Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 448/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 448/2021

Fimmtudaginn 2. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2018, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2021, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á árinu 2017. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2018, voru greiðslur til kæranda stöðvaðar á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna höfnunar á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Kærandi sótti á ný um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 5. ágúst 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hann hafði fullnýtt bótatímabil sitt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. september 2021. Með bréfi, dags. 3. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 8. október 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. október 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þann 29. desember 2017 hafi hann verið skráður af atvinnuleysisbótum vegna þess að hann hafi ekki mætt á námskeið sem hann hafi verið boðaður á. Hann hafi ekki getað mætt vegna veikinda annars vegar og hins vegar vegna þess að hann hafi verið að fara í atvinnuviðtal á sama tíma. Eftir þetta hafi kærandi fengið vinnu og ekki velt málinu meira fyrir sér. Nú sé kærandi að sækja um atvinnuleysisbætur fjórum árum seinna og þá komi í ljós að sú ákvörðun Greiðslustofu um að stöðva atvinnuleysisbætur til kæranda vegi greinilega svo þungt að Vinnumálastofnun segi kæranda enn ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Kærandi hafi því ákveðið að kæra upphaflega ákvörðun Vinnumálastofnunar og einnig þá ákvörðun stofnunarinnar að hann eigi ekki rétt á bótum fjórum árum seinna.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 29. desember 2017 hafi kærandi verið afskráður af atvinnuleysisbótum vegna höfnunar á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Kærandi hafði þá fengið greiddar atvinnuleysisbætur lengur en 24 mánuði á sama tímabili og hafði því misst rétt til bóta. Sú ákvörðun, sem hafi verið birt kæranda þann 17. janúar 2018, hafi verið tekin á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í ákvörðun stofnunarinnar, sem hafi verið birt kæranda 31. ágúst 2021, hafi komið fram að kærandi gæti áunnið sér rétt að nýju innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Til að vinna sér inn nýtt tímabil þurfi 24 mánuðir að líða frá því að atvinnuleitandi hafi síðast þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Stofnuninni hafi láðst að taka fram að kærandi geti ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 31. gr. laganna. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi þann 3. september 2021 en kæranda hafi aldrei verið birtur rökstuðningurinn. Beðist sé velvirðingar á þessum mistökum stofnunarinnar.

Mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun um biðtíma á grundvelli 58. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé frá 29. október 2017. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé því liðinn, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til umfjöllunar sé því hvort kærandi hafi áunnið sér inn nýtt tímabil þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 5. ágúst 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sæta biðtíma eftir greiðslum bóta. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma.

Þá segi í 4. mgr. 58. gr. laganna;

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Í 29. gr. laganna sé fjallað um lengd tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 1., 2. og 4. mgr. segi;

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög skv. XI. kafla standa yfir. Hið sama á við um þann tíma þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr., og um þann tíma er tilfallandi veikindi standa yfir skv. 5. mgr. 14. gr.

Sá tími sem hinn tryggði starfar á vinnumarkaði eftir að tímabil skv. 1. mgr. hefst telst ekki hluti tímabilsins. Enn fremur telst sá tími sem atvinnuleysistryggingar geymast skv. V. kafla ekki hluti tímabilsins skv. 1. mgr.

Tímabilið skv. 1. mgr. heldur áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.“

Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um hvenær nýtt tímabil geti hafist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Ákvæðið hljóði svo:

„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Viðurlagaákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 58. gr. laganna og þar sem kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur lengur en 24 mánuði þegar viðurlagaákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekin hafi kærandi misst rétt til bóta, sbr. 4. mgr. 58. gr. laganna.

Fyrir liggi að þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 5. ágúst 2021 hafi hann ekki starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur og hafi því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils. Þar sem kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 5. ágúst 2021 hafi umsókn hans verið hafnað.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Vinnumálastofnunar frá 17. janúar 2018 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og frá 31. ágúst 2021 um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Verður fyrst vikið að ákvörðun frá 17. janúar 2018.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2018, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 1. september 2021. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst rúmlega þremur og hálfu ári eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er þessum hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. ágúst 2021 um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysibætur á þeirri forsendu að hann hafi fullnýtt bótatímabil sitt.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði, áður 36 mánuðir, frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. janúar 2018 voru greiðslur atvinnuleysisbóta stöðvaðar frá og með 18. janúar 2018 á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006. Ákvæði 4. mgr. 58. gr. er svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 5. ágúst 2021, starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur og hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2021, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

Þeim hluta kærunnar sem snýr að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta