Hoppa yfir valmynd

Nr. 372/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 372/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060050

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. júní 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. júní 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Af greinargerð kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran ásamt fylgigögnum fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 21. september 2017. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. júní 2018, var umsókn kæranda synjað. Talsmaður kæranda tók á móti ákvörðun Útlendingastofnunar fyrir hennar hönd þann 18. júní 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 29. sama mánaðar. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 13. júlí 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda þann 29. ágúst 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við meðferð málsins hafi vaknað grunur um að hjúskapur kæranda og maka hennar hafi verið stofnaður til málamynda. Vísaði stofnunin til þess að mynd af kæranda og maka hennar úr brúðkaupi þeirra hafi verið sett saman með aðstoð myndvinnsluforrits. Síðar hafi komið fram af hálfu kæranda að hún og maki hennar hafi gengið í hjónaband í heimaríki hennar án þess að maki hennar hafi verið viðstaddur hjónavígsluna, en slík hjónavígsla sé heimil samkvæmt hefðum þar í landi. Í niðurstöðu sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga væri skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar að stofnun hjúskaparins bryti ekki í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga. Í íslenskum rétti sé það grundvallarregla að bæði hjónaefni séu viðstödd hjónavígslu, sem endurspeglist m.a. í 2. mgr. 24. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í ljósi framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að hjúskapur kæranda og maka hennar væri ekki gildur samkvæmt íslenskum lögum og gæti því ekki verið grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis skv. 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar hennar og maka hennar til málamynda. Kærandi og maki hennar hafi gengið í hjónaband í heimaríki hennar þann [...], rúmum þremur árum áður en að maka hennar hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi. Kærandi og maki hennar hafi þekkst lítið áður en þau hafi gengið í hjónaband enda hafi brúðkaupið farið fram fyrir tilstilli fjölskyldna þeirra samkvæmt hefðum í heimaríki kæranda. Aðstæður þeirra hafi breyst verulega síðan þá enda hafi þau verið gift í rúmlega fimm ár. Þá hafi kærandi myndað sterk tengsl við stjúpdætur sínar og hafi hún og maki hennar varið tíma saman í [...]. Það sé vilji kæranda og maka hennar að vera saman á Íslandi. Byggir kærandi á því að öll gögn málsins gefi sterklega til kynna að um raunverulegan hjúskap sé að ræða og að 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga eigi því ekki við í málinu.

Þá byggir kærandi á 2. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sem veitir heimild til að veita dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. þótt sambúð hafi varað skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður mæla með því. Fram kemur að kærandi stundi nám í [...] og að hún og maki hennar hafi varið tíma saman þar í febrúar sl. Þá hafi kærandi allt frá árinu 2013 sinnt móðurhlutverki í lífi dætra maka síns og þannig verið mikilvægur hluti af fjölskyldu hans í rúmlega fimm ár.

Í viðbótarathugasemdum frá kæranda kemur m.a. fram sú afstaða kæranda að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér valdníðslu enda sé það verkefni sýslumanns en ekki stofnunarinnar að meta hvort hjúskapur sé í andstöðu við íslensk lög.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 8. mgr. 70. gr. laganna kemur þó fram sú regla að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé þá veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Það sama gildi ef rökstuddur grunur sé um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brjóti í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga. Í máli þessu liggur fyrir að maki kæranda var ekki viðstaddur hjónavígsluathöfn í heimaríki kæranda þar sem hann og kærandi voru gefin saman í desember 2013. Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga á þeim grundvelli að stofnun hjúskaparins bryti í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga, sbr. 2. málsl. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæði 70. gr. laga um útlendinga er m.a. orðrétt kveðið á um að: „Með ákvæðinu er einnig tekinn af allur vafi um að brjóti stofnun hjúskapar í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki um gildan gerning að ræða og hann veiti þar af leiðandi ekki rétt til dvalarleyfis. Þetta á t.d. við um hjónavígslu ef hjónin eða annað þeirra voru börn eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt athöfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar (vígsluheimild) í því landi þar sem vígslan fór fram og þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga (ordre public), í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi.“

Svo tilvik verði þó talið falla undir síðari málslið 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga þarf, samkvæmt orðalagi ákvæðisins, að koma til brot gegn allsherjarreglu og meginreglum íslenskra laga. Inntak hugtaksins allsherjarregla er hvorki skilgreint í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga né í öðrum ákvæðum þeirra laga. Í ljósi athugasemda við ákvæðið í lögskýringargögnum telur kærunefnd að svo ákvæðið eigi við þurfi stofnun hjúskapar ekki eingöngu að vera andstæð meginreglum íslenskra laga heldur jafnframt að stríða svo gegn réttarreglum landsins að rétt þyki að virða hann að vettugi.

Kærunefnd tekur undir með Útlendingastofnun að það sé meginregla í íslenskum hjúskaparrétti að hjónaefni skuli bæði vera viðstödd vígsluathöfn. Kveðið er á um regluna í 2. mgr. 24. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 en þar segir að bæði hjónaefni skuli vera viðstödd vígsluathöfn. Fyrir gildistöku hjúskaparlaga var samhljóða ákvæði í 21. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar nr. 60/1972. Engar undanþágur eru frá þessari reglu í hjúskaparlögum.

Þá bendir kærunefnd á að íslenska ríkið gerði fyrirvara við ákvæði 2. mgr. 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1962 um samþykki og lágmarksaldur til hjúskapar o.fl., sbr. auglýsing 18/1977 í C-deild Stjórnartíðinda. Í því ákvæði er m.a. kveðið á um að ekki sé nauðsynlegt að bæði hjónaefni séu viðstödd vígsluathöfn ef þau hafi fyrir þar til bæru stjórnvaldi samþykkt hjúskaparstofnunina. Fyrirvari íslenska ríkisins var á þann veg að aðild að samningnum væri háð því að 2. mgr. 1. gr. tæki ekki til Íslands. Bendir þessi fyrirvari til þess að umrædd regla hafi verið talin svo andstæð réttarreglum landsins að ekki væri unnt að innleiða hana hér á landi.

Að mati kærunefndar bendir löggjafarsaga ákvæða hjúskaparlaga og aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um samþykki og lágmarksaldur hjúskapar o.fl. því eindregið til þess að hjónavígslur, þar sem annað hjónaefna er ekki viðstatt vígsluathöfnina, sé ekki í samræmi við meginreglur íslenskra laga og allsherjarreglu og geti því ekki veitt kæranda rétt til dvalarleyfis á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga.

Vegna athugasemda kæranda tekur kærunefnd jafnframt fram að samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum sem vinna að framkvæmd laganna falið það verkefni að taka afstöðu til þess hvort hjúskapur geti verið grundvöllur dvalarleyfis. Í ákvæðinu felst ekki að stjórnvöld lýsi afstöðu sinni til gildis hjúskaparins heldur hvort hjúskapurinn geti verið grundvöllur dvalarleyfis.

Í kæru eru færð fyrir því rök að til umrædds hjúskapar kæranda og maka hennar hafi ekki verið stofnað til í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Kærunefnd bendir á að hin kærða ákvörðun lýtur ekki að því að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi, sbr. 1. málsl. 8. mgr. 70. gr., heldur var það mat Útlendingastofnunar að stofnun hjúskaparins bryti í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga, sbr. 2. máls. 8. mgr. 70. gr. laganna, þar sem maki kæranda hafi ekki verið viðstaddur hjónavígsluathöfnina.

Loks verður ekki fallist á með kæranda að henni skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli heimildar 2. mgr. 70. gr. en samkvæmt því ákvæði er heimilt að veita umsækjanda dvalarleyfi samkvæmt 1. mg. sömu lagagreinar þótt sambúð hafi varað skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður með því. Bera gögn málsins ekki með sér að kærandi og maki hennar hafi búið saman svo nokkru nemi, ef frá er talin heimsókn maka kæranda til [...] í febrúar sl. Þá eru gögn um kynni kæranda og maka hennar af börnum hvors annars svo takmörkuð að ekki verður talið að skilyrði 2. mgr. 70. gr. sé fullnægt. Samkvæmt öllu framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                    Anna Valbjörg Ólafsdóttir  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta