Hoppa yfir valmynd

1/2021 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2021, 23. ágúst, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður og Eva Halldórsdóttir lögmaður málinu 

 

nr. 1/2021

A

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dagsettu 8. febrúar 2021, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti þann 10. febrúar 2021, þar sem kærð er ákvörðun Háskóla Íslands („“ eða „skólinn“) frá 8. febrúar 2021 þar sem vísað var frá kröfu kæranda um afhendingu tiltekinna gagna og synjað um afhendingu annarra. Í kæru er þess krafist að allir töluliðir í beiðni kæranda um aðgang að gögnum, dagsettu 27. júní 2019, verði teknir til greina og að Hjúkrunarfræðideild verði gert að afhenda gögnin.

Viðbrögð HÍ við kærunni bárust 12. mars 2021. Í athugasemdum HÍ er vísað til rökstuðnings kærunefndar í málefnum nemenda við HÍ í málum nr. 2020/1 og 2020/4 og þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við afstöðu skólans. Þær athugasemdir bárust með erindi dagsettu 6. apríl 2021 þar sem kærandi ítrekaði fyrri kröfur og færði frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum. HÍ svaraði athugasemdum kæranda með erindi dagsettu 19. apríl 2021 þar sem fyrri athugasemdir skólans voru ítrekaðar.

Með tölvupósti 9. maí 2021 óskaði nefndin eftir því að HÍ afhenti nánar tiltekin gögn sem vísað er til í upplýsingabeiðni kæranda. Umbeðin gögn bárust nefndinni 19. maí 2021.

Með tölvupósti 14. júní 2021 var boðað til fundar með málsaðilum í samræmi við lokamálslið 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 550/2020. Að beiðni kæranda var hins vegar fallið frá þeirri fyrirætlan og var málsmeðferð því að öllu leyti skrifleg.

II.

Málsatvik

Kærandi sótti í tvígang um inngöngu í nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á heilbrigðisvísindasviði HÍ, vorið 2014 og vorið 2015. Í hvorugt skiptið fékk hún inngöngu í námið.

Með erindi til Hjúkrunarfræðideildar, dagsettu 27. júní 2019, óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum í tengslum við inntöku nemenda í ljósmóðurfræði vorin 2014 og 2015 á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 38/1993. Nánar tiltekið var um að ræða eftirfarandi gögn í tólf liðum:

  1. Umsóknir allra umsækjenda, árin 2014 og 2015, um nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
  2. Prófskírteini um og einkunnir allra umsækjenda.
  3. Náms- og starfsferilsskrár allra umsækjenda.
  4. Greinargerðir allra umsækjenda þar sem áhuga á ljósmóðurnámi er lýst.
  5. Önnur gögn sem allir umsækjendur sendu með umsókn sinni.
  6. Upplýsingar um frammistöðu allra umsækjenda í viðtali.
  7. Umsagnir um alla umsækjendur.
  8. Matsblöð sem notuð voru til að meta alla umsækjendur.
  9. Gögn tengd ákvörðun um hvaða umsækjendur fengu viðtal.
  10. Fundargerðir þar sem ákveðið var hvaða umsækjendur fengju að hefja nám.
  11. Rökstuðningur fyrir ákvörðun um hvaða nemendur fengju að hefja nám.
  12. Öll önnur ótalin gögn sem notuð voru við ákvörðunina.

Með ákvörðun Hjúkrunarfræðideildar 17. október 2019 var beiðni kæranda hafnað. Í erindinu kom fram að 15. gr. stjórnsýslulaga tæki eingöngu til aðila máls. Af þeim sökum væri ekki unnt að verða við beiðni kæranda um aðgang að gögnum er varðaði „mál annarra umsækjenda“. Hins vegar kom fram í erindinu að rétt væri að veita kæranda tilteknar upplýsingar um hvernig mati við innritun í ljósmóðurfræði umrædd ár hefði veri háttað. Í þeim upplýsingum kom t.a.m. fram að einkunn úr grunnnámi í hjúkrunarfræði hefði vegið þyngst við mat á umsóknum og að allir sem teknir hefðu verið inn í námið hefðu verið með hærri einkunn en kærandi. Erindinu fylgdi yfirlit yfir einkunnir þeirra umsækjenda sem höfðu verið teknir inn í námið. Þá voru reifuð önnur sjónarmið sem höfð voru til hliðsjónar við mat á umsóknum.

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun Hjúkrunarfræðideildar til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands með erindi, dagsettu 15. nóvember 2019, sbr. mál nr. 2019/3. Með bréfi 9. desember 2019 var kæranda tilkynnt um að málinu hefði verið vísað frá nefndinni sökum þess að afstaða deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar til kæruefnisins lægi ekki fyrir.

Þann 16. desember 2019 sendi kærandi erindi til deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar þar sem óskað var eftir afstöðu hans til beiðni kæranda um aðgang að gögnunum. Samdægurs barst svar frá deildarforsetanum þar sem fram kom að áðurnefnd ákvörðun deildarinnar frá 17. október 2019 stæði óbreytt.

Með erindi, dagsettu 27. desember 2019, kærði kærandi ákvörðun deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands. Í ákvörðun kærunefndarinnar í máli nr. 2020/1, dagsettu 27. maí 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að Hjúkrunarfræðideild væri skylt að taka fyrir að nýju mál kæranda með tilteknum hætti. Þannig ætti kærandi rétt á aðgangi að þeim gögnum sem tilgreind voru 1. og 3.-5. tölulið beiðni hennar og vörðuðu umsækjendur sem teknir voru inn í nám í ljósmóðurfræði, að undanskildum upplýsingum í þeim gögnum sem telja yrði að aðrir umsækjendur ættu ríkari einkahagsmuna af að leynt færu, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Þá var ennfremur ákveðið að veita ætti kæranda aðgang að gögnum samkvæmt 9.-12. tölulið beiðni hennar. Varðandi 9.-10 tölulið var aðgangur að þeim gögnum sem þar voru tilgreind bundin þeim fyrirvara að ekki skyldi veita aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra sem ekki hófu nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild HÍ árin 2014 og 2015. Varðandi 12. tölulið þá var aðgangur að gögnum sem þar voru tilgreind bundinn þeim fyrirvara að þeim væri yfirleitt til að dreifa og að þær upplýsingar væru undanskildar sem aðrir umsækjendur ættu ríkari einkahagsmuni af að leynt færu, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Þau gögn sem tilgreind voru í fyrrnefndri ákvörðun kærunefndarinnar voru afhent kæranda með ábyrgðarpósti 30. júní 2020. Kærandi sendi deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar tölvupóst 12. nóvember 2020 þar sem óskað var eftir afstöðu til afhendingar þeirra gagna sem ekki höfðu verið afhent. Deildarforseti svaraði tölvupóstinum 18. nóvember 2020 þar sem á það var bent að gögn hefðu þegar verið afhent í samræmi við ákvörðun kærunefndar í málefnum Háskóla Íslands í máli nr. 2020/1. Að svo miklu leyti sem kærunefndin hefði talið að Hjúkrunarfræðideild hefði verið rétt að synja um afhendingu gagna, fæli það í sér endanlega ákvörðun innan stjórnsýslu HÍ, eins og það var orðað í póstinum. Var kæranda jafnframt leiðbeint um að ákvarðanir kærunefndar í málefnum nemenda við HÍ væru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

Með kæru, dagsettu 20. nóvember 2020, kærði kærandi afstöðu deildarforseta frá 18. nóvember 2020 til kærunefndar í málefnum nemenda við HÍ. Kærandi gerði þá kröfu fyrir nefndinni að allir töluliðir sem tilgreindir væru í beiðni hennar um afhendingu gagna yrðu teknir til greina og að Hjúkrunarfræðideild yrði gert að afhenda kæranda gögnin.

Í kjölfar gildistöku reglna nr. 1126/2020 um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir HÍ, hinn 6. nóvember 2020, var ákvörðunarvald í málefnum nemenda skv. 50. gr. síðarnefndu reglnanna fært til háskólaráðs. Í samræmi við það áframsendi kærunefnd í málefnum nemenda kæruna til háskólaráðs. Í samræmi við 3. mgr. 50. gr. reglnanna óskaði háskólaráð í framhaldinu eftir því að kærunefnd gæfi álit sitt á kærunni.

Með áliti kærunefndarinnar í máli nr. 2020/4, dagsettu 28. janúar 2021, var lagt til að vísað yrði frá kröfu kæranda um afhendingu þeirra gagna sem talin væru upp í töluliðum 2, 6, 7 og 8 í niðurstöðukafla kærunefndar í málefnum nemenda í ákvörðun nr. 1/2020. Hið sama ætti við um kröfu kæranda um afhendingu á gögnum sem innihéldu upplýsingar um nöfn þeirra umsækjenda sem voru boðaðir í viðtal en hófu ekki nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild 2014 og 2015, sbr. 9. töluliður í fyrrnefndri ákvörðun nr. 1/2020. Þá var það álit nefndarinnar að hafna ætti öðrum kröfum kæranda, er sneru að töluliðum 10, 11 og 12 í fyrrnefndri ákvörðun, enda væru þau gögn sem liðirnir lytu að ekki til.

Hinn 8. febrúar 2021 kvað háskólaráð upp úrskurð sinn og var niðurstaðan sú að vísa frá frá kröfu kæranda um afhendingu gagna samkvæmt töluliðum 2., 6., 7., 8. og 9 þar sem ákvörðun nefndarinnar nr. 2020/1 um synjun á afhendingu umræddra gagna hefði verið endanleg. Þá var synjað um afhendingu gagna samkvæmt töluliðum 10, 11 og 12 þar sem þau væru ekki til. Var kæranda jafnframt leiðbeint um að úrskurðurinn væri kæranlegur til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi byggir á því að háskólaráð hafi með ákvörðun sinni, dagsettu 8. febrúar 2021, brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennum efnisreglum stjórnsýsluréttar. Kærandi telur að hún eigi rétt á öllum þeim gögnum sem tilgreind voru í beiðni hennar, dagsettu 27. júní 2019.

Kærandi byggir á því að niðurstaða kærunefndar nemenda í máli nr. 2020/1 hafi bersýnilega falið í sér heimvísun ásamt reifun þeirra sjónarmiða sem Hjúkrunarfræðideild bæri að hafa í huga þegar leyst yrði úr málinu að nýju. Af því leiði að kærandi hafi átt rétt til að kæra ákvörðun Hjúkrunardeildarinnar að nýju þegar málið hefði hlotið efnislega meðferð.

Til nánari rökstuðnings vísar kærandi til þess að álitaefni málsins lúti að því hvort háskólaráð hafi í úrskurði sínum í máli nr. 2020/4 verið heimilt að vísa frá kæru kæranda um synjun afhendingar gagna samkvæmt töluliðum 2, 6, 7, 8 og 9 í beiðni hennar frá 27. júní 2019. Kærandi bendir á að þegar æðra stjórnvald taki stjórnsýslukæru til meðferðar beinist athugun æðra stjórnvaldsins almennt að endurskoðun allra þátta hinnar kærðu ákvörðunar. Endurskoðun æðra stjórnvalds í kærumáli geti leitt til fimm ólíkra niðurstaðna, þ. e. frávísunar, staðfestingar, ógildingar, breytingar og heimvísunar. Kærandi telur að í þessu máli sé nægjanlegt að huga að tveimur síðastnefndu möguleikunum.

Kærandi bendir á að hún hafi upphaflega óskað eftir gögnum frá Hjúkrunarfræðideild HÍ í tólf töluliðum með beiðni dagsettri 27. júní 2019. Afstaða Hjúkrunarfræðideildar hafi verið sú að kærandi væri ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga. Því væri ekki unnt að veita henni aðgang að öllum þeim gögnum sem hún óskaði en deildin hafi þó talið rétt að veita henni tilteknar upplýsingar um hvernig mati hafi verið háttað við innritun í ljósmóðurfræði umrædd ár. Kærandi hafi kært þessa niðurstöðu til kærunefndar í málefnum nemenda Háskóla Íslands. Eftir „nokkra snúninga“, og eina frávísun, hafi kærunefndin loks tekið málið til meðferðar og lokið því að svo stöddu með ákvörðun, dagsettu 27. maí 2020, í máli nr. 2020/1. Í úrlausn sinni hafi nefndin litið til þess að við meðferð Hjúkrunarfræðideildar á beiðni kæranda hafi ekkert mat farið fram á andstæðum sjónarmiðum um réttindi kæranda af afhendingu tiltekinna gagna og einkahagsmuna annarra umsækjenda, eins og áskilið sé samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga. Þess í stað hafi beiðni kæranda verið synjað í heild á þeim grundvelli að kærandi væri ekki aðili máls. Kærunefndin hafi því talið að beiðnin hefði ekki fengið efnislega meðferð sem nefndinni væri fært að endurskoða. Nefndin hafi því lagt fyrir Hjúkrunarfræðideildina að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar að nýju og sett fram tiltekin sjónarmið sem leggja ætti til grundvallar við þá meðferð.

Kærandi vísar ennfremur til þess að þegar stjórnvald skeri úr um réttindi og skyldur manna séu gerðar miklar kröfur til skýrleika röksemdafærslna og niðurstaðna ákvarðana. Þegar ágreiningur sé um hvort kæruréttur sé til staðar þurfi að hafa í huga að verndarandlag kæruheimilda sé réttur borgaranna til að fá endurskoðaðar ákvarðanir um réttindi sín og skyldur en ekki réttur stjórnvalda til að vísa frá málum. Þegar vafi leiki á um tilvist kæruréttar þurfi því túlkun að taka mið af því meginmarkmiði að tryggja réttaröryggi borgaranna. Kærandi vísar til þess að í framangreindri niðurstöðu kærunefndar í máli nr. 1/2020 felist ekki lokaákvörðun í formi breytingar á ákvörðun sem hafði áður fengið fullnægjandi efnislega meðferð. Þvert á móti hafi kærunefndin vísað sérstaklega til þess að ekki væri til staðar efnisleg ákvörðun sem væri hæf til endurskoðunar og því bæri að leggja fyrir Hjúkrunarfræðideildina að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju. Þrátt fyrir að HÍ sé í raun eitt stjórnsýslustig þá leiði tilvist kæruréttarins til kærunefndar, nú háskólaráðs, til þess að sambærileg sjónarmið gildi um samspil milli háskólaráðs, áður kærunefndar, og deildar skólans og ella myndu gilda á milli lægra setts og æðra stjórnvalds. Sú afstaða kærunefndarinnar að leggja málið fyrir Hjúkrunarfræðideildina að nýju, ásamt því að reifa þau sjónarmið sem leggja bæri til grundvallar, samrýmist því þeim almennu sjónarmiðum sem talin væru gilda þegar æðra sett stjórnvald heimvísi niðurstöðu þess lægra setta til nýrrar meðferðar. Niðurstaða kærunefndarinnar hafi því bersýnilega ekki falið í sér efnislega lokaniðurstöðu í máli kæranda heldur heimvísun með reifun á þeim sjónarmiðum sem leggja bæri við grundvallar skyldubundnu mati um hvern og einn þátt. Þessi skilningur eigi sér skýra stoð í orðanna hljóðan, annars vegar í niðurstöðu kærunefndarinnar, sbr. „hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands er skylt að taka fyrir að nýju mál kæranda“ og hins vegar í því orðfæri í úrskurði nefndarinnar að leggja bæri fyrir Hjúkrunarfræðideild að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar að nýju á grundvelli tiltekinna sjónarmiða“. Jafnframt styðjist þessi skilningur kæranda við það að af niðurstöðu kærunefndarinnar hafi ekki verið ljóst hvaða gögn bæri að afhenda kæranda. Þegar ákvörðun kærunefndar hafi legið fyrir hafi Hjúkrunarfræðideildin átt eftir að yfirfara gögn málsins með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem reifuð voru í ákvörðuninni og fyrst að fenginni niðurstöðu þeirrar yfirferðar hafi legið fyrir hvaða gögn yrðu afhent kæranda og þar með hafi legið fyrir hin efnislega lokaákvörðun.

Að lokinni meðferð Hjúkrunarfræðideildar í kjölfar heimvísunarinnar hafi því fyrst legið fyrir stjórnvaldsákvörðun vegna gagnabeiðni kæranda sem fengið hafi nægjanlega efnislega meðferð til að vera tæk til endurskoðunar. Þegar kærandi hafi kært ákvörðunina til háskólaráðs hafi ráðinu því borið skýr skylda til að taka málið til meðferðar. Frávísun háskólaráðs á þeim grundvelli að kærunefnd hefði áður tekið lokaákvörðun í málinu hafi því bersýnilega verið byggð á óviðhlítandi rökum. Sú afstaða gangi þvert gegn orðum ákvörðunar kærunefndar í máli nr. 2020/1. Hallann af óskýrleika niðurstöðunnar verði háskólaráð að bera og slíkur óskýrleiki verði ekki látinn leiða til skerðingar á ríkum og mikilvægum rétti kæranda til endurskoðunar bindandi stjórnvalds­ákvörðunar.

Til vara kveðst kærandi gera þá kröfu fyrir áfrýjunarnefndinni, fari svo að áfrýjunarnefndin staðfesti frávísun háskólaráðs, að áfrýjunarnefnd taki málið til meðferðar sem beina kæru á ákvörðun kærunefndar í máli nr. 1/2020 um synjun á gögnum sem óskað var eftir í töluliðum 2, 6, 7, 8 og 9. Varakröfuna byggir kærandi á 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur að hafi kæra borist að liðnum þriggja mánaða kærufresti skuli taka hana til meðferðar ef afsakanlegt verður talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Í þessu sambandi vísar kærandi til þess að ákvörðun kærunefndar í máli nr. 1/2020 hafi gefið kæranda samkvæmt orðanna hljóðan ríka ástæðu til að líta svo á að um heimvísun málsins til Hjúkrunarfræðideildar væri að ræða. Þegar af þeirri ástæðu hafi kærandi ekki haft neina ástæðu til að kæra synjun á töluliðum 2, 6, 7, 8 og 9 heldur hafi verið rétt að líta svo á að ef synjað yrði um afhendingu þeirra gagna við nýja meðferð Hjúkrunarfræðideildar yrði sú ákvörðun kæranleg. Um sambærileg tilvik í þessu samhengi vísar kærandi t.d. til álits umboðsmanns Alþingis nr. 9758/2018. Kærandi vísar einnig til þess að henni hafi aldrei verið kynnt kæruleið og kærufrestur í máli 2020/1 og undirstriki það skilning kæranda að um heimvísun hafi verið að ræða.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

Í athugasemdum HÍ er m.a. vísað til þess að ákvörðun kærunefndarinnar í máli nr. 2020/1, sem birt var 27. maí 2020, hafi verið endanleg innan skólans samkvæmt þeim reglum sem giltu um kæruleiðir nemenda en óumdeilt sé að Hjúkrunarfræðideild hafi farið eftir niðurstöðu kærunefndarinnar við afhendingu gagnanna. Bent er á að önnur gögn sem kærandi gerir kröfu um afhendingu á, s.s. gögn sem tilgreind eru í töluliðum 10, 11 og 12, séu ekki til og þ.a.l. ekki hægt að veita aðgang að þeim.

Nánar tiltekið vísar HÍ til þess að í desember 2020 hafi háskólaráði borist kæra frá kæranda þar sem kærð hafi verið sú afstaða deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar að synja afhendingu annarra gagna en þegar höfðu verið afhent á grundvelli niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í máli nr. 2020/1. Sú ákvörðun sem kærandi kæri nú til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sé því ákvörðun háskólaráðs frá 8. febrúar 2021 í máli nr. 2020/4.

HÍ bendir á að við meðferð háskólaráðs á málinu hafi verið leitað ráðgefandi álits hjá kærunefnd í málefnum nemenda. HÍ vísar til þess að í ákvörðun háskólaráðs frá 8. febrúar sl. sé vísað til rökstuðnings kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í máli nr. 2020/4. Í nefndu áliti sé að finna rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu að vísa frá kröfu kæranda um afhendingu þeirra gagna sem talin voru upp í töluliðum 2, 6, 7, 8 og 9 í fyrri niðurstöðu kærunefndarinnar nr. 2020/1. Í ákvörðun kærunefndarinnar í máli nr. 2020/1 sem birt var kæranda 27. maí 2020 hafi niðurstaðan verið sú að synja bæri um afhendingu umræddra gagna. Sú ákvörðun hafi verið endanleg innan HÍ samkvæmt þeim reglum sem þá giltu um kæruleiðir nemenda en óumdeilt sé að Hjúkrunarfræðideild hafi farið eftir niðurstöðu kærunefndarinnar við afhendingu gagnanna. Líkt og fram komi í áliti kærunefndar í málefnum nemenda dagsettu 28. janúar 2021 séu önnur gögn sem kærandi geri kröfu um afhendingu á, s.s. gögn sem tilgreind voru í töluliðum 10, 11 og 12 í ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda nr. 2020/1, ekki til og þ.a.l. er ekki hægt að veita aðgang að þeim.

V.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun HÍ að synja kæranda um aðgang að tilteknum gögnum er varða inntöku nemenda í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ vorin 2014 og 2015.

Ekki er ágreiningur með aðilum um aðild kæranda að málinu, en kærunefnd nemenda við HÍ hefur í úrskurði sínum nr. 2020/1 komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi beina, sérstaka, verulega og lögvarða hagsmuni að gæta vegna umsókna um ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild HÍ vorin 2014 og 2015.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, sbr. og 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, verður máli ekki skotið til nefndarinnar fyrr en endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemanda liggur fyrir.

Í forsendum fyrir ákvörðun kærunefndar í málum nemenda í máli kæranda nr. 2020/1, sbr. ákv. dagsettu 27. maí 2020, kom fram sú afstaða nefndarinnar að beiðni kæranda um afhendingu gagna hafi ekki fengið efnislega meðferð sem fært væri að endurskoða. Var það því niðurstaða nefndarinnar að leggja bæri fyrir Hjúkrunarfræðideild skólans að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju og setti nefndin fram tiltekin sjónarmið sem deildinni bæri að leggja til grundvallar við þá málsmeðferð. Með hliðsjón af orðalagi ákvörðunarinnar var kæranda rétt að líta svo á að hún fæli ekki í sér endanlega ákvörðun skólans um réttindi hennar og að kæranda væri því ekki unnt að skjóta synjun á afhendingu tiltekinna gagna til áfrýjunarnefndarinnar við það tímamark.

Að mati áfrýjunarnefndar lá endanleg úrlausn ekki fyrir fyrr en með úrskurði háskólaráðs 8. febrúar 2021. Kæra þessi barst áfrýjunarnefnd 10. febrúar 2021 og þar með innan þeirra fresta sem VII. kafli stjórnsýslulaga kveður á um, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema fellur það m.a. undir valdsvið áfrýjunarnefndarinnar að úrskurða í málum þar sem námsmenn í opinberum háskólum og öðrum háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra samkvæmt 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 telja brotið á rétti sínum vegna afgreiðslu umsókna um skólavist. Nefndin er samkvæmt þessu bær til að fjalla um kæruefnið.

Um beiðni kæranda gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða.

Í 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga er að finna ákvæði sem takmarkar upplýsingarétt. Í því máli sem hér er til umfjöllunar hefur 3. tölul. nefnds ákvæði einkum þýðingu en þar er mælt fyrir um að upplýsingarétturinn taki ekki til vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota, en þó skuli aðili eiga aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá. Í 2. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að ef það sem greinir í 1. mgr. eigi aðeins við um hluta skjals skuli veita aðgang að öðru efni skjalsins. Í 17. gr. laganna er svo að finna frekari takmörkun á upplýsingaréttinum en samkvæmt ákvæðinu er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að leggja til grundvallar að kæranda sé heimilt að fá aðgang að umsóknum og gögnum sem aðrir umsækjendur hafa lagt fram að svo miklu leyti sem ákvæði 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga takmarka ekki þann rétt.

Þrátt fyrir orðalag í kæru til nefndarinnar verður að skilja kröfugerðina þannig að einungis sé gerð krafa um afhendingu þeirra gagna sem ekki hafa verið afhent kæranda. Kærandi hefur enda ekki þörf á, o.þ.m. ekki lögvarða hagsmuni af, úrlausn um þau gögn sem enginn ágreiningur er um og kærandi hefur undir höndum. Fyrir liggur að kæranda hafa þegar verið afhent gögn sem talin eru upp í 1., 3.-5 og að hluta til 9. tölulið í beiðni hennar um aðgang að gögnum, dagsettu 27. júní 2019. Ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands dagsettu 27. maí 2020 var grundvöllur að afhendingu gagna samkvæmt framangreindum liðum í kröfugerð kæranda. Fallist er á með kærunefndinni að við afhending gagnanna skuli undanskilja þær upplýsingar í gögnunum sem telja verður að aðrir umsækjendur eigi ríkari einkahagsmuni af að leynt fari, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur komið fram af hálfu HÍ að gögn sem tilgreind eru í töluliðum 10, 11 og 12 í kæru, séu ekki til og þ.a.l. sé ekki hægt að veita aðgang að þeim. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fjallað frekar um afhendingu gagna sem óskað er eftir með umræddum töluliðum enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að umrædd gögn séu til og engin ástæða til þess að draga fullyrðingar HÍ um það í efa.

Eftir standa álitamál er lúta að rétti kæranda til aðgangs að gögnum samkvæmt 2. tölulið og samkvæmt 6.-9. tölulið upplýsingabeiðni kæranda.

Í 2. tölulið í beiðni kæranda er óskað eftir aðgangi að prófskírteinum og einkunnum allra umsækjenda í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ vorin 2014 og 2015. Fyrir liggur að kærandi hefur þegar fengið ópersónugreinanlegar upplýsingar um einkunnir annarra umsækjenda sem teknir voru inn í nám í ljósmóðurfræðum í Hjúkrunarfræðideild árin 2014 og 2015 og hófu þar nám. Að mati áfrýjunarnefndarinnar eru þær upplýsingar fullnægjandi grundvöllur til þess að kærandi geti lagt mat á hvernig deildin stóð að inntöku nemenda hvað þennan þátt málsins varðar en fyrir liggur að einkunnir í grunnnámi í hjúkrunarfræði vógu þyngst við mat á því hvaða nemendur voru teknir inn í námið. Að mati áfrýjunarnefndar eru hagsmunir annarra umsækjanda af því að synja um aðgang að þessum upplýsingum, með persónugreinanlegum hætti, mun ríkari en hagsmunir kæranda af því að fá að notfæra sér vitneskju úr þeim, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum telur áfrýjunarnefndin rétt að synja kæranda um aðgang að gögnum samkvæmt þessum lið beiðni hennar.

Í 6. tölulið í beiðni kæranda er óskað eftir aðgangi að gögnum er varða frammistöðu í viðtali allra umsækjenda í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ vorin 2014 og 2015. Eftir skoðun á gögnunum liggur fyrir að um er að ræða stöðluð blöð sem hafa, að mati áfrýjunarnefndar, ekki að geyma neinar upplýsingar sem ekki er að finna í greinargerðum umsækjenda og ferilsskrám, sem þegar er búið að afhenda. Með vísan til þess er það niðurstaða áfrýjunarnefndar að ekki standi rök til að hagsmunir kæranda eigi að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum annarra umsækjenda, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Er það því niðurstaða nefndarinnar að veita skuli kæranda aðgang að gögnunum, hvað varðar þá umsækjendur sem fengu inngöngu í ljósmóðurfræði á umræddum árum og hófu þar nám, að svo miklu leyti sem í gögnunum er ekki að finna mikilvægar upplýsingar um einkahagi þeirra þeirra.

Í 7. tölulið í beiðni kæranda var óskað eftir aðgangi að umsögnum um aðra umsækjendur. Áfrýjunarnefnd fellst á það mat kærunefndar í málefnum nemenda í HÍ í máli nr. 2020/1 að einkahagsmunir annarra umsækjenda séu mun ríkari en hagsmunir kæranda af því að fá að nýta sér upplýsingar sem þar koma fram, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi er tekið tillit til þess að af lestri allra gagna sem lágu til grundvallar við ákvörðun um inntöku inn í námið virðist ljóst að umrædd gögn hafi haft litla þýðingu við matið.

Í 8. tölulið var óskað var eftir aðgangi að matsblöðum sem notuð voru til að meta alla umsækjendur í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ vorin 2014 og 2015. Í ákvörðun sinni nr. nr. 2020/1 komst kærunefnd í málefnum nemenda við HÍ að þeirri niðurstöðu að umrædd gögn væru undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga þar sem um væri að ræða vinnuskjöl sem stjórnvald hafi ritað til eigin afnota. Á þetta getur áfrýjunarnefnd ekki fallist. Eins og áður segir hefur HÍ upplýst að hvorki liggi fyrir fundargerðir né annar skjalfestur rökstuðningur fyrir því hvaða nemendur skyldu teknir inn í námið. Eftir skoðun á umræddum matsblöðum, þar sem dregin er saman punktafjöldi umsækjenda í matinu, er það niðurstaða áfrýjunarnefndar að þar sé að finna upplýsingar sem lágu að einhverju leyti til grundvallar þegar endanleg ákvörðun var tekin um hvaða umsækjendur skyldu teknir inn í námið. Þá virðist ljóst að þessara upplýsinga verði ekki aflað annars staðar frá. Með vísan til þessa er það sömuleiðis niðurstaða áfrýjunarnefndar að ekki standi hér svo sérstaklega á að hagsmunir kæranda eigi að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum annarra umsækjenda, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Er það því niðurstaða nefndarinnar að veita skuli kæranda aðgang að matsblöðum þeirra umsækjenda sem fengu inngöngu í ljósmóðurfræði á umræddum árum og hófu þar nám, að svo miklu leyti sem í gögnunum er ekki að finna mikilvægar upplýsingar um einkahagi þeirra þeirra.

Í 9. tölulið í beiðni kæranda er óskað eftir gögnum um ákvörðun um hvaða umsækjendur um nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ vorin 2014 og 2015 fengu viðtal. Fyrir liggur að kærandi hefur fengið aðgang að gögnum um framangreinda ákvörðun hvað varðar þá umsækjendur sem fóru í viðtal og voru teknar inn í nám í ljósmóðurfræði. Að mati áfrýjunarnefndarinnar er ekki unnt að fallast á að kærandi eigi rétt á gögnum samkvæmt þessum tölulið varðandi þá umsækjendur sem fóru í viðtal en voru ekki teknir inn í nám í ljósmóðurfræði eða hófu ekki nám, enda varpa þau gögn ekki ljósi á það hvernig deildin stóð að inntöku nemenda í stað kæranda. Að mati áfrýjunarnefndarinnar eru hagsmunir þessara umsækjenda af því að ekki verði upplýst um nöfn þeirra mun ríkari en hagsmunir kæranda af því að fá þær upplýsingar, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema að synja beri kæranda um aðgang að gögnum samkvæmt 2., 7., 10., 11. og 12. tölulið beiðni hennar og einnig um aðgang að gögnum samkvæmt 9. tölulið hvað varðar þá umsækjendur sem fóru í viðtal en fengu ekki inngöngu í nám í ljósmóðurfræði eða hófu ekki nám. Áfrýjunarnefndin telur að veita beri kæranda aðgang að gögnum samkvæmt 6. og 8. tölulið beiðni hennar með þeim fyrirvörum sem greinir hér að framan.

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda, um aðgang að prófskírteinum og einkunnum allra umsækjenda í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ árin 2014 og 2015, er hafnað.

Veita skal kæranda aðgang að gögnum er varða frammistöðu í viðtali allra umsækjenda sem teknir voru inn í nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ árin 2014 og 2015 og hófu þar nám, að undanskildum upplýsingum í þeim gögnum sem telja verður að aðrir umsækjendur eigi ríkari einkahagsmuna af að leynt fari, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Kröfu kæranda um aðgang að umsögnum um alla umsækjendur sem teknir voru inn í nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ árin 2014 og 2015 er hafnað.

Veita skal kæranda aðgang að matsblöðum sem notuð voru til að meta alla umsækjendur sem teknir voru inn í nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ árin 2014 og 2015 og hófu þar nám, að undanskildum upplýsingum í þeim gögnum sem telja verður að aðrir umsækjendur eigi ríkari einkahagsmuna af að leynt fari, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Kröfu kæranda, um aðgang að gögnum um ákvörðun um hvaða umsækjendur í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ árin 2014 og 2015 fengu viðtal, er hafnað hvað varðar þá umsækjendur sem fóru í viðtal en voru ekki teknir inn í nám í ljósmóðurfræði eða hófu ekki nám.

Kröfu kæranda um afhendingu á fundargerðum, þar sem ákveðið var hvaða umsækjendur fengju að hefja nám, rökstuðningi fyrir ákvörðunum um hvaða nemendur fengju að hefja nám, að öðrum ótöldum gögnum sem stuðst var við við ákvörðunina er hafnað.

 

Einar Hugi Bjarnason

 

 

Daníel Isebarn Ágústsson                                                             Eva Halldórsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta