Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 29/2011

Miðvikudaginn 22. júní 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 29/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 19. apríl 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 4. apríl 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 3. maí 2011, er mat á íbúð kæranda að B 15.850.000 kr. Í endurútreikningum kemur einnig fram að kærandi á tvær bifreiðir, S að fjárhæð 714.144 kr. og N að fjárhæð 566.870 kr. Þá á kærandi á bankareikningi að frádregnum launum tveggja mánaða 4.063.780 kr. Fasteign kæranda miðað við uppreiknað fasteignamat í 110% og aðfararhæfar eignir nema því samtals 22.779.794 kr. Íbúðalánaskuldir kæranda nema samtals 20.247.071 kr.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telur á sér brotið með tilliti til jafnræðissjónarmiða. Hann kveður sig og unnustu sína, C, hafa keypt íbúð í ágúst 2008 á 21.700.000 kr. þegar verðbólga var 18% og vextir rúmlega 5%. Lán þeirra frá Íbúðalánasjóði hafi verið rúmlega 17.000.000 kr. en sé nú í dag um 21.000.000 kr. Þau hafi þó gert sér grein fyrir þessum horfum en ekki 30% lækkun á fasteignamati sem raunin sé í dag, en íbúð þeirra sé nú metin á 19.000.000 kr. Munurinn nemi því 3.000.000 kr. sem gefi til kynna að veðhlutfallið á fasteigninni sé 110,5% og því réttur á 110% leiðinni. Að öllu óbreyttu ætti að draga 800.000 kr. frá láni kæranda.

Kærandi kveðst ekki fá afskrifað sökum þess að hann og unnusta hans hafi lifað á grunnframfærslu síðustu þrjú ár og hafi neyðst til þess að flytja út á land sumarið 2009 til þess að geta staðið í skilum með afborganir af fasteign sinni. Kærandi kveðst hafa fengið lán hjá foreldrum sínum að fjárhæð um 1.000.000 kr. til þess að standa í skilum meðan á þessu hafi staðið og skuldi hann þá fjárhæð ennþá. Hann eigi nú um 2.000.000 kr. og unnusta hans það sama og saman eigi þau því tæplega 4.000.000 kr. á bankareikningi til þess að taka höggið ef eitthvað óvænt komi upp á. Þau eigi sem sé ekki rétt á afskriftum sökum þess að þau brugðust við aðstæðum (atvinnuleysi) og fengu lán hjá foreldrum og drógu úr neyslu niður undir grunnframfærslu. Kærandi kveðst biðja um réttlæti og segir lögin um 110% leiðina ekki taka tillit til fólks sem lifði innan sinna marka og lagði fyrir og hagaði sér skynsamlega.

 

III. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður bendir á að samkvæmt endurútreikningi, dags. 3. maí 2011, sé fasteign miðað við uppreiknað fasteignamat í 110% og aðfararhæfar eignir samtals 22.779.794 kr. en íbúðalánaskuldir samtals 20.247.071 kr.

Eignir séu samkvæmt þessu hærri en skuldirnar og forsendur niðurfærslu því ekki til staðar, sbr. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 svo og með vísan til 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál. Reglur geri ekki ráð fyrir að sjóðurinn meti í slíkum tilvikum aðstæður kæranda við niðurfærslu á veðkröfum og synjun því að mati sjóðsins í samræmi við gildandi reglur.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi telur að í máli þessu sé á sér brotið. Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnistæður. Auk fasteignar sinnar að B á kærandi tvær bifreiðar og bankainneign eins og rakið hefur verið. Ekki er ágreiningur um að samtals eigi kærandi eignir umfram áhvílandi skuldir, svo sem ráða má af skattframtölum kæranda.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og skv. 1. gr. laga nr. 29/2011 og ákvæðum í 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 4. apríl 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.
 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest. 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta