Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 39/2011

Miðvikudaginn 10. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 39/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dagsettri 6. maí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dagsettri 6. maí 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar. Hún óskaði frystingar á einu láni af þremur. Kærandi er einstæð móðir með barn á menntaskólaaldri. Hún rekur heimili og bíl og kveðst hafa til ráðstöfunar 220.000 kr. á mánuði.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 12. maí 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 26. maí 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 30. maí 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá henni.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að ráðstöfunartekjur hennar hafi lækkað úr 220.000 kr. á mánuði í 205.000 kr. eftir að meðlagsgreiðslur vegna dóttur hennar sem er orðin 18 ára féllu niður. Kærandi kveðst vera einstæð móðir og eru mánaðarlegar tekjur hennar lágar. Hún fái ekki frystingu lána þótt hún hafi aflað sér greiðslumats samtals að fjárhæð 117.000 kr. þar sem það falli ekki undir reglur Íbúðalánasjóðs. Hún  óskar eftir frystingu á hærra láninu hjá Íbúðalánasjóði, en hún ætli að halda áfram að greiða af hinum tveimur lánunum. 

 

IV. Sjónarmið kærða

Kærði kveðst ekki geta orðið við beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð, sbr. 4. tölulið 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Lausn finnist ekki í umsókninni, greiðslubyrði sé umfram greiðslugetu eftir að tekið hefur verið tillit til frystingar lána. Enn fremur séu engar ástæður uppgefnar í umsókninni. Fram kemur að staðan versni ef tekjur lækki frá viðmiði.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu vegna erfiðleika hennar við að greiða af lánum sínum. Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Íslandsbanka yrði greiðslubyrði kæranda umfram greiðslugetu hennar og uppfyllir hún því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun því staðfest.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 6. maí 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kæru A, um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta