Hoppa yfir valmynd

Nr. 203/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 25. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 203/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22040030 og KNU22040031

Kærur […] og […]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. apríl 2022 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Vensúela (hér eftir M) og […], fd. […], ríkisborgari Venesúela (hér eftir K), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 4. apríl 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Þess er krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd verði teknar til efnismeðferðar hér á landi aðallega með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 37. gr. laganna, til vara með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga útlendinga og til þrautavara með vísan til 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna. Loks er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að mál þeirra verði endurupptekin á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 26. september 2021. Með umsóknum framvísuðu kærendur vegabréfum sínum frá Venesúela. Auk þess framvísuðu kærendur dvalaleyfisskírteinum útgefnum af yfirvöldum í Síle með gildistíma til 7. október 2022. Í kjölfar frásagnar kærenda í viðtölum hjá Útlendingastofnun af dvöl þeirra og stöðu í Síle sendi fulltrúi Útlendingastofnunar fyrirspurn á sendiráð Síle í Osló um stöðu kærenda þar í landi. Hinn 28. október 2021 barst svar frá sendiráði Síle í Osló þar sem fram kom að kærendur væru með gilda dvalarheimild þar í landi og að þeim væri heimilt að ferðast þangað. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. hinn 2. mars 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað hinn 4. apríl 2022 að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum hinn 5. apríl 2022 og kærðu þau ákvarðanirnar hinn 19. apríl 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 3. maí 2022 ásamt fylgiskjölum.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur séu handhafar gildra dvalarleyfa í Síle og að á grundvelli þeirra geti þau ferðast aftur þangað. Þá sé raunhæft og sanngjarnt fyrir kærendur að snúa aftur til Síle og óska eftir réttarstöðu flóttamanna þar í landi auk þess sem ekkert bendi til þess að kærendur eigi á hættu að sæta ofsóknum í Síle í skilningi laga um útlendinga. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Síle ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Síle.

IV.      Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð sinni greina kærendur frá því að M hafi neyðst til þess að flýja heimaríki árið 2017 þar sem honum hafi stafað ógn af hálfu yfirvalda í kjölfar þess að hann hafi yfirgefið herinn þar í landi án leyfis og tekið þátt í mótmælum gegn mannréttindabrotum yfirvalda. M hafi flúið til K sem hafi verið stödd í Ekvador en hún hafi ferðast þangað hið sama ár til þess að vinna. Þau hafi síðan neyðst til þess að flýja Ekvador þar sem þau hafi grunað að einstaklingar á vegum yfirvalda í heimaríki þeirra væru að fylgjast með þeim í Ekvador og hefðu í hyggju að handsama M. Þá hafi K einnig verið nauðgað af yfirmanni sínum í Ekvador. Kærendur hafi flúið til Síle þar sem þau hafi dvalið í tæplega þrjú ár. Þau hafi fengið vinnu og útgefið atvinnuleyfi á grundvelli þess. Vinnan hafi verið erfið og yfirmaður þeirra hafi ekki tryggt þeim grunnréttindi sem lög kveði á um. Í Síle hafi þau lifað við sára fátækt og upplifað mikla fordóma vegna þjóðernis síns. M hafi m.a. orðið fyrir árás þegar járnvír hafi verið kastað í hann þegar hann hafi verið á reiðhjóli sínu. Þá hafi þau ekki verið sjúkratryggð og K hafi því ekki getað fengið heilbrigðisþjónustu þar sem hún hafi ekki getað greitt fyrir hana þegar hún hafi lamast á annarri hlið andlits hennar. K hafi seinna þurft að segja upp vinnu sinni vegna heilbrigðisástand síns. Í kjölfar árásarinnar hafi þau verið á stöðugum flótta þar í landi vegna hræðslu við frekari árásir og ofsóknir. Á þeim tíma hafi K m.a. reynt að fyrirfara sér. M hafi sagt upp vinnu sinni og eftir það hafi kærendur unnið ólöglega í landinu. Kærendur hafi áttað sig á því að þau yrðu hvergi óhult í Suður-Ameríku og því hafi þau flúið til Íslands. Í greinargerð kemur fram að K hafi hitt sálfræðing hér á landi sem telji að K hafi alvarleg einkenni þunglyndis og áfallastreituröskunar.

Í greinargerð kærenda er umfjöllun um stöðu einstaklinga frá Venesúela í Síle en samkvæmt umfjöllun þar og öðrum gögnum málsins fylgja yfirvöld í Síle ekki samningsskyldum sínum samkvæmt Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og þau fylgi ekki eftir banni við endursendingum einstaklinga til landa þar sem lífi þeirra og frelsi kann að vera ógnað. Enn fremur tíðkist handahófskenndar synjanir við landamæri og synjanir á umsóknum um alþjóðlega vernd án rökstuðnings auk þess sem yfirvöld í Síle hafi aðeins veitt 17 einstaklingum frá heimaríki kærenda alþjóðlega vernd í apríl 2021, þrátt fyrir að þúsundir hafi sótt um slíka vernd. Þá séu miklir fordómar í garð útlendinga í Síle.

Kærendur byggja aðalkröfu sína á því að taka skuli umsóknir þeirra til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 37. gr. laganna. Vísa kærendur til þess þau hafi ekki gilt dvalarleyfi í Síle þar sem upphaflegur ráðningarsamningur þeirra sé ekki í gildi þar og þeim sé því óheimilt að ferðast þangað. Þá hafi kærendur mátt sæta ofsóknum þar í landi líkt og frásögn þeirra og framlögð gögn sýni fram á. Þar sem kærendur hafi ekki sótt um alþjóðlega vernd í Síle þá séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga heldur ekki uppfyllt þar sem ákvæðið geri kröfu um að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi þegar sótt um alþjóðlega vernd í því viðtökuríki sem um ræðir.

Varakröfu sína byggja kærendur á því að sérstakar ástæður séu uppi í máli þeirra sem skyldi stjórnvöld hér á landi til að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Byggja kærendur kröfu sína á þeim atburðum sem þau hafi upplifað á flótta þeirra og andlegra vanlíðanar K. Vísast til framangreindrar umfjöllunar hvað umrædd atriði varðar.

Þrautavarakröfu sína byggja kærendur á því að með endursendingu þeirra til viðtökuríkis myndu íslensk stjórnvöld gerast brotleg gegn 42. gr. laga um útlendinga um bann við endursendingu þangað sem líf fólks eða frelsi kunni að vera í hættu. Til stuðnings umræddri málskröfu vísa kærendur til frásagnar sinnar um þá atburði sem þau hafi mátt þola, m.a. árásarinnar gegn M. Þá sé K komin að andlegum þolmörkum og því rík ástæða til að óttast um líf og heilsu K verði henni gert að snúa aftur til Síle.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kærenda

Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur par á þrítugsaldri sem eru stödd hér á landi. Við meðferð málsins hefur M greint frá því að hafa lagt á flótta frá heimaríki árið 2017 og hitt K í Ekvador þar sem hún hafi verið í vinnu. Þau hafi síðan ferðast til Síle árið 2018 vegna ótta við að vera veitt eftirför í Ekvador og dvalið þar til ársins 2021. Kærendur lögðu fram afrit af dvalarleyfum frá Síle hér á landi með gildistíma til 7. október 2022. Samkvæmt upplýsingum frá síleskum yfirvöldum er kærendum heimilt að ferðast til Síle á grundvelli umræddra dvalarleyfa að því gefnu að ráðningarsamningur sé til staðar. Kærendur greindu einnig frá því að umrædd dvalarleyfi væru skilyrt því að þau væru með gildan ráðningarsamning í Síle. Þar sem þau hefðu bæði sagt upp atvinnu sinni þar í landi, hefðu þau ekki heimild til þess að ferðast aftur þangað. M lagði fram skjal sem hann kveður vera staðfestingu á starfslokum hjá fyrirtækinu sem hann hafi starfað hjá í Síle en skjalið er vottað af lögbókanda. Þá hafi kærendur ekki lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd þar í landi. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur m.a. frá því að þau hafi yfirgefið Síle vegna árásar sem M hafi orðið fyrir og mismununar en þau eigi erfitt með að finna atvinnu og fá aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi. K og M hafi unnið hjá tilteknu fyrirtæki en þar hafi réttindi þeirra ekki verið virt. Viðtöl kærenda hjá Útlendingastofnun og gögn málsins bera með sér að þau séu almennt heilbrigð en K hefur notið þjónustu sálfræðings hér á landi þar sem hún hafi greint frá því að vera þolandi kynferðisofbeldis.

Aðstæður í Síle

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Síle, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Chile (United States Department of State, 12. apríl 2022);
  • Amnesty International Report 2021/22: The State of the World‘s Human Rights (Amnesty International, 29. mars 2022);
  • Cartagena Declaration on Refugees (UNHCR, ódagsett);
  • Chile 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 3. október 2020);
  • Chile anti-migrant protesters destroy camps in tense north (reuters, 30. janúar 2022);
  • Chilean protests against Venezuelan migrants (bbc.com, 31. janúar 2022);
  • Fact Sheet: Chile (UNHCR, mars 2021);
  • Fact Sheet: Chile (UNHCR, ágúst 2019);
  • Freedom in the World 2022 – Chile (Freedom House, 24. febrúar 2022);
  • Guidelines on International Protection No. 12: Claims for refugee status related to situations of armed conflict and violence undir Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relation to the Status of Refugees and the regional refugee definitions (UNHCR, 2. desember 2016);
  • Health in the Americas+. Summary: Regional Outlook and Country Profiles (Pan American Health Organization, uppfært 12. desember 2017);
  • International Migration Outlook 2020 (OECD, 19. október 2020);
  • Profile of the Health Service System: Chile (World Health Organization, ódagsett);
  • Rights and obligations of permanent residents; instances under which permanent residence is lost (Immigration and Refugee Board of Canada, 25. janúar 2017);
  • Social protection and Venezuelan migration (International Organization for Migration, ódagsett 2021);
  • Socioeconomic Integration of Venezuelan Migrants and Refugees (International Organization for Migration, júlí 2021);
  • Summary Conclusions on the interpretation of the extended refugee definition in the 1984 Cartagena Declaration (UNHCR, 7. júlí 2021);
  • „They yell ugly things“: Migrants in Chile‘s north fearful after fiery protests (reuters.com, 27. september 2021);
  • Upplýsingar af vefsíðu Mannréttindastofnunar Síle (www.indh.cl, sótt 25. maí 2022);
  • Upplýsingar af vefsíðu ráðuneytis innflytjendamála í Síle (www.extranjeria.gob.cl., sótt 25. maí 2022);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 25. maí 2022);
  • Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 25. maí 2022) og
  • World Report 2021 (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Á framangreindri vefsíðu ráðuneytis innflytjendamála í Síle kemur fram að einstaklingar geti verið handhafar tímabundins eða ótímabundins dvalarleyfis þar í landi. Tímabundið dvalarleyfi gildi í eitt ár og að hægt sé að framlengja það einu sinni en að því loknu þurfi handhafi dvalarleyfis að óska eftir ótímabundnu dvalarleyfi hjá Innanríkis- og almannaöryggisráðuneyti Síle. Þá kemur fram að umsækjandi sem hafi fengið synjun á umsókn sinni geti beðið ráðuneytið um endurskoðun á ákvörðuninni auk þess sem að tryggt sé í lögum að hann geti borið lögmæti ákvörðunarinnar undir þar til bæra aðila. Einstaklingar sem séu með gilt dvalarleyfi í Síle og hafi haft búsetu þar í landi í fimm ár geti sótt um ríkisborgararétt þar í landi.

Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022 er kveðið á um veitingu alþjóðlegrar verndar eða stöðu flóttamanns í lögum í Síle auk þess sem að stjórnvöld hafi komið á fót kerfi til að veita flóttamönnum vernd, þ. á m. aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Síle sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og þá kemur fram í framangreindri samantekt og leiðbeiningum UN High Commissioner for Refugees (UNHCR) að Síle sé aðili að Cartagena yfirlýsingunni sem sé samkomulag milli ríkja í Suður-Ameríku sem varði málefni flóttamanna. Orðalag yfirlýsingarinnar bendi til þess að skilgreining hennar á flóttamannahugtakinu sé rýmri en t.a.m. í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og geti þannig tekið til einstaklinga sem séu í þörf fyrir alþjóðlega vernd en falli ef til vill ekki undir skilgreiningu flóttamannasamningsins á hugtakinu. Sú skilgreining á hugtakinu flóttamaður sem fyrirfinnst í Cartagena yfirlýsingunni hafi verið innleidd í löggjöf ýmissa ríkja Suður-Ameríku, þ. á m. Síle. Þá árétti yfirlýsingin m.a. grundvallarregluna um bann við endursendingum og rétt einstaklinga til alþjóðlegrar verndar.

Samkvæmt framangreindum skýrslum World Health Organization og Pan American Health Organization er öllum tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu í stjórnarskrá Síle óháð því hvort viðkomandi sé með ríkisborgararétt. Heilbrigðiskerfi Síle samanstandi af opinberu og einkareknu kerfi. Ríkisborgarar Síle og þeir sem hafi heimild til löglegrar dvalar þar í landi hafi aðgang að endurgjaldslausri og niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu í gegnum ríkisrekið sjúkratryggingakerfi. Þá kemur fram í framangreindri skýrslu International Organization for Migration (IOM) að allir innflytjendur og flóttamenn hafi aðgang að heilbrigðiskerfi Síle þótt þau geti mætt ákveðnum hindrunum við að nýta sér þá þjónustu.

Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins er jafnræði og bann við mismunun verndað af stjórnarskrá Síle. Árið 2020 hafi verið dæmi þess að minnihlutahópar yrðu fyrir mismunun í heilbrigðis- og menntakerfinu en stjórnvöld hafi komið á fót þjálfunaráætlun fyrir opinbera starfsmenn í því skyni að aðstoða innflytjendur og auka aðgang að túlkaþjónustu hjá hinu opinbera. Í framangreindri skýrslu IOM frá árinu 2021 um félagslega stöðu ríkisborgara Venesúela í völdum löndum Suður-Ameríku kemur fram að innflytjendur frá Venesúela hafi upplifað mismunun. Af skýrslunni má sjá að útlendingaandúð í Síle hafi lengst af beinst gegn einstaklingum frá Haítí. Samkvæmt rannsókn á efni á samfélagsmiðlinum Twitter hafi 63% tilvika mismununar beinst gegn einstaklingum frá Haítí þrátt fyrir að hlutfall innflytjenda í Síle sem séu frá Venesúela sé mun hærra en frá Haítí. Þá sýni rannsókn frá árunum 2018-2019 að tveir þriðju íbúa Síle hafi talið að stjórnvöld ættu að veita innflytjendum og flóttamönnum frá Venesúela heilbrigðisaðstoð, menntun og húsnæði. Þá sýni rannsókn frá árinu 2021 að 84% íbúa Síle styðji það að innflytjendur og flóttamenn frá Síle hafi jafnan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Þá er starfrækt sjálfstæð mannréttindastofnun (s. Instituto Nacional De Derechos Humanos) sem hefur það að markmiði að efla og vernda mannréttindi allra þeirra sem eru búsettir í Síle. Samkvæmt þeim fréttum sem kærunefnd hefur kynnt sér, s.s. af fréttamiðlunum Reuters og BBC, hafa mótmæli gegn innflytjendum frá Venesúela aukist nýlega en sem dæmi má nefna að í september 2021 og janúar 2022 áttu sér stað fjölmenn mótmæli í Iquique í Norður-Síle sem beindust gegn innflytjendum frá Venesúela.

Samkvæmt framangreindum heimildum, s.s. skýrslum Freedom House, Amnesty International og Human Rights Watch, frá árinu 2022 hafa stjórnvöld í Síle verið gagnrýnd fyrir brottvísanir frá landinu og framkvæmd þeirra. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa stjórnvöld í Síle gefið út að þeim einstaklingum sem komi með ólöglegum hætti inn á yfirráðasvæði Síle eða hafi gerst sekir um lögbrot kunni að vera brottvísað frá landinu. Brottvísunarmál komu til kasta dómstóla í Síle um mitt ár 2021 þegar Hæstiréttur Síle og áfrýjunardómstólar þar í landi stöðvuðu brottvísanir einstaklinga frá m.a. Venesúela. Niðurstöður dómstóla hafa leitt í ljós tilteknar brotalamir á réttlátri málsmeðferð við meðferð brottvísunarmála í Síle. Þá má sjá af fréttatilkynningu frá Inter-America Commission on Human Rights, dags. 29. nóvember 2021, að nefndin hafi lýst yfir áhyggjum af brottvísunum einstaklinga í Síle.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2021 kemur m.a. fram að öryggislögreglan (s. Carabineros) ásamt rannsóknarlögreglunni beri ábyrgð á löggæslu, m.a. landamæraeftirliti og almannaöryggi. Þá hafi innanríkis- og almannaöryggisráðuneytið yfirumsjón með báðum stofnunum. Þó kemur fram í skýrslunni að löggæsluyfirvöld séu treg til að nota úrræði í lögum sem banni mismunun, þ.m.t. að gefa út ákærur vegna hatursglæpa. Samkvæmt skýrslu OSAC er öryggislögreglan ein fagmannlegasta og best þjálfaða lögreglusveit rómönsku Ameríku ásamt því að vera ein af þeim minnst spilltu. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House frá árinu 2022 að friðsælum mótmælum hafi fjölgað í Síle árið 2019 þegar almenningur hafi mótmælt stjórnvöldum og samfélagslegum ójöfnuði. Enn eigi sér stað mótmæli en bæði borgaralegt ofbeldi og kúgun lögreglu hafi minnkað verulega frá árinu 2019.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-lið ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Við túlkun lagaákvæðisins ber að líta til þess að heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er undantekning frá meginreglunni um að allar umsóknir skuli teknar til efnismeðferðar sem beri að túlka þröngt.

Í athugasemdum við 36. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga segir að í a-lið 1. mgr. 36. gr. laganna sé um að ræða regluna um fyrsta griðland (e. country of first asylum). Vísað er til athugasemda í frumvarpi því sem varð að þágildandi lögum um útlendinga nr. 96/2002 þar sem kveðið sé á um að með ákvæðinu sé miðað við að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og veitt getur honum vernd. Í því frumvarpi segir enn fremur í athugasemdum við c-lið 1. mgr. 46. gr. laganna, sem er, að því leyti sem máli skiptir, sambærilegur a-lið 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga um útlendinga, að í umræddu ákvæði sé kveðið á um regluna um fyrsta griðland. Samkvæmt þeirri reglu skuli umsókn um alþjóðlega vernd afgreidd í fyrsta ríki sem flóttamaður kemur til og veitt getur honum vernd. Reglunni sé ætlað að varna því að flóttamenn verði sendir frá einu ríki til annars án þess að mál þeirra fái viðeigandi meðferð. Miðað sé við að útlendingur hafi átt færi á að koma umsókn um alþjóðlega vernd á framfæri við stjórnvöld í ríkinu og að í því sambandi sé nægjanlegt að hlutaðeigandi hafi átt þar mjög stutta dvöl, til dæmis farið um vegabréfaeftirlit á flugvelli. Í athugasemdum er vísað til þess að þessari reglu sé beitt með einum eða öðrum hætti í flestum löndum og komi m.a. fram í Schengen- og Dyflinnarsamningnum. Þá kemur fram í athugasemdum að forsenda þess að reglu þessari sé beitt sé að hlutaðeigandi ríki samþykki að taka við útlendingum.

Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skulu íslensk stjórnvöld við framkvæmd ákvæða III. og IV. kafla laganna eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, um túlkun samningsins og laga um útlendinga. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sett fram tiltekin viðmið er varðar beitingu reglunnar um fyrsta griðland. Að mati stofnunarinnar verður að líta til þess hvort grundvallarmannréttindi umsækjanda verði virt í þriðja ríki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og hvort að raunhæf vernd sé veitt gegn því að einstaklingum sé brottvísað þangað sem lífi þeirra eða frelsi kunni að vera stefnt í hættu (non-refoulement) eða þar sem hætta er á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá sé rétt að líta til aðstæðna í viðtökuríki, s.s. með hliðsjón af einstaklingsbundinni stöðu viðkomandi og möguleika hans á að sjá sér farborða. Þá er beiting reglunnar háð því skilyrði að þriðja ríki taki við umsækjanda.

Hinn 4. apríl 2022 tók Útlendingastofnun ákvörðun í málum kærenda þar sem m.a. var fjallað um skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og hvernig þau horfðu við stöðu þeirra. Í ákvörðunum kærenda kemur fram að kærendur hafi dvalið í Síle í tvö og hálft ár en kærendur hafi dvalarleyfi þar í landi sem séu í gildi. Af gögnum málsins má sjá að Útlendingastofnun hafi óskað eftir upplýsingum frá stjórnvöldum í Síle þar sem spurt hafi verið hver staða kærenda væri þar í landi og hvort þau gætu snúið aftur þangað. Hinn 28. október 2021 barst Útlendingastofnun svar við fyrirspurninni þar sem m.a. kemur fram að kærendur hafi fengið útgefin dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku þar í landi sem hafi gildistíma til 7. október 2022. Í svarinu kemur einnig fram að dvalarleyfið sé skilyrt því að ráðningarsamningur sé til staðar. Á grundvelli þessara upplýsinga hafi það verið mat Útlendingastofnunar að raunhæft og sanngjarnt sé að kærendur ferðist aftur til Síle á grundvelli dvalarleyfa vegna atvinnuþátttöku sem séu enn í gildi.

Líkt og rakið hefur verið er beiting a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga háð því skilyrði að þriðja ríkið sem í hlut á samþykki að taka aftur við umsækjanda um alþjóðlega vernd. Kærunefnd er sammála því mati Útlendingastofnunar að af orðalagi ákvæðisins og lögskýringagagna verði ekki dregin sú ályktun að liggja þurfi fyrir samþykki viðkomandi þriðja ríkis svo til greina komi að beita ákvæðinu. Á það t.d. við í þeim tilvikum þar sem umsækjandi er með gilt dvalarleyfi í þriðja ríki enda feli það í sér heimild til að snúa aftur. Þeirri aðstöðu verður hins vegar ekki jafnað saman við það þegar dvalarleyfi er útrunnið enda er þá ekki hægt að ganga út frá því að viðkomandi verði heimiluð koma eða dvöl í ríkinu. Þurfi viðkomandi að sækja um heimild til komu í formi áritunar eða dvalarleyfis verður að mati kærunefndar að gera ríkari kröfur til stjórnvalda vegna rannsóknar og undirbúnings slíkra ákvarðana. Þarf þá að liggja fyrir samþykki stjórnvalda í viðkomandi ríki um að tilteknum umsækjanda verði heimiluð endurkoma óháð stöðu dvalarleyfis, eða einhvers konar almennt samkomulag milli Íslands og þess þriðja ríkis sem í hlut á, er tryggir að einstaklingum í þessari stöðu verði heimiluð endurkoma. Að mati kærunefndar er heimild umsækjanda um alþjóðlega vernd til að snúa til baka til þriðja ríkis forsenda þess að hann geti lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í viðkomandi ríki.

Eins og hér háttar til liggur fyrir svar stjórnvalda í Síle um möguleika kærenda á að snúa aftur til Síle á grundvelli dvalarleyfa vegna atvinnuþátttöku sem séu í gildi til 7. október 2022. Líkt og að framan greinir er ráðningarsamningur grundvöllur umræddra dvalarleyfa. Kærendur hafa lagt fram gögn sem þau kveða að sýni a.m.k. fram á að ráðningarsamningur M sé ekki lengur í gildi þar sem hann hafi sagt upp atvinnu sinni í Síle. Þá kveðst K einnig hafa sagt upp atvinnu sinni. Kærendur hafa einnig lagt fram upplýsingar sem þau kveði að sýni fram á að sé ráðningarsamningur ekki lengur í gildi þá falli dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku samhliða úr gildi. Ljóst er af ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki hafi verið tekin afstaða til gagnanna sem M kveði að sýni fram á slit á ráðningarsambandi hans við fyrrum atvinnurekanda sem hafi jafnframt við grundvöllur dvalarleyfis hans. Að mati kærunefndar var fullt tilefni til þess að hafa umrædd gögn meðfylgjandi í upplýsingabeiðni stofnunarinnar til síleskra yfirvalda og óska eftir afstöðu þeirra. Telur kærunefnd því að svar síleskra yfirvalda, þess efnis að kærendum sé heimilt að ferðast aftur til Síle á grundvelli dvalarleyfanna sem þau hafi fengið útgefin, sé ekki fullnægjandi grundvöllur fyrir því að telja að kærendum sé heimilt að ferðast aftur til Síle þar sem umrætt svar hafi byggst á ófullnægjandi gögnum í málum kærenda. Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga er það mat kærunefndar að málið þarfnist frekari rannsóknar að því er varðar mögulega endurkomu kærenda til Síle. Þar sem kærunefnd getur ekki bætt úr þeirri rannsókn er málinu vísað aftur til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kærenda.

Leiðbeiningar til talsmanns kærenda

Í greinargerð kærenda byggir þrautaþrautavarakröfu þeirra á því að kærunefnd beri að endurupptaka hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd tekur fram að eðli málsins samkvæmt getur kærunefnd ekki endurupptekið ákvarðanir lægra setts stjórnvalds. Kærunefnd útlendingamála getur aðeins endurupptekið mál sem nefndin hefur úrskurðað í. Því er talsmanni kærenda leiðbeint um að beina beiðni um endurupptöku á ákvörðunum Útlendingastofnunar til stofnunarinnar hafi kærunefnd ekki tekið efnislega afstöðu í málum með úrskurði.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.

Þorsteinn Gunnarsson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta