Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 65/2003

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 65/2003

 

Endurupptaka. Sönnunarfærsla. Frávísun.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 21. desember 2003, mótteknu 23. desember 2003, beindi M, X 42, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Þ, sama stað, hér eftir nefndur gagnaðili og óskaði endurupptöku á máli 51/2003.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar og samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 4. febrúar 2004, mótteknar 5. febrúar 2004, greinargerð gagnaðila, dags. 16. febrúar 2004, móttekin 23. febrúar 2004 og frekari athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 24. febrúar 2004, mótteknar 26. febrúar 2004, voru lagðar fram á fundi nefndarinnar 24. mars 2004 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Helstu málsatvik og ágreiningsefni eru rakin í áliti kærunefndar fjöleignarhúsamála í málinu 41/2003. Niðurstaða nefndarinnar í málinu var að kostnaður vegna skjólveggja álitsbeiðanda væri sérkostnaður hans en kostnaður við að koma innra byrði svala og svalagólfi í fyrra horf teldist sameiginlegur. Í endurupptökubeiðni er sagt að álitsbeiðandi hafi ekki fengið í hendur athugasemdir gagnaðila, dags. 27. september 2003, og rangar upplýsingar í þeim athugasemdum hafi verið ráðandi um niðurstöðu nefndarinnar. Vegna þess að ekki hafi verið veittur andmælaréttur er þess óskað að málið sé tekið upp að nýju.

 

Kærunefnd fjöleignarhúsamála lítur á að krafa álitsbeiðanda sé:

Að málið verði endurupptekið og að kostnaður vegna skjólveggja álitsbeiðanda teljist sameiginlegur kostnaður en kostnaður vegna endurbyggingar innra byrðis svalaveggja og svalagólfs teljist sérkostnaður svalaeigenda.

 

Í endurupptökubeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi ekki sjálfur látið reisa girðingu umhverfis sérafnotaflöt heldur hafi hún verið til staðar við kaup hans á eigninni og hafi staðið frá því byggingu bílskýlis var lokið. Þá mótmælir álitsbeiðandi því að ekki hafi verið haldinn húsfundur um málið. Heldur álitsbeiðandi því fram að á húsfundi þann 12. maí 2003 hafi verið tekin ákvörðun um breytingar á girðingu. Af hans hálfu hafi alltaf staðið til að kostnaður við girðinguna skiptist í samræmi við lög og því hafi húsfundur verið boðaður.

Varðandi svalir vísar álitsbeiðandi til þess að á fundi á árinu 2000 hafi verið ákveðið að svalir yrðu einungis klæddar að utan en ákvörðun um að klæða að innan og leggja í svalagólf hafi verið tekin á árinu 2003. Það hafi verið vegna þess að álitsbeiðandi hafi bent á hugsanlega hættu af því að hlutir féllu milli svalagólfs og klæðningar. Ekki hafi verið minnst á það fyrir þann tíma að svalagólfin væru illa farin eftir viðgerðir á svölunum. Á einu gólfi hafi verið flísar og ekki hafi verið hróflað við þeim.

Í frekari athugasemdum álitsbeiðanda kemur m.a. fram að hann telji að margt sem rætt var á fundinum þann 12. maí vanti í fundargerðina. Ástæðu þess telur hann vera að fundarritari mætti of seint á fundinn og ritaði fundargerð eftir minni að loknum fundi. Umræða um væntanlega endurbyggingu, útlit og breytingar á girðingu við svalir sínar hafi farið fram áður en fundarritari mætti. Engar athugasemdir hafi komið fram við fyrirhugaðar áætlanir. M.a. annars hafi breytingar á girðingu, þ.e. hækkun hennar við tröppur, verið samþykktar með öryggi barna í huga. Með frekari athugasemdum álitsbeiðanda fylgir yfirlýsing eins íbúa um að þann 12. maí 2003 hafi verið haldinn húsfundur og þar hafi m.a. verið fjallað um endurnýjun og áorðnar breytingar á svalagirðingu við íbúð álitsbeiðanda.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að hann telji að þó framkvæmdir við grindverk hafi verið ræddar á húsfundinum hafi ekki verið minnst á girðinguna í fundarboði, á fundinum hafi ekki verið samþykkt að greiða fyrir hana og ekki hafi verið skráð í fundargerð nein ákvörðun um hana. Hins vegar sé í fundargerð skráð að samþykkt sé að múra og klæða svalirnar. Með greinargerð gagnaðila fylgir yfirlýsing fundarritara þar sem hann segir að skilningur hans hafi verið sá að verið væri að spyrja íbúa álits á breytingum á útliti grindverks.

 

III. Forsendur

Ekki eru bornar brigður á þær fullyrðingar álitsbeiðanda að hann hafi ekki fengið í hendur frekari athugasemdir gagnaðila, dags. 27. september 2003.

Hlutverk kærunefndar fjöleignarhúsamála takmarkast við að veita lögfræðilegt álit um ágreining er rís varðandi réttindi og skyldur eigenda fjöleignarhúss. Metur kærunefnd hverju sinni hvort málsatvik teljist nægjanlega upplýst til að unnt sé að gefa álit um ágreiningsefnið. Í ágreiningi þeim um lögmæti ákvörðunartöku sem hér um ræðir stendur orð gegn orði en hefðbundin sönnunarfærsla svo sem matsgerðir, aðila- og vitnaleiðslur fer ekki fram fyrir nefndinni. Sé ágreiningur um staðreyndir verða aðilar máls að leita úrlausnar dómstóla. Beiðni um endurupptöku er því hafnað.

 

IV. Niðurstaða

Ósk um endurupptöku er synjað.

 

 

Reykjavík, 24. mars 2004

 

 

Valtýr Sigurðsson

Gestur Valgarðsson

Karl Axelsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta