Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 313/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 313/2023

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2023 þar sem umsókn hennar um barnalífeyri var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 21. mars 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 2. maí 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki náð þriggja ára búsetu á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. júní 2023. Með bréfi, dags. 23. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. júlí 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru fer kærandi fram á undanþágu frá þriggja ára búsetureglunni, varðandi að eiga rétt á barnalífeyri. Kærandi hafi flutt til Íslands í september 2022 og hafi eignast dóttur […] 2023. Ekki sé hægt að feðra dótturina og því hafi kærandi sótt um barnalífeyri. Kærandi hafi lýst yfir faðernisleysi hjá sýslumanni og þá fái hún ekki greiddar barnabætur fyrr en á næsta ári. Frá því í september hafi kærandi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá B og hafi afar litlar tekjur, fjárhagsaðstoð fyrir skatt sé rúmlega 217.000 kr. og gert sé ráð fyrir að meðlag/barnalífeyrir nái yfir útgjöld sem tengist börnum. Kærandi fái ekki þessar greiðslur og því hafi hún mjög lítið milli handanna fyrir dóttur sína. B muni ekki styrkja kæranda um það sem nemi barnalífeyri. Kærandi sé með félagsráðgjafa […], þar sem hún taki þátt í virkniúrræðinu […]. Kærandi eigi mjög lítið stuðningsnet hérlendis. Dóttir hennar eigi rétt á þessum fjárhagslega stuðningi og hún geti ekki beðið í tvö og hálft ár eftir því að fá hann. Kærandi sé íslenskur ríkisborgari, hún sé með tvöfaldan ríkisborgararétt. Þar sem kærandi hafi eignast dóttur sína áður en hún hafi verið sjúkratryggð hérlendis sé hún með stóra skuld við Landspítalann vegna meðgöngu og fæðingar.

Þess sé óskað að vel verði tekið í þessa kröfu og að mæðgurnar fái undanþágu á búsetureglunni, þær þarfnist þess.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram kærð sé ákvörðun, dags. 2. maí 2023, um að synja umsókn um barnalífeyri þar sem skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi hafi ekki verið uppfyllt.

Barnalífeyrir greiðist samkvæmt 40. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, hann sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.

Í 4. mgr. 40. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun skuli greiða barnalífeyri þegar skilríki liggi fyrir um að barn verði ekki feðrað eða móður njóti ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri með umsókn 21. mars 2023 þar sem fram komi að ástæða umsóknar sé að barn sé ófeðrað. Með bréfi, dags. 2. maí 2023, hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um barnalífeyri þar sem komi fram að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið, lífeyrisþegi eða barn fáist ekki feðrað. Enn fremur ef foreldri sæti refsivist en skilyrði sé að annað hvort foreldri eða barnið sjálft hafi búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram.

Einnig komi fram í bréfinu að barnalífeyrir greiðist til foreldris barns eða öðrum þeim sem annist framfærslu barnsins að fullu. Skilyrði fyrir greiðslu til foreldris sé að barn teljist á framfæri þess. Einnig sé heimilt að skuldajafna greiðslu barnalífeyris á móti meðlagi ef foreldri sé meðlagsskylt.

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá uppfylli kærandi ekki það skilyrði að hafa verið búsett hér á landi síðustu þrjú árin áður en umsókn hafi verið lögð fram. Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands hafi kærandi flutt hingað til lands 12. september 2022 frá C. Kærandi muni þar af leiðandi ekki uppfylla þriggja ára búsetuskilyrði hér á landi fyrr en 12. september 2025.

Þar sem þriggja ára búsetuskilyrði laga um almannatryggingar vegna barnalífeyris hafi ekki verið uppfyllt hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um barnalífeyri. Engar undanþágur sé að finna í lögum eða reglugerðum frá þessum búsetuskilyrðum laga um almannatryggingar og ekki heldur séu til staðar tvíhliða samningar á milli Íslands og C varðandi almannatryggingar.

Varðandi skuld vegna sjúkratrygginga hér á landi áður en kærandi hafi orðið sjúkratryggð hér á landi bendi Tryggingastofnun á að þau mál heyri undir Sjúkratryggingar Íslands.

Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort umsækjandi eigi rétt á barnalífeyri samkvæmt 40. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands uppfylli kærandi ekki skilyrði sem sett séu fram í framangreindri lagagrein um að hafa verið búsettur hér á landi þrjú síðustu árin áður en sótt hafi verið um barnalífeyri. Engar undanþágur séu frá þessum búsetuskilyrðum sem sett séu fram í 40. gr. laga um almanntryggingar.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun að synjun á umsókn um barnalífeyri, þar sem skilyrðum um þriggja ára búsetu hér á landi hafi ekki verið uppfyllt, hafi verið rétt ákvarðað og í samræmi við lög um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2023 um að synja kæranda um barnalífeyri með dóttur sinni þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um búsetu á Íslandi í þrjú ár.

Um barnalífeyri er fjallað í 40. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldara sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Þá er kveðið á um það í 4. mgr. sömu greinar að heimilt sé að greiða barnalífeyri þegar skilríki liggi fyrir um að barn verði ekki feðrað.

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris að annað hvort foreldra eða barnið sjálft hafi búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Samkvæmt breytingaskrá þjóðskrár flutti kærandi til Íslands frá C 12. september 2022. Samkvæmt gögnum málsins fæddist dóttir kæranda hér á landi […] 2023. Ljóst er að hvorki kærandi né dóttir hennar uppfylltu búsetuskilyrði 1. mgr. 40. gr. laga um almannatryggingar þar sem hvorki voru liðin þrjú ár frá flutningi kæranda til landsins né fæðingu dóttur hennar þegar umsókn um barnalífeyri barst Tryggingastofnun 21. mars 2023. Kærandi uppfyllti því ekki á þeim tíma skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris með dóttur sinni. Bent er á að ríkisborgararéttur kæranda hefur engin áhrif á þá niðurstöðu og engin heimild er til þess að víkja frá framangreindu búsetuskilyrði í tilviki kæranda.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2023, um að synja umsókn kæranda um barnalífeyri með barni hennar, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um barnalífeyri með barni hennar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta