Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 419/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 419/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 31. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála bréf Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. apríl 2023 um nýtingu persónuafsláttar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. apríl 2023 var kæranda tilkynnt um að við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins hafi komið í ljós að persónuafsláttur hefði verið ofnýttur við útreikning greiðslna hjá kæranda vegna skráningu á skattkorti maka. Heimilt sé að nýta persónuafslátt maka í átta mánuði í kjölfar andláts maka en í tilviki kæranda hafi persónuafsláttur verið nýttur umfram það tímabil.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. ágúst 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að maður kæranda hafi látist X 2021 og hafi hún mátt nota skattkort hans í „x“ langan tíma. Í heimsókn hennar til Tryggingastofnunar ríkisins hafi henni verið sagt að skattkort hans myndi falla út næstkomandi mánaðarmót. Í sumar hafi hún fengið rukkun frá ríkisinnheimtu og hafi þá komið í ljós að Tryggingastofnun hafi ekki fellt skattkort mannsins hennar út og hafi því ekki „skilað inn skatti“ heldur greitt hann áfram til hennar. Þar sem kærandi hafi treyst Tryggingastofnun og hafi þar að auki hvorki haft getu né kunnáttu til að fylgjast með þessu þá hafi það farið svo að hún hafi lent í skuld við Skattinn. Í ljósi þess að þetta séu mistök Tryggingastofnunar krefjist hún þess að stofnunin endurgreiði Skattinum. Þá krefjist hún þess að krafan sé felld niður og að hún fái endurgreitt það sem hún hafi greitt Skattinum af kröfunni.

III.  Niðurstaða

Í kæru fer kærandi fram á að Tryggingastofnun endurgreiði Skattinum þar sem mistök stofnunarinnar hafi leitt til þess að hún hafi lent í skuld við Skattinn. Telur úrskurðarnefndin að líta verði svo á að kærð sé skattaleg meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á greiddum bótum til kæranda.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Ljóst er að ákvörðun um nýtingu persónuafsláttar og þar með skattaleg meðhöndlun bóta kæranda er ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar. Það ágreiningsefni á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ef hún er ósátt við vinnubrögð Tryggingastofnunar getur hún freistað þess að bera umkvartanir sínar undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta