Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 212/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 212/2021

Fimmtudaginn 10. júní 2021

A

gegn

Garðabæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. apríl 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Garðabæjar frá 21. apríl 2021 á umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið desember 2020 til febrúar 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. mars 2021, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu samhliða greiðslum aftur í tímann, eða frá desember 2020. Með ákvörðun fjölskyldusviðs Garðabæjar, dags. 30. mars 2021, var samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir mars 2021 en synjað um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið desember til febrúar 2021 með vísan til 7. og 8. gr. reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til fjölskylduráðs Garðabæjar sem tók málið fyrir á fundi 21. apríl 2021 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 24. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Garðabæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Garðabæjar barst úrskurðarnefndinni 14. maí 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. maí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 25. maí 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun fjölskylduráðs um synjun á fjárhagsaðstoð aftur í tímann verði snúið við og kærandi fái það viðurkennt og samþykkt að veigamiklar rökstuddar ástæður hafi verið fyrir því að hann hafi ekki sótt um fyrr. Kærandi hafi í áfrýjun til fjölskylduráðs gert ítarlega grein fyrir þeim. Kærandi hafi þar vísað til veikinda sinna, þ.e.a.s. kvíða og þunglyndis, sem hafi gert það að verkum að hann hafi frestað því að sækja um fjárhagsaðstoð í marga mánuði. Það hafi verið bæði vegna orkuleysis og framtaksleysis sökum þunglyndis en einnig hafi þar spilað stóran þátt frestunarárátta með kvíða. Þetta hafi lýst sér þannig að hann hafi oft átt erfitt með að komast fram úr rúmi og vera í rútínu. Öllum skuldum eða fjárhagsáhyggjum hafi verið sópað undir teppið vegna þess að honum hafi oft þótt það ómögulegt verkefni að greiða úr þeim. Þetta leiði augljóslega af sér vítahring, líðan versni og áhyggjur aukist.

Það sé svolítið síðan kærandi hafi þurft á fjárhagsaðstoð Garðabæjar að halda. Kærandi hafi verið á ágætu róli fyrir rúmu ári, byrjað í námi og hafi verið í góðu prógrammi hjá VIRK. Endurhæfingarlífeyrir hafi hins vegar dottið út þegar kærandi hafi byrjað í náminu fyrir tæplega ári síðan. Faraldurinn hafi haft mjög mikil áhrif á verklegt nám kæranda sem og þann stuðning sem hann hafi verið með hjá VIRK, sálfræðingi og geðlækni. Þá hafi heilsu kæranda hrakað verulega og hann hafi tekið þunglyndisdýfu. Kærandi hafi dottið út úr náminu og VIRK í október 2020 og það hafi verið mjög erfitt fyrir hann að horfast í augu við líðan sína eins og hún sé í dag og sömuleiðis erfitt að kyngja því að nú þurfi hann aftur virkilega á þessari fjárhagsaðstoð að halda.

Kærandi hafi ekki haft neinar tekjur fyrir utan einhverja smáaura í höfundarréttargreiðslur frá STEF, rúmlega 3.000 kr. á árinu 2021. Aðalstarf kæranda hafi verið tónlistarflutningur á sviði en eins og gefi að skilja hafi ekkert verið að frétta í þeim geira síðan í febrúar 2020 og engar tekjur. Fjölskylda kæranda hafi framfleytt honum það sem af sé árinu 2021 og það hafi legið mjög þungt á þeim og honum vegna þess. Þrátt fyrir það og mikla hvatningu frá fjölskyldu kæranda um að sækja um hafi það dregist alveg fram í mars 2021, eða einhverja fjóra mánuði. Ef kærandi hefði haft heilsu til þess að sækja um hefði hann hiklaust gert það.

Líkt og áður hafi komið fram glími kærandi við þunglyndi með framtaksleysi, ásamt kvíða og frestunaráráttu og það sé staðfest af lækni. Þessir geðrænu kvillar hafi sérstaklega látið á sér kræla í kjölfar fíkniefnameðferðar sem kærandi hafi sótt árið 2018. Kærandi glími einnig við athyglisbrest með ofvirkni sem hafi það oft í för með sér að hlutir hreinlega gleymist og/eða sé frestað. ADHD greining kæranda sé meðal gagna málsins og þó að hún hafi verið gerð árið 2010 fari ekki á milli mála að kærandi glími enn við einkenni athyglisbrests og sé í ferli með heimilislækni um að hefja lyfjameðferð við því að nýju. Þá séu einnig meðal gagna málsins upplýsingar um fjárhag kæranda síðustu mánuði, en tekjur hans hafi verið nánast engar, eða rétt um 3.000 kr. það sem af sé árinu 2021.

Kærandi tekur einnig fram að aðstoð fjölskyldu hans hafi falist í því að hann hafi getað leitað til hennar til að fá lánaða peninga fyrir brýnustu nauðsynjum á þessu tímabili (desember 2020 til febrúar 2021). Kærandi hafi sem sagt verið algjörlega háður lánum frá fjölskyldu sinni og matargjöfum þennan tíma. Kærandi hafi ekki getað leyft sér að fara til tannlæknis og hafi oft þurft að neita sér um nauðsynjar eins og sum lyf. Þá hafi hann safnað upp 84.438 kr. skuld yfir þennan tíma hjá sálfræðingi sínum, en með hennar nauðsynlegu aðstoð og lækna, sé kærandi smátt og smátt að komast til heilsu aftur. Meðfylgjandi séu allir útistandandi reikningar kæranda frá sálfræðingi hans sem og læknisvottorð frá heimilislækni hans sem hafi fylgt kæranda eftir á þessu tímabili. Þar séu veikindi kæranda staðfest á þessu tímabili, veikindi sem hafi gert það að verkum að hann hafi ekki sótt um fjárhagsaðstoð fyrr.

Úr þessu fái kærandi ekki annað séð en að hann hafi, þrátt fyrir ákvörðun fjölskylduráðs, haft „veigamiklar rökstuddar ástæður fyrir hendi“ fyrir því að ekki hafi verið sótt um fjárhagsaðstoð fyrr. Einnig telji kærandi að hann hafi sýnt fram á það að hann hafi „ónógar tekjur sér til framfærslu og geti ekki séð sér og sínum farborða.“ Kærandi voni að málið verði leyst farsællega sem fyrst.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi nokkrum sinnum fengið lán frá fjölskyldu sinni á þeim tíma sem sótt var um afturvirkt. Amma kæranda hafi til dæmis lánað honum einstaka sinnum fyrir því allra nauðsynlegasta, eins og lyfjakostnaði eða læknisheimsóknum. Fyrir utan þessa aura, sem fjölskylda hans hafi lánað honum, hafi hann ekki haft neinar tekjur og það sé skammarlegt að ekki sé tekið mið af því frekar en að kærandi hafi þurft að skuldsetja sig gagnvart nánustu ættingjum sínum til að eiga fyrir nauðsynlegum þunglyndislyfjum. Það að kærandi hafi „komist af í einhvern tíma“ án aðstoðarinnar hafi því einungis verið tímabundið ástand því að skuldir hans við ættingja sína þurfi að greiða til baka.

III.  Sjónarmið Garðabæjar

Í greinargerð Garðabæjar er greint frá aðstæðum kæranda. Þar kemur fram að samþykkt hafi verið að veita kæranda fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir mars 2021 en synjað hafi verið að veita honum fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið desember 2020 til febrúar 2021 þar sem réttur til fjárhagsaðstoðar skapist í þeim mánuði sem sótt sé um, sbr. 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ. Ekki hafi þótt vera fyrir hendi slíkar rökstuddar ástæður að það réttlætti að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann, sbr. 8. gr. reglnanna.

Kærandi hafi vísað til ADHD, þunglyndis og kvíða sem orsök þess að hann hafi ekki sótt um fjárhagsaðstoð fyrr. Þá segi kærandi í umsókn sinni um fjárhagsaðstoð að hann hafi „komist af núna í dálítinn tíma án ástoðarinnar.“ Heimild fjölskyldusviðs Garðabæjar til greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann sé hugsuð til þess að geta komið til móts við einstaklinga sem vegna aðstæðna sinni geti ekki fyllt út umsókn um fjárhagsaðstoð á þeim tíma sem þörfin skapist og hafi fjárhagslegum skuldbindingum að gegna, svo sem greiðslu húsaleigu eða afborgana lána. Það geti til að mynda verið þegar einstaklingur leggist inn á sjúkrastofnun og komi sér í skuldir vegna fjárhagslegra skyldna sinna, hefur til að mynda ekki náð að sinna því að greiða meðlag, húsaleigu, leikskólareikninga og svo framvegis. Kærandi greiði hvorki húsaleigu né aðra slíka reikninga og að eigin sögn hafi hann komist af án aðstoðarinnar þar til hann hafi fyllt út umsókn 18. mars 2021. Það sé því mat fjölskyldusviðs Garðabæjar að kærandi hafi ekki þörf fyrir fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir desember 2020 til febrúar 2021, enda sé það meginregla reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ að réttur til fjárhagsaðstoðar skapist einungis í þeim mánuði sem sótt sé um.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Garðabæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið desember 2020 til febrúar 2021.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ er samhljóða ákvæði, auk þess sem þar er einnig gert að skilyrði að rökstuddar ástæður verði að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verði skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir desember 2020 til febrúar 2021 var synjað með vísan til 7. og 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ en umsóknin barst 18. mars 2021.

Af hálfu Garðabæjar hefur komið fram að ekki hafi verið rökstuddar ástæður fyrir því að veita kæranda fjárhagsaðstoð aftur í tímann. Þá hafi kærandi komist af án aðstoðarinnar á umræddu tímabili og hafi ekki haft fjárhagslegum skuldbindingum að gegna.

Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi glímt við andleg veikindi á umræddu tímabili sem hafi valdið því að hann hafi ekki getað sótt um fjárhagsaðstoð fyrr. Kærandi hafi verið undir eftirliti læknis og sálfræðings á þessum tíma og hefur hann skilað inn vottorði læknis þess efnis og yfirliti skulda sinna vegna sálfræðiþjónustu. Kærandi hafi framfleytt sér á þessum tíma með lánum frá fjölskyldu sinni en það séu skuldir sem hann þurfi að greiða til baka.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði, dags. 12. apríl 2021, kemur fram að kærandi hafi verið að kljást við þunglyndi með miklu framtaksleysi. Kærandi hafi verið í reglulegu eftirliti hjá læknum á því tímabili sem umsókn hans lúti að og hafi fylgt ráðleggingum og sinnt meðferð. Enginn grunur sé um misnotkun lyfja eða annarra efna. Að mati úrskurðarnefndar eru í máli kæranda fyrir hendi rökstuddar ástæður fyrir því að hann sótti ekki um fjárhagsaðstoð fyrr en hann gerði, sbr. framangreint læknisvottorð. Að þessu virtu bar sveitarfélaginu að verða við umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir tímabilið desember 2020 til febrúar 2021, að uppfylltum öðrum skilyrðum reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð. Ákvörðun Garðabæjar er því felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Garðabæjar, dags. 21. apríl 2021, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið desember 2020 til febrúar 2021, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Garðabæjar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta