Hoppa yfir valmynd

Nr. 335/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 335/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070049

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...] og barna hennar

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU22050013, dags. 23. júní 2022, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 22. apríl 2022, um að taka umsóknir einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir kærandi), og barna hennar [...], fd. [...], [...], fd. [...], [...], fd. [...] og [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 27. júní 2022. Hinn 4. júlí 2022 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku og frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 28. júlí 2022, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað. Hinn 11. júlí 2022 barst kærunefnd rökstuðningur kæranda vegna beiðni hennar um endurupptöku. Þá lagði lögráða sonur kæranda einnig fram beiðni um endurupptöku á úrskurði sínum og voru mál þeirra unnin samhliða. Fjallað er um beiðni hans í úrskurði kærunefndar nr. 336/2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar er reist á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í beiðni kæranda er vísað til þess að kærunefnd útlendingamála hafi virt að vettugi álit ráðherra dómsmála um endursendingar barnafjölskyldna til Grikklands. Kærunefnd hafi verið skylt að rökstyðja hvers vegna nefndin ætti ekki að fylgja skýrum orðum ráðherrans. Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 6/2022 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fari dómsmálaráðuneytið með málefni útlendinga. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands fari ráðherra dómsmála því með yfirstjórn stjórnvalda sem heyri undir hans málefnasvið. Ráðherra hafi þá víðtæka heimild til þess að láta í té óbindandi álit sem þýðingu geti haft til leiðbeiningar fyrir stjórnarframkvæmd á málefnasviði hans, sbr. 3. mgr. 12. gr. sömu laga. Ráðherra hafi með öðrum orðum afar rúma heimild til þess að marka stefnu á þeim málefnasviðum sem undir hann heyra.

    Dómsmálaráðherra hafi markað mjög skýra stefnu þegar komi að mögulegum endursendingum barnafjölskyldna til Grikklands og lýst áliti sínu á þeim. Samkvæmt frétt á vef Morgunblaðsins, dags. 27. maí 2022, hafi dómsmálaráðherra lýst því yfir að fjölskyldur yrðu ekki sendar til Grikklands, það hafi aldrei staðið til. Jafnvel þó ráðherra hafi bætt því við að einhverjar þeirra fjölskyldna sem hafi þá beðið eftir brottflutningi til Grikklands myndu fljótlega falla undir tímamark 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sé greinilegt að þarna hafi hann látið í ljós skýrt álit í skilningi 3. mgr. 12. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Íslensk stjórnvöld hafi hingað til ekki hikað við að framkvæma brottflutning einstaklinga sem hafi aðeins átt einn dag í nefnt tímamark en samkvæmt orðum ráðherrans hafi það hins vegar aldrei staðið til að senda fjölskyldur til Grikklands. Jafnvel þó kærunefnd útlendingamála kunni að vera óbundin af þessu áliti ráðherrans, vegna eðlis nefndarinnar, þá beri henni að mati kæranda að rökstyðja þá niðurstöðu að hún þurfi ekki að fylgja því. Í því sambandi telji kærandi að nefndin hafi þurft að meta áhrif álits dómsmálaráðherra við túlkun á sérstökum ástæðum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og jafnframt við frávísun þeirra frá Íslandi og eftir atvikum að veita þeim bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt 77. gr. laga um útlendinga.

    Í ljósi framangreinds byggir kærandi á því að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir á því að af þeim ástæðum beri kærunefnd að taka umsóknir hennar og barna hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna eða, fallist kærunefnd ekki á það, ákvarða þeim ekki frávísun frá landinu og veita þeim bráðbirgðadvalarleyfi samkvæmt 77. gr. laga um útlendinga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar 23. júní 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærandi og börn hennar hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að samkvæmt frétt á vef Morgunblaðsins, dags. 27. maí 2022, hafi dómsmálaráðherra lýst því yfir að fjölskyldur yrðu ekki sendar til Grikklands, það hafi aldrei staðið til. Með því hafi hann látið í té óbindandi álit sem þýðingu geti haft til leiðbeiningar fyrir stjórnarframkvæmd á málefnasviði hans, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Telur kærandi með vísan til fréttagreinarinnar að úrskurður kærunefndar hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga er kærunefnd sjálfstæð stjórnsýslunefnd en lög um útlendinga eru sérlög og ganga því framar ákvæðum almennra laga. Af athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga er skýrt að ráðherra getur ekki gefið nefndinni fyrirmæli um, haft bein afskipti af eða önnur áhrif á málsmeðferð eða úrlausnir einstakra mála fyrir nefndinni. Ráðherra getur einungis haft áhrif á störf nefndarinnar á grundvelli viðurkenndra réttarheimilda, þ.e. laga eða reglugerða. Ummæli ráðherra í opinberri umræðu teljast ekki réttarheimild og stefnumótun stjórnvalda verður að endurspeglast í viðeigandi réttarheimildum svo á henni verði byggt fyrir nefndinni. Kærunefnd bendir á að tafir á frávísunum einstaklinga hafa ekki áhrif á efnislega niðurstöðu nefndarinnar í öðrum málum.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 23. júní 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki fallist á að nefndinni hafi borið að eigin frumkvæði að rökstyðja það sérstaklega í þeim úrskurði hvaða þýðingu ummæli ráðherra í opinberri umræðu hefðu fyrir málsmeðferð eða niðurstöðu.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku málsins því hafnað.

Kærunefnd leiðbeinir kæranda og börnum hennar um að telji þau sig uppfylla skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðadvalarleyfis hér á landi, sbr. 77. gr. laga um útlendinga, geti þau lagt fram umsókn þess efnis til Útlendingastofnunar. Með þessum leiðbeiningum er kærunefnd þó ekki að taka afstöðu til þess hvernig slík umsókn verði afgreidd.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                       Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta