Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2011

Miðvikudaginn 19. október 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 40/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 21. mars 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2011 um fjárhagsaðstoð.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti þann 2. febrúar 2011 um framfærslu frá nóvember 2010. Með bréfi þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, dags. 4. mars 2011, var honum synjað um framfærslu fyrir 1. janúar til 31. janúar 2011. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs, með bréfi dags. 16. febrúar 2011. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs synjaði kæranda um fjárhagsaðstoð með bókun á fundi sínum 5. apríl 2011 með vísan til þess að einstaklingur sem stundar nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar.

Kærandi hefur einnig sótt um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg á grundvelli 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Velferðarráð Reykjavíkurborgar tók þá umsókn kæranda fyrir á fundi sínum þann 28. júní 2011. Þeirri ákvörðun velferðarráðs hefur ekki verið skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og verður ekki frekar um það fjallað í máli þessu.

Kærandi er fráskilinn faðir þriggja uppkominna barna. Samkvæmt gögnum málsins var hann á þeim tíma sem hér um ræðir við nám í Háskóla Íslands, þar sem hann nam 10 einingar í lögfræði. Þar sem hann var einungis skráður í 10 eininga nám fékk hann greiddar 67% atvinnuleysisbætur eða u.þ.b. 100.000 kr. á mánuði.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi bendir á að í greinargerð lögfræðings velferðarráðs Reykjavíkurborgar séu rangfærslur þar sem því sé haldið fram að hann sé í lánshæfu námi í lögfræði við Háskóla Íslands og eigi þar með rétt á námslánum sem hann nýti sér ekki. Þetta sé rangt. Hann hafi hins vegar verið í námi í lögfræði við Háskóla Íslands og almennt sé nám á háskólastigi námslánahæft. En umræddu námi sem hann hafi verið í sé alfarið lokið, þar sem hann hafi ekki getað stundað námið sem skyldi og þar með hafi hann glatað möguleika sínum til þess að ljúka náminu sem megi rekja að stórum hluta til þeirrar stöðu sem atvinnuleysið hafi skapað honum. Þá vísi lögfræðingur velferðarráðs einnig til 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem segi að sveitarfélög sjálf ráði málefnum sínum. Það ákvæði eitt og sér undanskilji ekki sveitarfélögin undan svokallaðri lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og þeim skýlausa rétti sem allir íslenskir ríkisborgarar hafi til aðstoða, ef svo beri undir. Að mati kæranda eru þessi ummæli alveg vita marklaus og einungis til þess fallin að þvæla málið og þurfi þess vegna ekki að hafa fleiri orð um þau rök fyrir synjuninni.

Kærandi bendir á að kæra hans sé tilkomin vegna þess að hann vilji meina að reglur Reykjavíkurborgar standist ekki þær kröfur sem 76. gr. stjórnarskrárinnar leggi á herðar sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar í þessu tilviki. Þar af leiðandi hafi honum verið mismunað á forsendu óljósra verklagsreglna og þar með hafi það skert stjórnarskrárvarinn rétt hans til fjárhagsaðstoðar, sérstaklega í ljósi þess að hann telji sig uppfylla öll lagaleg skilyrði þess að njóta þeirrar aðstoðar, eins og lesa megi í gögnum málsins.

 

III. Sjónarmið velferðarráðs.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2011 og voru samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010.

Í 15. gr. reglnanna segi að einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Áfrýjun kæranda hafi varðað fjárhagsaðstoð til framfærslu í janúar 2011 og uppbót á atvinnuleysisbætur í febrúar 2011. Nám kæranda í lögfræði við Háskóla Íslands hafi verið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skýrt sé kveðið á um það í 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð að þeir einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Fyrir liggi að nám það sem kærandi stundi sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og verði því að líta svo á að það girði fyrir rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Í þessu samhengi sé litið til þess hvort Lánasjóður íslenskra námsmanna telji skilyrði uppfyllt til þess að námslán séu veitt.

Kærandi stundi nám í tveimur áföngum við Háskóla Íslands ásamt því að vera með 67% bótarétt hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sé atvinnuleitanda heimilt, samkvæmt verklagsreglum Vinnumálastofnunar, að vera í allt að 10 einingum í háskólanámi án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Þann 1. febrúar 2011 hafi kærandi fengið greiddar 56.624 kr. í atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. til 19. janúar 2011. Fram hafi farið könnun á aðstæðum kæranda og faglegt mat.

Fram kemur af hálfu velferðarráðs að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi til framfærslu einstaklinga sé tímabundin neyðaraðstoð enda sé hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé ekki ætlað það hlutverk að taka við þar sem Lánasjóði íslenskra námsmanna sleppi og veita fjárhagsaðstoð í þeim tilfellum þar sem skilyrði fyrir veitingu námslána séu ekki uppfyllt. Það sé ljóst að umrætt nám kæranda teljist lánshæft nám samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ef kærandi væri í fullu námi væri honum unnt að sækja um námslán fyrir umrætt nám. Það að kærandi sé einungis í 10 einingum sé hans val og til þess fallið að kærandi haldi bótarétti sínum hjá Vinnumálastofnun enda skuli kæranda vera til reiðu fyrir vinnumarkaðinn bjóðist honum starf.

Velferðarráð taldi ekki unnt að veita kæranda fjárhagsaðstoð til framfærslu, sbr. 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Velferðarráði beri að fara að þeim reglum sem í gildi séu varðandi fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg auk þess sem gæta beri þess að jafnræðis sé gætt í afgreiðslum á erindum íbúa borgarinnar.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir janúarmánuð 2011.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Þótt sveitarfélögum sé með lögum nr. 40/1991 veitt ákveðið svigrúm til að meta sjálft miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita, verður slíkt að byggjast á lögmætum sjónarmiðum og vera samræmi við lög að öðru leyti. Meðal annars kemur fram sú meginregla í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð, og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Skal aðstoð og þjónusta jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklinga og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

Reykjavíkurborg hefur sett sér sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð. Í 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eiga ekki rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu nema fullnægt sé skilyrðum 18. gr. um námsstyrki/lán vegna náms. Í 3. gr. reglugerðar um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 602/1997, kemur fram að námsmenn í grunnháskólanámi eða sérnámi eigi rétt á almennum námslánum í samtals fimm ár að hámarki, en lánshæft nám er skilgreint nánar í I. kafla úthlutunarreglna Lánasjóðsins. Í málinu hefur komið fram að kærandi stundaði 10 eininga nám í lögfræði við Háskóla Íslands á vorönn 2011 en það skapaði honum jafnframt rétt til greiðslu 67% atvinnuleysisbóta. Í málinu hefur jafnframt komið fram að kærandi þáði 67% atvinnuleysisbætur þann tíma sem kæra hans lýtur að. Hins vegar hefur kærandi jafnframt upplýst að hann stundi ekki lengur það framangreint nám þar sem hann hafi þurft að hætta því, meðal annars vegna þeirrar stöðu sem atvinnuleysi hans hafi valdið honum. Í 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, sem fjallar um námsmenn, kemur fram að einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sínum áður fjallað um framangreinda reglu. Af hálfu nefndarinnar hefur verið á því byggt að kærði geti ekki almennt með vísan til 15. gr. reglnanna komið sér undan mati á aðstæðum kæranda og því hvort hann eigi rétt til félagslegrar aðstoðar eða ekki. Slík almenn tilvísun megi ekki útiloka kæranda fyrirfram frá fjárhagsaðstoð, meðal annars að teknu tilliti til 12. gr. laga nr. 40/1991. Hér háttar þó svo til að kærandi hefur notið 67% atvinnuleysisbóta þann tíma sem kæra hans lýtur að, auk þess sem ekkert er komið fram um annað en að honum hefði verið unnt að sækja um lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna þess náms sem kærandi lagði stund á.

Af gögnum málsins má ráða að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar er byggð á fyrrgreindum reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við þær reglur og að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt. Er því fallist á hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 5. apríl 2011, í máli A, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta