Mál nr. 186/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 186/2016
Miðvikudaginn 29. mars 2017
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 23. maí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. apríl 2016 á umsókn eiginkonu hans um meðlag til bráðabirgða.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 24. febrúar 2016, sótti eiginkona kæranda um meðlag með barni sínu til Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 1. apríl 2016, tilkynnti Tryggingastofnun eiginkonu kæranda að stofnunin hefði samþykkt að greiða bráðabirgðameðlag með barni hennar á grundvelli staðfestingar sýslumanns um meðlag til bráðabirgða á hendur Tryggingastofnun frá 1. mars 2016 til 1. september 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. apríl 2016, var fyrri ákvörðun breytt á þá leið að eiginkona kæranda fékk barnalífeyri með ófeðruðu barni sínu frá sama tíma til 18 ára aldurs barnsins.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. maí 2016. Með bréfi, dags. 24. maí 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 7. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júní 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Við meðferð málsins kom í ljós að kærandi var ekki með umboð frá eiginkonu sinni til að kæra framangreinda ákvörðun en kærunni hafði verið skilað rafrænt með hans rafrænu skilríkjum og ekkert umboð var meðfylgjandi. Óskað var eftir umboði með tölvubréfum 14. desember 2016, 3. janúar 2017, 13. janúar 2017 og 2. febrúar 2017. Þá var kærandi upplýstur um það í tölvubréfi 2. mars 2017 að yrði hann ekki við beiðni nefndarinnar um að leggja fram umbeðið umboð kynni það að leiða til þess að úrskurðað yrði kæranda í óhag. Ekkert umboð barst frá kæranda.
II. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. apríl 2016, þar sem umsókn eiginkonu kæranda um meðlag var afgreidd þannig að samþykktur var barnalífeyrir með ófeðruðu barni hennar frá 1. mars 2016.
Við meðferð kærumálsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála kom í ljós að kæranda skorti umboð til að kæra fyrir hönd eiginkonu sinnar. Þegar þessi annmarki kom í ljós höfðu kærandi og eiginkona hans flutt af landi brott og ekki lágu fyrir upplýsingar um heimilisfang þeirra. Ítrekað hafi verið reynt að hafa samband við bæði kæranda og eiginkonu hans, símleiðis og með tölvupósti, en án árangurs. Verður því að líta svo á að kæran stafi frá kæranda sjálfum en ekki fyrir hönd eiginkonu hans.
Um kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er meðal annars fjallað í 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæði 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna hljóðar svo:
„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.
Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.“
Í 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að stjórnsýslukæra skuli berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.
Þá er fjallað um almenna kæruheimild til æðra settra stjórnvalda í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæðið hljóðar svo:
„Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.
Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af framangreindu megi ráða að einungis aðili máls geti kært þær ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins sem greint er frá í 1. mgr. 13. gr. almannatryggingalaga. Hugtakið aðili máls er ekki skilgreint í stjórnsýslulögunum en litið hefur verið svo á að notkun hugtaksins í lögunum sé byggð á hinni almennu skilgreiningu stjórnsýsluréttarins. Samkæmt henni er almennt gerð krafa um að viðkomandi einstaklingur eða lögaðili eigi einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Við mat á því hvort svo sé þarf að leggja mat á hagsmuni viðkomandi og hvort sá hinn sami á beina, sérstaka verulega eða lögvarða hagsmuni við úrlausn þess. Sá sem ákvörðun beinist að er almennt aðili máls og í þessu tilviki er það eiginkona kæranda. Hún á lögum samkvæmt rétt á að fá úr því skorið hvort hún uppfylli skilyrði til þess að fá greitt meðlag vegna barns hennar. Eðli máls samkvæmt er kærandi ekki aðili málsins, enda beindist hin kærða ákvörðun ekki að honum.
Í samræmi við framangreint og með hliðsjón af málsatvikum telur úrskurðarnefnd velferðarmála óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá á grundvelli aðildarskorts kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Stjórnsýslukæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðamála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir