Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 52/2014

Miðvikudaginn 25. júní 2014

 A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga barst þann 6. febrúar 2014 kæra A, þar sem kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót á lífeyri vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. janúar 2014, var kæranda synjað um uppbót á lífeyri á þeirri forsendu að tekjur hans væru yfir viðmiðunarmörkum. 

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 7. febrúar 2014, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Nefndinni barst greinargerð, dags. 3. mars 2014, þar sem segir:

 

1. Kæruefni

 

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 17. janúar 2014, um að synja kæranda um uppbót á lífeyri. Ósk um greinargerð Tryggingastofnunar vegna kærunnar barst þann 7. febrúar 2014.

 

2. Málvextir

 

Með umsókn, dags. 7. janúar 2014, sótti kærandi um uppbót á lífeyri vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar.

 

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. janúar 2014 var kæranda synjað um uppbótina á grundvelli þess að hann er með tekjur yfir viðmiðunarmörkum.

 

3. Lög og reglur

 

Í 9. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er að finna heimild til að greiða elli- og örorkulífeyrisþegum uppbót á lífeyri. Þar segir:

Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.

Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir [184.140 kr.] á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir [157.030 kr.] á mánuði.

Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi.Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.

[Tekjumörk vegna sérstakrar uppbótar til framfærslu eru nú 218.515 kr. og 188.313 kr. Aths. S.F.]

 

Í reglugerð nr. 1052/2009 (áður reglugerð nr. 595/1997) um heimilisuppbót og frekari uppbætur, er heimildarákvæði 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð útfært nánar.

 

Í 12. gr. reglugerðarinnar koma fram tekju- og eignamörk varðandi greiðslu uppbótar á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur á annan hátt. Þar segir:

Uppbætur á lífeyri skulu aldrei greiddar til lífeyrisþega sem á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hefur heildartekjur yfir 2.400.000 kr. á.

 

Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar er þannig að finna það skilyrði fyrir greiðslu uppbótar á lífeyri að heildartekjur, þ.e. tekjur að meðtöldum bótum almannatrygginga, séu ekki yfir tilteknum viðmiðunarmörkum.  Við afgreiðslu umsókna er við skoðun á þessu stuðst við nýjustu upplýsingar um tekjur samkvæmt gildandi tekjuáætlun, síðustu skattskýrslu og staðgreiðsluskrá fyrir yfirstandandi ár.

 

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, sbr. rg. nr. 498/2012, er að finna ákvæði um tekjutegundir sem ekki á að taka tillit við útreikning uppbóta skv. reglugerðinni. Þar segir:

Við útreikning uppbóta skv. III. og IV. kafla þessarar reglugerðar skal ekki taka tillit til uppbóta á lífeyri skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og orlofs- og desemberuppbóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá skal við útreikning uppbótar skv. III. kafla ekki taka tillit til aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 21. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar

 

4. Niðurstaða

 

Samkvæmt staðgreiðsluskrá kæranda vegna janúar sl. er hann annars vegar með greiðslur frá Tryggingastofnun x kr. og hins vegar frá lífeyrissjóð x kr. Samtals eru greiðslurnar x kr. Samkvæmt núgildandi greiðsluáætlun og tekjuáætlun er áætlað að greiðslurnar haldist óbreyttar út árið. Til frádráttar kemur aldurstengd örorkuuppbót að fjárhæð x kr. Kærandi fær ekki greidda sérstaka uppbót og koma aðrar tekjur hans að fullu leyti til skoðunar við mat á því hvort heimilt sé að greiða uppbót vegna kostnaðar. Þær greiðslur sem koma til athugunar við mat á því hvort kærandi eigi rétt á uppbót á lífeyri eru x kr. eða x kr. á ársgrundvelli.

 

Viðmiðunarmörk vegna uppbótar á lífeyri vegna kostnaðar eru 2.400.000 kr. eða 200.000 kr. á mánuði sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Heildartekjur kæranda eru yfir þeim mörkum.

 

Heimild til greiðslu uppbótar á lífeyri vegna lyfjakostnaðar er ekki fyrir hendi vegna tekna yfir tekjumörkum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. mars 2014, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um uppbót á lífeyri vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar.

 

Kæru til úrskurðarnefndar fylgdi ekki rökstuðningur.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til gildandi laga- og reglugerðarákvæða og tekið fram að skilyrði fyrir greiðslu uppbótar sé að heildartekjur séu ekki yfir tilteknum viðmiðunarmörkum. Þær greiðslur sem koma til athugunar við mat á því hvort kærandi eigi rétt á uppbót á lífeyri séu x kr. á mánuði eða xkr. á ársgrundvelli. Viðmiðunarmörk vegna uppbótar á lífeyri vegna kostnaðar séu 2.400.000 kr. eða 200.000 kr. á mánuði, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Heildartekjur kæranda séu yfir þeim mörkum og því ekki heimild til greiðslu uppbótar á lífeyri fyrir hendi.

 

Í lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er kveðið á um heimilisuppbót í 8. gr. og frekari uppbætur í 9. gr.  Í 1. mgr. 9. gr. segir:

 

   „Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.“

 

Þá segir í 3. mgr. 9. gr. laganna að til tekna samkvæmt þessu ákvæði teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. metur Tryggingastofnun ríkisins þörf samkvæmt ákvæðinu.

 

Í 5. mgr. 9. gr. laganna segir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. um tekju- og eignamörk. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett reglugerð nr. 1052/2009, sem sætt hefur breytingum með reglugerðum nr. 569/2011, 1231/2011, 498/2012, 1214/2012 og 1214/2013. Áður en 9. gr. var breytt með lögum nr. 120/2009 var þágildandi reglugerð einungis sett með stoð í almennri reglugerðarheimild laganna, sem kvað á um að ráðherra gæti sett frekari ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögunum. Nú er hins vegar komin reglugerðarheimild í 9. greinina sem veitir ráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis um uppbætur á lífeyri, m.a. um tekju- og eignamörk. Með lögum nr. 120/2009 varð einnig sú breyting að nú er tekið fram í lagaákvæðinu að við mat skuli taka tillit til eigna og tekna lífeyrisþega.

 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, með síðari breytingum, er heimilt að greiða uppbót á lífeyri m.a. vegna sjúkra- eða lyfjakostnaðar, sem sjúkratryggingar greiða ekki. Í 12. gr. reglugerðarinnar segir að uppbætur á lífeyri skuli aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hafi heildartekjur yfir 2.400.000 kr. á ári. Þá segir í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar að við útreikning uppbótar samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar, þ.e. m.a. uppbótar vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar, skuli ekki taka tillit til aldurstengdrar örorkuuppbótar.

 

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda í janúar 2014. Samkvæmt þeim var kærandi með x kr. í heildartekjur í janúarmánuði 2014 og x kr. að frádregnum greiðslum vegna aldurstengdar örorkuuppbótar. Kærandi er því yfir tekjumörkum samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2008, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Í 12. gr. reglugerðarinnar  kemur fram að uppbætur skuli aldrei greiddar til lífeyrisþega sem hafi tekjur yfir tekjumörkum. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að ráðherra hefur nú skýra heimild til að kveða á um framangreind tekjumörk í reglugerð, sbr. ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að kærandi eigi ekki rétt á uppbót vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar. Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót á lífeyri vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar er staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A um uppbót á lífeyri vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta