Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 51/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. september 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 51/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 9. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun að hafna greiðslu atvinnuleysisbóta til hans. Höfnunin var byggð á því að skilyrði 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væru ekki uppfyllt þar sem hann væri í ráðningarsambandi við X ehf. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 16. mars 2010. Hann krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur í janúar 2010 en þá hafði hann ekki atvinnu vegna tímabundinnar vinnustöðvunar vegna verkefnaskorts hjá B ehf. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Samkvæmt vottorði B ehf., dags. 8. febrúar 2010, starfaði kærandi sem málari hjá fyrirtækinu frá 15. júní 2009 til 6. janúar 2010. Ástæður starfsloka hans hafi verið tímabundin vinnustöðvun vegna verkefnaskorts. Fram kemur í kæru að kærandi hafi verið atvinnulaus frá 13. janúar 2010 og þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi legið fyrir að hann yrði án atvinnu til a.m.k. 1. febrúar 2010.

Kærandi hafnar því að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma sem hann sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi sé hvorki með ótímabundinn ráðningarsamning við B ehf. né um tiltekinn tíma. Hann starfi þar á meðan verkefni séu til staðar og á þeim tíma sem hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta hafi engin verkefni verið til staðar hjá B ehf. Þar af leiðandi hafi umsækjandi ekki verið í ráðningarsambandi við félagið á þeim tíma þó fyrirsjáanlegt hafi verið að ráðningarsamband milli kæranda og B ehf. myndi taka sig upp að nýju þann 1. febrúar 2010 þegar verkefnastaða félagsins vænkaðist.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. júlí 2010, kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar sé tekin á grundvelli 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem segi að lögin gildi um þá sem verði atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Þá segi meðal annars í 1. mgr. 9. gr. laganna að launamönnum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta en með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. sé meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, hafa frumkvæði að starfsleit, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða og hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Sá sem eigi í ráðningarsambandi við vinnuveitanda geti því ekki talist í virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun bendir einnig á að gert sé ráð fyrir því í f-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laganna, og þar skuli jafnframt tilgreina ástæður starfsloka. Ekki sé unnt að telja B ehf., sem hér eigi í hlut, fyrrverandi vinnuveitanda í skilningi laganna.

Í símtali Vinnumálastofnunar við vinnuveitanda kæranda hafi einnig komið fram að kæranda hafi aldrei verið sagt upp störfum og hann starfi þar enn þann dag í dag. Um miðjan janúar 2010 hafi verkefnastaða minnkað en allt komist í samt horf í lok janúar–byrjun febrúar 2010. Einungis hafi verið um tímabundna minnkun á vinnu að ræða en ekki hafi komið til neinna uppsagna. Ekki sé hægt að fallast á það að kærandi hafi verið atvinnulaus í skilningi 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. og a-lið 13. gr., sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, á umræddu tímabili og telur Vinnumálastofnun ljóst að ráðningarsamband hafi verið til staðar milli kæranda og vinnuveitanda hans þann tíma sem óskað hafi verið eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. ágúst 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. ágúst 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um þá sem verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna er tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta þeir launamenn sem misst hafa starf sitt sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í ráðningarsambandi við B ehf. þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur og því ekki atvinnulaus í skilningi laganna, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 15. maí 2009 í máli nr. 14/2009. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. mars 2010 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta