Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 65/2013

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 65/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 30. maí 2013 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði/atvinnuviðtali hjá leikskólanum B. Vegna höfnunarinnar var tekin sú ákvörðun að stöðva bótarétt kæranda og að hún ætti ekki tilkall til atvinnuleysisbóta fyrr en hún uppfyllti skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr., sbr. 5. mgr., 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 17. júní 2013. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 3. september 2010.

 

Kærandi var boðuð í atvinnuviðtal hjá leikskólanum B í maí 2013. Í kjölfarið bárust upplýsingar frá leikskólanum um að kærandi hafi ekki verið tilbúin að taka starfi þar.

 

Með bréfi, dags. 24. maí 2013, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á umræddu atvinnuviðtali. Var kæranda veittur frestur í sjö virka daga til að koma að athugasemdum. Tölvupóstur barst frá kæranda 27. maí 2013 þar sem hún gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þar segir meðal annars að hún og yfirmaður B hafi verið sammála um að þetta væri starf sem hún gæti ekki sinnt lengur en í einhvern stuttan tíma þar sem starfið snúist um umönnun. Kærandi kveðst hafa verið skólaliði og unnið við umönnun aldraðra. Andlega hlið hennar hafi verið þannig í lokin að hún hafi ekki getað meira.

 

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 30. maí 2013. Með bréfi, dags. 5. júní 2013, tilkynnti stofnunin kæranda um hina kærðu ákvörðun.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hún sé ósátt við verklag Vinnumálastofnunar og finnist á sér brotið. Ósættið sé byggt á þeim forsendum að í fyrsta lagi liggi fyrir læknisvottorð hjá Vinnumálastofnun þess efnis að hún sé vanhæf til að gegna umönnunarstörfum með börnum og því hefði verið sjálfgefið að bjóða henni ekki slíkt starf. Í öðru lagi sé ekki rétt að hún hafi neitað starfinu heldur hafi hún greint þeim er hringdi frá vanlíðan sinni í fyrra starfi og að hún myndi koma til vinnu ef vinnuveitandinn óskaði þess.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. ágúst 2013, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að 1. mgr. eigi jafnt við um þann sem hafni starfi og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinnir ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga er að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Ljóst sé að kærandi hafi ekki verið tilbúin að taka starfi hjá leikskólanum B. Í skýringarbréfi kæranda til stofnunarinnar, dags. 27. maí 2013, segi að hún geti ekki sinnt störfum á leikskóla sökum fyrri reynslu hennar af umönnunarstörfum og sem skólaliði. Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar segi hún jafnframt að Vinnumálastofnun hafi undir höndum læknisvottorð þess efnis að hún sé ófær um að vinna umönnunarstörf.

 

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta í september 2010 í kjölfar þess að hún sagði upp starfi sínu hjá C. Með umsókn sinni um atvinnuleysisbætur hafi fylgt læknisvottorð, dags. 1. september 2010, þar sem fram komi að kærandi hafi þurft að segja starfi sínu lausu sökum heilsufarsástæðna.

 

Við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið leitað eftir starfshæfnisvottorði sem barst stofnuninni 27. september 2010. Í vottorðinu komi fram að kærandi hafi fengið síendurteknar sýkingar á fyrri vinnustað en hafi náð bata eftir að hún hætti störfum. Þá segi í vottorðinu að kærandi sé tilbúin að vinna á „öðrum stöðum“. Í hvorugu vottorðinu komi fram að kærandi sé með skerta vinnufærni eða að hún sé ófær um að sinna umönnunarstörfum.

 

Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti ekki, án vottorðs frá lækni um skerta vinnufærni, takmarkað atvinnuleit sína við tiltekin starfssvið. Þar sem stofnuninni hafi ekki borist starfshæfnisvottorð þar sem fram komi að kærandi sé ófær um að vinna hjá leikskólum, grunnskólum eða sinna öðrum umönnunarstörfum sé ekki unnt að fallast á þær skýringar kæranda.

 

Á fundi stofnunarinnar 7. júní 2013 hafi mál kæranda verið tekið fyrir og það hafi verið mat Vinnumálstofnunar að skýringar hennar á höfnun hennar á atvinnutilboði teldust ekki gildar enda hafi stofnuninni ekki borist tilkynning um skerta vinnufærni þegar kærandi var boðuð í atvinnuviðtal.

 

Vinnumálastofnun bendir á að með lögum nr. 142/2912 hafi verið gerðar breytingar á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar sem fjalli um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, þar á meðal 57. gr. Segi í 5. mgr. laganna:

 

Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum við 9.–15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 142/2012 segi að þegar upp komi tilvik sem lýst sé í 54.–56. gr. og 57.–61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og atvinnuleitandi hefur fengið atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili. Þá sé tekið fram að þetta eigi við um þá sem hafa samfellt verið án atvinnu í svo langan tíma og einnig þá sem hafa verið samtals svo lengi án atvinnu enda þótt þeir hafi tekið tímabundnum störfum eða jafnvel stundað nám einhvern tíma á tímabilinu.

 

Fyrir liggi að kærandi hafi á því bótatímabili sem hófst 3. september 2010 fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 31,89 mánuði. Af þeim sökum eigi 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við um mál kæranda.

 

Í ljósi ofangreinds telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og beri henni því að sæta viðurlögum á grundvelli 5. mgr. lagagreinarinnar. Geti kærandi því fyrst átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hún uppfyllir skilyrði 31. laga um atvinnuleysistryggingar eða þegar hún hafi starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því atvinnuleysisbætur voru síðast greiddar til hennar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. ágúst 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. sama mánaðar. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi mótteknu 28. ágúst 2013.

 

Í athugasemdum kæranda kemur fram að Vinnumálastofnun virðist hafa rangtúlkað læknisvottorð (starfshæfnisvottorð) sem undirrituð lagði fram í upphafi vegna heilsubrests. Af þeim sökum sendi hún nýtt læknisvottorð (starfshæfnisvottorð), sem fylgdi bréfi kæranda, dags. 23. ágúst 2013.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kæranda tilkynnt að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum mikils málafjölda.


 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

 

Í 4. mgr. sömu lagagreinar kemur eftirfarandi fram:

 

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

 

Í athugasemdum við tilvitnaða 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að heimilt sé að taka tillit til þess þegar hinn tryggði geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu þar sem ekki sé gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann er ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar.

 

 

 

Með 13. gr. laga nr. 142/2012 er tóku gildi 1. janúar 2013 var málsgrein bætt við ákvæði 57. gr. laga um atvinnuleysistrygginga er varð að 5. mgr. ákvæðisins. Er ákvæðið svohljóðandi:

 

Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

 

Umsókn atvinnuleitanda og síðari upplýsingar sem hann veitir Vinnumálastofnun leggja grundvöllinn að aðgerðum stofnunarinnar til að útvega honum starf. Að jafnaði er gert ráð fyrir því að atvinnuleitandi sé fær til flestra almennra starfa, en að öðrum kosti telst hann ekki í virkri atvinnuleit í skilningi a-liðar 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Sú skilyrðislausa skylda hvílir á atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar um breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun er heimilt að taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis, sbr. lokamálslið 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í máli þessu gátu starfsmenn Vinnumálastofnunar ekki ályktað annað en að kærandi væri fær til flestra almennra starfa þegar henni var boðið í atvinnuviðtal hjá leikskólanum B, en kærandi hafði skilað inn læknisvottorði, dags. 23. september 2010, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið með síendurteknar sýkingar á fyrri vinnustað og hafi verið betri sumarið eftir að hún hætti. Hún sé þannig tilbúin til að vinna á öðrum stöðum. Telja verður að það sé ekki fullnægjandi að fram komi í skýringarbréfi kæranda fyrir starfslokum sínum hjá C til Vinnumálastofnunar, dags. 24. september 2010, að hún telji að umönnunarstörf séu of erfið fyrir sig. Hún eigi sjö börn og þar af sé eitt þeirra öryrki og hún hafi e.t.v. ofgert sér við umönnun. Er þá litið til þess að um var að ræða skýringar vegna starfsloka.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

 

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi lagt fram læknisvottorð, dags. 8. ágúst 2013, þar sem fram kemur að kærandi hafi átt við heilsubrest að stríða. Þar kemur fram að hún hafi áður unnið mikið við umönnunarstörf og misst heilsuna um tíma. Hún hafi nú eftir meðferð og vissa endurhæfingu öðlast fulla vinnufærni á ný en að hafa beri í huga að hún teljist samt sem áður ófær um að sinna öllum umönnunarstörfum. Þá segir að taka verði tillit til þess.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hennar á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, en við það mat ber að hafa í huga að í læknisvottorði því er fylgdi umsókn kæranda kemur ekki fram að kærandi geti ekki unnið við umönnunarstörf.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

Í gögnum málsins, eins og þau komu frá Vinnumálastofnun, er að finna yfirlitsblað með nöfnum og upplýsingum um fjóra aðra einstaklinga sem höfnuðu einnig starfi hjá leikskólanum B og varðar ekki mál þetta. Telja verður birtingu þessa yfirlitsblaðs, án þess að afmá eða hylja persónugreinanlegar upplýsingar þeirra fjögurra atvinnuleitenda sem voru í sömu sporum og kærandi, brot á 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Átelja verður Vinnumálastofnun fyrir þessi mistök.

 

 


 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. júní 2013 í máli A um að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tuttugu og fjóra mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta