Mál nr. 19/2023-Úrskurður
Mál nr. 19/2023
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
félags- og vinnumarkaðsráðherra
Skipun í embætti. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot. Málskostnaður.
A kærði ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að skipa karl í embætti ríkissáttasemjara. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í embættið. Var því ekki fallist á að kærði hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Kröfu kæranda um málskostnað var hafnað.
1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 29. janúar 2025 er tekið fyrir mál nr. 19/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
2. Með kæru, dags. 28. nóvember 2023, kærði A ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipa karl í embætti ríkissáttasemjara. Kærandi telur að með skipuninni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þá krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða sér málskostnað við að hafa kæruna uppi.
3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. janúar 2024. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2024, ásamt fylgigögnum og var kynnt kæranda í kjölfarið. Athugasemdir kæranda eru dags. 13. mars 2024 og athugasemdir kærða 22. mars s.á. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi 5. apríl 2024.
MÁLAVEXTIR
4. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti auglýsti hinn 3. júní 2023 embætti ríkissáttasemjara laust til umsóknar með umsóknarfresti til 19. júní 2023. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að skipað væri í embættið á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur til fimm ára í senn og skyldi ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Menntunar- og hæfniskröfur voru tilgreindar sem menntun og reynsla sem nýttist í embætti, forystuhæfileikar, framúrskarandi samskiptahæfni, þekking á íslenskum vinnumarkaði, framúrskarandi færni í íslensku, mæltu og rituðu máli, góð kunnátta í ensku, mæltu og rituðu máli, áhugi, skilningur og metnaður fyrir embættinu og skipulagshæfileikar, frumkvæði og sjálfstæði. Þá var í auglýsingu vakin athygli á skilyrðum 20. gr. laganna í tengslum við skipun í embættið en þar kæmi meðal annars fram að gæta skyldi þess að afstaða ríkissáttasemjara væri slík að telja mætti hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda.
5. Alls sóttu sex um embættið, tvær konur og fjórir karlar. Kærði skipaði ráðgefandi þriggja manna hæfnisnefnd hinn 20. júní 2023. Nefndin skilaði kærða áætlun um skipunarferli í embættið, dags. 22. júní 2023, þar sem meðal annars kom fram að nefndin myndi framkvæma allt að þrjú möt til grundvallar álitsgerð til ráðherra. Nefndin myndi í lok annars mats leggja mat á hvort þörf væri á þriðja mati. Hæfnisnefnd skilaði ráðherra fyrsta mati, byggðu á umsóknargögnum, með tölvupósti 26. júní s.á. Lagði nefndin til við ráðherra að kærandi og sá karl sem skipaður var síðar í embættið yrðu boðuð í viðtal. Ráðherra samþykkti tillögu hæfnisnefndar sama dag.
6. Ráðgefandi hæfnisnefnd skilaði ráðherra álitsgerð, dags. 10. júlí s.á., að loknum viðtölum við kæranda og þann sem var skipaður í embættið, þar sem fram kom það álit hennar að þeir tveir umsækjendur teldust mjög vel hæf til að gegna embættinu. Í álitsgerð kom fram það mat hæfnisnefndar að karlinn hefði fram yfir kæranda að hafa meiri reynslu af og þekkingu á sáttastörfum í vinnudeilum sem settur ríkissáttasemjari um skeið. Þá var það mat nefndarinnar að karlinn hefði dýpri og meiri þekkingu á vinnumarkaði en kærandi, meðal annars vegna setu sem dómari í Félagsdómi sem hefði það hlutverk að dæma í ágreiningi aðila vinnumarkaðarins. Í ljósi þess taldi hæfnisnefndin að karlinn væri betur til þess fallinn úr hópi umsækjenda að gegna embætti ríkissáttasemjara.
7. Að loknum viðtölum ráðherra við báða umsækjendur 12. júlí 2023, auk viðtala ráðherra við umsagnaraðila beggja, skipaði hann 14. júlí s.á. karlinn ríkissáttasemjara til fimm ára.
8. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi sama dag sem kærði veitti með bréfi, dags. 24. ágúst s.á. Kærandi óskaði eftir frekari rökstuðningi og gögnum málsins frá kærða með bréfi, dags. 29. september 2023. Kærði svaraði erindinu, dags. 10. nóvember s.á., ásamt því að afhenda kæranda gögn.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
9. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við skipun í embætti ríkissáttasemjara. Þá hafi kærði jafnframt brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Kærandi telur enn fremur að öðrum lögum og skráðum og óskráðum meginreglum sem gilda um skipun í embætti hafi ekki verið fylgt.
10. Kærandi telur verulegan annmarka á ákvörðun ráðherra um skipun í embættið þar sem hún sem hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið skipuð. Þá hafi verið ágallar á niðurstöðu hæfnisnefndar og ályktanir hennar um það hvort umsækjenda væri betur fallið til að gegna embættinu hafi verið bersýnilega óforsvaranlegar og ómálefnalegar. Kærandi byggir á því, með hliðsjón af annmörkum á ráðningarferlinu, að kærði hafi hvorki sýnt fram á með rökstuðningi né gögnum að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar skipun karlsins í embættið. Kæranda hafi því verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í starfið samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kærandi byggir á því að þeir annmarkar sem voru á skipunarferlinu leiði því til þess að sönnunarbyrði um að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðuninni færist yfir á kærða.
11. Kærandi byggir á því að sjónarmið og röksemdir sem lágu til grundvallar niðurstöðu kærða hafi verið ómálefnaleg og óforsvaranleg og í andstöðu við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að ráða beri hæfasta umsækjandann. Kærandi byggir á því að rökstuðningur og þau gögn sem afhent hafi verið kæranda sýni ekki fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða, sbr. 4. og 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Þá telur kærandi að hún hafi ekki fengið öll gögn málsins afhent, þ.m.t. svör umsækjenda í viðtali við ráðgefandi hæfnisnefndina, dags. 5. júlí 2023. Þá hafi fundargerðir hæfnisnefndar ekki veitt miklar upplýsingar um málsmeðferð eða ákvarðanir nefndarinnar.
12. Kærandi telur að hún hafi verið látin gjalda kynferðis síns þar sem minna menntaður karl hafi verið skipaður. Við meðferð málsins hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni, reynslu og þekkingu kæranda á íslenskum vinnumarkaði en að sama skapi meira úr reynslu þess sem var skipaður á tilteknum sviðum umfram það sem efni stóðu til.
13. Kærandi vísar til þess að ýmis ákvæði laga nr. 150/2020 hafi beinlínis þann tilgang að bæta sérstaklega stöðu kvenna á vinnumarkaði. Í lögunum sé lögð sú skylda á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynja á vinnumarkaði. Í því felist meðal annars sú skylda að gæta þess að ekki sé gengið fram hjá hæfum konum við ráðningu í störf. Kærandi bendir hér á að einungis ein kona hafi gegnt embætti ríkissáttasemjara frá því að embættið tók til starfa, árið 1980. Þá vísar kærandi til þeirrar forgangsreglu sem leiðir af dómi Hæstaréttar, Hrd. 1993, bls. 2230, að séu tveir jafnhæfir umsækjendur um störf skuli leitast við að ráða það kyn sem hallar á á starfssviðinu.
14. Kærandi vísar til 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 um þau matsviðmið sem kærunefnd jafnréttismála skuli líta til þegar hún metur hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu. Þar beri að taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum, reglugerðum eða sem talið verður annars að komi að gagni í starfinu.
15. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við það að ráðgefandi hæfnisnefnd hafi ítrekað vikið frá hæfniskröfum auglýsingar og gert breytingar á matsþáttum frá upphaflegum og fortakslausum hæfniskröfum auglýsingar um embættið. Þá hafi verið ágalli á stigagjöf og mati nefndarinnar varðandi hæfniskröfur.
16. Kærandi tekur fram að kærði beri ábyrgð á skipun í embættið en ekki hæfnisnefndin. Kærandi telur ljóst að einfaldur samanburður á umsóknargögnum kæranda og þess umsækjanda sem skipaður var í embættið leiði í ljós að mat hæfnisnefndarinnar hafi verið ófullnægjandi og í mörgum tilfellum einfaldlega rangt. Með því að kærði lagði gagnrýnislaust afar gallaða umsögn nefndarinnar til grundvallar skipun í embættið hafi hann brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og þeirri óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að ráða skuli hæfasta umsækjandann í starfið.
17. Þá upplifir kærandi að ófaglega hafi verið staðið að skipunarferlinu þar sem glæsilegur námsferill, þekking, reynsla og ábyrgð kæranda ásamt farsælum starfsferli hafi verið sniðgenginn á einkar niðurlægjandi hátt. Enginn á Íslandi hafi viðlíka sérhæfingu og menntun og kærandi á sérsviði samningatækni, sáttamiðlunar, úrlausnar deilumála og samskipta. Kærandi telur að annmarkar á skipunarferli og niðurstöðu þess staðfesti þá skoðun hennar að ákveðið hafi verið fyrir fram hvaða umsækjandi yrði skipaður og skipunarferlið í heild til málamynda.
18. Kærandi tekur fram að í auglýsingu um embættið hafi hæfniskröfur verið meðal annars þekking á íslenskum vinnumarkaði og menntun og reynsla sem nýtist í embætti. Í mati hæfnisnefndar á umsóknargögnum hafi þessum tveimur hæfniskröfum verið breytt í þekking og reynsla á íslenskum vinnumarkaði og menntun eða reynsla sem nýtist í embætti. Kærandi telur að með breytingum hafi hin ráðgefandi hæfnisnefnd vikið frá upphaflegum hæfniskröfum auglýsingar en miklu skipti að ákvörðun um mismunandi vægi hæfnisþátta byggi á ítarlegri starfsgreiningu sem tekin sé í upphafi skipunarferlis.
19. Kærandi bendir á að ætluð reynsla karlsins af íslenskum vinnumarkaði umfram kæranda hafi skipt hér sköpum varðandi mat hæfnisnefndar á því hver væri best fallinn til þess að gegna embættinu. Hæfnisnefnd hafi við fyrsta mat sitt á umsóknargögnum gefið báðum umsækjendum fjögur stig fyrir matsliðinn reynsla sem nýtist í embætti. Kærandi hafi hins vegar einungis fengið þrjú stig fyrir liðinn þekking og reynsla af íslenskum vinnumarkaði meðan karlinn hafi fengið fjögur stig fyrir hann. Í öðru mati nefndarinnar, eftir viðtöl við umsækjendur, hafi kærandi aftur verið metin stigi lægra en karlinn undir síðarnefndum matslið, sem var eins orðaður, en bæði hafi verið metin með fimm stig undir liðnum menntun og reynsla sem nýtist í starfi.
20. Kærandi bendir á að kærða hafi borið, þegar hann ákvað mismunandi vægi hæfnisþátta, að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum í auglýsingu um embættið sem vægju þyngst við ákvörðun um skipun. Kærandi bendir á að sá munur sem sé á lýsingu á hæfniskröfum í auglýsingu og í fyrsta og öðru mati hæfnisnefndar sé óheppilegur. Þessi mismunur geti skipt sköpum við mat á því hvaða umsækjandi teljist hæfastur. Kærandi hafi óskað svara kærða um heimildir nefndarinnar til þess að víkja frá skilyrðum auglýsingar en kærði hafi ekki brugðist við.
21. Kærandi telur að stigagjöf hæfnisnefndar og álit hennar á því hvor umsækjandi væri hæfari sé haldið margvíslegum ágöllum. Kærandi bendir hér á að í samantektarkafla álitsgerðarinnar komi fram það mat að sá karl sem skipaður var í embættið hafi meiri reynslu af og þekkingu á sáttastörfum í vinnudeilum annars vegar sem settur ríkissáttasemjari í vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins árið 2023 og hins vegar sem settur ríkissáttasemjari frá 1. júní 2023. Þá hafi annað úrslitaatriði í álitsgerðinni verið það að karlinn hefði verið dómari við Félagsdóm. Kærandi byggir á því að með þessu sé meira gert úr reynslu karlsins á sama tíma og horft sé vísvitandi fram hjá reynslu kæranda af sáttastörfum í vinnudeilum, þekkingu hennar á vinnumarkaði, hæfni og menntun.
22. Kærandi bendir hér á að reynsla karlsins sem setts ríkissáttasemjara sé takmörkuð við rúma þrjá mánuði meðal annars á þeim tíma þegar skrifstofa embættisins var að mestu lokuð. Þá hafi reynsla af dómstörfum í Félagsdómi ekki verið meðal hæfniskrafna í auglýsingu um embættið auk þess að sú reynsla karlsins takmarkist við setu í fjórum málum samkvæmt dómasafni á vef Félagsdóms. Kærandi byggir á því að horfa þurfi hér til lengdar tíma sem dómari, fjölda mála og hversu langt er liðið síðan störfin hafi verið innt af hendi. Kærandi bendir á að þessi atriði hafi vegið þungt í ákvörðun kærða um skipun hans í embættið, kæranda í óhag. Setning karlsins sem ríkissáttasemjara eða seta hans í Félagsdómi geti engan veginn verið rök fyrir því að hann hafi meiri þekkingu á íslenskum vinnumarkaði heldur en kærandi.
23. Kærandi telur að hæfnisnefndin horfi fram hjá þekkingu og reynslu hennar af íslenskum vinnumarkaði þannig að hún hafi fengið færri stig en karlinn í fyrsta og öðrum matþætti nefndarinnar þrátt fyrir að bæði hafi hlotið sömu stig fyrir matsþáttinn reynsla sem nýtist í embætti. Kærandi bendir hér á að ekki standist skoðun að bæði fái sömu stig fyrir síðastnefndan matsþátt; en þau séu ekki metin jafnhæf varðandi þekkingu á íslenskum vinnumarkaði (eða þekkingu og reynslu á íslenskum vinnumarkaði). Kærandi tekur fram að í umfjöllun hæfnisnefndar um umsækjendur sé ekki vikið einu orði að reynslu og þekkingu hennar af sáttastörfum í vinnudeilum. Þá sé gróflega horft fram hjá reynslu og þekkingu hennar á íslenskum vinnumarkaði í mati hæfnisnefndarinnar.
24. Hvað það varðar vísar kærandi til þess að í III. kafla álitsgerðar segi að hún hafi frá árinu 2021 starfað samhliða starfi sínu hjá Háskólanum í Reykjavík sem aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara og hafi á þeim tíma stýrt fræðsluráði og haldið utan um fræðslustarf embættisins og komið að stefnumótun þess. Kærandi tekur fram að hún hafi verið ráðin í fullt starf við embættið í eitt ár frá árinu 2021. Hún hafi starfað þar í hlutastarfi árið 2022 ásamt því að taka að sér tilfallandi sáttastörf sem verktaki árið 2023. Kærandi hafi því starfað sem aðstoðarsáttasemjari hjá embættinu í tvö og hálft ár við sáttastörf auk þess að sjá um fræðsluáætlun, sem sé skilgreind sem einn af þremur lykilþáttum embættisins. Hún hafi komið að lausn einstakra vinnudeilna, þ.m.t. að stýra krefjandi vinnudeilum. Hún hafi verið embættinu til ráðgjafar og haft forystu í verkefni varðandi jöfnun launa milli markaða sem fulltrúar BSRB, KÍ, BHM, ríkis og sveitarfélaga komu að. Þá hafi hún komið að öðrum deilum sem aðstoðarsáttasemjari þ.m.t. í tveimur samflotum félaga launafólks við félög atvinnurekenda. Svo virðist sem þessi reynsla kæranda hafi í engu verið metin. Þá búi kærandi yfir annarri starfsreynslu sem ráðgjafi þar sem hún sinnti meðal annars samningagerð fyrir íslensk verkalýðsfélög og launagreiðendur á árabilinu 2014–2021. Hafi hún setið bæði sem formaður samninganefndar og ráðgjafi launagreiðenda í kjaradeilum í þeim störfum. Til þessarar reynslu hafi ekki verið litið í mati hæfnisnefndar.
25. Kærandi bendir á að í álitsgerð hæfnisnefndar hafi verið sagt um þann umsækjanda sem skipaður var í embættið að hann hafi starfað í hlutastarfi hjá ríkissáttasemjara. Þegar um reynslu hjá embættinu sé að ræða verði að gera greinarmun á starfsreynslu í fullu starfi eða hlutastarfi. Engar upplýsingar eða gögn sem sýna fram á hlutastarf hafi hins vegar fylgt rökstuðningi frá kærða. Þá hafi kærði ekki brugðist við beiðni hennar um frekari upplýsingar um reynslu umsækjandans sem var skipaður.
26. Kærandi telur veigamikinn annmarka á álitsgerð hæfnisnefndar að nefndin hafi talið báða umsækjendur mjög vel hæfa varðandi matsþáttinn menntun sem nýtist í embætti. Staðreyndin sé sú að kærandi standi mun framar karlinum þar sem hún hafi lokið doktors-, meistara- og bakkalársprófi í viðskiptafræði, sé vottaður sáttamiðlari og með kennsluréttindi á háskólastigi. Karlinn hafi aftur á móti lokið embættisprófi í lögfræði (sem jafngildi meistaraprófi) og sé vottaður sáttamiðlari. Menntun kæranda sé því sérhæfðari en karlsins og liggi nær því meginhlutverki ríkissáttasemjara samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 80/1938 að leiða sáttaumleitanir í vinnudeilum. Menntun kæranda sé því betur fallin til að nýtast í embættinu. Kærandi hafnar þeim röksemdum kærða að málflutningsleyfi karlsins fyrir héraðsdómi og Hæstarétti geti skákað formlegri menntun kæranda og þá teljist slík réttindi ekki viðurkennd prófgráða samkvæmt 7. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Kærandi telur að kærði hafi litið fram hjá menntun kæranda og hafi ekki borið hana saman við menntun karlsins.
27. Hvað þetta varðar bendir kærandi á að af rökstuðningi kærða mætti ráða að umsækjendur um embættið hafi þurft að ljúka fullnaðarnámi í lögfræði þótt það komi hvergi fram í fortakslausum hæfniskröfum auglýsingar. Í ljósi þess að málflutningsleyfi karlsins og seta hans sem dómari í Félagsdómi hafi augljóslega skipt miklu máli og haft úrslitaáhrif á val kærða í embættið hefðu þau skilyrði átt að vera meðal hæfniskrafna í auglýsingu um embættið. Vísar kærandi hér til athugasemda við 19. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 150/2020.
28. Kærandi gerir verulegar athugasemdir við mat hæfnisnefndar varðandi matsþáttinn reynsla sem leiðtogi (forystuhæfileikar). Í fyrsta mati undir þessum lið hlaut kærandi þrjú stig en karlinn fjögur stig. Bæði hlutu fimm stig í öðru mati nefndarinnar, þar sem matsþátturinn var nefndur Reynsla sem leiðtogi (forystuhæfileikar). Kærandi telur niðurstöðu fyrsta mats með öllu óskiljanlega varðandi þennan þátt. Kærandi sé lektor og forstöðumaður Executive MBA-náms við Háskólann í Reykjavík þar sem námskeið hennar snúist um samningatækni, mannauðsstjórnun og Executive Management Simulation, sem snýst um að kenna stjórnendum að eiga samskipti við alla hagsmunaaðila þ.m.t. stjórn fyrirtækis og aðila vinnumarkaðar. Kærandi hafi hannað og stjórnað námslínu á sviði almennrar samningagerðar og -tækni, úrlausnar deilumála og sáttamiðlunar. Þá hafi kærandi setið í ritnefnd Conflict Resolution Quarterly auk þess að hafa frekari kennslureynslu. Kærandi búi yfir víðtækri stjórnunarreynslu hér á landi sem erlendis; hún hafi rekið ráðgjafafyrirtæki í Hollandi á sviði úrlausnar deilumála, auk reynslu sem aðstoðarsáttasemjari. Kærandi telur mat nefndarinnar hvað varðar þennan matsþátt verulega umdeilanlegt og að ekki megi sjá að karlinn hafi átt að standa henni þar framar í fyrsta mati hæfnisnefndar.
29. Kærandi gerir athugasemd við annað mat hæfnisnefndar varðandi þáttinn áhugi, skilningur og metnaður fyrir embættinu þar sem kærandi hlaut fjögur stig en karlinn fimm stig. Kærandi bendir hér á að miðað við lýsingu hennar í kynningarbréfi hafi hún mikinn áhuga, skilning og metnað fyrir embættinu þannig að erfitt sé að sjá hvers vegna hún hlýtur færri stig en karlinn. Kærandi hafi nefnt mörg tækifæri til að yfirfæra frekar þekkingu og reynslu sína til styrkingar embættisins. Stærsta verkefnið sé að ná sátt á vinnumarkaði og byggja upp traust. Þá skýrði kærandi frá sáttamiðlunarmódeli sem hún hefði áhuga á að innleiða sem byggði á ofuráherslu á trausti, hlutleysi og virku samtali til framtíðar. Hún hafi í samstarfi við aðra skoðað íslenska vinnumarkaðsmódelið og borið það saman við norræn módel sem yrði grunnur að stefnumarkandi greiningu. Þá hafi hún sem aðstoðarsáttasemjari séð um, komið á og viðhaldið fræðsluáætlun embættisins. Þá hafi kærandi nefnt það grundvallaratriði að halda áfram þeirri stefnumótun sem hún hafi komið að sem aðstoðarsáttasemjari um hugmyndafræðina samningur tekur við af samningi. Kærandi bendir hér á að ekkert komi fram í álitsgerð hæfnisnefndar um hvað liggi til grundvallar mati á karlinum í þessum matsþætti. Fyrir utan umsókn hans sé ekki miklar upplýsingar að finna í gögnum málsins hvað þennan lið varðar. Miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki unnt að réttlæta að kærandi hafi hlotið hér færri stig en sá umsækjandi sem skipaður var í embættið.
30. Þá telur kærandi að meiri munur hefði átt að vera í stigagjöf milli umsækjenda í matsþættinum góð kunnátta í ensku, mæltu og rituðu máli þar sem kærandi fékk fimm stig en karlinn fjögur stig. Kærandi bendir hér á að í gögnum sé að finna greinargerð á ensku sem karlinn lagði fram um enskukunnáttu sína. […]. Kærandi telur að nefndin hafi ofmetið kunnáttu karlsins samkvæmt þessum matsþætti meðan kærandi hefur lært og starfað erlendis og birt ritrýndar greinar á ensku sem er jafnframt vinnumál hennar.
31. Kærandi byggir á því að meira hafi verið gert úr hæfni karlsins meðan ótvírætt hallar á kæranda. Þannig hafi hann fengið hæstu einkunn fyrir skipulagshæfileika þrátt fyrir að hafa í viðtali við hæfnisnefnd sagst ekki vera skipulagður og mætti vera betri í því. Kærandi hafi svarað því að hún skipulegði sig mjög vel. Þá rekur kærandi að í auglýsingu hafi verið gerð fortakslaus krafa um framúrskarandi samskiptahæfni. Kærandi setur spurningarmerki við upplýsingar úr viðtali við umsagnaraðila karlsins og hvernig þær samræmist mati kærða á þessari hæfniskröfu. Kærandi fékk aftur á móti þá umsögn að hún væri flink í mannlegum samskiptum og hefði góða nærveru.
32. Kærandi telur að kærði hafi ekki gætt að andmælarétti hennar. Hún bendir á að kærði hafi ekki veitt henni kost á að koma á framfæri athugasemdum um sérstakt hæfi nefndarmanna. Þar sem kerfisbundið mat hafi verið lagt á hæfni kæranda hafi kærða borið að veita henni stuttan frest til að kynna sér niðurstöðu mats ráðgefandi hæfnisnefndar og fá að tjá sig um hana. Kæranda hafi einungis gefist tækifæri til að gera athugasemdir við umfjöllun hæfnisnefndar um menntun og starfsreynslu. Þá hafi kærandi ekki áttað sig á því í samtali við starfsmann ráðuneytisins að um væri að ræða hluta af umfjöllun hæfnisnefndar. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að um texta væri að ræða sem birta ætti opinberlega ef kærandi yrði skipuð. Mikilvægt sé að umsækjanda sé ljóst hverju veitingarvaldshafi óski eftir og hvaða þýðingu það hafi fyrir umsækjanda varðandi athugasemdir. Kærandi telur að veita hefði átt henni aðgang að drögum að mati hæfnisnefndar í heild sinni til þess að tryggja rétt hennar sem umsækjanda til aðgangs að gögnum málsins samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga og hins vegar að koma sjónarmiðum sínum á framfæri samkvæmt 13. gr. sömu laga. Þá hafi hún ekki enn fengið afhent öll umbeðin gögn málsins frá kærða um skipunarferlið þrátt fyrir að hafa formlega óskað eftir þeim.
33. Kærandi leggur áherslu á að hún uppfylli það skilyrði 20. gr. laga nr. 80/1938 að afstaða hennar sé slík að telja megi hana óvilhalla í málum launafólks og atvinnurekenda. Kærandi gerir hins vegar athugasemd við það að kærði hafi haft samráð við forseta Alþýðusambands Íslands og formann Samtaka atvinnulífsins við val á þeim umsækjanda sem skipaður var í embættið. Eftir það samráð hefði það verið niðurstaða kærða að karlinn nyti trausts samtaka aðila vinnumarkaðarins og afstaða hans væri slík að telja yrði hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda. Kærandi spyr hvernig það uppfylli reglur II. kafla stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi að ráðherra hafi samráð við sömu aðila sem áður höfðu komist að þeirri niðurstöðu í álitsgerð hæfnisnefndar að leggja til við kærða að karlinn yrði skipaður í embættið.
34. Kærandi hafnar því að ákvörðun um skipun karlsins hafi byggt á margþættum og heildstæðum samanburði umsækjenda með hliðsjón af því lögbundna meginhlutverki samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 80/1938 að leiða sáttaumleitanir í vinnudeilum. Kærandi bendir á að við heildarmat á öllum fyrirliggjandi gögnum hefði kærði átt að sjá að mat hæfnisnefndarinnar hafi verið ófullnægjandi og í mörgum tilfellum beinlínis rangt. Þá fær kærandi ekki séð að viðtal ráðherra við umsækjendur varpi réttu ljósi, fremur en önnur gögn málsins, á væntanlega frammistöðu karlsins í embætti. Kærandi telur að þau sjónarmið sem kærði hefur dregið fram í málinu nægi ekki til þess að álykta megi svo að karlinn hafi staðið kæranda framar eða að kyn hafi ekki haft áhrif á ákvörðun ráðherra.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
35. Kærði hafnar því að ómálefnalegar ástæður, þ.m.t. kyn umsækjenda, hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða við skipun í embætti ríkissáttasemjara og að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Hafi þau sjónarmið sem lágu til grundvallar ákvörðun kærða um veitingu embættisins verið málefnaleg og mat á þeim verið forsvaranlegt.
36. Kærði bendir á að samkvæmt almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um opinber störf verði að ljá veitingarvaldshafa töluvert svigrúm við mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda og þeir falli að slíkum sjónarmiðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008. Veitingarvaldshafa beri þó að velja þann umsækjanda sem sé talinn hæfastur á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Meðal annars í ljósi þeirrar skyldu hafi umboðsmaður Alþingis lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi verði að sýna fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar við val á umsækjendum af hálfu stjórnvaldsins.
37. Kærði tekur fram að hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn eftir heildarmat og samanburð á hæfni, þekkingu og reynslu umsækjenda, byggt á öllum gögnum málsins og þeim hæfnisþáttum sem lagðir voru til grundvallar þar sem meðal annars var lagt mat á væntanlega frammistöðu þeirra í embætti.
38. Kærði bendir á að í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 80/1938 sé kveðið á um að ríkissáttasemjari annist sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þeirra annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Það sé því meginhlutverk ríkissáttasemjara að leiða sáttaumleitanir. Ákvörðun kærða um skipun í embættið hafi byggst á heildarmati og samanburði á hæfni, þekkingu og reynslu umsækjenda, á grundvelli allra gagna málsins, meðal annars út frá þeim hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu um embættið. Hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn út frá því mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða innan þess svigrúms sem kærði hafi við val á umsækjendum. Kyn umsækjenda var ekki einn þeirra þátta sem litið var til og hafði það því engin áhrif á ákvörðun kærða um skipun í embættið. Megi sjá það af gögnum málsins.
39. Kærði tekur fram að hann hafi skipað ráðgefandi hæfnisnefnd sem hafði það hlutverk að vera honum til fulltingis við undirbúning skipunar í embættið og skila ráðherra skriflegu mati á hæfni umsækjenda samkvæmt erindisbréfi, dags. 20. júní 2023. Við mat á umsóknum skyldi nefndin meðal annars hafa til hliðsjónar þær hæfniskröfur sem fram komu í auglýsingu, auk þess sem nefndin skyldi gæta jafnræðis í hvívetna milli umsækjenda og leggja málefnalegt mat til grundvallar í álitsgerð sinni. Kærði tekur fram að nefndin hafi útbúið og sent ráðherra áætlun um skipunarferlið sem unnin var með hliðsjón af reglum um störf ráðgefandi nefnda er meta hæfni umsækjenda til að gegna embættum innan Stjórnarráðs Íslands. Með áætluninni hafi fylgt tillaga að viðtalsblaði nefndarinnar með stöðluðum spurningum fyrir fyrirhuguð viðtöl hennar við umsækjendur og drög að matsblöðum þar sem tilgreindir voru þeir hæfnisþættir sem nefndin myndi byggja á við mat sitt á umsóknargögnum. Tillaga nefndarinnar að hæfnisþáttum byggði á hæfniskröfum auglýsingar um embættið. Ráðherra hafi samþykkt áætlun nefndarinnar og fyrrgreind fylgiskjöl hennar.
40. Kærði tekur fram að fyrsta mat hæfnisnefndar hafi byggt á þeim gögnum sem umsækjendur létu í té með umsókn sinni með hliðsjón af hæfniskröfum auglýsingar. Kærði bendir á að nefndin hafi ákveðið fyrir fram þá aðferðarfræði við vinnuna að þeir umsækjendur sem fengju þrjú eða fleiri stig í fyrsta mati nefndarinnar yrðu boðaðir til viðtals við hana. Hver nefndarmaður hafi metið sjálfstætt umsóknargögn hvers umsækjanda. Nefndin hefði síðan hist á fundi og farið yfir mat hvers og eins, rætt frávik og óvissuþætti og komist að sameiginlegri niðurstöðu um stigagjöf hvers og eins umsækjanda.
41. Kærði bendir á að hæfnisnefnd hafi í kjölfarið í samráði við ráðherra boðað þá tvo umsækjendur í viðtal sem fengu þrjú eða fleiri stig í fyrsta mati. Kærði bendir á að nefndin hafi í viðtölum stuðst við staðlaðar spurningar sem ráðherra hafi samþykkt fyrir fram. Í viðtali hafi nefndin horft til inntaks svara umsækjenda meðal annars með það að markmiði að fá fram hvernig menntun og reynsla þeirra nýttist í embætti ríkissáttasemjara. Þá hafi verið horft til sýnar umsækjenda á meginhlutverk og þróun embættisins, hver væri þekking og reynsla þeirra af íslenskum vinnumarkaði og hvort afstaða viðkomandi væri þannig að telja mætti hana óvilhalla samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 80/1938. Umsækjendur hefðu fengið spurningar í sömu röð í viðtali, helstu punktar viðtals voru skráðir og séu hluti gagna málsins. Í lok viðtals fór fram sjálfstætt mat hvers nefndarmanns á svörum umsækjenda út frá tilteknum hæfnisþáttum. Frávik og óvissuþættir að mati fulltrúa hefðu verið ræddir og komist að sameiginlegri niðurstöðu um mat hvors umsækjanda í öðru mati. Lagt hefði verið heildarmat á hvernig þeir umsækjendur uppfylltu hæfnisþætti sem lágu til grundvallar álitsgerðinni.
42. Kærði tekur fram að ráðherra hafi borið ábyrgð á skipunarferlinu auk þess að taka ákvörðun um skipun. Hann hafi lagt sjálfstætt mat á hæfni umsækjenda á grundvelli hæfniskrafna auglýsingar með hliðsjón af öllum gögnum í málinu auk viðtala ráðherra við umsækjendur og umsagnaraðila. Viðtöl ráðherra við umsækjendur hafi verið skráð. Kærði hefði að loknu heildarmati og samanburði milli allra umsækjenda komist að þeirri niðurstöðu að karlinn væri hæfastur til að gegna embætti ríkissáttasemjara. Ákvörðun hefði verið tekin á grundvelli margþætts og heildstæðs mats sem unnið var samkvæmt hlutlægum og fyrir fram gefnum aðferðum sem almennt eru viðurkenndar við skipun embættismanna innan Stjórnarráðs Íslands. Þá hafi í öllu ferlinu verið litið til faglegra forsendna og málefnalegra sjónarmiða.
43. Kærði bendir á að í lögum nr. 80/1938 sé ekki mælt fyrir um hvaða kröfur einstaklingur sem gegnir embættinu eigi að uppfylla. Í 20. gr. laganna sé gerð krafa um óvilhalla afstöðu í málum launafólks og atvinnurekenda. Nauðsynlegt sé að sátt ríki meðal samtaka aðila vinnumarkaðarins um þann einstakling sem gegni embættinu. Kærði hafi því haft samráð við forsvarsmenn samtaka þeirra og eftir það var það enn fremur niðurstaða kærða að sá umsækjandi sem var skipaður nyti trausts þeirra og afstaða hans væri slík að telja mætti hana óvilhalla.
44. Kærði tekur fram vegna þeirra athugasemda kæranda að hún hafi ekki fengið tækifæri til að koma að sjónarmiðum um sérstakt hæfi nefndarmanna hæfnisnefndar að um slíka nefnd sé ekki kveðið á í lögum nr. 80/1938. Samkvæmt 39. gr. b laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geti ráðherra eða stjórn falið nefnd þriggja manna að meta hæfni umsækjenda um starf forstöðumanns og sé niðurstaða hennar ráðgefandi. Kærði hafi því farið þá leið að skipa hæfnisnefnd með sambærilegum hætti og þegar skipaðar eru nefndir samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði. Kærði tekur fram að í ljósi hlutverks ríkissáttasemjara og nauðsyn þess að sátt ríki um hann meðal aðila vinnumarkaðarins hafi sá háttur verið hafður á við skipun hæfnisnefndar að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands tilnefni sinn fulltrúa til setu í nefndinni en embættismaður í ráðuneytinu veiti henni forstöðu.
45. Kærði hafnar því að vikið hafi verið frá hæfniskröfum auglýsingar um embættið við mat á umsækjendum. Kærði byggir á því að mat á öllum stigum hafi leitt af hæfniskröfum auglýsingar. Kærði bendir á, vegna athugasemda kæranda við stigagjöf hæfnisnefndar í einstökum hæfnisþáttum, að hún sé einungis hluti af þeim gögnum sem lágu til grundvallar margþættu og heildstæðu mati kærða á umsækjendum um embættið. Stigagjöfin lá því ekki ein og sér til grundvallar skipun í embættið.
46. Kærði hafnar því að hann hafi vísvitandi gert lítið úr hæfni, menntun og starfsreynslu kæranda en meira úr reynslu karlsins á ákveðnum sviðum. Kærði ítrekar að hæfnisnefnd hafi metið kæranda og karlinn sem var skipaður bæði mjög vel hæf til að gegna embætti ríkissáttasemjara. Af því sé ljóst að kærandi búi yfir hæfni og reynslu sem myndi nýtast til að sinna embættinu. Hins vegar hafi ráðherra talið karlinn hæfastan af umsækjendum.
47. Kærði tekur fram að í hæfniskröfum í auglýsingu hafi verið gerð krafa um menntun og reynslu sem nýttist í embætti. Ekki hafi hins vegar verið gerð krafa um tiltekna menntun eða prófgráðu. Við mat hafi verið horft til þess hvernig menntun nýttist í embættinu. Kærði tekur fram að karlinn hafi starfað um árabil sem sjálfstætt starfandi lögmaður þegar hann tók við embætti héraðsdómara árið 2018. Samhliða lögmennsku hafi karlinn starfað sem forstöðumaður vinnuréttarsviðs Alþýðusambands Íslands um fimm ára skeið. Hann hafi starfað sem dósent við Háskólann á Bifröst í hlutastarfi um 15 ára skeið og verið prófdómari og stundakennari í vinnurétti við Lagadeild Háskóla Íslands um árabil. Þá hafi hann stjórnað framkvæmd kosninga sem formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkur og landskjörstjórnar. Þá hafi hann starfað sem aðstoðarsáttasemjari í hlutastarfi um þriggja ára skeið þegar hann tók við embætti dómara í Félagsdómi, auk þess að hafa verið settur ríkissáttasemjari. Í viðtali við ráðherra hafi karlinn varpað skýrara ljósi á reynslu sína sem nýttist í embætti og þekkingu á íslenskum vinnumarkaði. Hann hafi skýrt hana frekar með viðeigandi og skýrum dæmum úr fyrri störfum. Að mati kærða hafi karlinn, byggt á gögnum málsins, yfirgripsmikla þekkingu á og reynslu af íslenskum vinnumarkaði og hafi í störfum sínum öðlast góða innsýn og þekkingu á starfi ríkissáttasemjara. Í mati kærða hafi þekking á íslenskum vinnumarkaði og reynsla sérstakt vægi sem falli innan þess svigrúms sem ráðherra hafi við samanburð á umsækjendum um embættið.
48. Kærði tekur fram að báðum umsækjendum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér og gera athugasemdir við umfjöllun hæfnisnefndar um menntun og starfsreynslu áður en álitsgerð var send ráðherra. Báðir umsækjendur hafi gert athugasemdir við umfjöllun um sig við nefndina sem tók tillit til athugasemda sem jafnframt séu hluti gagna málsins.
NIÐURSTAÐA
49. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna með skipun karls í embætti ríkissáttasemjara. Þótt kærandi vísi til þess í málatilbúnaði sínum að kærði hafi með skipuninni jafnframt brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði byggist málatilbúnaður kæranda á því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Kyn er ekki meðal þeirra mismununarástæðna sem falla undir gildissvið laganna, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra. Kemur brot á lögum nr. 86/2018 því ekki frekar til skoðunar í máli þessu.
50. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, meðal annars lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
51. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á skipun í embættið sem um ræðir í málinu.
52. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
53. Í auglýsingu um embætti ríkissáttasemjara kom fram að skipað væri í embættið á grundvelli laga nr. 80/1938 til fimm ára í senn og skyldi ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Gerð var krafa um menntun og reynslu sem nýttist í embætti, forystuhæfileika, framúrskarandi samskiptahæfni, þekkingu á íslenskum vinnumarkaði, framúrskarandi færni í íslensku, mæltu og rituðu máli, góða kunnáttu í ensku, mæltu og rituðu máli, áhuga, skilning og metnað fyrir embættinu og skipulagshæfileika, frumkvæði og sjálfstæði. Í umsókn skyldu koma fram upplýsingar um núverandi starfsheiti umsækjenda, ítarlegar upplýsingar um menntun, fyrri störf, afrit af prófskírteinum og kynningarbréf þar sem gerð væri grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu. Þá var í auglýsingu vakin athygli á skilyrðum 20. gr. laganna en þar kæmi meðal annars fram að gæta skyldi þess að afstaða ríkissáttasemjara væri slík að telja mætti hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda.
54. Alls sóttu sex um embættið, tvær konur og fjórir karlar. Kærði skipaði ráðgefandi þriggja manna hæfnisnefnd hinn 20. júní 2023. Sátu í nefndinni skrifstofustjóri í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, sem jafnframt var formaður hennar, forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Samtaka atvinnulífsins. Ráðherra samþykkti ráðningaráætlun nefndarinnar ásamt matsblöðum um mat á umsóknargögnum og viðtalsramma vegna viðtala nefndarinnar við umsækjendur.
55. Eftir mat á umsóknargögnum, og að höfðu samráði við ráðherra, var niðurstaða hæfnisnefndarinnar að boða þá tvo umsækjendur í viðtöl sem höfðu fengið meira en þrjú stig í fyrsta mati nefndarinnar. Af gögnum málsins má ráða að hæfnisnefndin hafi skilgreint fimm hæfnisþætti við mat á umsóknargögnum og ellefu hæfnisþætti við matið eftir viðtöl út frá auglýsingu um embættið. Í viðtölum við báða umsækjendur var notaður staðlaður viðtalsrammi og voru sömu spurningar lagðar fyrir báða umsækjendur.
56. Að loknum viðtölum skilaði nefndin ráðherra álitsgerð þar sem hún mat báða umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embættinu. Hæfnisnefnd taldi að karlinn sem síðar var skipaður hefði það fram yfir kæranda að hafa meiri reynslu og þekkingu á sáttastörfum í vinnudeilum sökum starfa hans sem settur ríkissáttasemjari í vinnudeilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í janúar og febrúar 2023 og frá 1. júní 2023. Þá var það mat nefndarinnar að karlinn hefði dýpri og meiri þekkingu á vinnumarkaði heldur en kærandi, meðal annars vegna setu sem dómari í Félagsdómi. Í ljósi þess taldi hæfnisnefndin að karlinn væri betur til þess fallinn af þeim tveimur til þess að gegna embætti ríkissáttasemjara.
57. Ráðherra boðaði í framhaldinu þessa tvo umsækjendur til viðtals við sig. Kærði hefur lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni umsækjenda hafi verið heildstætt mat og samanburður á hæfni, þekkingu og reynslu þeirra, meðal annars út frá hæfniskröfum auglýsingar um embættið. Hafi kærði byggt mat sitt á öllum gögnum málsins, þ.m.t. umsóknum og niðurstöðu ráðgefandi hæfnisnefndar, auk viðtala nefndarinnar og ráðherra við umsækjendur og umsagnaraðila. Kærði hefur lýst því að sérstaklega hafi verið kannað hvort umsækjendur uppfylltu kröfu 20. gr. laga nr. 80/1938 um óvilhalla afstöðu í málum launafólks og atvinnurekenda og samtaka þeirra. Þá hefur kærði rakið að ráðherra hafi lagt sérstakt vægi á matsþáttinn þekking og reynsla af íslenskum vinnumarkaði við ákvörðun um skipun í embættið. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki sé mælt fyrir um hæfniskröfur í lögum sé það kærða að ákveða þær og innbyrðis vægi þeirra í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni kærða að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þessar hæfniskröfur hafi verið málefnalegar.
58. Fyrir liggur að kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum um umfjöllun hæfnisnefndar um menntun og starfsreynslu áður en álitsgerð var send til ráðherra. Ekki verður fallist á með kæranda að brotið hafi verið gegn andmælarétti hennar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sökum þess að kæranda hafi ekki verið veittur kostur á að gera athugasemdir við drög að áliti nefndarinnar. Til þess ber að líta að kæranda var gefinn kostur á að fara yfir og gera athugasemdir við umfjöllun um menntun og starfsreynslu sem hún jafnframt gerði og tekið var tillit til áður en álitsgerð var skilað til ráðherra. Almennt gildir sú meginregla að aðilar máls eigi að jafnaði ekki sérstakan rétt til þess að tjá sig um efni máls hjá umsagnaraðila sem ekki veitir bindandi umsögn. Þá verður ekki séð að fyrir hafi legið upplýsingar um kæranda sem hún vissi ekki af og voru henni óhagstæðar þannig að hún hafi átt rétt til þess að tjá sig sérstaklega um þær. Það sama á við um að kærða hafi borið að veita kæranda tækifæri að koma að sjónarmiðum um sérstakt hæfi nefndarmanna hæfnisnefndar. Kærði hefur lýst því að í ljósi lögbundinnar kröfu um óvilhalla afstöðu ríkissáttasemjara í málefnum launafólks og atvinnurekenda hafi sá háttur verið hafður á við skipun hæfnisnefndar um embætti ríkissáttasemjara að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands tilnefni hvort sinn fulltrúa til setu í nefndinni. Að mati kærunefndar verður hvorki séð að þessi háttur á skipun nefndarinnar né samráð ráðherra við sömu aðila leiði til þess að þeir teldust vanhæfir samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga.
59. Ekki verður fallist á með kæranda að hæfnisnefndin hafi breytt inntaki tiltekinna hæfniskrafna samkvæmt auglýsingu á matsblöðum þeim sem nefndin lagði til grundvallar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að með framsetningu þessara matsþátta eins og þeir birtast á matsblöðum hafi nefndin lagt sértækara mat á reynslu og þekkingu umsækjenda með tilliti til hæfniskrafna sem orðaðar voru með almennari hætti í auglýsingu um embættið.
60. Af matsblöðum hæfnisnefndar sem liggja fyrir í málinu er ljóst að karlinn sem var skipaður fékk fleiri heildarstig en kærandi við mat á umsóknargögnum. Þá liggur fyrir að karlinn fékk fleiri heildarstig eftir viðtöl við ráðgefandi hæfnisnefnd þannig að hann hlaut fleiri stig fyrir tvo matsþætti af ellefu en kærandi fleiri stig fyrir einn matsþátt. Af fyrirliggjandi áliti hæfnisnefndar verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta. Tekið skal fram að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf á milli umsækjenda er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati veitingarvaldshafa á umsækjendum.
61. Að mati kærunefndar verður ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Að mati nefndarinnar hnekkja þau rök og sjónarmið sem kærandi færir fram um einstaka matsþætti ekki mati hæfnisnefndarinnar. Þannig verður ekki séð að doktorspróf kæranda hafi átt að leiða til þess að hún hafi átt að fá fleiri stig en karlinn í mati á menntun sem nýtist í embætti. Í því samhengi tekur kærunefndin fram að í auglýsingu var ekki gerð krafa um tiltekna prófgráðu. Þá er almennt ekki hægt að gera þá kröfu að mat á menntun sé alfarið byggt á stöðu eða fjölda námsgráða heldur verður að leggja mat á það hversu líklegt sé að fyrirliggjandi menntun muni nýtast í starfi. Á það líka við um hæfniskröfu um þekkingu á íslenskum vinnumarkaði. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hæfnisnefndin hafi lagt efnislegt mat á inntak þessara krafna með hliðsjón af gögnum og upplýsingum um umsækjendur, þ.m.t. svörum þeirra í viðtali, og þá með hliðsjón af væntanlegri frammistöðu í embætti. Þá verður ekki heldur fallist á með kæranda að ráða megi af rökstuðningi kærða að í raun hafi verið gerð krafa um að umsækjendur þyrftu að hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði án þess að hún hafi verið tekin fram í auglýsingu. Af rökstuðningi og gögnum málsins verður ekki annað séð en að kærði hafi lagt mat á það hvernig fyrirliggjandi menntun þess umsækjanda sem var skipaður nýttist í embætti ríkissáttasemjara.
62. Það sama á við um mat á öðrum þáttum sem kærandi gerir athugasemdir við, þ.m.t. áhuga, skilningi og metnaði fyrir embættinu, reynslu sem leiðtogi (forystuhæfileikum), skipulagshæfileikum og góðri kunnáttu í ensku. Af þeim gögnum sem liggja fyrir verður ekki annað séð en að lagt hafi verið mat á hvern og einn framangreindra hæfnisþátta með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir lágu í málinu. Nefndin tekur sérstaklega fram að staðhæfingar kæranda um mat á enskukunnáttu karlsins hafa ekki áhrif á þessa niðurstöðu enda um einn þátt í heildarmati að ræða, þar sem kærandi var metin hæfari en karlinn.
63. Þá rökstuddi hæfnisnefndin álit sitt um að báðir umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna embætti ríkissáttasemjara með hliðsjón af öllum gögnum og frammistöðu í viðtali. Tók nefndin fram að kærandi hefði mikla sérþekkingu í tengslum við samningatækni og samningafræði, auk þess sem nefndin teldi í ljósi þess sem fram hefði komið í viðtali að kærandi hefði mikla þekkingu og reynslu hvað varðar úrlausn deilumála. Nefndin taldi karlinn aftur á móti hafa mikla sérþekkingu í tengslum við vinnumarkað, auk þess að í ljósi þess sem fram kom í viðtali hafi hann mikla reynslu og þekkingu hvað varðar sáttastörf í vinnudeilum. Að síðustu rökstuddi hin ráðgefandi hæfnisnefnd hvers vegna hún teldi karlinn betur til þess fallinn að gegna embætti ríkissáttasemjara með vísan til tiltekinnar reynslu hans. Að mati kærunefndar verður ekki talið að niðurstaða hinnar ráðgefandi hæfnisnefndar hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum eða að mat hennar hafi ekki talist vera forsvaranlegt.
64. Af spurningum og skráningu viðtala umsækjenda við ráðherra má ráða að þar hafi verið farið ítarlegar yfir einstaka þætti með hliðsjón af viðtali umsækjenda við hina ráðgefandi hæfnisnefnd. Af skráningum viðtala má ráða að spurningar ráðherra vörðuðu einkum sýn og skilning umsækjenda á hlutverki embættisins og starfrækslu þess, hvernig þeir myndu haga störfum sínum ef þeir yrðu skipaðir í það, auk spurninga um tiltekna persónulega eiginleika umsækjenda. Að mati kærunefndar verður ekki annað séð en að spurningar ráðherra í viðtali hafi varðað þau atriði sem varpað gætu frekara ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í embætti. Ekki verður því fallist á með kæranda að viðtal ráðherra við umsækjendur hafi ekki varpað réttu ljósi á væntanlega frammistöðu karlsins í embætti. Á það sama við um önnur gögn málsins.
65. Með vísan til þessa og gagna málsins verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem var skipaður í embættið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ekki verður talið að það hafi verið ómálefnalegt að líta til reynslu og þekkingar af íslenskum vinnumarkaði. Að sama skapi verður það ekki heldur talið ómálefnalegt að ljá þessari reynslu og þekkingu hans aukið vægi við heildarmatið.
66. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt, forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við skipun í umrætt embætti hafi að öðru leyti verið í andstöðu við stjórnsýslulög nr. 37/1993, ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við skipunina hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
67. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í embætti ríkissáttasemjara. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.
68. Uppkvaðning úrskurðar hefur tafist umfram þann tveggja mánaða frest sem nefndin hefur til að úrskurða í máli eftir að gagnaöflun í því er lokið samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Er ástæða þess einkum mikill fjöldi mála sem er til meðferðar hjá nefndinni auk breytinga á skipan og vistun hennar.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, félags- og vinnumarkaðsráðherra, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við skipun í embætti ríkissáttasemjara.
Ekki er fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði henni málskostnað við að hafa kæruna uppi.
Ari Karlsson
Maren Albertsdóttir
Anna Mjöll Karlsdóttir