meti það svo að þetta ósamræmi dragi verulega úr trúverðugleika frásagnar hans hvað varðar ofsóknir sem hann kveðst hafa sætt í heimaríki. Seinna atriðið snúi að hryðjuverkaárásinni í Yola sem hafi gert það að verkum að M hafi misst heyrn. Útlendingastofnun hafi ekki lagt frásögn M af atburðinum til grundvallar m.a. vegna þess að hann hafi greint frá því að árásin hefði átt sér stað þann 18. nóvember 2015 en hún hafi átt sér stað 17. nóvember 2015. Það að árásin hafi átt sér stað einum degi fyrr en M hafi greint frá ætti með réttu engu að skipta hvað trúverðugleikamat hans varðar. Taka verði tillit til þess að árásin hafi átt sér stað fyrir fimm árum og jafnframt verði að taka tillit til þess áfalls sem M hafi orðið fyrir og hvaða áhrif framangreind árás hafi haft á hann en hann hafi misst frænda sinn í árásinni auk þess að hafa misst heyrn á báðum eyrum. Framangreind atriði hafi aldrei verið borin undir M og honum hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla framangreindu eða gefa frekari skýringar. Þvert á móti hafi framangreint verið túlkað M í óhag þrátt fyrir að stofnuninni bæri að túlka vafa kæranda í hag. Að mati kærenda hafi stofnunin þarna aftur brotið rannsóknarskyldu sína.

Í þriðja lagi gera kærendur athugasemdir við þá ströngu sönnunarbyrði sem Útlendingastofnun hafi lagt á þau. Kærendur telja ljóst að gera verði minni sönnunarkröfur til umsækjenda um alþjóðlega vernd en almennt og sameiginleg skylda stjórnvalds og kærenda sé að komast að hinu rétta í málinu. Kærendur hafi ítarlega greint frá ástæðum flótta síns með trúverðugum hætti og hafi frásagnir kærenda að öllu leyti verið í samræmi.

Í fjórða lagi gera kærendur athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að M geti fengið fullnægjandi heilbrigðisaðstoð vegna heyrnarskerðingar sinnar í heimaríki. M hafi misst heyrnina í nóvember árið 2015 og það hafi ekki verið fyrr en hér á landi, í mars 2020, sem hann hafi fengið aðstoð vegna þessa og fengið heyrnartæki. Líkt og fram komi í hinni kærðu ákvörðun sé almenn heilbrigðisþjónusta í Nígeríu illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé ekki gott sökum skorts á bæði heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. M þurfi að mæta reglulega í eftirlit vegna heyrnartækja sinna hér á landi.

Í fimmta lagi gera kærendur athugasemdir við að ekki hafi verið lagt mat á félagslegar aðstæður kærenda. K hafi m.a. greint frá því að félagslegar aðstæður fjölskyldunnar yrðu mjög erfiðar í heimaríki. Hún hafi greint frá því að hún hafi ekki haft aðgang að hreinu drykkjarvatni eða vatni til þess að þvo sér. Þá hafi ekki verið aðgangur að rafmagni. Auk þess hafi hún ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu. Útlendingastofnun hafi ekki vikið að þessum atriðum eða fjallað um félagslegar aðstæður þeirra í tengslum við mat á því hvort þau uppfylli skilyrði dvalarleyfis af mannúðarástæðum líkt og stofnuninni hafi borið að gera. Það sé ekki í samræmi við rannsóknarskyldu stofnunarinnar.

Í viðbótargreinargerð kærenda sem barst kærunefnd þann 5. janúar sl. kemur fram að kærendur geri til þrautaþrautavara kröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggi að kærendur hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 26. ágúst 2019 og hafi enn ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi. Það séu því meira en 16 mánuðir liðnir frá því að kærendur lögðu fram umsókn. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita útlendingi sem ekki hafi fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 komi fram að þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að veita barni, sem sótt hafi um vernd og ekki fengið niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum öðrum skilyrðum. Kærendur telja engan vafa vera á því hver börnin séu eða foreldrar þeirra. Ljóst sé að kærendur hafi framvísað nígerískum vegabréfum fjölskyldumeðlima auk fæðingarskírteinis C. Kærendur hafi veitt allar þær upplýsingar sem þau hafi verið beðin um og aðstoðað eftir fremsta megni við úrlausn málsins. Að því sögðu telji þau ljóst að skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Kærendur fái ekki séð að neitt af því sem talið sé upp í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi við í málum þeirra.

Ljóst sé að 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020 eigi við í málum barnanna. Enda þótt umrædd málsgrein reglugerðarinnar taki ekki á stöðu forsjárforeldra telji kærendur eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barns í sömu stöðu og börn kærenda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga til að tryggja einingu fjölskyldunnar í samræmi við meginregluna þar um.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað nígerískum vegabréfum fyrir sig og tvö eldri börn sín og fæðingarvottorði yngsta barnsins. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra séu nígerískir ríkisborgarar. Þá fæddist C hér á landi þann [...] og er auðkenni hennar því ljóst.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur. Mat kærunefndar á hagsmunum barna kæranda fer fram í samræmi við verklagsreglur kærunefndar um mat á hagsmunum barns sem sækir um alþjóðlega vernd en verklagsreglurnar voru unnar með stuðningi frá umboðsmanni barna og UNICEF á Íslandi og eru birtar á vefsíðu nefndarinnar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Female Genital Mutilation (FGM) (U.K. Home Office, 13. ágúst 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Country Background Note (U.K. Home Office, 7. janúar 2020);
  • Country Profile: FGM in Nigeria (28 Too Many, október 2016);
  • EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 1. ágúst 2017);
  • EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, júní 2017);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2020 – Nigeria (Freedom House, 4. mars 2020);• Herders against Farmers: Nigeria’s Expanding Deadly Conflict (International Crisis Group, 19. september 2017);
  • Katsina, Kano, 10 others yet to pass child rights law says UNICEF (International Bureau for Childrens Rights, 13. maí 2019, https://www.ibcr.org/en/medias-en/katsina-kano-10-others-yet-to-pass-child-rights-law-says-unicef/);
  • Nigeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);• Nigeria 2019 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 10. júní 2020);
  • Nigeria: Rising toll of middle-belt violence (Human Rights Watch, 28. júní 2018);
  • Nigeria: Situation Report (UN Office for Coordination of Humanitarian Affairs, 4. janúar 2021);
  • Nigeria: Situation Report (UN Office for Coordination of Humanitarian Affairs, 21. janúar 2021);
  • Nigeria: Social attitudes toward religious intermarriage (Immigration and Refugee Board of Canada, 19. nóvember 2012);
  • Responses to Information Requests (Immigration and Refugee Board of Canada, 20. nóvember 2019);
  • 2016 Strategic Conflict Assessment of Nigeria (Institute for Peace and Conflict Resolution, 2017);
  • Stjórnarskrá Nígeríu (Constitution of the Federal Republic of Nigeria 1999, https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/laws/en/ng/ng014en.pdf);
  • Vefsíða: Nigeria Immigration Service (https://immigration.gov.ng/residence-permits/);
  • The World factbook (CIA, júlí 2020);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Nigeria (Minority rights group International, maí 2018) og
  • World Report 2021 – Nigeria (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Nígería er sambandslýðveldi með rúmlega 214 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009.  Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi frá árinu 2019 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta, m.a. vegna takmarkana á réttindum þeirra til tjáningar og samkomu og einnig við að fá atvinnu hjá ríkinu.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslum EASO frá 2017 og 2018 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun lögreglumanna sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla.

Fram kemur í ofangreindum gögnum, t.a.m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019, að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og þrátt fyrir að störf umboðsmannsins verði að einhverju leyti fyrir áhrifum vegna afskipta stjórnvalda þá sé um að ræða virkt úrræði fyrir borgara Nígeríu. Þá kemur fram að ýmsar eftirlitsnefndir starfi í Nígeríu sem almenningur geti beint kvörtunum sínum til, s.s. mannréttindanefndin (e. The National Human Rights Commission (NHRC)) sem hefur það hlutverk að rannsaka meint brot gegn mannréttindum. Þá geti almennir borgarar beint kvörtunum til umboðsmannsins í Nígeríu ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð stjórnvalda. Jafnframt geti almenningur leitað til nígeríska lögregluráðsins (e. The Nigerian Police Council) og framkvæmdastjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sem gefin var út í mars 2020. kemur fram að þótt konur og karlar njóti sömu réttinda samkvæmt stjórnarskrá Nígeríu sé raunin ekki alltaf sú og ógiftar konur eigi sérstaklega undir högg að sækja. Konur verði fyrir margskonar mismunun þegar komi að efnahagslegum réttindum, en til að mynda tryggi lög konum ekki jöfn laun og körlum fyrir sambærileg störf. Auk þess sé mismunun byggð á kyni ekki óheimil við ráðningu í störf. Þá sé venjan sú að konur geti ekki eignast land nema í gegnum eiginmann sinn eða fjölskyldu. Venjan sé jafnframt sú í mörgum tilfellum að konur erfi ekki eiginmenn sína og sitji þá uppi allslausar við fráfall þeirra. Þá sé kynbundið ofbeldi gagnvart konum útbreitt vandamál í Nígeríu og séu ógiftar konur enn líklegri til þess að verða fyrir ofbeldi. Það sé engin alhliða löggjöf sem verndi konur gegn kynbundnu ofbeldi í Nígeríu en einhver fylki, aðallega í suðurhluta Nígeríu, séu með löggjöf sem eigi að veita vernd gegn tilteknu kynbundnu ofbeldi. Heimilisofbeldi í landinu sé útbreitt vandamál og í sumum ríkjum sé það félagslega samþykkt. Þá tíðkist einnig afskiptaleysi meðal lögreglunnar í slíkum málum.

Samkvæmt stjórnarskrá Nígeríu öðlist einstaklingur ríkisborgararétt þar í landi við fæðingu ef a.m.k. annað foreldri hefur nígerískan ríkisborgararétt. Fram kemur í ofangreindum gögnum, s.s. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020, að ofbeldi gagnvart börnum sé útbreitt í Nígeríu. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hafi unnið í samvinnu með yfirvöldum í Nígeríu, m.a. við að bæta lagaumgjörð um vernd barna gegn ofbeldi, breyta viðurkenndum félagsháttum sem feli í sér hættulegar hefðir líkt og kynfæralimlestingar og barnahjónabönd, auk þess sem unnið hafi verið að styrkingu félagslegrar þjónustu og barnaverndarstarfs þar í landi. Þá hafi yfirvöld samþykkt aðgerðaáætlun, National Strategy to End Child Marriage in Nigeria (2016-2021) með það að markmiði að útrýma barnahjónaböndum fyrir árið 2030. Jafnframt vinni yfirvöld hörðum höndum að aðgerðaáætlun sem feli m.a. í sér forvarnarstarf meðal ráðuneyta og stofnana með það að markmiði að stöðva ofbeldi gagnvart börnum. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að Nígería hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991 og stofnskrá Afríkusambandsins um velferð og réttindi barnsins (e. The African Charter on the Rights and Welfare of the Child) árið 2000. Hafi þjóðþing Nígeríu samþykkt árið 2003 lög um réttindi barnsins (e. the Child Rights Act) og tóku þau gildi sama ár. Þar sem Nígería sé sambandslýðveldi sé ekki nóg að þjóðþingið samþykki löggjöfina heldur þurfi bæði fylkisþing og landstjóri hvers fylkis að samþykkja lagasetninguna til þess að hún taki gildi í hverju fylki. Árið 2019 hafi 24 fylki af 36 samþykkt lögin og séu flest þeirra í suðurhluta Nígeríu þ. á m. Kaduna og Edo fylki. Lögin kveði á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir er varða börn skuli byggðar á því sem sé barninu fyrir bestu. Í lögunum komi einnig fram að öll börn eigi rétt á að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu. Árið 2004 hafi þjóðþing Nígeríu samþykkt löggjöf sem kveði á um ókeypis grunnskólagöngu (e. The Universal Basic Education (UBE) Programme). Hafi þessi nýjung verið leidd í lög með því markmiði að fjölga nemendum í grunnskóla og koma á fót ókeypis og skyldubundnu skólakerfi fyrir öll börn í Nígeríu.

Samkvæmt skýrslu EASO frá 2018 sé öryggisástand landsins hvað verst í norðurhlutanum þar sem hryðjuverkahópurinn Boko Haram beri ábyrgð á andláti mörg þúsund íbúa. Helstu átök í suðurhluta Nígeríu megi rekja til ágreinings í tengslum við olíuauðlindir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá janúar 2019 hafi ríkisstjórn Nígeríu aukið öryggisaðgerðir og reynt að takast á við vandann sem fylgir árásum Boko Haram í Norðaustur-Nígeríu, m.a. með því að senda herafla til svæðisins og hafi tekist að minnka umsvif hópsins. Þá hafi ríkisstjórnin einnig handtekið og leitt fyrir dóm yfir 1.500 manns sem sakaðir hafi verið um tengsl við Boko Haram. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2019 kemur fram að átök hafi verið viðvarandi árið 2019 milli Fulani Herdsmen, sem séu að mestu múslimar, og bænda, sem séu að mestu kristnir, í Norður og Mið- Nígeríu, átökin hafi þó farið minnkandi frá árunum 2017/2018 vegna inngripa stjórnvalda og viðleitni íbúanna til að leysa deilurnar. Tala látinna almennra borgara hafi farið úr yfir 1.500 árið 2018 í u.þ.b. 350 árið 2019. Alþjóða- og félagssamtök hafi gagnrýnt stjórnvöld í Nígeríu fyrir getuleysi til að koma í veg fyrir eða draga úr ofbeldi milli kristinna og múslimskra samfélaga. Í skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá janúar 2020 og skýrslu International Crisis Group frá september 2017 kemur fram að þessi átök snúist fyrst og fremst um baráttu þessara tveggja hópa um landsvæði, þar sem að þurrkar hafi leitt til skorts á beitilandi í norðri og vaxandi landbúnaður hafi leitt til aukinnar þarfar á ræktarlandi í svokölluðu miðjubelti Nígeríu.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stigið sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu, m.a. mæðra- og ungbarnavernd, fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Þá kemur fram í tímaritsgrein frá árinu 2014 að talið sé að allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum en aðgengi sé þó betra á þéttbýlli svæðum landsins. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess. Þá komi fram í skýrslu EASO frá árinu 2018 að konur í norðurhluta landsins séu í enn frekari hættu á að fá ófullnægjandi aðgang að fæðingaraðstoð en í suðurhluta þess, einkum á strjálbýlum svæðum.

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2019 kemur fram að Evrópusambandið og alþjóða fólksflutningastofnunin (IOM) starfi saman í sérstöku átaksverkefni er lúti að endursendingu fólks til Nígeríu. Fólksflutningastofnunin í samstarfi við ýmsar innlendar stofnanir, svo sem innflytjendaþjónustu Nígeríu (e. Nigerian Immigration Service), nefnd ríkisins fyrir flóttamenn, innflytjendur og fólk á innri flótta (e. the National Commission for Refugees, Migrants and Internally Displaced Persons), NAPTIP, almannavarnir ríkisins og ETAHT (e. Edo State Taskforce against Human Trafficking) veiti ýmsa þjónustu vegna móttöku og aðlögunar einstaklinga sem snúi aftur til Nígeríu. Grunnþjónusta sé veitt, m.a. ferðir áfram til heimabæjar eða þorps, símar til frekari samskipta, matur, skammtímahúsnæði, heilbrigðisþjónusta og vernd. Þá sé einstaklingum með sérþarfir jafnframt vísað til heilbrigðisstofnana, sálfræðinga, í ráðgjöf og veitt aðstoð við fjölskyldusameiningu.

Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá mars 2020 búi yfir 250 mismunandi þjóðarbrot í Nígeríu. Þrjú stærstu þjóðarbrotin séu Hausa, Igbo og Yoruba, en saman myndi þau um helming íbúafjölda landsins. Meðlimir úr öllum þjóðarbrotum hafi orðið fyrir mismunun en mismununin hafi einkum birst í ráðningum innan einkageirans og hverfaskiptingu í þéttbýli. Fram kemur að spenna milli ákveðinna þjóðarbrota í Nígeríu eigi sér langa sögu. Stjórnvöld í Nígeríu hafi gert tilraunir til að sporna við slíkri mismunun og hafi slíkar tilraunir yfirleitt samanstaðið af öryggisaðgerðum, þar á meðal lögregluaðgerðum og aðgerðum á vegum hersins. Lög í Nígeríu banni mismunun á grundvelli þjóðarbrots. Engu að síður hafi aðilar flestra þjóðarbrota greint frá því að vera jaðarsettir þegar komi að fulltrúum í stjórnmálum landsins og/eða tekjuúthlutun stjórnvalda.

Samkvæmt ofangreindum gögnum séu flestir af Igbo þjóðarbrotinu búsettir í suðaustur hluta landsins og flestir sem tilheyri Hausa ættbálknum séu staðsettir í norðurhluta landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sem kristnir einstaklingar. Þá óttist þau af þeim sökum frænda K sem hafi ekki samþykkt hjónaband þeirra. Ennfremur greindi K frá því að óttast almennt ástand í heimaríki en hún hafi ekki haft aðgang að hreinu vatni, rafmagni eða heilbrigðisþjónustu. Þá séu yfirvöld í Nígeríu ekki fær um að veita kærendum fullnægjandi vernd.

Mat á trúverðugleika frásagna kærenda er byggt á endurritum af viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki þeirra.

Kærendur hafa greint frá því að hafa búið í Kaduna fylki í Nígeríu áður en þau hafi flúið. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að hún væri uppalin í Kafanchan í Kaduna fylki í Nígeríu og hafi búið þar áður en hún hafi flúið heimaríki sitt árið 2005. Hún tilheyri Hausa ættbálknum sem sé múslimskur þjóðfélagshópur. Hún hafi fæðst sem múslimi en látið skíra sig til kristni árið 2009 og sé kristin í dag. Hún hafi flúið heimaríki sitt vegna þess að frændi hennar hafi ætlað að gifta hana eldri múslimskum manni. M greindi frá því að vera uppalinn í Edo fylki í Nígeríu en hafi síðar flutt til Kaduna fylkis þar sem hann hafi búið áður en hann hafi flúið heimaríki. Hann tilheyri Igbo ættbálknum og sé kristinn. Kærendur greindu frá því að hafa gengið í hjónaband í óþökk frænda K sem hafi ekki viljað að hún giftist kristnum manni. Af þeim sökum hafi M orðið fyrir alvarlegu ofbeldi af hálfu manna á vegum frænda K, en frændi hennar hafi tekið við fjölskyldunni þegar faðir hennar hafi látist. M hafi í kjölfarið flúið til Yola þar sem hann hafi misst heyrn á báðum eyrum í hryðjuverkaárás í nóvember árið 2015. Þá greindi M jafnframt frá því að kristnir einstaklingar væru ofsóttir í Nígeríu. M greindi frá því að foreldrar hans væru látnir og hann gæti því engan stuðning fengið frá fjölskyldu sinni. K greindi frá því að móðir hennar væri einnig í hættu í Nígeríu þar sem hún sé jafnframt kristin. K greindi einnig frá því að óttast almennar aðstæður í Nígeríu en mikið sé um glæpi, hryðjuverk og mannrán í landinu.

Í hinum kærðu ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að ekki sé tilefni til að draga í efa að kærendur aðhyllist kristna trú. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa framangreint mat Útlendingastofnunar varðandi trú kærenda og verður því lagt til grundvallar í málinu að kærendur aðhyllist kristna trú.

Líkt og áður hefur komið fram er talið að um helmingur íbúa Nígeríu séu kristnir og hinn helmingurinn séu múslimar. Í skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar um trúfrelsi fyrir árið 2019 kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Þrátt fyrir að meirihluti íbúa Kaduna fylkis séu múslimar er stór hluti íbúa kristinn, þannig eru múslimar í meirihluta í norður Kaduna en kristnir í meirihluta í suðurhluta ríkisins. Heimabær K, [...] er sunnarlega í Kaduna fylki og þar er að finna fjölda kirkna og heimildir benda til þess að íbúar séu að stórum hluta kristnir. Í framangreindri skýrslu kemur einnig fram að átök hafi verið viðvarandi árið 2019 milli Fulani Herdsmen og bænda, sem einkum séu kristnir, í Norður og Mið-Nígeríu, þ. á m. syðst í Kaduna fylki. Þrátt fyrir að meginástæða átakanna sé baráttu um landsvæði og auðlindir hafi frjáls félagasamtök lýst yfir áhyggjum af auknum trúarlegum undirtón þeirra. Innlend og alþjóðleg frjáls félagasamtök og trúarsamtök hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að beita sér ekki harðar til að koma í veg fyrir eða draga úr ofbeldi milli kristinna og múslimskra samfélaga. Dregið hafi þó úr átökunum frá árunum 2017 og 2018 vegna inngrips stjórnvalda sem hafi aukið öryggisaðgerðir í tilteknum fylkjum og vegna viðleitni íbúanna til að leysa deilurnar. M greindi frá því í viðtali við Útlendingastofnun þann 16. júní 2020 að hafa aldrei upplifað ofsóknir, mismunun eða ofbeldi vegna trúar sinnar fyrr en eftir að hann hafi gifst K og þá eingöngu af hálfu frænda hennar og manna á hans vegum. Þá hefur K ekki greint frá ofsóknum vegna trúar sinnar í heimaríki að undanskildu aðkasti af hálfu frænda hennar. Samkvæmt framangreindum heimildum, m.a. skýrslu Immigration and Refugee Board of Canada frá árinu 2012, eru múslimar sem taka upp kristna trú oft litnir hornauga í Nígeríu og missa í kjölfarið vernd ættbálks síns. Kærunefnd telur ekki hægt að útiloka að K hafi orðið fyrir einhverju aðkasti vegna trúar sinnar í heimaríki. Þrátt fyrir það er það mat kærunefndar, með tilliti til framangreindra gagna, að af frásögn hennar megi þó ekki ráða að það áreiti hafi náð því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu nígerískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu. Kærendur hafa haldið því fram að óttast ofsóknir af hálfu frænda K vegna hjónabands þeirra en hann hafi viljað að K giftist múslimskum manni. Við meðferð málsins hafa kærendur ekki lagt fram gögn sem styðja við frásögn sína hvað varðar frænda K og meint ofbeldi af hans hálfu gangvart M eða gögn sem sýna fram á tilvist hans, t.d. myndir. Þá gátu kærendur ekki greint frá nafni frændans en sögðu hann oft kallaðan [...]. Frásögn kærenda fær þó vissa stoð í þeim landaupplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér, s.s. skýrslu Immigration and Refugee Board of Canada frá árinu 2012. Skýrslan ber með sér að í Nígeríu sé algengt að einstaklingar gangi í hjónabönd þvert á trúarbrögð. Það fari þó eftir ættbálkum hvernig horft sé á slíkt og innan Hausa/Fulani ættbálksins sé reynt að koma í veg fyrir að múslimskar konur giftist kristnum mönnum. K greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 29. ágúst 2019 að faðir hennar hafi verið múslimi en móðir hennar kristin. Faðir hennar hafi svo veikst og látist, móðir hennar hafi ekki getað séð um þau öll systkinin og hún hafi því endað á að fara til Marokkó. K greindi hins vegar frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. júní 2020 að faðir hennar hafi skipt yfir í kristna trú og í kjölfarið verið drepinn. Frændi hennar hafi þá tekið við fjölskyldunni, viljað gifta hana eldri múslimskum manni og hún hafi því flúið land. Kærunefnd telur framangreint ósamræmi í frásögn kæranda varðandi ástæður flótta hennar frá heimaríki draga úr trúverðugleika hennar. Þá hafi K líkt og áður hefur komið fram greint frá því að hafa í þrígang farið til Nígeríu eftir að hún flúði land árið 2005 og eftir að hún tók upp kristna trú árið 2009, síðast árið 2018 eftir að kærendur gengu í hjónaband. Er það mat kærunefndar að endurteknar ferðir K til heimaríkis bendi til þess að K hafi ekki ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum í heimaríki sínu. Kærunefnd telur ekki unnt að útiloka að kærendur hafi orðið fyrir einhverju mótlæti í heimaríki sínu en þau hafi þó ekki leitt nægjanlegar líkur að því að þau eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sem rekja megi til trúar eða hjónabands þeirra.

Kærendur kváðust ekki hafa leitað aðstoðar lögreglu í heimaríki vegna þeirra ofsókna sem þau kveðast hafa orðið fyrir af hálfu frænda K. Telji þau það ómögulegt því lögreglan sinni ekki málum sem þessum. Fyrst þurfi að leita til konungsins í Kaduna sem leiti leiða til að semja um málið. Það þurfi þó að greiða konunginum og því séu eingöngu þeir ríku sem geti nýtt sér það. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat nefndarinnar að kærendur, líkt og aðrir ríkisborgarar Nígeríu sem telja á réttindum sínum brotið, geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið úrlausn mála sinna. Þá bera gögn um heimaríki kærenda með sér að til staðar sé kerfi sem kærendur geti leitað til telji þau að lögregla bregðist ekki rétt við leiti þau til hennar eða telji þau sig hafa verið beitt órétti af lögreglu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á að stjórnvöld í Nígeríu geti ekki eða vilji ekki veita þeim vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 2. og 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafa því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi ef þau telja sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í ljósi ungs aldurs barnanna taldi Útlendingastofnun ekki tækt að taka þau í viðtal. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þess. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna nægilega komið á framfæri með framburði kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur að teknu tilliti til ákvæða í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlögum nr. 80/2002, að engin rök standi í vegi fyrir því að börn kæranda fylgi foreldrum sínum aftur til heimaríkis þeirra eða þangað sem þau hafi gilt dvalarleyfi. Kærunefnd horfir m.a. til þess að börnin eru í fylgd móður sinnar og föður sem eru að mestu heilsuhraust og vinnufær og njóta stuðnings þeirra. Þá bendi gögn ekki til annars en að fjölskyldan geti búið saman í heimaríki þeirra eða á Ítalíu þar sem kærandi K hafi dvalarleyfi. Líkt og áður greinir stendur börnum kærenda til boða gjaldfrjáls grunnskólamenntun í heimaríki þeirra. Þá bera gögn með sér að börn kærenda muni jafnframt hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki. Þá er það mat kærunefndar að aðstæður barna kærenda, þ.e. að hafa ekki komið til Nígeríu, komi einar og sér ekki í veg fyrir að þau fylgi foreldrum sínum til heimaríkis. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnanna, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau og börn þeirra hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Kærendur byggja á því að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til þeirrar hættu sem þau séu í af hálfu fjölskyldu K og með vísan til almennra aðstæðna í heimaríki þeirra. Þá skuli sérstaklega taka mið af viðkvæmum aðstæðum K sem konu.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara þegar metið er hvort að kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda hverju sinni að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þrátt fyrir að síðustu ár hafi átök átt sér stað í heimfylki K, Kaduna, einkum á milli Fulani Herdsman og bænda sem að einkum séu kristnir, er það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í fylkinu séu slíkar að kærendur eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að kærendur eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Nígeríu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geti leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Með reglugerð nr. 122/2020 var tímaviðmið ákvæðisins stytt úr 18 mánuðum í 16 mánuði ef um er að ræða umsókn barns.

Kærendur og börn þeirra sóttu um alþjóðlega vernd þann 26. ágúst 2019. Kærendur og börn þeirra hafa ekki enn fengið niðurstöðu í málum sínum hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að A og B sóttu fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, þann 11. febrúar 2021, eru liðnir rúmir 17 mánuðir. A og B teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í málum sínum innan þeirra tímamarka sem getið er um í 32. gr. d reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020. Er því heimilt að veita A og B dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Nefndin hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að 4. mgr. 74. gr. heimili ekki undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. Nefndin telur þó engu að síður rétt að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Með vísan til aldurs og þroska A og B er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft að ætla að þeir hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin sé skýrsla af þeim. Nefndin telur því með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir því að A og B sé veitt dvalarleyfi á grundvelli málsgreinarinnar.

Er það mat nefndarinnar að A og B uppfylli skilyrði a- til d-liða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 3. mgr. 74. gr. laganna eigi við. Með vísan til framangreinds verður A og B veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verða kærendum og C einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu, er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki þörf á að fjalla um kröfur kærenda skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellants and their children based on paragraph 2 of Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children’s related to their applications for international protection are affirmed.

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                                              Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta