Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2011

Miðvikudaginn 10. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 45/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Garðabæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 10. maí 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskylduráðs Garðabæjar frá 31. mars 2011 um fjárhagsaðstoð frá og með 1. október 2010.

Kærandi krefst þess að ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar verði endurskoðuð og henni breytt.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð þann 7. mars 2011 og miðaði umsóknina við tímabilið frá 1. október 2010, þar sem hún hefði verið tekjulaus frá þeim tíma þegar hún féll af atvinnuleysisskrá. Á afgreiðslufundi Fjölskyldusviðs Garðabæjar, 11. mars 2011, var beiðni kæranda um fjárhagsaðstoð synjað, þar sem ekki var talið að í reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð væru almennar heimildir til þess að framfæra fólk í námi. Auk þess væri litið svo á að framfærsluskylda sveitarfélags væri háð því að dvalarstaður umsækjanda væri á landinu og þurfi viðkomandi aðstoðina sér til framfærslu hérlendis. Kærandi skaut þessari ákvörðun til fjölskylduráðs Garðabæjar sem staðfesti hina fyrri ákvörðun á fundi sínum 31. mars 2011 á grundvelli sömu forsendna og komu fram í synjun Fjölskyldusviðsins þann 11. mars 2011. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru, dags. 10. maí 2011, eins og fram hefur komið.

Meðal gagna málsins er umboð kæranda til móður sinnar, B, dags. 10. maí 2011. Þar kemur fram að kærandi veiti móður sinni fullt og ótakmarkað umboð til að fara með öll mál hennar meðan á dvöl hennar erlendis standi. Áætluð heimkoma sé 14. júní 2011. Undirskrift móður hennar fyrir hennar hönd jafngildi hennar eigin.

Kærandi er með lögheimili hjá foreldrum sínum í Garðabæ. Hún er lærður C og stundaði diplómanám í D. Fram að þeim tíma hafði hún verið atvinnulaus í tvö ár og hún fékk atvinnuleysisbætur þar til í október 2010 en féll þá út af bótum vegna dvalar erlendis. Nám kæranda var ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Eins og rakið er í gögnum málsins varð kærandi fyrir líkamsárás og alvarlegu kynferðisbroti í febrúar síðastliðnum. Hún þarf að fara í aðgerð vegna líkamsárásarinnar. Þá varð kærandi fyrir fjártjóni vegna þess að meðleigjandi hennar fór úr íbúð þeirra án þess að gera upp sinn hluta leigugreiðslu, auk þess sem hann hafði meðferðis andvirði ríflegrar mánaðarleigu sem hafði verið eign kæranda.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi kveðst hafa verið atvinnulaus um tveggja ára skeið áður en hún hóf námið í upphafi þessa árs. Hún hafi engar tekjur haft frá útborgun síðustu atvinnuleysisbóta 1. október 2010. Hún eigi lögheimili í Garðabæ. Hún sé C og til þess að auka líkurnar á að hún fái vinnu hafi hún ákveðið að bæta við þekkingu sína á því sviði með því að læra E. Það nám hafi hún stundað í F.

Það að ætla henni að dvelja á Íslandi telji hún vera brot á réttindum hennar. Nám eins og það sem hún hafi verið í sé ekki í boði hérlendis og henni finnist óréttmætt ef hún geti ekki aukið þekkingu sína innan hennar kunnáttusviðs vegna þeirra átthagafjötra sem höfnun fjárhagsaðstoðar hafi í för með sér. Hún hafi þurft að lifa á báðum stöðum og það sé jafnvel dýrara að lifa í Z en í Garðabæ. Námið hafi verið dýrt og húsnæðiskostnaður í Z einnig, en þetta kveðst kærandi hafa að mestu fjármagnað með eigin fé og stuðningi foreldra sinna. Til að mynda séu mánaðarlegar leigugreiðslur um 200.000 kr. Eftir að hún hafi hafið námið í febrúarbyrjun á þessu ári hafi hún lent í hverju áfallinu á fætur öðru.

Af hálfu móður kæranda kemur fram, fyrir hönd kæranda í ódagsettu bréfi, að kærandi stundi tímabundið nám erlendis til þess að dýpka þekkingu sína á þeirri menntun sem hún hafi nú þegar aflað sér og geti hún ekki sótt það nám hérlendis þar sem það sé ekki í boði hér á landi. Með þessu námi telji hún að hún sé að auka líkur sínar á að komast út á frjálsan vinnumarkað að því loknu. Þar sem námið nái ekki þeim tímaviðmiðum sem LÍN geri ráð fyrir eigi kærandi ekki rétt á námsláni. Sótt hafi verið um námslán fyrir kæranda en því hafi verið synjað. Fram kemur að kærandi sé ekki að sækja um námsframfærslu heldur um fjárhagsaðstoð fyrir lífsnauðsynjum svo kærandi komist út í þjóðfélagið sem nýtur þjóðfélagsþegn.

Móðir kæranda nefnir að röð atburða hafi gert það að verkum að kærandi hafi orðið fyrir miklum fjárútlátum og af þeim sökum leiti hún eftir fjárhagsaðstoð. Hún hafi orðið fyrir óvæntum húsnæðiskostnaði þar sem meðleigjandi hennar hafi farið án þess að gera upp sinn hluta leigugreiðslnanna auk þess sem meðleigjandinn hafi jafnframt tekið með sér andvirði rúmlega mánaðarleigu sem kærandi hafi verið búin að taka út úr banka og hafi ætlað greiða leiguna með daginn eftir. Þá hafi kærandi orðið fyrir afar alvarlegri líkamsárás og kynferðisbroti í febrúar síðastliðnum. Auk tilfinningalegra afleiðinga sem eigi eftir að fylgja kæranda um ókomna tíð hafi hún hlotið áverka í andliti, þannig að hún þurfi að fara í aðgerð til þess að ráða bót á því. Þessir atburðir hafi leitt til mikilla óvæntra fjárútláta, svo sem símakostnaðar sem standi nú í 1.500 dollurum, kostnaðar við að fá riftun á leigusamningi og aukins skólakostnaðar þar sem hver klukkutími sem kærandi missi úr námi kosti hana 27 dollara og hún fái ekki að útskrifast nema með fulla tímasókn.

 

III. Málsástæður fjölskylduráðs Garðabæjar.

Í greinargerð fjölskylduráðs Garðabæjar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 15. júní 2011, kemur meðal annars fram að faðir kæranda, G, hafi fyrir hönd kæranda gert grein fyrir því að hún hafi lent í bílslysi fyrir nokkrum árum og fengið talsverðar bætur. Hún hafi verið á atvinnuleysisbótum þar til í október 2010 en þá farið til Bandaríkjanna og þ.a.l. ekki getað skráð sig hjá Vinnumálastofnun og fallið út af bótum. Hún hefði hafið nám í C í janúar 2011 og myndi klára prófin í maí, en þá yrði hún komin með réttindi sem myndu tryggja stöðu hennar á vinnumarkaði. Faðir kæranda upplýsti að skólagjöldin væru um 2 milljónir króna og hefði kærandi leigt húsnæði sem hafi kostað um 200.000 kr. á mánuði. Hafi hún greitt skólagjöldin með slysabótum sínum og leigt ásamt annarri stúlku til að lækka leigukostnaðinn. Námið hafi ekki verið lánshæft hjá LÍN.

Faðir kæranda hafi greint frá því að hún hafi lent í miklu áfalli, þar sem henni hafi verið nauðgað á hrottafenginn hátt. Meðleigjandi hennar hafi stuttu áður yfirgefið hana og hafi kærandi setið upp með allan leigukostnaðinn ein. Lækniskostnaður í Bankaríkjunum væri mjög hár og málarekstur vegna mála sem þessara væri torsóttur. Eftir áfallið hafi móðir kæranda dvalið hjá henni ytra um skeið og kærandi hafi ákveðið að ljúka skólanum. Móðir kæranda hafi vegna þessa þurft að taka sér frí frá vinnu og væri kostnaður foreldranna vegna þessa farinn að höggva talsvert skarð í fjárhag þeirra hjóna.

Af hálfu fjölskylduráðs Garðabæjar kemur fram að erindi kæranda hefði verið synjað þar sem í reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð væru ekki almennar heimildir til að styrkja fólk í námi auk þess sem litið sé svo á að framfærsluskylda sveitarfélagsins sé háð því að dvalarstaður viðkomandi sé á landinu og viðkomandi þurfi aðstoðina sér til framfærslu hérlendis.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskylduráði Garðabæjar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð frá 1. október 2010 og til 31. mars 2011. Upplýst er að kærandi hefur lögheimili í Garðabæ, en hún hefur fasta búsetu í Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám í C.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og félagsþjónustu enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Garðabær hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð, frá 18. janúar 2007. Í 2. gr. reglnanna er að finna almenna tilvísun til fyrrgreindrar 19. gr. laga nr. 40/1991. Í 5. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar möguleika á annarri aðstoð en fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð skuli einungis beitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði s.s. ráðgjöf og leiðbeiningar svo og í tengslum við úrræði annarra stofnana samfélagsins.

Ágreiningur er um hvort Garðabæ beri að veita kæranda félagslega aðstoð, þar sem kærandi hefur samkvæmt því sem hún skýrir sjálf frá, dvalið í Bandaríkjunum við nám í C. Um skyldu sveitarfélaga til þess að veita félagslega aðstoð er fjallað í 13. gr. laga nr. 40/1991. Þar kemur fram að með íbúa sveitarfélags sé í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi, en verði eigi upplýst um lögheimili manns sem leiti eftir aðstoð, skuli veita honum aðstoðina þar sem hann dvelur. Í 3. gr. reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð kemur svo fram að sérhver fjárráða einstaklingur, sem eigi lögheimili í Garðabæ, eigi rétt á að leggja fram umsókn um fjárhagsaðstoð, en lögheimili teljist vera sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu eftir 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990. Í reglunum greinir enn fremur að telji starfsmaður að dvöl umsækjanda sem skráður er með lögheimili í sveitarfélaginu, jafngildi ekki fastri búsetu samkvæmt ákvæðum laga um lögheimili, geti hann ákveðið að taka málið til nánari athugunar.

Ákvörðun kærða er meðal annars á því byggð að framfærsluskylda sveitarfélagsins sé háð því að dvalarstaður viðkomandi umsækjanda sé á landinu og að viðkomandi þurfi aðstoðina sér til framfærslu hér á landi. Í 4. gr. laga nr. 40/1991 er inntak framfærsluskyldu sveitarfélaga útfært nánar, en þar kemur fram að sveitarfélag beri ábyrgð á félagsþjónustu innan sinna marka. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið um sjálfsstjórn sveitarfélaga og til reglna 4. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 40/1991, verður því hin kærða ákvörðun staðfest, en í framangreindri niðurstöðu felst ekki afstaða nefndarinnar til þess hvort kærandi geti átt rétt til félagslegrar aðstoðar við heimkomu.

Vakin skal athygli á því að í bréfi X, hjá Garðabæ, dags. 13. apríl 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Nefndin heitir nú úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 66/2010 sem tóku gildi þann 1. júlí 2010. Málskotsfrestur til nefndarinnar er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar frá 31. mars 2011, í máli A, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

                Margrét Gunnlaugsdóttir                                      Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta