Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 44/2011

Miðvikudaginn 14. september 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 44/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 19. maí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 12. maí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

A og B kærðu synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 24. maí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 16.800.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 18.900.000 kr. Áhvílandi á íbúðinni voru 18.515.962 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. maí 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 31. maí 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. júní 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra synjun Íbúðalánasjóðs um endurútreikning íbúðalána vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. maí 2011, gera kærendur kröfu um að einnig verði tekið tillit til láns þeirra hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna við endurútreikning á lánum þeirra hjá Íbúðalánasjóði. Kærendur vísa til þess sem fram kemur á svæði þeirra á vef ríkisskattstjóra þann 3. maí 2011, en þar komi fram að heildarskuld kærenda vegna íbúðarkaupa séu 23.614.038 kr. Að auki hafa kærendur lagt fram greiðsluseðil vegna afborgunar láns hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, þar sem fram kemur að greiðandi er A, annar kærenda. Hafa kærendur talið fram umrætt lán til skatts sem lán vegna fasteignakaupa.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að eingöngu sé tekið tillit til lána sem séu áhvílandi á íbúð umsækjenda við endurútreikning íbúðarlána hjá sjóðnum. Bendir Íbúðalánasjóður að af afriti skuldabréfsins, sem sé meðal framlagðra gagna, hvíli umrætt lán kærenda hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna á annarri fasteign og að skráður skuldari sé ekki annar kærenda. Álit Íbúðalánasjóðs byggir á túlkun á 1. gr. laga nr. 29/2011 til breytinga á lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál sem og á samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði frá 15. janúar 2011. Íbúðalánasjóður vísar til lánaákvörðunar sjóðsins í máli kærenda, en samkvæmt þeim útreikningi er hlutfall áhvílandi lána af verðmati eignarinnar um 98%.

 

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærendur fara fram á endurskoðun á máli sínu. Í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skuli miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Við ákvörðun kærða var miðað við markaðsverð fasteignarinnar og það hækkað til samræmis við 110% regluna. Námu áhvílandi lán kærenda með því um 98% af verðmæti fasteignarinnar samkvæmt framansögðu.

Kærendur hafa hins vegar fært fram þau rök að við endurútreikning lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði eigi einnig að taka tillit til láns hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Hafa kærendur meðal annars lagt fram afrit skattframtala þar sem þau telja fram umrætt lán sem lán vegna íbúðarkaupa, auk þess sem fram hefur verið lagt afrit greiðsluseðils þar sem annar kærenda er sagður skuldari og bankareikningur hans skuldfærður fyrir afborgun lánsins. Hins vegar hefur kærði vísað til þess að samkvæmt afriti umrædds skuldabréfs hafi önnur íbúð verið veðsett fyrir umræddu láni, auk þess sem skuldari þess er samkvæmt skilmálum þess ekki annar kærenda.

Í lið 1.1 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að heimild til niðurfærslu taki eingöngu til áhvílandi veðskulda. Í lið 1.2 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, kemur fram að skuldir sem færa megi niður samkvæmt reglunum séu þær skuldir sem stofnað hafi verið til vegna fasteignakaupa umsækjanda fyrir árið 2009. Þá kemur fram í lið 1.2 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, að skuldir þær sem færa má niður samkvæmt reglunum séu skuldir sem hvíli með veði á eign sem ætluð er til heimilishalds lántaka.

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Við framkvæmd endurútreiknings lána hefur kærði fylgt framangreindu samkomulagi frá 15. janúar 2011, um að við ákvörðun um niðurfærslu sé einungis tekið tillit til þeirra lána sem hvíla á fasteign umsækjanda, en ekki annarra skulda umsækjanda. Þá einskorðast heimild Íbúðalánasjóðs við 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 við þær veðkröfur sem eru umfram 110% af verðmæti fasteignar í eigu lántaka eða maka hans. Samkvæmt veðbókarvottorði dags. 9. mars 2011, kemur fram að áhvílandi skuldir á eign kærenda eru á 1.–2. veðrétti fasteignarinnar, en þar er ekki getið framangreinds láns frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 og 1. gr. 1.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kærenda, dags. 15. apríl 2011, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og að kærendur hafi fjögurra vikna frest til þess að kæra. Kærufrestur er þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjun á endurútreikningi á lánum A og B, áhvílandi á íbúðinni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta