Hoppa yfir valmynd

Nr. 25/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 25/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17110019

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. nóvember 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. október 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom m.a. fram að kærandi hafi þann 16. september 2016 lagt fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi vegna sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. október 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 7. nóvember 2017, en kæru fylgdi jafnframt athugasemdir kæranda. Þann 28. nóvember 2017 kom kærandi á framfæri frekari athugasemdum og gögnum til kærunefndar.   

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var m.a. vísað til þess að kærandi hafi verið búsettur í Bandaríkjunum og að gögn málsins bentu ekki til annars en að hann hafi búið þar alla sína tíð og aldrei búið á Íslandi. Samkvæmt 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga geti útlendingur í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þrátt fyrir að hafa ekki dvalist hér á landi þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiði til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið séu til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra. Þá vísaði stofnunin m.a. til 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, og að þar væri fjallað um skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Var það mat Útlendingastofnunar, með hliðsjón af gögnum málsins og aðstæðum kæranda í heild, að kærandi hefði ekki svo sérstök tengsl við Ísland að beita ætti fyrrnefndri undantekningarreglu 78. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir umsókn um dvalarleyfi m.a. á tengslum við móður sína sem er búsett hér á landi. Í greinargerð og öðrum gögnum frá kæranda er m.a. rakið að hann eigi ættir að rekja til Íslands en langamma og langafi hans hafi verið Íslendingar. Móðir kæranda hafi fæðst Bandaríkjunum en hafi orðið íslenskur ríkisborgari. Fram kemur að faðir kæranda hafi látist árið 2005. Þá greinir að kærandi eigi systur sem sé búsett í Bandaríkjunum. Móðir kæranda sé nú búsett á Íslandi og sé gift íslenskum manni. Kærandi byggir á því að hann eigi í góðu sambandi við vini sína og fjölskyldu. Á undanförnum árum hafi kærandi þó verið önnum kafinn, m.a. við nám og störf í Bandaríkjunum, og því hafi takmarkaður tími gefist til að hitta þau. Kærandi hafi heimsótt móður sína tvisvar hingað til lands og hún hafi heimsótt hann þrisvar sinnum til Bandaríkjanna, ásamt eiginmanni sínum og dóttur þeirra. Bæði eiginmaður móður kæranda og dóttir hans séu kæranda afar náin.

Umsókn kæranda er byggð á því að móðir hans sé hreyfihamlaður öryrki sem glími við ýmis veikindi. Í læknisvottorði frá Heilsugæslunni Lágmúla, dags. 23. nóvember 2011, sem kærandi lagði fram, kemur fram að móðir kæranda sé […] ára gömul kona með langa sögu um geðhvarfasýki (Bipolar) og kvíða og þá hafi hún nýlega veikst alvarlega af bristbólgu. Móðir kæranda hafi mjög slæmt jafnvægi og þrek og geti ekki komið sér á milli staða án aðstoðar. Þá kemur fram í bréfi […], sérfræðings í blóðsjúkdómum, til móður kæranda, dags. 22. nóvember 2017, að blóðrannsókn á móður kæranda hafi leitt í ljós forstig mergæxlis. Forstig mergæxlis sé þó ekki krabbamein. Kærandi bendir á að móðir hans sé á síðustu stigum lífs síns og tíminn sé dýrmætur og af skornum skammti. Kærandi vilji því vera hjá móður sinni áður en það verði of seint. Kærandi elski móður sína og hún sé honum mikilvæg. Kærandi telji sér skylt að hugsa um móður sína á hennar síðasta æviskeiði enda hljóti það að vera skylda ábyrgra uppkominna barna að ala önn fyrir öldruðu og sjúku foreldri.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur sé einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi. Ákvæði 4. mgr. 78. gr. laganna er samkvæmt orðalagi sínu undantekning frá þeirri almennu reglu að sérstök tengsl myndist á meðan á löglegri dvöl stendur. Ber að mati kærunefndar að túlka ákvæðið þröngt.

Umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er aðallega reist á því að hann eigi móður sem sé búsett hér á landi sem glími við margvísleg og alvarleg veikindi. Virðist meginmarkmið umsóknar kæranda þannig vera að sameina kæranda við móður hans hér á landi, enda hafi þau verið aðskilin um langa hríð og hann vilji aðstoða hana í veikindum sínum á hennar síðasta æviskeiði.

Í reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um mat á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Útlendingastofnun er heimilt að gefa út dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Útgáfa slíks dvalarleyfis er heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfa að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Af framangreindum ákvæðum má ráða að þau umönnunarsjónarmið sem vísað er til í 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga eiga einkum við þær aðstæður þar sem umsækjandi um dvalarleyfi þarfnast sjálfur umönnunar og að fjölskyldu- og félagslegar aðstæður hans í heimaríki eru að öðru leyti þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Slíkar aðstæður eru ekki uppi í málinu.

Líkt og fram er komið byggir kærandi umsókn um dvalarleyfi á því að hann vilji sameinast við móður sína hér á landi sem glími við heilsubrest. Samkvæmt framansögðu gera ákvæði reglugerðar um útlendinga ekki ráð fyrir því að útlendingi, sem hefur aldrei dvalist hér á landi, verði veitt dvalarleyfi samkvæmt 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga á grundvelli þess að aðstandandi hans hér á landi þarfnist umönnunar. Þá lítur kærunefnd til þess að samkvæmt gögnum málsins á móðir kæranda eiginmann hér á landi. Með vísan til fyrri umfjöllunar og með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki telur kærunefnd ljóst að ekki séu til staðar umönnunarsjónarmið sem gætu leitt til þess að kæranda yrði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                           Árni Helgason

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta