Hoppa yfir valmynd

Nr. 321/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 1. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 321/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070016

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. júlí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bandaríkjanna (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júní 2020, um að synja henni um langtímavegabréfsáritun.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi inn á Schengen svæðið þann 9. janúar 2020 og til Íslands þann 19. janúar 2020. Kærandi sótti um langtímavegabréfsáritun hér á landi þann 14. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júní 2020, var kæranda synjað um langtímavegabréfsáritun. Þann 14. júlí 2020 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Með kærunni bárust athugasemdir og fylgigögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um langtímavegabréfsáritun þegar hún hafi verið stödd hér á landi í ólögmætri dvöl. Með vísan til 21. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, hafi það verið mat stofnunarinnar að ætlun löggjafans hafi ekki verið sú að umsækjendur geti sótt um langtímavegabréfsáritun þegar þeir séu komnir í ólögmæta dvöl. Langtímavegabréfsáritanir séu heimild stjórnvalda til að framlengja lögmæta dvöl útlendinga í beinu framhaldi eftir að fyrri heimild viðkomandi lýkur. Umsókn kæranda um langtímavegabréfsáritun hafi því verið synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru sinni vísar kærandi til þess að eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi legið fyrir hafi hún fengið bréf frá stofnuninni þar sem fram hafi komið að hún hafi heimild til dvalar hér á landi frá 20. mars 2020 til 10. ágúst 2020, sbr. breytingareglugerð nr. 305/2020 á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Hún hafi því ekki dvalið ólöglega hér á landi þegar hún hafi lagt fram umsókn sína um langtímavegabréfsáritun líkt og ákvörðun Útlendingastofnunar byggi á.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um útlendinga má útlendingur sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu ekki dveljast hér á landi lengur en áritun segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt að dveljast hér á landi lengur en í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu má ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Í 2. mgr. kemur svo fram að dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknast frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Fyrir liggur að kærandi er ríkisborgari Bandaríkjanna og þarf því ekki áritun til að dvelja á Schengen-svæðinu í allt að 90 daga.

Í 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga segir að langtímavegabréfsáritun megi veita þegar umsækjandi óskar eftir dvöl umfram 90 daga en tilgangur dvalar sé ekki af ástæðu sem tilgreind sé almennt í dvalarleyfisflokkum og ekki sé ætlun umsækjanda að setjast að í landinu. Vegabréfsáritun samkvæmt ákvæðinu verði ekki veitt til lengri tíma en 180 daga. Þá er nánar fjallað um skilyrði fyrir veitingu langtímavegabréfsáritunar í II. kafla reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um langtímavegabréfsáritun þann 14. maí 2020 eða 123 dögum eftir að hún kom á Schengen-svæðið þann 9. janúar 2020.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júní 2020, kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að kærandi hafi dvalið hér á landi í ólögmætri dvöl þegar umsókn um langtímavegabréfsáritun hafi borist Útlendingastofnun þann 14. maí 2020. Vísaði Útlendingastofnun m.a. til reglugerðar nr. 305/2020, um heimild útlendinga til að dvelja hér á landi m.a. vegna ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins. Stofnunin hafi litið svo á að kærandi hafi ekki haft heimild til að dvelja hér á landi á grundvelli reglugerðarinnar. Með vísan til þess hafi umsókn hennar verið synjað. Þann 6. júlí 2020 barst kæranda hins vegar staðfesting frá Útlendingastofnun á því að henni væri heimil dvöl hér á landi frá 20. mars 2020 til og með 10. ágúst 2020 á grundvelli reglugerðarbreytingar nr. 305/2020 (nú nr. 830/2020) á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Kærunefnd telur að í ljósi bréfs Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 6. júlí 2020, þar sem staðfest var að hún hafi haft heimild til dvalar hér á landi á fyrrnefndu tímabili, séu þær forsendur sem Útlendingastofnun byggði hina kærðu ákvörðun á brostnar. Með tölvupósti, dags. 3. september 2020, óskaði kærunefnd því eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun varðandi þetta misræmi. Í svari frá stofnuninni, dags. 7. september 2020, kom fram að eftir að ákvörðunin í málinu var birt kæranda hafi sú ákvörðun verið tekin í samráði við önnur stjórnvöld að heimildin í reglugerðinni tæki til allra útlendinga sem uppfylltu önnur skilyrði ákvæðisins.

Þar sem nú liggur fyrir önnur afstaða Útlendingastofnunar til lögmætis dvalar kæranda hér á landi telur kærunefnd rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til Útlendingastofnunar til meðferðar að nýju þar sem lagt verði mat á hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu langtímavegabréfsáritunar. Þá bendir kærunefnd á að í ákvæðum laga um útlendinga og reglugerð um útlendinga er ekki að finna ákvæði sem setur það skilyrði að umsækjandi um langtímavegabréfsáritun þurfi að vera staddur hér á landi í lögmætri dvöl er hann leggur fram umsókn sína líkt og kveðið er á um í ákvörðun Útlendingastofnunar. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til meðferðar að nýju.

Í ljósi þess að forsendur hinnar kærðu ákvörðunar voru augljóslega brostnar hefði verið eðlilegt að Útlendingastofnun afturkallaði ákvörðun sína.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants case.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                              Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta