Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 110/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 110/2023

Miðvikudaginn 3. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 22. febrúar 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 14. desember 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. febrúar 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 14. mars 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé flóttakona frá C. Kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd þann 23. nóvember 2022. Kærandi leitist við að fá samþykktar greiðslur vegna örorku þar sem hún glími við sjúkdómana Chrons og Marfan.

Frá því að kærandi hafi komið til landsins hafi hún ítrekað leitast eftir fjölfaglegri heilbrigðisþjónustu. Til séu skjöl á gervikennitölu kæranda, þ.e. X, frá því áður en hún hafi fengið dvalarleyfi og hafi orðið sjúkratryggð í kerfinu sem vert sé að taka tillit til.

Kærandi hafi verið greind með Marfan heilkenni sem barn í C. Hún sé með gögn frá heimalandi sínu sem staðfesti að hún hafi verið metin öryrki þar að hluta til. Ekki sé hægt að lækna sjúkdóminn. Meðhöndlun felist í þéttri eftirfylgd með það að markmiði að halda einkennum niðri og koma í veg fyrir versnun og grípa þurfi inn í aðstæður ef einkenni þróist til að koma í veg fyrir lífshættulegt ástand. Einkenni Marfan sjúkdómsins geti haft áhrif á hvaða hluta líkamans sem er og geti því valdið margvíslegum fylgikvillum. Hættulegustu kvillarnir séu hjarta- og æðafylgikvillar sem hafi áhrif á ósæðina. Ósæðin hafi það hlutverk að flytja blóð frá hjartanu út í líkamann.

Marfan heilkennið hafi meðal annars áhrif á hjarta, æðar, bein, liði og augu og því geti kærandi ekki unnið við líkamlega áreynslu þar sem hún verði að gæta álags á hjartað og æðakerfið. Jafnframt geti hún ekki unnið í köldum aðstæðum eða í óöruggum aðstæðum þar sem hætta sé á að hún geti slasað sig. Líkamlegt þrek sé takmarkað og þurfi kærandi að gæta þess að takmarka skjánotkun þannig að hún sé aðeins nokkrar klukkustundir á dag.

Samkvæmt læknisskoðun, sem gerð hafi verið hérlendis, sé kærandi með víkkun á aortu/ ósæðarrótinni sem þarfnist reglubundins eftirlits. Kærandi sé einnig með sjónskerðingu.

Daglegir stoðkerfisverkir, erfiðleikar með setu eða að standa í lengri tíma og regluleg meltingaróþægindi vegna Chrons sjúkdóms, séu meðal þeirra helstu einkenna sem hrjái kæranda varðandi virkni í athöfnum daglegs lífs og í félagslífi. Kærandi glími við mæði við líkamlega áreynslu. Einkenni kæranda versni við áreiti, þ.e. stoðkerfisverkir versni, sjónin versni og hún verði viðkvæmari fyrir birtu. Einnig komi fram aukin meltingaróþægindi og tilfallandi bólgur og/eða útbrot.

Starfsgeta kæranda sé sveiflukennd vegna einkenna krónískra sjúkdóma. Tímafrekt sé fyrir hana að sækja sér alla þá heilbrigðisþjónustu sem hún þarfnist til að sinna eftirfylgd og halda einkennum niðri. Þegar kærandi upplifi bakslag þarfnist hún töluverðar heilbrigðisþjónustu sem sé bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Hún hafi þurft að leita bráðameðferðar við neyðartilfellum. Ljóst sé að starfsgeta kæranda sé takmörkuð og jafnframt óáreiðanleg vegna sveiflukenndra einkenna.

Kærandi hafi sótt um örorkumat en umsókn hennar hafi verið hafnað þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og því væri ekki tímabært að taka afstöðu til örorku. Í ljósi þess að kærandi hafi verið óvinnufær, með takmarkaða starfssögu og hafi þurft að sækja ítrekaða fjölfaglega heilbrigðisþjónustu til að meðhöndla einkenni sjúkdómanna með það að markmiði að halda einkennum niðri, óski hún eftir endurmati á ákvörðun Tryggingastofnunar.


 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 16. febrúar 2023. Í kærðri ákvörðun hafi kæranda verið synjað um örorkumat þar sem ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Örorkustaðallinn sé byggður á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlunum og sé að finna í fylgiskjali 1 með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat, sbr. 2. gr. hennar.

Örorkumat sé unnið á grundvelli svara umsækjanda við stöðluðum spurningalista, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 14. desember 2022. Umsókn hennar hafi verið synjað með bréfi, dags. 16. febrúar 2023, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 16. febrúar 2023 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 14. desember 2022, læknisvottorð, dags. 4. janúar 2023, og spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 10. janúar 2023.

Skýrsla skoðunarlæknis liggi ekki fyrir í málinu en að mati Tryggingastofnunar hafi ekki verið tilefni til að senda kæranda til skoðunarlæknis.

Með kæru hafi fylgt örorkuskírteini sem hafi verið gefið út í D þann 13. júní 2019. Í skírteininu komi fram að kærandi hafi uppfyllt skilyrði þriðja stigs örorku þar í landi, ótímabundið frá 23. maí 2019. Um sé að ræða lægsta örorkustig í D. Um orsök örorku segi að kærandi hafi glímt við sjónfötlun frá barnsaldri.

Að mati Tryggingastofnunar komi hvorki fram nýjar upplýsingar um færniskerðingu kæranda í athugasemdum kæranda með kæru né í fylgigögnum.

Tryggingastofnun ítreki að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorku hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti því máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á fyrirliggjandi gögn og virt þau í ljósi þess að ákvörðunin hafi verið kærð. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 4. janúar 2023, og öðrum fyrirliggjandi gögnum, sé líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hennar hafi ekki verið fullreynd, heldur verði ráðið af veikindum kæranda að endurhæfing geti komið að gagni. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé því ekki útilokað að færni kæranda aukist með endurhæfingu, talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda og því sé ekki tímabært að meta örorku hennar. Við það mat sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð.

Mati sínu til stuðnings vísi Tryggingastofnun til þess að í læknisvottorði, dags. 4. janúar 2023, komi fram að kærandi hafi verið álitin vera 25% öryrki í D, en hún hafi flutt þaðan hingað til lands. Í örorkuskírteini frá D, dags. 13. júní 2019, komi fram að orsök örorku kæranda sé eingöngu sjónfötlun sem hún hafi glímt við frá barnsaldri. Þá vísi stofnunin einnig til þess að í læknisvottorðinu segi að kærandi hafi verið að vinna fimm til sex klukkustunda vinnudaga í D áður en hún hafi flust hingað til lands. Kæranda hafi þótt sú vinna við hæfi og hún treysti sér því til að vinna hlutastarf ef hún finni slíkt við hæfi. Þar að auki vísi stofnunin til þess að í spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 10. janúar 2023, komi fram um líkamlega færniskerðingu kæranda að hún sjái illa og eigi í erfiðleikum með að stjórna hægðum, en hún vísi ekki til þess að hún glími við geðræn vandamál. Í læknisvottorðinu komi fram að ristil- og magaspeglun á Landspítalanum hafi ekki gefið merki um virkan Chrons sjúkdóm, en af vottorðinu að dæma hafi mátt rekja hægðatregðu kæranda til sjúkdómsins. Enn fremur verði ekki ráðið af læknisvottorðinu að sjónskerðing kæranda sé slík að hún verði metin til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna hennar, sbr. niðurstöður skoðunar augnlæknis sem fram komi í læknisvottorðinu. Einnig segi í læknisvottorðinu að kæranda hafi verið vísað til sjónstöðvar með tilliti til linsu fyrir vinstra auga og að hún eigi fljótlega endurkomutíma hjá augnlækni á Landspítalanum. Að lokum vísi Tryggingastofnun, máli sínu til stuðnings, til þess að kærandi hafi ekki fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Tryggingastofnun mæli með því að kærandi láti áfram reyna á viðeigandi endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni, sérstaklega í ljósi þess að hún hafi ekki enn fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris.

Niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar sé sú að þeir möguleikar séu ekki fullreyndir þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Kærandi uppfylli ekki það skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing sé fullreynd. Tryggingastofnun telji það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu. Þar sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð. Tryggingastofnun bendi á að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, vilja hans til að sinna endurhæfingu, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða hvort iðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé ekki að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna umsækjenda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu til þess að sjá hver frekari framvindan verði í málum hennar áður en læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri, eins og þau séu útfærð samkvæmt staðli, verði talin uppfyllt, sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 16. febrúar 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2023 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt þágildandi 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð E, dags. 4. janúar 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„CROHN´S DISEASE

MARFAN´S SYNDROME

BLANDIN KVÍÐA- OG GEÐLÆGÐARRÖSKUN“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„A kom hingað til lands sem hælisleitandi frá C en hefur nú fengið Íslenska kennitölu. Greind með langvinna sjúkdóma. Verið öryrki í heimalandinu frá 12 ára aldri. Telur það sennilega hafa verið u.þ.b 25% örorka. Skv A flokkað eftir hópum en ekki prósentum í C. Hún var í hópi 3 þar sem fólk er með hamlandi sjúkdóm en getur unnið samt sem áður við ákveðin störf og í ákveðin tíma.

Hún sýnir mér gögn, örorkumat frá C sem viðstaddur túlkur frá Alþjóðasetri túlkar fyrir mig. Þar kemur fram:

" Má ekki lyfta meira en 5 kg, ekki vinna úti í kulda og getur ekki horft lengi á skjá (ekki meira en 3 klst á vakt). Má ekki vinna við líkamlega áreynslu eða við aðstæður þar sem hætta er á að hún detti eða meiði sig s.s að fara upp í stiga. Má ekki láta hjarta slá meira en 110 slög á mínutu. Má ganga, hjóla, synda, hlaupa stuttar vegalengdir og spila tennis. Líkamleg áreynsla má vera 10-30 mín 3-4x í viku. "

Menntun og vinnusaga

- Kláraði menntaskóla. Fór í einhvers konar tækniskóla í 2 ár að læra móttökuritara/skrifstofustörf. Fór síðan í Háskóla að læra sérkennslu, náði ekki að klára það nám.

- Hefur alltaf vilja vinna eins og hún hefur getað með örorkunni. Var í skrifstofustarfi í 2 ár og svo að vinna sem leikskólakennari í 7 mánuði. Var þá að vinna 5-6 klst vinnudag og fannst það vinna við hæfi. Leið vel.

Heilsufarssaga:

Hennar heilsufar samkvæmt A sjálfri og þeim læknisskoðunum og rannsóknum sem hafa verið gerðar hér á landi.

1. Marfan heilkenni. Greind sem barn í C. Hefur komið með ýmsa pappíra á C hingað til lands til staðfestingar á þessu.

- Víkkun á aortu: Fór í hjartaómun í Hjaramiðstöðinni 02.02.2022 hjá F hjartalækni. Þar kemur fram í læknabréfi að ósæðarrótin sé víkkuð (40 mm) en uppfærandi ósæð og ósæðarbogi eðlilega víð. Þetta sé óbreytt miðað við upplýsingar frá C. Ráðlögð control ómun eftir 1 ár.

- Sjónskerðing: Farið í skoðun augnlæknis hér á landi. Hitti G  á LSH. Skv nótu hans er hún með afakiu os, byrjandi dislocering lens od. Hann ráðeggur að hún fái secondary IOL osin og það skuli skoðað þegar kennitala er komin. Vísar henni til sjónstöðvar mtt kontakt linsu í vi auga. Hún á fljótlega endurkomutíma hjá augnlækni á LSH.

Sjónskerpa:

H: Ph: 0,80 cc: 0,50

V: Ph: 0,05 cc: 0,00

Augnþrýstingur:

H: IOP: 20

V: IOP: 15

- Stoðkerfisverkir: Glímt við verki, mismunandi hvar er verst. Verkir í mjóbaki, hálshrygg og hnjám.

3. Chrons sjúkdómur

- Fór í maga- og ristilspeglun á LSH hjá H meltingarlækni á Landspítala eftir komu til landsins. Hafði þá verið á Asacol 800 mgx4 og imurel 150x1. Verið stabíl af sínum sjúkdómi en hennar helstu kvartanir verið hægðatregða, stundum niðurgangur og stundum kviðverkir. Ekki blóð eða slím í hægðum. Magaspeglunin var eðlileg. Ristilspeglun var suboptimal, ristillinn var skv lýsingum Sunnu langur, snúinn og hlykkjóttur og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að þræða lengra en flex hepatica. Slímhúð sem náðist að skoða var allstaðar eðlileg, hverki merki um virkan chron's sjúkdóm. Blóðprufur og FKPT<25.

3. Mjólkuróþol

- Hitti H meltingarlækni á LSH í framhaldi af speglun á göngudeild í tvígang. Þar kemur fram að fær niðurgang og meltingaróþægindi ef borðar ákveðin mat, sérstaklega mjólkurvörur/laktósa. Fær útbrot einnig tengt mjólkuvörum, fær bólur dreift um líkama.

4. Kvíði og þunglyndi. Áfallasaga

- Hitti sálfræðing nokkrum sinnum á vegum göngudeild sóttvarna eftir komu til landsins. Handtekin í C vegna þáttöku hennar í kosningum og mótmæla. Óttaðist um líf sitt. Kvíði, depurð. Kom með vinkonu hingað til lands. Vinkonu nauðgað hér á landi efitr komu þerira til landsins, lögreglumál, tók mikið á A. A fékk fljótlega eftir það fréttir af því að amma hennar hefði dáið en amma hennar ól hana upp og voru þær nánar. Náði ekki að kveðja hana.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„Stoðkerfisverkir há henni nokkuð. Fær bakverki við hefðbundin hemilisstörf en reynir að sinna öllu, unnusti hjálpar mikið til á heimilinu. Einnig verkir í hnjám og í hálshrygg. Býr í blokk á fjórðu hæð án lyftu. Ef fer í búð þá erfitt að halda á pokum upp stigana nema þeir séu léttir. Best að hafa vörur í bakpoka.

Finnur fyrir mæði þegar hefur gengið upp 3 hæðir. Sjónin hennar er misslæm að sögn, ef hún er þreytt og mikið álag þá sér hún verr. Hún á erfitt með að sitja lengi við tölvuskjá, finnur þá að sjónin versnar og fær óþægindi í augun.

Fær stundum kviðverki um neðanverðan kvið, til skiptist hægðatregða og niðurgangur. Versnar við inntöku á mjólkurvörum og ákveðinni fæðu. Glímt við lystarleysi og finnur fyrir ógleði ef borðar of mikið.

A hefur dregið sig í hlé félagslega, finnur fyrir óöryggi og kvíða. Að sögn áður opin félagslega og tilfinningalega létt. Síðan hún lenti í handtöku í heimalandinu þá hefur hún fundið fyrir kvíða sem háir henni. Óttaðist mjög um líf sitt. Líðan betri eftir að kynntist Íslenskum kærasta, fær stuðning frá honum.Mikill léttir að fá Íslenska kennitölu. Viðkvæm fyrir hljóðum og öllu umhverfisáreiti. Erfitt að vera í margmenni.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„- Almennt: Hávaxin og grönn. Ekki bráðveikindaleg. Gefur góða sögu. Geðslag og geðbrigði neutral.

- Thorax: Hjartahlustun eðl, S1 og S2, heyri ekki óhljóð. Lungnahlustun hrein.

- Kviður: Mjúkur, ekki teljandi þreifieymsli. Eðl skoðun.

- Stoðkerfi: Er áberandi liðug við allar hreyfingar um liði og aukin ROM. Langir mjóir fingur. Engar liðbólgur. Við skoðun á baki er hún með góða ROM en hefur þreifieymsli yfir vöðvum paraspinalt við allan hrygginn, verst við lendhrygg.

- Fær 9 stig á PHQ-9 sem bendir til vægra einkenna þunglyndis. Fær 9 stig á GAD-7 sem bendir til vægra einkenna kvíða.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær að hluta frá 1. janúar 2010 og að ekki megi búast við að færni geti aukist. Í athugasemdum við vinnufærni segir meðal annars:

„Verið óvinnufær að hluta síðan 2010. Treystir sér til þess að vinna við hlutastarf ef finnur starf við hæfi. Vinnumöguleikar hennar hér á landi skerðast að einhverju leyti vegna tungumálaörðugleika. Hún hefur þurft C túlk í viðtölum í heilbrigðiskerfinu. En hún talar þó ágæta ensku og talar ensku við Íslenskan unnusta.“

Í athugasemdum segir í vottorðinu:

„Gamla kennitalan X, þar eru ýmis göng m.a þær rannsóknir sem voru gerðar við komu hennar hingað til lands á Göngudeild sóttvarna, í hjartamiðstöðinni og á Landspítalanum.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hún spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi Marfan heilkenni og Chrons sjúkdóm. Af svörum kæranda verður ráðið varðandi líkamlega færniskerðingu að hún glími við hægðavandamál og eigi í erfiðleikum með sjón. Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki átt við andleg vandamál að stríða.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki farið fram. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi hefur verið metin með 3. stigs örorku í D frá 23. maí 2019 vegna sjónfötlunar frá barnsaldri. Einnig hefur kærandi verið greind með Crohns sjúkdóm, Marfan heilkenni og blandna kvíða- og geðlægðarröskun. Í fyrrgreindu læknisvottorði E, dags. 4. janúar 2023, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær að hluta frá 1. janúar 2010 og að ekki megi búast við að færni aukist.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hvorki verði ráðið af upplýsingum sem fram komi í framangreindu læknisvottorði né af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki hafi verið reynd starfsendurhæfing hér á landi. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um hvaða endurhæfing hafi verið reynd áður en kærandi flutti til Íslands. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2023, um að synja kæranda um örorkumat.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta