Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 112/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 112/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru 28. febrúar 2021 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. febrúar 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 430.039 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. febrúar 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 8. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. mars 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að Tryggingastofnun ríkisins hafi krafið kæranda um 430.039 kr. endurgreiðslu vegna tekjuársins 2019. Samkvæmt bréfi stofnunarinnar hafi heildargreiðslur hennar á árinu verið 1.313.481 kr. en réttindi hennar það ár hafi verið 883.442 kr. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2019 hafi Tryggingastofnun greitt kæranda 1.313.481 kr.

Miðað við reiknivél Tryggingastofnunar vegna tekjuársins 2019 og greiðslur frá öðrum en Tryggingastofnun upp á 4.206.088 kr., hefðu greiðslur frá Tryggingastofnun átt að vera 1.009.543 kr. Í samtali kæranda við Tryggingastofnun hafi komið fram að þar sem hún hafi verið með lögheimili í Noregi á þessu ári hafi það skert réttindi hennar til greiðslna á Íslandi. Kærandi fái greiddan lífeyri í Noregi og Tryggingastofnun skerði hann að fullu eftir því sem hún fái best skilið. Kærandi telji það mikið óréttlæti ef hægt sé að skerða norska lífeyrinn að fullu og greiða svo skertan lífeyri á Íslandi vegna búsetu, það geti ekki staðist.

Farið sé fram á að kærandi fái að halda eftir norska lífeyrinum sem nemi að lágmarki þeirri upphæð sem hún hafi átt rétt á frá Tryggingastofnun ef hún hefði haft búsetu á Íslandi tekjuárið 2019. Ekki þurfi að tíunda það að þessi stóra endurgreiðsla sé verulega íþyngjandi. Ekki síst þar sem hún hljóti að eiga von á öðru eins fyrir tekjuárið 2020 og því sjái hún fram á verulega erfiða framfærslu næstu árin. Þessi krafa vegna ársins 2019 hafi komið verulega flatt upp á hana þar sem nú sé komið talsvert fram á árið 2021.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Allt árið 2019 hafi kærandi verið með örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 430.039 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2020 vegna tekjuársins 2019 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi sent inn tekjuáætlun þann 12. desember 2018 þar sem gert hafi verið ráð fyrir NOK 120.342 í lífeyrissjóðstekjur og NOK 200 í vexti og verðbætur. Tryggingastofnun hafi fallist á þá tekjuáætlun og hafi kæranda verið greitt samkvæmt henni út apríl 2019.

Við reglulegt eftirlit Tryggingastofnunar í apríl hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK. Tryggingastofnun hafi gert tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann 11. apríl 2019 þar sem henni hafi verið tilkynnt að stofnunin hefði leiðrétt tekjuáætlun hennar til samræmis við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá RSK. Í því sama bréfi hafi henni verið tilkynnt um áætlaða kröfu að fjárhæð 419.436 kr. vegna ofgreiddra bóta á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl 2019.

Í hinni nýju tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun hafi verið gert ráð fyrir að íslenskar lífeyrissjóðstekjur kæranda yrðu að fjárhæð 5.090.695 kr., auk norska lífeyrissjóðsins og vaxtatekna. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi kærandi fengið greitt á grundvelli hennar frá 1. maí til 31. ágúst 2019.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun þann 4. ágúst 2019 þar sem íslensku lífeyrissjóðstekjurnar hafi verið lækkaðar í 2.100.000 kr. en að öðru leyti hafi hún verið óbreytt. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. ágúst 2019, hafi verið óskað eftir gögnum sem sýndu fram á lækkun lífeyrissjóðsteknanna og í kjölfarið hafi borst afrit af úrskurði RSK um tekjudreifingu lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi því samþykkt áætlun kæranda með bréfi, dags. 18. september 2019, og á grundvelli hennar hafi bótaréttur ársins verið endurreiknaður. Fyrir hafi legið inneign að fjárhæð 192.510 kr. sem greidd hafi verið með fyrirvara um niðurstöðu uppgjörs bóta ársins 2019.

Í febrúar 2021 hafi árið verið gert upp. Við bótauppgjör ársins 2019 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með samtals 4.206.088 kr. í íslenskar og erlendar lífeyrissjóðstekjur og 9.504 kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafi verið ofgreidd í bótaflokkunum tekjutrygging og orlofs- og desemberuppbætur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest af dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafi fengið 1.313.481 kr. greitt á árinu en hefði átt að fá greitt 883.442 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 430.039 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Í kæru segir kærandi að í samtali við Tryggingastofnun hafi komið fram að hún ætti minni réttindi þar sem hún hafi verið með lögheimili í Noregi þetta ár og að það skerði réttindi hennar á greiðslum hér á Íslandi. Kærandi segist fá greiddan lífeyri í Noregi og Tryggingastofnun skerði hann að fullu og það finnist henni mikið óréttlæti. Í kæru sé farið fram á að kærandi fái að halda eftir af norska lífeyrinum sem nemi að lágmarki þeirri upphæð sem hún hefði átt rétt á frá Tryggingastofnun ef hún hefði haft búsetu á Íslandi tekjuárið 2019.

Kærandi fái ekki skertar örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun vegna búsetu sinnar í Noregi árið 2019. Hún hafi hins vegar ekki fengið tengdar greiðslur sem byggjast á lögheimilisskráningu hér á landi eins og til dæmis heimilisuppbót og sérstaka uppbót til framfærslu. Þá hafi Tryggingastofnun enga heimild til að líta fram hjá lífeyrisgreiðslum frá Noregi við útreikning á bótum frá stofnuninni, hvorki að öllu leyti né að hluta.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2019. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram tekjuáætlun vegna ársins 2019, dags. 12. desember 2019. Samkvæmt áætluninni gerði kærandi ekki ráð fyrir neinum tekjum að undanskildum 5.250 NOK í lífeyrissjóðsgreiðslur, 200 NOK í fjármagnstekjur og 115.092 NOK í örorkulífeyri, grunnlífeyri. Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun, dags. 9. janúar 2019, vegna ársins 2019 þar sem gert var ráð fyrir 120.342 NOK í lífeyrissjóðstekjur og 100 NOK í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út í samræmi við þær tekjuforsendur. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá 11. apríl 2019 kom í ljós misræmi á milli upplýsinga í tekjuáætlun og upplýsinga í staðgreiðsluskrá. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun, dags. 11. apríl 2019, þar sem gert var ráð fyrir 1.705.246 kr. í erlendan lífeyri, 5.090.695 kr. í lífeyrissjóðstekjur og og 2.834 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi var upplýst um áætlaða kröfu að fjárhæð 419.436 kr. vegna tímabilsins janúar til og með apríl 2019. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá ákvörðun. Kærandi útbjó nýja tekjuáætlun 4. ágúst 2019 þar sem gert var ráð fyrir 2.100.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 1.705.246 kr. í erlendan lífeyri og 2.834 kr. í fjármagnstekjur. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. ágúst 2019, óskaði Tryggingastofnun eftir staðfestingu á lækkun lífeyrissjóðstekna. Í kjölfarið lagði kærandi fram úrskurð Ríkisskattstjóra, dags. 20. júní 2019, um tekjudreifingu lífeyrissjóðstekna aftur í tímann. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. september 2019, var tekjuáætlun kæranda samþykkt og var bótaréttur hennar endurreiknaður og henni greidd inneign að fjárhæð 192.510 kr. með fyrirvara um niðurstöðu uppgjörs ársins. 

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að tekjur á árinu 2019 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlunum. Að mati Tryggingastofnunar var um að ræða lífeyrissjóðstekjur. Sá tekjustofn hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Lífeyrissjóðstekjur hafa hvorki áhrif á útreikning grunnlífeyris né aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, en hafa aftur á móti áhrif á tekjutryggingu, sbr. 22. gr laga um almannatryggingar. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi sé ósátt við að „uføretrygd“ greiðslur sem hún fær frá NAV skerði greiðslur hennar frá Tryggingastofnun. Í tekjuáætlun kæranda frá 12. desember 2018 setur kærandi þær greiðslur undir örorkulífeyri, grunnlífeyri.

Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatryggingaog lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutrygginguna og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til tekjutryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að taka til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilt að líta á „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2019. Nánar tiltekið snýst ágreiningur málsins um hvort „uføretrygd“ greiðslur kæranda falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum.

Um „uføretrygd“ er fjallað í 12. kafla í lov om folketrygd (LOV-1997-02-28-19). Við mat á því hvort „uføretrygd“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt ákvæðum 12-11 og 12-12 ræðst fjárhæð „uføretrygd“ af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetid“. Með „trygdetid“ er átt við tímabilið sem viðkomandi hefur verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 18. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, og öðrum tekjum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ sé ekki alveg sambærilegt örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda ráðast örorkulífeyrisgreiðslurnar einungis af búsetu bótaþega hér á landi og öðrum tekjum en ekki af fyrri tekjum líkt og „uføretrygd“. Hins vegar telur úrskurðarnefndin „uføretrygd“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og hann er notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla lov om folketrygd. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 86/2015, dags. 19. ágúst 2015, féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „uføretrygd“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og að tekjurnar féllu því ekki undir 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Við framangreinda túlkun lítur úrskurðarnefndin jafnframt til a-liðar 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Þar segir:

„ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“

Þrátt fyrir að „uføretrygd“ og örorkulífeyrisgreiðslur séu báðar örorkubætur telur úrskurðarnefnd þær ekki jafngildar bætur í skilningi framangreinds ákvæðis þar sem greiðslurnar eru ólíkar, eins og áður hefur verið greint frá.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um uppgjör og endurreikning á tekjutengdum bótum ársins 2019.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta