Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 438/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 438/2016

Miðvikudaginn 29. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. nóvember 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. nóvember 2016 um greiðslu uppbótar vegna kaupa á bifreið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 4. október 2016, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. október 2016, var samþykkt uppbót að fjárhæð 360.000 kr. vegna kaupa á bifreið og fram kom að uppbótin yrði greidd á tilteknu tímabili að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fram kom meðal annars að hafi bifreið verið keypt allt að tveimur árum áður en umsókn hafi verið lögð fram geti verið réttur á greiðslu uppbótar vegna þeirrar bifreiðar. Þann 2. nóvember 2016 sendi kærandi Tryggingastofnun skráningarskírteini bifreiðar sem kærandi hafði keypt á árinu 2013. Óskaði kærandi að tekið væri tillit til sérstakra aðstæðna í hans máli við afgreiðslu erindis hans þar sem hann keypti umrædda bifreið fyrir meira en tveimur árum. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 4. nóvember 2016, með þeim rökum að meira en tvö ár voru liðin frá kaupsamningi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 7. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. desember 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði breytt á þann veg að hann fái afgreidda uppbót til bifreiðakaupa.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki vitað af mögulegum rétti sínum á uppbót til bifreiðakaupa. Hann hafi fyrst komist að möguleikanum á þessum rétti þegar hann hafi spurst fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins um málið þar sem bíllinn hans hafi þarfnast viðhalds sem hann hafi átt erfitt með að fjármagna. Það hafi legið fyrir vottorð frá lækni hjá Tryggingastofnun sem hafi svo samþykkt umsókn hans um uppbót til að kaupa bifreið. Bifreið sé nauðsynleg fyrir hann þar sem hann þurfi að mæta á tveggja til þriggja vikna fresti í blóðprufur og þá sé einnig dágóður spölur frá honum í næstu matvörubúð. Þá segir í kæru að kærandi geti látið gera við bílinn sinn og því sæki hann um þessa uppbót til þess, en Tryggingastofnun hafi hafnað afgreiðslu uppbótarinnar á þeim forsendum að það hafi liðið meira en tvö ár frá því að kaupsamningur hafi verið gerður. Kærandi telur að hann eigi rétt á að ráðstafa þessum styrk til þess að gera við bílinn í stað þess að vera neyddur til að kaupa annan bíl.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á afgreiðslu á uppbót vegna bifreiðakaupa.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Heimildin til að greiða uppbót vegna kaupa bifreiðar sé svo nánar útfærð í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Í 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í 4. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst.

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa með umsókn. dags. 4. október 2016. Með bréfi, dags. 12. október 2016, hafi umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa verið samþykkt. Í bréfinu hafi meðal annars komið fram að kærandi hefði tólf mánuði til að kaupa bifreið eftir úrskurð réttinda. Einnig hafi komið fram að ef kærandi hefði keypt bifreið allt að tveimur árum áður en umsókn hafi verið lögð fram gæti verið að kærandi ætti rétt vegna þeirrar bifreiðar.

Þann 2. nóvember 2016 hafi Tryggingastofnun borist yfirlýsing vegna bifreiðakaupa á bifreið X, ásamt fleiri gögnum og bréf kæranda. Samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum frá Samgöngustofu hafi kærandi keypt bifreiðina X þann 25. febrúar 2013. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. nóvember 2016, hafi kæranda verið synjað um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa þar sem meira en tvö ár hafi liðið frá kaupum bifreiðar.

Réttindi og skilyrði greiðslna uppbótar vegna kaupa á bifreið séu bundin lögum og lagatúlkun. Í 52. gr. og 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar komi fram að sækja þurfi um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við þeirri kröfu kæranda um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa sem áttu sér stað fyrir meira en tveimur árum síðan.

Oft hafi reynt á þetta ákvæði fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga, forvera núverandi nefndar, og hafi þessi regla ítrekað verið staðfest. Þar megi nefna sem dæmi úrskurði nr. 167/2004 og 255/2004. Einnig megi minnast á úrskurð nr. 261/2008 sem hafi varðað ferðakostnað vegna tannlækninga en þar hafi úrskurðarnefnd tekið fram að hún væri bundin af fortakslausu ákvæði þáverandi 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar en það hafi verið samhljóða núverandi 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Á þetta ákvæði hafi líka reynt hjá núverandi úrskurðarnefnd en benda megi á úrskurði nr. 286/2015, 312/2015 og 360/2015. Í öllum þessum málum hafi niðurstaða Tryggingastofnunar verið staðfest.

Þá sé sérstaklega vakin athygli á því að það hafi komið skýrt fram hjá kæranda að hann hafi óskað eftir uppbót til bifreiðakaupa til þess að gera við bifreið sem hann eigi nú þegar og hafi keypt fyrir meira en tveimur árum síðan. Eðli málsins samkvæmt sé uppbót til kaupa á bifreið ætlað að mæta kostnaði við kaup á bifreið en ekki viðgerðarkostnaði.

Viðgerðarkostnaður sé hluti af rekstrarkostnaði bifreiðar og Tryggingastofnun veiti sérstaka uppbót til reksturs bifreiðar samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi njóti nú þegar greiðslu þessarar uppbótar.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. nóvember 2016, um að synja kæranda um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa á þeim grundvelli að meira en tvö ár liðu frá því að bifreiðin var keypt þar til hann sótti um uppbót til bifreiðakaupa.

Í 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum, er þessi heimild útfærð nánar.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Af framangreindu ákvæði 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni. Kærandi sótti um uppbót vegna bifreiðakaupa þann 4. október 2016, en hann hafði keypt umrædda bifreið í X 2013. Þar sem umrædd kaup fóru fram meira en tveimur áður en kærandi sótti um uppbót vegna bifreiðakaupa var Tryggingastofnun ríkisins ekki heimilt að greiða honum uppbót vegna kaupanna.

Kærandi byggir á því að ekki sé eðlilegt að einskorða uppbót vegna bifreiðakaupa við kaup ein og sér heldur sé hægt að útfæra ákvæðið yfir á viðgerðarkostnað bifreiðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af orðalagi 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæðið eigi eingöngu við um kaup á bifreið þar sem uppbæturnar eru veittar „vegna kaupa á bifreið“ eins fram kemur í ákvæðinu.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta