Mál nr. 51/2014
Miðvikudaginn 29. október 2014
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 6. febrúar 2014, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að skerða bótagreiðslur til hans vegna ellilífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur notið örorkulífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins frá x. Með bréfi, dags. x, tilkynnir stofnunin kæranda að borist hafi ákvörðun frá Pensions Myndigheten þar sem fram komi að kærandi eigi rétt á mánaðarlegum greiðslum að fjárhæð x SEK. Í bréfinu kemur einnig fram að sænski lífeyririnn hafi sömu áhrif til skerðingar á bætur frá stofnuninni líkt og greiðslur frá íslenskum lífeyrissjóðum. Sama dag sendir stofnunin kæranda greiðsluáætlun fyrir árið x þar sem bótaréttur fyrir árið hefur verið endurreiknaður með hliðsjón af greiðslunum frá Svíþjóð.
Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:
„Þar sem í reglum TR er heimilt að hafa laun allt að 109.000 án til skerðingar komi tel ég með öllu óheimilt af TR að skerða bætur mínar v/eftirlauna frá Svíþjóð því eftirlaun eru laun, líka að áliti TR eins og fram kemur í bréfi frá þeim Hver er munur á launum og eftirlaunum“
Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. x. Greinargerð, dags. x, barst frá stofnuninni þar sem segir svo:
„1. Kæruefni
Kærð er greiðsluáætlun x, dags. x, þar sem fram koma áætlaðar greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda á árinu.
2. Málvextir
Með örorkumati Tryggingastofnunar, dags. x var kæranda ákvarðaður örorkulífeyrir frá x sama ár. Matið er ótímabundið.
Kærandi var búsettur í Svíþjóð frá x til x. Vegna þeirrar búsetu á hann rétt til greiðslna þar í landi sökum aldurs. Þessar greiðslur eru þess eðlis að þær skerða lífeyri kæranda hér landi.
Þrátt fyrir búsetu kæranda erlendis hefur hann náð fullu 100% búsetuhlutfalli hér á landi og eru greiðslur reiknaðar í samræmi við það.
Í kjölfar umsóknar kæranda um greiðslur frá Svíþjóð bárust Tryggingastofnun upplýsingar um réttindi hans þar í landi. Greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda eru nú reiknaðar í samræmi við þær upplýsingar.
3. Lög og reglur
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum (atl.) skal til tekna skv. III. kafla teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja lífeyri, sbr. A-lið 7. gr. laganna.
Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skulu tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta er nánar fjallað um í fyrrgreindri reglugerð.
Norðurlandasamningur um almannatryggingar var samþykktur hér á landi með lögum nr. 66/2004. Nýr Norðulandasamningur var lögfestur með lögum nr. 119/2013 en samningurinn hefur enn ekki öðlast gildi sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.
Um fjárhæðir frítekjumarka almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2014 gildir reglurgerð nr. 1221/2013.
4. Niðurstaða
Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar eru greiðslur kæranda frá Svíþjóð „inkomstpension“ og „tilläggspension“.
Norðurlandasamningur um almannatryggingar sem samþykktur var þann 18. ágúst 2003 og lögfestur hér á landi með lögum nr. 66/2004. Í samningnum er að finna skilgreiningar á annars vegar grunnlífeyri og hins vegar starfstengdum lífeyri, sbr. 4. og 5. tl. 1. mgr. 1. gr.:
„grunnlífeyrir" merkir
almennan lífeyri sem ekki miðast við starfstíma sem lokið er, fyrri atvinnutekjur eða iðgjaldagreiðslur, þar á meðal þann almenna lífeyri eða viðbótarlífeyri sem greiddur er þeim sem fær lítinn eða engan starfstengdan lífeyri,
„starfstengdur lífeyrir" merkir
almennan lífeyri sem fer einungis til þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði samkvæmt innlendri löggjöf,
Pension Myndigheten í Svíþjóð útskýrir Inkomstpension svo:
Inkomstpensionen är en inkomstgrundad pension som baseras på de pensionsrätter du har tjänat in. Hur mycket du får i inkomstpension beror på hur mycket som har betalats in under åren du arbetat och hur inkomstutvecklingen har varit i samhället.
Pension Myndigheten í Svíþjóð útskýrir Tilläggspension svo:
Tilläggspensionen är en inkomstgrundad pension och baseras på de pensionspoäng du fått under de år du har arbetat. Ju fler och högre pensionspoäng du har, desto högre blir din tilläggspension.
Inkomstpension og tillåggspension eru greiðslur byggðar á iðgjöldum og eru háðar því hversu lengi viðkomandi hefur áunnið sér réttindi. Greiðslurnar er því sambærilegrar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi. Um það vísast m.a. í úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 32/2012 frá 3. október 2012.
Samkvæmt j. lið 1. gr. reglugerðar nr. 1221/2013 sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 100/2007 er frítekjumark tekjutryggingar örorkulífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna 328.800 kr. Tekjutengdur lífeyrir kæranda frá Svíþjóð er áætlaður x kr. á árinu x og leiðir þ.a.l. til skerðingar lífeyris hans hér á landi.
Áætlaðar greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda á árinu x eru örorkulífeyrir x kr., aldurstengd örorkuuppbót x kr., tekjutrygging x kr. og uppbót vegna reksturs bifreiðar x kr.
Lífeyrisgreiðslur kæranda eru í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um útreikning og skerðingu greiðslna hér á landi.“
Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda með bréfi, dags. x, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar skerðingu á bótagreiðslum til kæranda vegna ellilífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir að þar sem í reglum Tryggingastofnunar ríkisins sé heimilt að hafa laun allt að 109.000 kr. án þess að til skerðingar komi telji kærandi með öllu óheimilt að skerða bætur hans vegna eftirlauna frá Svíþjóð því eftirlaun séu laun.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar séu greiðslur kæranda frá Svíþjóð „inkomstpension“ og „tilläggspension“. „Inkomstpension“ og „tilläggspension“ séu greiðslur byggðar á iðgjöldum og séu háðar því hversu lengi viðkomandi hafi áunnið sér réttindi. Greiðslurnar er því sambærilegrar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi. Samkvæmt j. lið 1. gr. reglugerðar nr. 1221/2013 sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 100/2007 sé frítekjumark tekjutryggingar örorkulífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna 328.800 kr. Tekjutengdur lífeyrir kæranda frá Svíþjóð sé áætlaður x kr. á árinu x og leiði þ.a.l. til skerðingar lífeyris hans hér á landi.
Samkvæmt bréfi frá Pensions Myndigheten, dags. x, nýtur kærandi ellilífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð, annars vegar „inkomstpension“ og hins vegar „tilläggspension“. Kærandi er ósáttur við að greiðslur sem hann þiggur frá Svíþjóð komi til skerðingar greiðslum frá Tryggingastofnun. Hann telur að sömu frítekjumörk eigi við um þessar ellilífeyristekjur og eiga við um atvinnutekjur.
Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laganna. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. A-lið 7. gr. laganna.
Á grundvelli framangreindra ákvæða skerða greiðslur frá lífeyrissjóðum hér á landi tekjutryggingu örorkulífeyrisþega séu þær umfram ákveðið frítekjumark sem vikið verður að síðar. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skulu tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.
Um „inkomstpension“ og „tilläggspension“ er fjallað í „lag om inkomstgrundad ålderspension“ nr. 1998:674, sbr. 5. og 6. kafla laganna. Pensions Myndigheten útskýrir „inkomstpension“ og „tilläggspension“ með eftirfarandi hætti á grundvelli laganna:
„Inkomstpensionen är en inkomstgrundad pension som baseras på de pensionsrätter du har tjänat in. Hur mycket du får i inkomstpension beror på hur mycket som har betalats in under åren du arbetat och hur inkomstutvecklingen har varit i samhället.“
„Tilläggspensionen är en inkomstgrundad pension och baseras på de pensionspoäng du fått under de år du har arbetat. Ju fler och högre pensionspoäng du har, desto högre blir din tilläggspension.“
Samkvæmt framangreindu eru „inkomstpension“ og „tilläggspension“ greiðslur byggðar á iðgjöldum og eru háðar því hversu lengi viðkomandi hefur áunnið sér réttindi. Greiðslurnar eru því sambærilegar við lífeyrissjóðstekjur hér á landi. Með hliðsjón af 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sæta greiðslurnar því sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og lífeyrissjóðstekjur sem aflað er hér á landi.
Samkvæmt j. lið 1. gr. reglugerðar nr. 1221/2013, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar, er frítekjumark tekjutryggingar örorkulífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna 328.800 kr. fyrir árið x. Samkvæmt fyrrgreindu bréfi frá Pensions Myndigheten, dags. x, eru áætlaðar lífeyrisgreiðslur kæranda frá Svíþjóð x SEK á árinu x. Að því virtu koma greiðslurnar til skerðingar á lífeyri hans frá Tryggingastofnun.
Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótagreiðslur kæranda vegna ellilífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótagreiðslur til A, vegna ellilífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson formaður