Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 69/2015

Fimmtudaginn 17. mars 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2015, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá og með 26. október 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 24. júlí 2014 og var umsóknin samþykkt. Með tölvupósti og smáskilaboðum í farsíma kæranda þann 10. september 2015 var kærandi boðuð á fund Vinnumálstofnunar þann 14. september 2015. Kærandi mætti ekki í boðað viðtal. Þann 14. september 2015 óskaði Vinnumálastofnun, í gegnum vefgátt stofnunarinnar, eftir skýringum frá kæranda innan sjö daga á því hvers vegna hún mætti ekki á fund hjá stofnuninni. Í erindinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti sá sem ekki mæti á boðaðan fund þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna.

Skýringar bárust frá eiginmanni kæranda með tölvupósti þann 21. október 2015. Með bréfi, dags. 26. október 2015, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá og með 26. október 2015 á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hún verði aftur sett á atvinnuleysisskrá og fái greiddar þær atvinnuleysisbætur sem henni beri fyrir október 2015.

Kærandi greinir frá því í kæru að hún hafi þann 10. september 2015 fengið þau smáskilaboð frá Vinnumálastofnun að hún ætti að mæta á fund hjá stofnuninni miðvikudaginn 12. ágúst. Þar sem dagsetningin, sem nefnd hafi verið í skilaboðunum, hafi verið löngu liðin hafi kærandi litið svo á að um einhver mistök hafi verið að ræða.

Þann 3. september 2015 hafi kærandi farið á fund ráðgjafa sem hafi viljað uppfæra upplýsingar um kæranda. Þar hafi meðal annars verið bætt við öðru tölvupóstfangi sem kærandi hafi skilið svo að notað yrði með því eldra sem ætíð hefði verið notað. Þann 10. september hefði verið sendur tölvupóstur á það netfang sem kærandi hafi gefið upp þann 3. september en ekki á það sem ætíð hafði verið notað fram að því. Þann 14. september hafi síðan verið sendur annar tölvupóstur á nýja netfangið þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á fjarveru hennar. Því miður hafi hún séð þessa tölvupósta of seint.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta lúti að ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem hún hafi ekki mætt á boðaðan fund með ráðgjafa stofnunarinnar.

Þá segir að samkvæmt a-lið 13. gr. og  g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði nr. 55/2006 komi einnig fram skylda þess, sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. 

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið eigi einnig við ef atvinnuleitandi mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki mætt í viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 14. september 2015. Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru hennar til úrskurðarnefndarinnar komi fram að hún hafi talið að um mistök væri um að ræða þegar Vinnumálastofnun hafi boðað hana á fund.  Vísað sé til tölvupósts Vinnumálastofnunar þar sem kærandi hafi verið boðuð á fund í ágúst.

Vinnumálastofnun bendi á að tölvupóstur sá, sem vísað sé til í erindi kæranda og kæru hennar til nefndarinnar, sé ekki sú boðun sem hafi borist kæranda þann 10. september. Eins og fram komi í samskiptasögu stofnunarinnar hafi kæranda verið sendur tölvupóstur og smáskilaboð þann 10. september þar sem fram komi að hún ætti bókað viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 14. september til að ræða næstu skref.

Sá tölvupóstur sem vísað sé til í kæru hafi verið sendur kæranda 11. ágúst 2015 og varði ekki þá ákvörðun sem nú sæti kæru hjá nefndinni. Ekki verði séð að sú boðun tengist máli þessu á nokkurn hátt. Því verði ekki fallist á þær skýringar kæranda sem lúti að því að stofnunin hafi boðað hana á fund á degi sem þegar hafi verið liðinn. Þá bendi stofnunin á að kærandi hafi ekki haft samband við Vinnumálastofnun eftir að hún hafi verið boðuð á fund. Hafi hún af einhverjum ástæðum talið að mistök hafi átt sér stað hafi verið nærtækast fyrir hana að hafa samband við Vinnumálstofnun.

Kærandi segi einnig í kæru að hún hafi mætt á fund ráðgjafa Vinnumálastofnunar í byrjun september þar sem óskað hafi verið eftir því að tölvupóstfang kæranda væri uppfært.  Kærandi geri athugasemdir við það að boðun hafi einungis verið send á uppfært netfang hennar en ekki á það netfang sem fyrir hafði verið skráð hjá stofnuninni.

Hvað varði athugasemdir um boðun á fund stofnunarinnar skuli í fyrsta lagi nefna að umrædd boðun á fund stofnunarinnar hafi bæði verið send á netfang, birt á „Mínum síðum“ og send í síma kæranda. Í öðru lagi beri að nefna að kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun.  Kæranda ætti því að vera ljóst að rétt skráning á netfangi og símanúmeri sé nauðsynleg til að stofnunin geti komið mikilvægum upplýsingum til skila. Í samræmi við 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi Vinnumálastofnun óskað eftir afstöðu atvinnuleitanda til samskiptamáta við stofnunina. Þegar atvinnuleitandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við stofnunina hafi Vinnumálastofnun komið upplýsingum og boðum til þeirra atvinnuleitenda með tölvupósti, smáskilaboðum og tilkynningu á „Mínum síðum“. 

Kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við stofnunina þann 20. apríl 2015 þegar hún hafi staðfest atvinnuleit sína. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig að hún hafi ekki vitað af umræddum fundi, enda hafi stofnunin nýtt þær samskiptaleiðir sem kærandi hafi óskað eftir. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum sínum, sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að með fjarveru hennar hafi hún brugðist skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Í 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að ef atvinnuleitandi hafi þegið atvinnuleysisbætur í meira en 24 mánuði, þegar hann sæti viðurlögum á grundvelli ákvæðisins, skuli hann ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann ávinni sér inn nýtt bótatímabil samkvæmt 31. gr. laganna.  Þegar kærandi hafi sætt viðurlögum á grundvelli ákvæðisins hafi hún þegið bætur í samtals 27,4 mánuði. Því eigi 4. mgr. ákvæðisins við í málinu. Vinnumálastofnun hafi því borið að stöðva greiðslur til hennar og hún geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað í a.m.k. 24 mánuði, sbr. 31. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. og 4. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:

 „Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Þá segir svo í 4. mgr. 58. gr. laganna:

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Einnig segir í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir að atvinnuleitandi skuli ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar og taka þátt í þeim aðgerðum sem honum standi til boða.

Óumdeilt er að kærandi mætti ekki á fund hjá Vinnumálastofnun þann 14. september 2015. Kærandi gerir hins vegar athugasemd við hvernig boðun á fundinn fór fram. Kærandi byggir á því að röng dagsetning hafi verið tilgreind í smáskilaboðum sem henni höfðu verið send og boðun í tölvupósti hafi verið send á annað netfang en venjulega.

Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar var kærandi boðuð á fund þann 14. september 2015 með smáskilaboðum og tölvupósti þann 10. september 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var boðunin einnig send í gegnum vefgátt stofnunarinnar. Þá kemur fram í samskiptasögunni að kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við stofnunina þann 20. apríl 2015. Einnig liggur fyrir að boðunin var send á það tölvupóstfang kæranda sem hún gaf upp á fundi hjá stofnuninni þann 3. september 2015. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi verið boðuð á fund þann 14. september 2015 með fullnægjandi hætti.

Í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur skýrt fram að sá sem mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ef viðkomandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 24 mánuði eða lengur þegar hann missir af fundi skal hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laganna. Ákvæði 58. gr. er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Samkvæmt greiðslusögu kæranda hjá Vinnumálastofnun hafði hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur í tæplega 27 mánuði á árunum 2011 til 2015 þegar hún mætti ekki á fund Vinnumálastofnunar þann 14. september 2015. Því bar Vinnumálastofnun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar til hún hefur öðlast rétt til nýs bótatímabils, sbr. 1. og 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá og með 26. október 2015, er staðfest.

Rakel Þorsteinsdóttir

Arnar Kristinsson

Agnar Bragi Bragason

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta