Hoppa yfir valmynd

Nr. 277/2018

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 277/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040048

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

 

I.          Málsatvik

Þann 5. apríl 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2017, um að synja manni er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 9. apríl 2018. Þann 23. apríl 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð með fylgigögnum.

Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar, dags. 5. apríl 2018, um brottvísun kæranda af landinu verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi krefst þess jafnframt að kærunefnd fresti réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. 1. og 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga og heimili dvöl kæranda hér á landi, sbr. 3. mgr. 35. gr. laga um útlendinga og 29. gr. stjórnsýslulaga.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 26. janúar 2017 en hann kveðst vera fæddur […]. Kærandi byggir því á því að hann hafi verið 17 ára gamall þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi og leggur fram nýtt gagn í málinu, þ.e. afrit af því sem hann kveður vera skilríki sín, máli sínu til stuðnings. Á þeim komi skýrlega fram á arabísku að kærandi sé fæddur […], þ.e. þeim fæðingardegi sem hann hafi ávallt haldið fram, en íslensk stjórnvöld hafi dregið í efa. Kærandi telur ástæðu þess að þessi gögn hafi ekki verið lögð fram á fyrri stigum sé líklegast yfirsjón talsmanna Rauða krossins. Kærandi heldur því fram að það sé nú hafið yfir vafa að hann hafi verið fylgdarlaust barn við komuna til landsins og því hafi borið að fara með málið sem slíkt. Kærandi rekur í greinargerð athugasemdir við tiltekin atriði í málsmeðferð á fyrri stigum máls hans. Greinir kærandi frá því að Útlendingastofnun hafi fjallað sérstaklega um aldursgreiningu kæranda. Þar hafi komið fram að ítölsk yfirvöld hafi talið kæranda vera fæddan […] og Útlendingastofnun talið það styðja að hann hafi verið eldri en 18 ára við komuna til Íslands. Kærandi telur að með framlagningu kennivottorðs síns sé nú ljóst að mat Útlendingastofnun hafi verið rangt og megi að minnsta kosti álykta að það sé ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi verið eldri en 18 ára við komuna til Íslands.

Kærandi greinir frá því að kærunefnd útlendingamála hafi í úrskurði sínum, dags. 15. ágúst 2017, fjallað sérstaklega um tanngreiningu á kæranda þar sem kærunefndin hafi talið að meta ætti vafa kæranda í hag. Það sem skipti sérstaklega máli í ljósi hinna nýju gagna sé að kveðið sé á um það í úrskurði kærunefndar að önnur gögn en niðurstaða líkamsrannsóknar gætu haft verulega þýðingu við ákvörðun aldurs. Telur kærandi að rannsókn Útlendingastofnunar á þessum þætti hafi verið ábótavant. Þá vekur kærandi athygli á því að kærunefnd hafi nefnt í úrskurði sínum að kærandi hafi ekki verið spurður um aldur sinn í viðtölum hjá Útlendingastofnun né fengið að gefa skýringar á því að niðurstaða líkamsrannsóknar hafi ekki verið í samræmi við uppgefinn aldur. Þrátt fyrir framangreinda gagnrýni hafi kærunefnd ekki talið tilefni til frekari rannsóknar á aldri kæranda. Kærandi árétti það að hann hafi ekki verið spurður um aldur sinn í viðtölum eða þess óskað að hann legði fram skilríki. Þá kveðst hann ekki hafa fengið að ljúka máli sínu í viðtölum hjá Útlendingastofnun.

Í greinargerð kæranda er greint frá því að síðari ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans hafi legið fyrir 15. nóvember 2017 og hafi umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað. Í málinu hafi kærandi byggt á því að hann hafi verið í sérstaklega viðkvæmri stöðu þar sem hann hafi verið fylgdarlaust barn við komuna til Íslands og því hefði átt að haga meðferð málsins í samræmi við það. Hafi kærandi vísað til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 494/2017 þessu til stuðnings. Í því máli hafi verið viðurkennt að umsækjandi hefði verið 17 ára við komuna til Íslands. Hann hefði síðan orðið 18 ára á meðan mál hans hafi verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Niðurstaða kærunefndar hafi verið sú að málshraðareglu stjórnsýsluréttar ætti að túlka kæranda í hag. Vísar kærandi til þessa úrskurðar kærunefndar máli sínu til stuðnings. Þá vísar kærandi til finnsks dóms þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að við ákvörðun skuli lagt til grundvallar að miða skuli við aldur umsækjanda á þeim tímapunkti er hann sæki um vernd. Jafnframt vísar kærandi til samantektar Evrópudómstólsins um að sama regla skuli gilda við ákvörðun um hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á fjölskyldusameiningu eftir að honum hafi verið veitt vernd.

Kærandi vísar ennfremur til skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um versnandi stöðu í heimaríki hans. Kærandi eigi á hættu að þurfa gegna herþjónustu fyrir vopnaða hópa í Kúrdistan verði hann sendur þangað. Þetta sé eitt þeirra atriða sem kærandi hafi ekki ekki haft tök á að koma á framfæri á fyrri stigum.

Kærandi heldur því fram að mikilvægur þáttur í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið umfjöllun um rannsókn stofnunarinnar á auðkenni hans. Komi fram í ákvörðun stofnunarinnar að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem hafi verið til þess fallið að sanna á honum deili og hafi það því verið mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti og leyst hafi verið úr málinu á grundvelli mats á trúverðugleika frásagnar. Kærandi telur að ekki hafi verið á hann hlustað, hvað varðar fullyrðingar hans um raunverulegan aldur sem og aðra þætti málsins. Þau gögn sem kærandi hafi lagt fram með beiðni sinni nú styðji trúverðugleika kæranda.

Kærandi telur það stangast á við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að hann hafi verið tilgreindur í viðkvæmri stöðu í upphafi af hálfu Útlendingastofnunar en svo ekki á síðari stigum án þess að fullnægjandi skýringar hafi verið gefnar fyrir þeirri breytingu.

Kærandi heldur því fram að í sambærilegum málum þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi borið fyrir sig að vera undir 18 ára aldri, hafi í niðurstöðum rannsóknanna verið tekið saman meðaltal úr þremur rannsóknum sem hafi legið fyrir og hafi Útlendingastofnun í framhaldinu ákveðið að fara með mál einstaklinganna eins og þeir væru yngri en 18 ára. Telur kærandi þetta vera brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Í máli kæranda hafi verið komist að þeirri niðurstöðu eftir heildstætt mat að hann hafi verið eldri en 18 ára. Tekur kærandi fram að tannrannsóknirnar sem stuðst hafi verið við í máli hans hafi verið mjög umdeildar sem mælitæki á aldur ungmenna víðsvegar um Evrópu og hafi ýmis ríki ákveðið að hætta að styðjast við slíkar rannsóknir. Þá vísar kærandi máli sínu til stuðnings til 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga þar sem kveðið sé á um að niðurstaða úr líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi skuli metinn umsækjanda í hag.

Kærandi greinir frá því að hann hafi ítrekað bent á það að hann geti ekki snúið aftur til heimaríkis þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum eða pyndingum í heimaríki. Kærandi telur að ekki sé hægt að fullyrða að hann sé óhultur í heimaríki og þar séu aðilar sem muni hóta og ógna honum auk þess sem hann eigi á hættu að verða beittur ofbeldi og pyndingum. Hann uppfylli því skilyrði um veitingu stöðu flóttamanns. Afskipti hans af yfirvöldum í heimaríki leiði til ótta hans og sé ótti hans raunverulegur. Þá kveðst kærandi tilheyra minnihlutahópi Kúrda í heimaríki. Kærandi vísar einnig til 203.-205. gr. handbókar um réttarstöðu flóttamanna sem gefin sé út af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um að vafi skuli skýrður umsækjanda um alþjóðlega vernd í hag. Þá telur kærandi ljóst að hann falli undir verndarhugtakið viðbótarvernd og því eigi að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða af þeirri ástæðu. Kærandi vísar jafnframt til 1. mgr. 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, alþjóðasamnings gegn pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, Mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá vísar kærandi til þess að íslenskum stjórnvöldum beri að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku sína.

Í greinargerð kæranda kveðst kærandi ætla krefjast þess fyrir dómi að honum verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sem hann telur sig uppfylla. Þá hyggist kærandi fara fram á það fyrir dómstólum að ógiltar verði ákvarðanir Útlendingastofnunar sem staðfestar hafi verið með úrskurðum kærunefndar útlendingamála, þar sem íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn lögum um útlendinga og stjórnsýslulögum með því að veita ekki kæranda stöðu flóttamanns hér á landi. Þá muni kærandi byggja málatilbúnað sinn á því að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi í hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Jafnframt vísar kærandi til 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi muni byggja á því fyrir dómi að íslensk stjórnvöld hafi við töku ákvarðanna sinna látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem bíði kæranda í Georgíu [sic], sbr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 42, gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi hefur lagt fram nýtt gagn í málinu, þ.e. mynd af skjali sem kærandi heldur fram að sé af kennivottorði hans.

Eins og áður hefur komið fram var með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 5. apríl 2018, staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2017, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með ákvörðun kærunefndar var kæranda vísað frá landinu á grundvelli, c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna. Lagt var fyrir kæranda að yfirgefa landið sjálfviljugur innan 30 daga frá birtingu úrskurðar kærunefndar.

Við meðferð málsins, sem kærandi óskar endurupptöku á, bar kærandi m.a. fyrir sig þá málsástæðu að hann hafi verið 17 ára gamall þegar hann hafi lagt fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi þann 26. janúar 2017 og því hafi borið að haga meðferð málsins eins og um fylgdarlaust barn hafi verið að ræða. Í úrskurði kærunefndar var byggt á því að í málinu lægi fyrir skýrsla um líkamsrannsókn á tönnum kæranda, dags. 15. febrúar 2017. Í henni hafi m.a. komið fram að það væri mat þeirra tannlækna sem hana skrifuðu að kærandi væri eldri en 18 ára gamall. Kærunefnd taldi jafnframt ljóst af gögnum málsins að í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 27. september 2017, hafi kærandi verið spurður út í aldur sinn og honum gefið færi á að veita skýringar á því að niðurstaða framangreindrar líkamsrannsóknar væri ekki í samræmi við þann aldur sem hann hefði gefið upp hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá var honum leiðbeint um að leggja fram skilríki og önnur gögn sem gætu varpað betra ljósi á aldur hans. Talsmanni kæranda var þá jafnframt veitt tækifæri til að gera athugasemdir, sem hann gerði. Líkt og áður segir hefur kærandi hefur lagt fram nýtt gagn í málinu, þ.e. mynd af skjali sem kærandi heldur fram að sé af kennivottorði hans. Kveður kærandi að þar komi fram á arabísku að kærandi sé fæddur […] líkt og hann hafi haldið fram við málsmeðferð hjá stjórnvöldum. Að mati kærunefndar breytir skjal þetta ekki þeirri staðreynd að jafnvel þó að þessi fæðingardagur, þ.e. 3. október 1999, væri lagður til grundvallar, hafi kærandi við ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurð kærunefndar náð 18 ára aldri. Er það því mat kærunefndar að skjalið bendi ekki til þess að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í úrskurði kærunefndar nr. 124/2018 frá 5. apríl sl. var fjallað um aðstæður kæranda í heimaríki og komist að þeirri niðurstöðu að hann ætti ekki rétt á alþjóðlegri vernd og ekki væri heimilt að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá fjallaði kærunefnd ítarlega um málsmeðferð Útlendingastofnunar og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að fella úrskurð stofnunarinnar út gildi vegna hennar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til ofangreinds verður ekki fallist á að tilefni sé til endurupptöku málsins. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

Kærandi óskar eftir frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæðið fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna kærumeðferðar. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli hans á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

Þá óskar kærandi eftir frestun réttaráhrifa á grundvelli 1. og 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. kemur ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skv. 36., 37. eða 39. gr. laganna skuli yfirgefa landið ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðunin er endanleg á stjórnsýslustigi nema umsækjandi sjálfur óski þess að hverfa úr landi. Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. frestar kæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar Útlendingastofnun hefur metið umsókn umsækjanda bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki, sbr. b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Komi fram beiðni um slíkt skal kærunefnd vísa henni frá.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli hans á stjórnsýslustigi. Þá er kærandi ekki frá öruggu upprunaríki. Hvorugt þessara ákvæða koma því til skoðunar í þessu máli.

Þá telur talsmaður kæranda að í 3. mgr. 35. gr. laga um útlendinga komi fram að ráðherra sé heimilt að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana sé talin ástæða til þess. Kærunefnd bendir í fyrsta lagi á að mál þetta fjallar ekki um ákvörðun ráðherra. Í öðru lagi beinist beiðnin um frestun réttaráhrifa ekki að ráðherra heldur að kærunefnd útlendingamála sem er sjálfstætt stjórnvald. Í þriðja lagi var umrædd regla um heimild ráðherra aldrei í tilvísaðri lagagrein heldur var þar um að ræða reglugerðarheimild. Í fjórða og síðasta lagi var 3. mgr. 35. gr. felld úr gildi fyrir rúmlega einu ári, sbr. lög nr. 17/2017 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016. Kærunefnd gerir athugasemd við þessa alvarlegu ónákvæmni talsmannsins.

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta